Fréttir

Einar Mikael töframaður í Fellsborg kl 15.00 í dag

Sýning í Fellsborg í dag fimmtudaginn 9. maí kl 15.00. Miðaverð 1.500 kr. http://www.tofrabrogd.is/ „Einar Mikael töframaður er einn færasti töframaður og skemmtikraftur á Íslandi í dag. Einar er snillingur í koma fólki á óvart með mögnuðum sjónhverfingum. og drepfyndnum göldrum. Hvað eiga lifandi dýr, gullfallegar stelpur og heimsfrægar sjónhverfingar sameiginlegt? Þú sérð þetta allt saman í sýningum hjá Einari. Ef þú ert að leita að atriði sem slær í gegn þá er alveg pottþétt að Einar Mikael mun sjá til þess að geri viðburðinn þinn ógleymanlegan.“

Leiðrétting.

Leiðrétting við mynd vikunnar frá 2. maí af Höfðahólum Í textanum með mynd af Höfðahólum gætir nokkurs misskilnings. Þar segir að Jóhannes Björnsson og Dagný Guðmundsdóttir hafi verið síðustu ábúendur á Höfðahólum. Þetta er ekki alls kostar rétt. Það rétta er að Þau hjón nýttu túnin sem fylgdu bænum en bjuggu þá að Litla Felli. Þá bjó í Höfðahólum Axel Ásgeirsson (d. 2.9.1965) sem seinna bjó að Litla Felli. Axel mun því hafa verið síðasti ábúandinn í Höfðahólum þó Jóhannes hafi nýtt jörðina að hluta undir það síðasta. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum. Óli B.

Fréttatilkynning

Fyrirlestur um Guðmund Björnsson landlækni (1906 -1931) og umbætur í geðheilbrigðismálum á fyrstu árum 20. aldar verður haldinn á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Skagaströnd og Þekkingarsetursins á Blönduósi, laugardaginn 11. maí klukkan 14:00 í Kvennaskólanum á Blönduósi. Fyrirlesturinn er ókeypis og öllum opinn. Það er Sigurgeir Guðjónsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, sem flytur fyrirlesturinn. Sigurgeir var alinn upp á Akureyri, útskrifaðist af málabraut MA 1985, lauk mastersgráðu í sagnfræði 1996 og kennslufræði frá HA 1999. Hann vinnur nú að doktorsritgerð sinni sem mun fjalla um sögu geðsjúkra á Íslandi með áherslu á tímablið 1834 til 1910. Sigurgeir hefur víða haldið fyrirlestra um efni sem tengjast rannsóknum hans og nú loksins geta Rannsóknasetrið og Þekkingarsetrið boðið upp á spennandi fyrirlestur Sigurgeirs um þetta áhugaverða efni. Guðmundur Björnsson landlæknir var Húnvetningur, fæddur í Gröf í Víðidal 1864. Hann var alþingismaður, landlæknir, héraðslæknir í Reykjavík, kennari við læknaskólann og seinna prófessor í læknisfræði. Hann hafði því mikil og margvísleg áhrif á uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á landinu á fyrstu áratugum 20. aldar m.a. í geðheilbrigðismálum. Fyrirlesturinn um þennan mæta Húnvetning er samstarfsverkefni Rannsóknasetursins og Þekkingarsetursins og er vonast til að sem flestir taki frá tíma laugardaginn 11. maí til að koma í Kvennaskólann, fá sér kaffibolla og fræðast örlítið um fortíðina.

Mynd vikunnar

Höfðahólar Lengi framan af öldum var land á núverandi Skagaströnd í eigu tveggja bæja. Bæirnir voru Spákonufell, sem var kirkjustaður, og Höfðahólar. Seinna bættust svo Háagerði og Finnsstaðir við.   Þessi mynd er af Höfðahólum sem stóðu á berginu ofan við núverandi tjaldsvæði. Þar er nú fánastöng og minningarskjöldur um bæinn einnig má sjá þar nokkrar rústir ef vel er gáð.   Síðustu ábúendur á Höfðahólum voru Jóhannes Björnsson og Dagný Guðmundsdóttir foreldrar bræðranna: Páls, Sigmars, Vilbergs og Óskars.

