Arnar Hu 1 - Japans Arnar - leggur upp í veiðiferð frá Skagaströnd í suð-vestan brælu. Í bókinni "Sjósókn frá Skagaströnd & vélbátaskrá 1908 - 2010" eftir Lárus Ægi Guðmundsson stendur eftirfarandi um þetta skip:
" Arnar Hu 1 1307. Togarinn var smíðaður úr stáli í Muroran í Japan árið 1973 fyrir Skagstrending h/f sem gerði hann út til ársins 1995. Hann var 462 brl. með 2000 ha. Niigata vél. Togarinn kom til heimahafnar á Skagaströnd 15. október 1973 og var tekið á móti honum með mikilli viðhöfn enda merk tímamót og viðburður í litlu byggðarlagi. Mikil vinna, erfiði og barátta lá að baki svo mikilli fjárfestingu sem þessi kaup voru. Flestir bæjarbúar, sem og fjölmargir aðkomumenn úr héraði og lengra að, mættu á bryggjuna og hlustuðu á ræðuhöld og síðan voru veitingar um borð í glæstu fleyi. Það var mikil hátíð í bæ og á bryggjunni var strengdur stór borði sem á stóð "Velkominn Arnar". Við móttökuna töluðu Jón Jónsson formaður stjórnar Skagstrendings h/f, Sveinn Ingólfsson framkv.stj. Skagstrendings h/f, Jón Ísberg sýslumaður, Lárus Ægir Guðmundsson sveitarstjóri og alþingismennirnir Pálmi Jónsson og Ragnar Arnalds. Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson flutti hugleiðingu og blessaði skipið. Frá desember 1992 til ágúst 1994 hét skipið Arnar HU 101 svo tók við nafnið Arnar II HU 101 og svo í maí 1995 nefndist það Arnar gamli HU 101 og var þá bæði ís- og saltfiskskip. Árið 1993 var skipið selt dótturfélagi Skagastrendings h/f á Kýpur og fékk þá nafnið Rex og var þetta fyrirkomulag til að uppfylla lagakröfur um úreldingu rúmmáls skipa vegna kaupa á nýjum Arnari. Rex var seldur Samherja h/f á Akureyri í september 1995 og fékk þá nafnið Hríseyjan EA 410. Skipið var gert út til veiða í nokkur ár auk þess sem það varð fylgdarskip víkingaskipsins "Íslendings" til Vestuheims í frægri ferð þangað. Þann 10. apríl árið 1988 bjargaði Arnar togaranum Þorsteini EA 610. Atvik voru þau að Þorsteinn hafði fengið trollið í skrúfuna í Reykjafjarðarál, þar sem mikið var um ís og ísspangir. Arnar var að veiðum 5 mílur frá þegar neyðarkall barst og var fyrstur á vettvang. Skipverjar á Þorsteini skutu af línubyssu en aðstaðan var slæm til að koma taug á milli, mikið ísrek, ísinn grófur og talsverð hreyfing. Lágu bæði skipin undir áföllum af ísnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang og tók hluta áhafnarinnar frá borði þar sem ástandið var talið mjög alvarlegt. Þorsteinn var í mikilli hættu og kominn leki að honum er hann var dregin á tógum út úr ísnum en síðan var vír komið á milli skipanna og dró Arnar hann til Akureyrar".
Ljósmyndasafn Skagastrandar