Ásgarður - Skrifað undir verksamning
Skrifað var undir verksamning við Verk lausn í vikunni vegna framkvæmda við Ásgarð. Steypustöð Skagafjarðar verður undirverktaki hjá Verk lausn og mun sjá um um alla jarðvinna, lagnavinnu og útlögn á steypu. Framkvæmdir hefjast á næstu dögum og verður gaman að fylgjast með framhaldi verksins enda mikið líf og fjör sem fylgir svona umfangsmiklum framkvæmdum.
Regus - Framkvæmdir á Túnbraut
Við fengum heimsókn frá Tómasi Ragnarz forstjóra Regus í vikunni sem kom til þess að skipuleggja komandi framkvæmdir á Túnbraut 1-3. Framkvæmdir munu hefjast í vor og standa yfir í sumar en stefnt er að opnun á nýju skrifstofurými Regus hér á Skagaströnd í september.
Útieldhús á Barnabóli
Nýtt og glæsilegt útieldhús var tekið í notkun á leikskólanum okkar Barnabóli fyrir stuttu og hefur það vakið mikla lukku. Foreldrafélag Barnabóls styrkti framkvæmdina og á það skilið þakkir fyrir. Börnin hafa notið þess að leika sér í eldhúsinu í góða veðrinu sem hefur glatt okkur í liðinni viku. Ef einhver á eldhúsáhöld sem gætu nýst í þessu fína eldhúsi tekur leikskólinn vel á móti slíkum búnaði.
Google þýðingarhnappur á heimasíðu
Búið er að innleiða breytingu á heimasíðu sveitarfélagsins og setja Google þýðingarhnapp. Hnappinn má finna efst í hægra horni síðunnar og er nú hægt að velja um að skoða síðuna á ensku, pólsku, spænsku og þýsku. Sambærilegur hnappur hefur verið settur á heimasíðu Höfðaskóla.
Sveitarfélagið Skagaströnd segir sig frá aðild að Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi
Á fundi sveitarstjórnar þann 12. mars síðastliðinn var tekin ákvörun um að sveitarfélagið segði sig frá aðild að sjálfseignarstofnuninni um Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi. Er ákvörðunin tekin í tengslum við slit á Byggðasamlagi um menningar- og atvinnumál sem unnið hefur verið að síðustu misseri. Er stjórn og eigendum þakkað fyrir gott samstarf um verkefnið síðustu ár.
Aðalfundur Skógræktarfélags Skagastrandar
Aðalfundur Skógræktarfélags Skagastrandar verður þann 19. mars nk. kl. 19:30 í Bjarmanesi. Er fundurinn hefðbundinn aðalfundur en einnig mun Jón Ásgeir Jónsson hjá skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands flytja fyrirlesturinn Á meðal trjánna. Um útivistarskóga, notendur þeirra, hönnun og skipulag.
Starfsdagur sveitarfélagsins 2025 þann 21. mars næstkomandi.
Starfsdagur sveitarfélagsins verður haldinn þann 21. mars næstkomandi í Fellsborg. Vanda Sigurgeirsdóttir frá Kvan mun koma og vinna með starfsmannahópnum og vonumst við til þess að starfsfólk hafi gagn og gaman af. Skrifstofa sveitarfélagsins sem og leik- og grunnskóli verða því lokuð á föstudaginn kemur.
Krílasport
Það er krílasport alla laugardagsmorgna frá 10-11 fyrir börn á leikskólaaldri í flotta íþróttahúsinu okkar. Frítt inn og engin skráning - bara mæta með góða skapið.
Sveitarstjóri