Skíðamennska |
Árið 1974 komu skíðaáhugamenn á Skagaströnd upp togbraut í Spákonufellinu. Togbrautin var þannig gerð að staur var komið fyrir uppi á hólnum fyrir ofan núverandi skíðaskála. Við staurinn var fest blökk og kaðall dreginn gegnum hana og í gegnum drifhjól sem tengt var við dráttarvél. Drifhjólið var gert úr gamalli drifkúlu undan bíl og á hana var fest hjól og drifskaft sem síðan var hengt aftan á beislið á dráttarvél og tengt við drifúttak vélarinnar. Skíðamenn héngu síðan í kaðlinum á leiðinni upp brekkuna. Í dag mundi svona útbúnaður aldrei vera viðurkenndur vegna öryggismála. 1979 var síðan keypt skíðalyfta og henni komið fyrir örlítið norðar í brekkunni og notuð þar í mörg ár. Maðurinn í úlpunni sem stendur við kaðalinn er Ásgeir Axelsson (d. 8.6.2011) en hann átti dráttarvélina og stjórnaði henni. Ásgeir var með spotta í hendinni sem tengdur var við ádrepara vélarinnar til að geta drepið á og þannig stoppað kaðalinn ef á þurfti að halda. |