Fréttir

Sumarstörf hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir eftir starfsmanni til sumarafleysinga fyrir verkstjóra áhaldahúss en einnig eftir flokksstjórum til starfa í Vinnuskóla sveitarfélagsins í sumar. Skilyrði er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri og reynsla af sambærilegum störfum kostur. Jafnframt eru auglýst laus til umsókna sumarstörf námsmanna í samstarfi við Vinnumálastofnun. Störfin eru við ýmis verkefni á vegum sveitarfélagsins m.a. við skógrækt, umhverfismál og umsjón með golfvelli. Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur um flokkstjórastörf er til 8. maí n.k. en umsóknarfrestur vegna sumarstarfa námsmanna verður auglýstur síðar. Skráning í vinnuskóla fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að vinnuskólinn hefji störf um mánaðarmót maí –júní. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700. Sveitarstjóri

Útskurðarnámskeið

Hefur þú ekki gaman af að tálga og skapa eitthvað nýtt? Væri ekki gaman að læra réttu handbrögðin? Farskólinn auglýsir 14 kennslustunda (eina helgi) útskurðarnámskeið með Jóni Adolf Steinólfssyni sem leiðbeinanda. Hægt væri að halda svona námskeið hér á Skagaströnd ef okkur tekst að fá 10 manns til að taka þátt. Jón Adolf skaffar efni í tvö útskurðarverk og einnig kemur hann með öll áhöld sem þarf. Námskeiðið kostar 26.900.- krónur en stéttarfélög endurgreiða gjaldið allt að 75% eftir því um hvaða félag er að ræða. Sláðu nú til og hafðu samband við undirritaðan fyrir mánaðamót apríl /maí og skráðu þig. Ef þátttaka fæst þá stefnum við að svona námskeiði einhverntíma í maí. Heyri vonandi frá þér, Ólafur Bernódusson s: 899 3172 og 451 2210 olibenna@hi.is

Mynd vikunnar

Fjölskyldan í Dvergasteini Þetta er fjölskyldan í Dvergasteini. Dvergasteinn var hús sem stóð ofan við Skálholt en var við Bankastræti. Húsið var lítið og lágreist með viðbyggð fjárhús og hlöðu. Á myndinni er ekkjan Svanbjörg Magdalena Jósefsson (Svana Fossdal) (f. 27.4.1925 - d. 31.3.2002) með börnin sín. Svana var færeysk að uppruna en maður hennar var Hafsteinn Björnssson Fossdal. Hafsteinn drukknaði í Skagastrandarhöfn í hörmulegu slysi 22. febrúar 1962 og er því að sjálfsögðu ekki á myndinni. Börnin þeirra á myndinni eru frá vinstri: Ingi Jóhann Hafsteinsson Fossdal, sem drukknaði í Hólmavatni við Blönduós 12. desember 1987, Matthilda Alvilda Hafsteinsdóttir Fossdal, Björn Hafsteinsson Fossdal (d. 13.4.1983) og Sævar Hafsteinsson Fossdal. Sævar var seinna í fóstri á Holtastöðum í Langadal og eyddi þar unglingsárum sínum. Myndin var tekin heima í Dvergasteini um jól á árunum 1963 eða1964. Svana flutti til Reykjavíkur með fjölskyldu sína árið 1965.

"Ég var einu sinni frægur"

eftir Jón Gunnar og snillingana þrjá Verður í Fellsborg laugardagskvöldið 20. apríl kl. 20:00 Húsið opnar kl. 19:15 Stórleikararnir Þráinn Karlsson, Gestur Einar og Alli Bergdal leika sig sjálfa; gamla bitra geðilla leikara sem halda að þeir séu virtir, dáðir og sívinsælir. Sýningin gerist á Kanarí og fjallar um ferð eldri borgara frá Akureyri til Kanarí sem fer algjörlega úr böndunum. Leikararnir nota sögur úr eigin reynslu, Gestur Einar þolir ekki Gogga úr Stellu í Orlofi, Alli Bergdal þolir ekki Skralla trúð og Þráinn Karlsson þolir ekki þegar fólk segir við hann; mikið líturðu vel út! Í sýninguna fléttast leikhústónlist úr þeim verkum sem hafa staðið upp úr á 50 ára leiklistarferli. Skemmtunin er 70 mínútur að lengd, setið er til borðs og barinn er opinn. Sýningin er því tilvalin fyrir vinnuhópa, vinahópa, saumaklúbba eða bara fyrir fólkið af götinni sem vill koma og skemmta sér. Leikstjóri: Jón Gunnar Leikarar: Gestur Einar Jónasson, Þráinn Karlsson, Aðalsteinn Bergdal

