Þessi mynd var tekin sumarið 1983 af hvalskurði á bryggjunni í Skagastrandarhöfn. Á þessum árum voru tímabundið gerðir út hrefnuveiðibátar frá Skagaströnd af aðkomumönnum sem áttu hrefnukvóta. Þeir drógu síðan hvalskrokkana til hafnar þar sem þeir voru dregnir á land með vörubíl eða gröfu. Síðan var hvalurinn skorinn á bryggjunni og kjöti og spiki komið fyrir í körum sem síðan voru flutt burt til kaupenda. Beinin, bægslin og annað sem ekki nýttist var síðan tekið með um borð og því fleygt í hafið á Húnaflóa fjarri landi. |