Fiskveiðar hafa verið undirstöðu atvinnugrein Skagastrandar síðustu aldirnar. Bærinn er þekktur fyrir öfluga útgerð og hefur atvinnulífið í áranna rás byggst mikið upp í kringum þessa atvinnugrein líkt og er von og vísa í sjávarþorpum. Sjávarútvegurinn er enn undirstöðugrein staðarins en þróunin hefur þó verið þar, líkt og víða annarsstaðar, að fiskvinnslan í landi hefur lagst af og eftir standa auðar vannýttar yfirbyggingar.
Víða á landinu hefur það gerst að fiskvinnslur eða stórir vinnustaðir hafi þurft að loka og er það í mörgum tilfellum mikið reiðarslag fyrir lítil bæjarfélög þegar slíkt kemur fyrir. Jafnvel kemur fyrir að byggingarnar grotni í tímanna rás og verði að einskonar minnisvarða um bjartsýnari tíma.
Gömlu frystihúsi breytt
En á Skagaströnd var ekki sú leið farin að geyma fiskvinnsluna sem minnisvarða um veröld sem var. Veruleikinn var sá að þarna var fyllilega gott mannvirki til að vinna fisk með glans, sem ekki var eftirspurn eftir í því atvinnuástandi sem við lifum við í dag.
Eftir að bæjarbúar og sveitastjórn höfðu lengi hugsað um hvernig best væri að nýta gömlu fiskvinnsluna sem stóð auð, kom sú ævintýralega hugmynd fram að hugsanlega væri hægt að stofna þarna alþjóðlega listamiðstöð. Flestir jarðbundnir menn hefðu án efa hrist hausinn í forundran þegar þeir heyrðu svona hugmynd í fyrsta skipti: breyta gömlu fiskvinnslunni í alþjóðlega listamiðstöð, - afhverju ekki bara að breyta gamla kaupfélaginu í kauphöll í leiðinni ?
En eftir því sem málið var nánar skoðað og fleiri hindrunum, ímynduðum og raunverulegum var ýtt úr vegi var niðurstaðan sú að stofnuð var Nes Listamiðstöð, alþjóðlega listamiðstöð. Gömlu fiskvinnslunni var skipt upp í vinnurými fyrir listamenn sem koma víða að og tryggðar íbúðir fyrir þá til að dvelja í á meðan dvölinni stendur.
170 gestir
Listamiðstöðin var stofnuð í maí 2008 og kom fyrsti listamaðurinn í hana í júní það sama ár. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, yfir 170 einstaklingar hafa komið til Skagastrandar til að nýta sér þá vinnuaðstöðu og andagift sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Hver listamaður greiðir um 550 Evrur fyrir dvölina og fær fyrir það bæði húsnæði og vinnuaðstöðu. Yfir 90% þessara einstaklinga eru af erlendu bergi brotnir og dvelja frá einum mánuði og upp undir hálft ár. Þarna koma ýmist ljósmyndarar, málarar, rithöfundar o.s.frv.
Sköpunargleiðin smitar
Þarna eru á hverjum tíma hópur listamanna sem nýtir sér verslun og þjónustu sveitarfélagsins, tekur þátt í menningarviðburðum og öðrum uppákomum í sveitarfélaginu. Sköpunargleðin smitar að sjálfsögðu út frá sér til annarra menningargeira Skagastrandar og grunnskólanemendur fá að kynnast verkefnum þeirra og tækni. Þar fyrir utan fá bæði Skagaströnd og Ísland gríðarlega landkynningu með þessum mikla fjölda erlendra listamanna sem koma og kynnast landinu sem aftur kynna svo íslenska náttúru og samfélag á erlendri grundu
Í stað grotnandi fiskvinnsluhúss er komið lifandi samfélag, sem nýtir fegurð umhverfisins og aðstöðu sem annars stæði ónotuð, til að vinna að sinni listsköpun og með þeim fylgir dýrmætur gjaldeyrir. Með dirfsku og framsýni tókst að umbreyta yfirgefinni yfirbyggingu hins liðna í lifandi rekstur sem ekki annar eftirspurn.
Ímyndurnaraflið
Á tímum efnahagsþrenginga og erfiðleika er mikilvægt að geta aðlagað sig og umhverfi sitt að breyttum veruleika. Tækifærin leynast víða og það er okkar að grípa þau. Við eigum að beita ímyndunaraflinu til að nýta það sem fyrir er, jafnvel þó það kalli á að feta ótroðnar slóðir. Því líkt og Napóleon Bónaparte sagði eitt sinn, „Ímyndunaraflið stjórnar heiminum.“
Höfundur greinarinnar er Vignir Hafþórsson
Greinin birtist fyrir skömmu á deiglan.com