Krían er hinn sanni vorboði á Íslandi. Á Skagaströnd kemur hún venjulega kringum 9. maí. Þetta árið sást fyrst til hennar á Íslandi við Hornafjörð 18. apríl og er það óvenju snemmt hjá henni. Krían er farfugl og frábær flugfugl. Enginn fugl flýgur eins langt og hún milli sumar- og vetrarstöðva sinn. Sumrunum eyðir hún á Íslandi og á öðrum norlægum slóðum en á veturna er hún í sól og blíðu sumarsins í Suður Afríku og S-Atlantshafinu. Flugleiðin sem hún fer er um 35.000 km og þá ferð fer hún tvisvar á ári, fram og til baka. Hún er u.þ.b. 60 daga að koma hingað á vorin en tekur sér um 90 daga til að fara suðureftir á haustin. Krían er fræg fyrir hve vel hún ver varp sitt og hikar ekki við að ráðast á fólk og refi með hávaða og loftárásum ef þær skepnur koma of nærri hreiðrunum. Þetta gerir það að verkum að mörgu fólki er illa við kríuna en þá er að muna að hún er að verja afkvæmi sín og þá geta flestir sett sig í hennar spor.