Kæru Skagstrendingar
Vægast sagt óvenjulegt ár er nú að baki. Ég minnist þess þegar við kvöddum 2019, ár sem hafði strítt okkur Skagstrendingum með aftakaveðri og ýmsum krefjandi úrlausnarefnum. Við tókum á þeim tíma fagnandi á móti árinu 2020, án þess að óra fyrir því hversu sérstakir tímar væru í framundan. Árið brast svo á með öllum sínum flóknu áskorunum.
Það var engin forskrift til að því hvernig takast ætti á við heimsfaraldur og tilkoma hans varð ekki til þess að létta á rekstri sveitarfélagsins. Á sama tíma var öllum orðið ljóst að togaraútgerð, sem sett hefur svip sinn á bæjar- og atvinnulíf í fjölda ára var lögst af. Við stóðum því frammi fyrir miklum tekjusamdrætti út af ýmsum ástæðum en tókum strax þá stefnu að vernda lífsgæðin hér á staðnum. Við höfum lagt okkur fram við að viðhalda allri þjónustu og halda í störf. Við erum stolt af því hversu vel hefur tekist til við það.
Þær miklu sviptingar í atvinnulífinu sem við höfum gengið í gegnum hafa eðlilega haft djúpstæð áhrif á íbúa. Ég hef jafnvel heyrt því fleygt að við séum svolítið týnd og það er ekkert skrýtið að margir hugsi á þeim nótum. Nú er hins vegar tími til kominn að ná áttum á ný með því að styrkja innviðina og hefja uppbyggingarstarfið. Það verður meðal annars gert með því að byggja upp ferðaþjónustu og skapa okkur nýja ímynd. Sveitarfélagið hefur á liðnu ári hafið vinnu við hönnun á heitum laugum við Hólanes sem eiga eftir að stuðla að því að skapa okkur sérstöðu á Norðurlandi vestra innan Norðurstrandarleiðarinnar. Það er ástæða til þess að hlakka til slíkrar uppbyggingar!
„Hvað er svona gott við að búa á Skagaströnd?“ kann einhver að spyrja sig og er í raun spurning sem ég fæ glettilega oft. Þeirri spurningu get ég svarað á marga vegu en það sem mér er alla jafna ofarlega í huga er að hér er gott að vera barn. Við státum af öflugu skólastarfi, hvort sem litið er til leik- eða grunnskóla. Sveitarfélagið styður við frístundastarf barna og ungmenna með ríflegum styrk sem er hærri en gengur og gerist annars staðar. Umf Fram í samstarfi við sveitarfélagið heldur uppi fjölbreyttu og hvetjandi starfi fyrir ungmenni á staðnum sem krakkarnir okkar njóta góðs af og eru dugleg að nýta sér. Hér er líka gott að vera roskin manneskja. Ég leyfi mér að fullyrða að á fáum hjúkrunarheimilum sé hugsað um fólk af eins mikilli alúð og nærgætni og gert er á Sæborg, en það hef ég séð með eigin augum. Það er dýrmætt fyrir öll samfélög og ekki eitthvað sem hægt er að taka sem sjálfsögðum hlut.
Sveitarfélagið hefur að undanförnu ráðist í ýmsar aðgerðir til að bæta lífsgæðin á Skagaströnd, svo sem í umfangsmikið viðhald á eignum sveitarfélagsins, m.a. á Fellsborg og félagslegum íbúðum. Stærstu fjárfestingarnar og þær sem mest ber á hafa legið í malbikunarframkvæmdum og byggingu á nýrri smábátahöfn í samstarfi við Vegagerðina. Eftir hvort tveggja verður ásýnd bæjarins og aðstaðan við smábátahöfnina til fyrirmyndar. Það á vel við, því nú er kominn tími til að gera smábátaútgerðinni hátt undir höfði, sem er ein af grunnstoðum atvinnuvegar á Skagaströnd.
Það er fleira sem við getum státað af og verið stolt af og vil ég nefna fáein atriði. Vinnumálastofnun rekur hér Greiðslustofu fyrir landið allt og hefur sú sérþekking sem hefur skapast hjá starfsfólki reynst gríðarlega dýrmæt fyrir landsmenn alla. Ég leyfi mér að segja að þar hafi þrekvirki verið unnið bæði eftir efnahagshrunið 2008 og svo aftur núna á tímum Covid. Þegar ég ferðast um landið verður mér líka ávallt hugsað til Kjörbúðarinnar og hversu lánsöm við erum að njóta slíkrar þjónustu en hún er framúrskarandi fyrir sveitarfélag af þessari stærðargráðu. Þá má ekki gleyma stórkostlegu Björgunarsveitinni okkar Strönd, sem veitir okkur öllum dýrmæta öryggiskennd á okkar erfiðustu tímum.
Það er gott að búa á Skagaströnd. Það er ekki hægt að setja verðmiða á lífsgæðin sem felast í kyrrðinni, nálægðinni við náttúruna og svo mörgu öðru sem við eigum til að líta á sem sjálfsagðan hlut við lífið í okkar litla samfélagi. Beinum sjónum okkar að því góða, jákvæða og einstaka sem einkennir Skagaströnd. Hér er framtíðin björt– ef við stöndum saman, setjum í okkur kraft og ráðumst í verkefnin sem eru framundan af einhug.
Ég vona að þið hafið notið hátíðanna og óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þess að nýtt ár færi ykkur öllum gleði og gæfu.
Alexandra Jóhannesdóttir
Sveitarstjóri