James hefur ásamt konu sinni Karin verið iðinn við að tína saman og færa til endurvinnslu allt það plast sem finnst á fjörum í nágrenni við Skagaströnd. Þau eiga mikinn heiður skilinn fyrir að hafa með því móti sett fram fyrirmynd sem við öll ættum að tileinka okkur. Magnið sem rekur á fjörur er með ólíkindum og ógnin við lífríkið meiri en við almennt gerum okkur grein fyrir í daglegu lífi. Fyrir forgöngu James og Karin var sett af stað verkefni þar sem BioPol og sveitarfélagið Skagaströnd standa saman að því verkefni að hvetja alla sem ganga um fjörur sem og önnur náttúrusvæði til að taka með sér það plast sem verður á vegi þeirra og koma í ferli sorps og endurvinnslu.
Það er ugglaust hægt að finna ótölulegan fjölda skýringa á því hvers vegna svo mikið plast er að finna í hafinu og annarsstaðar í okkar „hreinu náttúru“. Umgengni við hafið er vissulega orðin miklu betri en áður þar sem sorpi er ekki lengur sturtað beint í sjóinn og reglur hafi verið settar um að sjófarendum sé óheimilt að kasta sorpi í hafið. Það er hins vegar vel þekkt að á okkar stormasömu eyju fýkur allt sem laust er ekki síst hið létta plast þegar hvassviðri ganga yfir. Við þurfum því að huga betur að því að laust efni – ekki síst plast, geti ekki fokið á haf út gert þar usla í umhverfi og lífríki. Við sem neytendur þurfum líka að huga betur að því hvað efni við drögum að okkur í daglegri neyslu, efni sem við í mörgum tilfellum notum ekki nema til að koma neysluvörunni á milli verslunar og heimilis, efni sem oftast flokkast undir efnaheitið PLAST.