Kjörskrá vegna alþingiskosninga

Kjörskrá vegna alþingiskosninga þann 27. apríl 2013 liggur frami á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar frá 17. apríl til kjördags. Kjörskrárstofninn miðast við þá sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 23. mars 2013. Sveitarstjóri

Tónleikar í Hólaneskirkju á þriðjudagskvöld

Kvennakórinn Sóldís í Skagafirði heldur tónleika í Hólaneskirkju þriðjudaginn 16. apríl nk. Kórinn var stofnaður á haustdögum 2010 og hefur á að skipa um 40 kórfélögum. Undirleikari er Rögnvaldur Valbergsson og kórstjóri Sólveig Sigríður Einarsdóttir. Einsöngvarar eru Ólöf Ólafsdóttir og Sigríður Margrét Ingimarsdóttir. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30. Aðgangseyrir kr. 2.500,- og athygli vakin á að ekki verður hægt að greiða með greiðslukortum. Allir velkomnir.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 17. apríl 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Kjörskrá vegna alþingiskosninga 2013 2. Útboð hitaveitu 3. Gjaldskrá bókasafns 4. Ársreikningur 2012, fyrri umræða 5. Bréf: a. Áslaugar Ottósdóttur, dags. í apríl 2013 b. UMFÍ, dags. 2. apríl 2013 c. Bæjarstjóra Blönduósbæjar, dags. 21. mars 2013 d. SSNV, dags. 27. mars 2013 e. Hollvinum Húna II. dags. 2. apríl 2013 f. Íþróttafélagsins Hugins, dags. í mars 2013 6. Fundargerðir: a. Skólanefndar FNV, 20.03.2013 b. Starfshóps um dreifnám í A-Hún, 02.04.2013 c. Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 21.02.2013 d. Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 03.04.2013 e. Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 11.03.2013 f. Stjórnar SSNV, 26.02.2013 g. Byggðasamlags um málefni fatlaðra á Nl. vestra, 26.02.2013 h. Stjórnar Hafnasambands Íslands, 14.03.2013 i. Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 01.03.2013 7. Önnur mál Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Gamli Kántrýbær Veitingastaðurinn Kántrýbær byrjaði rekstur í þessu húsi. Útvarp kántrýbær var á efri hæðinni. Aðfaranótt 27 október 1997 brann þetta hús til kaldra kola. Hallbjörn Hjartarson, sem átti húsið og starfsemina þar, gafst ekki upp. Hann safnaði peningum hjá þjóðinni og reisti það hús sem stendur í dag á sama stað og þetta var. Nýja húsið með veitingasölu og útvarpi Kántrýbæ var opnað rúmu ára eftir brunann 27. júní 1998.

MANSTU ?

Leikfélagið Kjallarinn kynnir, framlag Höfðaskóla til Þjóðleiks 2012-2013, leikritið Manstu?, eftir Sölku Guðmundsdóttur Sýnt verður í Fellsborg, miðvikudaginn 10.apríl kl. 20.00. Sýningartími er 25 mínútur og kostar 500 kr. inn, frítt er fyrir 10 ára og yngri. Hlökkum til að sjá ykkur Leikstjóri: María Ösp Ómarsdóttir

Tölvunámskeið

Að undanförnu hefur staðið yfir 20 tíma tölvunámskeið fyrir heldri borgara á Skagaströnd og í Skagabyggð. Námskeiðið var haldið í tengslum við félagsstarfið í Fellsborg á máunudögum og fimmtudögum til að fólkið þyrfti ekki að koma sér ferð á námskeiðið. 15 manns skráðu sig í byrjun en 10 manns luku því og eiga þau að geta bjargað sér á netinu og í ritvinnslu nú að því loknu. Námskeiðinu lauk síðasta fimmtudag, 4. apríl , og þá komu Bryndís K. Þráinsdóttir og Jóhann Ingólfsson frá Farskólanum og afhentu fólkinu skýrteini sín til staðfestingar á náminu. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Ólafur Bernódusson en hann er í hlutastarfi hjá Farskólanum. Á myndinni er hluti hópsins með leiðbeinandanum. Auk þeirra sem eru á myndinni luku Valgeir Karlsson, Matthías Auðarson, Jón Ólafur Ívarsson og Guðrún Guðbjörnsdóttir námskeiðinu.