Fréttaskot frá Skagaströnd

Það hefur viðrað vel á Skagstrendinga núna í haust og byrjun vetrar en fyrsta alvöru vetrarhríðin mætti í dag. Veðrið stendur vonandi stutt og ætti að birta til strax á morgun!

Það er alltaf eitthvað í gangi í sveitarfélaginu - meðal annars þetta hér:

Menntastefna sveitarfélagsins

Sveitarstjórn samþykkti Menntastefnu sveitarfélagsins á fundi sínum síðasta miðvikudag, stefnan hefur fengið umfjöllun í Fræðslunefnd. Menntastefna er framtíðarsýn og viljayfirlýsing sveitarfélagsins í skóla- og frístundamálum. Hún sýnir hvaða gildum skólar sveitarfélagsins vinna eftir og hvaða áherslur skulu hafðar að leiðarljósi. Gildin eru vellíðan, hamingja, samfélagsleg ábyrgð, sjálfbærni, metnaður og samvinna. Undirmarkmið stefnunnar eru læsi í víðum skilningi, sköpun og samstarf. Menntastefnan er unnin eftir þeim gildum sem Sveitarfélagið Skagaströnd hefur valið sér til framtíðar. Skólar sveitarfélagsins eru Grunnskólinn Höfðaskóli, Leikskólinn Barnaból og Tónlistarskóli Austur Húnvetninga.

Áhugasamir geta kynnt sér stefnuna hér.

Skagastrandarhöfn

Hafnarframkvæmdir hafa gengið vel og eru Borgarverksmenn byrjaðir að reka niður stálþilið. Við verklok í gær var búið að reka niður 39 stálplötur sem mynda þilið. Þrátt fyrir tafir í upphafi verks þá er góður gangur í verkinu og við vonumst eftir að veðrið vinni áfram með okkur í vetur í þessu verkefni sem öðrum.

Það hefur verið brælutíð í liðinni viku og lítið um landanir en við minnum á að fésbókarsíðu Skagastrandarhafnar þar sem hafnarvörður birtir aflatölur og fréttir af höfninni nánast daglega. Síðuna má nálgast hér
 

Ránarbraut

Bygging húsa að Ránarbraut er í fullum gangi og steyptu Verklausnarmenn botnplötu í vikunni svo það er allt saman á réttri leið.

Jólabókaflóðið hafið á Bókasafni Skagastrandar

Jólabókaflóðið er komið á bókasafnið okkar og eru yfir 40 nýir titlar mættir í hús og klárir til útleigu. Sandra Ómarsdóttir bókavörður er dugleg að setja inn upplýsingar um starfsemi bókasafnsins sem fylgjast má með hér.
 

Jólamarkaður í Fellsborg

Á morgun laugardag verður Jólamarkaður í Fellsborg félagsheimili okkar Skagstrendinga frá klukkan 13:00 - 17:00. Á fésbókarsíðu markaðarins kemur fram að á markaðnum megi finna gott úrval af matvöru, handverki, snyrtivöru og gjafavöru. Markaðurinn hefur verið mjög vel sóttur síðustu ár og vonandi verður húsfylli á morgun eins og verið hefur hingað til. Það er kjörið tilefni til að næla sér í jólagjafir eða góðgæti úr heimabyggð hvort sem það eru ristaðar möndlur og kleinur, náttföt eða önnur gjafavara. Minnt er á að það eru ekki allir söluaðilar með posa.
 

Upplestur í Bjarmanesi

Rithöfundarnir Benný Sif og Ása Marin, sem eru á upplestrarferð um landið, heimsækja okkur í Bjarmanes klukkan þrjú á sunnudag og lesa upp úr nýútkomnum bókum, bjóða þær til sölu og árita ef óskað er. Hægt er að kynna sér viðburðin hér.

Félagsvist í Bjarmanesi

Kvenfélagið Eining stendur fyrir félagsvist í Bjarmanesi næstu tvo sunnudaga 17. og 24. nóvember en það var einnig spilað 10. nóvember sl. Miðaverð er 1000 kr fyrir skiptið og hægt er að kaupa kaffi og með því á 500 kr. í hléi.

Krílasport

Krílasportið er á sínum stað kl. 10 í íþróttahúsi Skagastrandar og eru öll velkomin.

 

Sveitarstjóri