Þennan bíl gerði Valdimar Númi Guðmundsson (d.14.3.1972), sem er á myndinni, út í vöru - og fólksflutningum milli Skagastrandar og Reykjavíkur í mörg ár. Í stóru húsi bílsins var hægt að taka 4-5 farþega og oftar en ekki var uppselt í þessi sæti. Ferðin til Reykjavíkur tók 8 - 10 tíma með hádegisstoppi í Fornahvammi þar sem starfrækt var hótel og matsala. Númi átti heima á Hólabraut 1 og byggði húsið sem þar stendur. Vöruflutningarekstur hans skýrir hvers vegna bílskúrinn við húsið er svo stór og með mikla lofthæð því hann gat bakkað bílnum á myndinni inn í skúrinn meðan hann var að afferma hann. Einnig voru þar geymdir pakkar og annað sem fólk var að senda með honum í næstu ferð suður. Þessa mynd tók Guðmundur Guðnason, líklega árið 1969. |