Nafnasamkeppni - Fuglaskoðunarhúsið á Spákonufellshöfða
21.12.2023
Um verkefnið
Snemma í haust var hafist handa við að smíða fuglaskoðunarhúsið á Spákonufellshöfða eftir langan aðdraganda en húsið er hannað af Auði Hreiðarsdóttur arkitekt hjá ESJA Architecture. Heimamennirnir Ragnar Már Björnsson og Gísli Reynisson sem reka smíðaverkstæðið Verk lausn sáu um framkvæmdina með liðsinni frá ESJA Architecture og Stoð verkfræðistofu á Sauðárkróki.
Fuglaskoðunarhúsið er liður í spennandi uppbyggingu á því dásamlega útivistarsvæði sem Spákonufellshöfði er. Höfðinn er friðlýstur fólkvangur en verndaráætlun fyrir svæðið má nálgast
hér.
Aðkoma og aðgengi á höfðanum hefur verið bætt sem liður í framangreindri uppbyggingu. Búið er að malbika nýtt bílastæði og setja upp vegvísa. Þá verða upplýsingskilti endurgerð ásamt því að búið er að hanna lítinn útsýnispall sem verður reistur næsta vor.
Sveitarfélagið stóð straum af kostnaði við verkefnið með stuðningi úr Framkvæmdarsjóði ferðamannastaða en alls hefur Framkvæmdasjóður veitt sveitarfélaginu styrk til uppbyggingar á Spákonufellshöfða sem nemur 26,6 m.kr.
Nafnasamkeppni
Í tilefni þess að fuglaskoðunarhúsið á Spákonufellshöfða er fullbúið efnir sveitarfélagið til nafnasamkeppni meðal áhugasamra. Hægt verður að skila inn tillögum til 3. janúar nk. og mun sveitarstjórn taka ákvörðun um nafngiftina sem verður birt við formlega opnun hússins næsta vor.
Æskilegt er að nafnið hafi tengingu við hönnun, staðsetningu eða tilgang hússins. Umfjöllun um verkefnið má sjá í umsókn sveitarfélagsins í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á bls. 15.
Umsókn sveitarfélagsins má nálgast
hér.