Frá Tónlistarskóla A-Hún

Vortónleikar Tónlistarskólans verða á Skagaströnd í Hólaneskirkju fimmtudaginn 2. maí kl: 1700 Allir velkomnir Skólastjóri

Alþingiskosningar 27. apríl 2013

Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd vegna kosninga til Alþingis þann 27. apríl 2013 fer fram í Fellsborg þann dag og hefst kl. 10:00 og lýkur kl. 21:00. Kjörstjórnin

Mynd vikunnar

Skíðagöngufólk 1983 Á áttunda áratugnum og fram eftir þeim níunda var mikill skíðaáhugi á Skagaströnd. Skíðalyfta var keypt og starfrækt í hlíðum Spákonufells, skíðaskálinn var byggður og skíðaáhuginn var almennur. Haldin voru fjölmenn skíðamót í svigi, bruni og skíðagöngu þar sem allir skemmtu sér vel. Fólkið á þessari mynd tók sig til og gekk á gönguskíðum frá Skagaströnd og út að Háagerði einn sunnudag vorið 1983. Þegar þangað kom beið Jón Jónsson eftir fólkinu með heitt kakó í potti og samlokur í rússajeppa sem hann átti. Standandi frá vinstri á myndinni: Karl Berndsen, Guðrún Guðbjörnsdóttir, Guðmundur Haukur Sigurðsson, Guðbjörg (Gógó) Viggósdóttir, Magnús B. Jónsson, Viggó Magnússon og Stefán Lárusson. Sitjandi: Jón Jónsson, Gylfi Sigurðsson, Bára Þorvaldsdóttir, Bjarney Valdimarsdóttir, Bernódus Ólafsson, Guðrún Sigurðardóttir, Þórunn Bernódusdóttir og Anna Bára Sigurjónsdóttir. Myndina tók Ólafur Bernódusson fyrir utan Háagerðisbæinn.

Kosningakaffi í Bjarmanesi

Kaffisala verður í Bjarmanesi á kosningadaginn, 27. apríl frá klukkan 15:00- 18:00. Kaffið kostar 1500 krónur fyrir fullorðna, 800 fyrir börn á grunnskólaaldri og ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri. Vonumst til að sjá sem flesta. 10. bekkingar og foreldrar

Naglasúpa og opið hús á laugardaginn

Komdu og taktu þátt í matarviðburðinum Naglasúpa sem AndrewRewald verður með í kjallara Bjarmaness laugardaginn 27. apríl, kl. 17.00-20.00 og sunnudaginn 28. apríl, kl. 12.00-15.00. Andrew hefur dvalið í Nes listamiðstöð í þrjá mánuði og langar til aðdeila afrakstri dvalar sinnar með íbúum Skagastrandar. Þessa tvo daga mun Naglasúpan bera keim af listrænni túlkun hans á þeim bragðtegundum sem hann hefur upplifað hér á staðnum. Opið hús laugardaginn 27. apríl, kl. 16.00-18.00, í Nes listamiðstöð -YoganMuller (Frakkl.)) verður hér í 3 mánuði. Hann er ljósmyndari. - AndrewRewald (Ástr.) mun elda Naglasúpu fyrir fólk í Bjarmanesi frá kl. 17-20 -Edyta Materka (USA) er við skriftir í Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Skagaströnd. -ChrisBoni og Melissa Fisher (Kan.) vinna að undirbúningi kvikmyndar á Skagaströnd sem tekin verður upp í júní. -MarlainaRead (Ástr.) er að smíða bát og mun draga hann upp á Spákonufell í næsta mánuði. - Herra Plume og StéphanieLetaconoux (Frakkl.) hafa staðið fyrir fjársjóðsleit og opnun á nýjum vegg fyrir samfélagslist. -JahnnePasco-White (Ástr.) vinnur með höggmyndir og innsetningar. -KelseyBosch (USA) vinnur með blandaðri tækni að list sinni. -KirstenKeegan (Kan.) stundar kvikmyndagerð og ljósmyndun Allir velkomnir!

Fyrirlestur um ræktun berjarunna og ávaxtatrjáa

Farskólinn býður upp á fyrirlestur Jóns Guðmundssonar garyrkjufræðings í fjarfundi næsta laugardag, 27. apríl, í námsstofunni í Gamla kaupfélaginu. Fundurinn kostar 7.900.- krónur á mann en eftir hann þá þekkir viðkomandi til ræktunar helstu berjarunna og ávaxtatrjáa, sem gefa æt ber og aldin hér á landi. Einnig hvar best er að gróðursetja tré í garðinum. Fjallað verður um jarðveg, áburðargjöf, klippingar og umhirðu, helstu meindýr og sjúkdóma í berjaræktun. Þátttakendur fá m.a. uppskriftir að berjahlaupi, berjasultu, marmelaði og réttum þar sem berin þjóna lykilhlutverki. Skrásetning á námskeiðið fer fram hjá Ólafi Bernódussyni í síma 8993172 eða 4512210 eða á netfanginu: olibenna@hi.is fyrir föstudag 26. apríl.