06.10.2010
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
fimmtudaginn 7. október 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Undirbúningur fjárhagsáætlunar 2011
2. Deiliskipulag Hólaness
3. Bréf:
a) Orkustofnunar, dags. 29. sept. 2010
b) Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 24. sept. 2010
c) Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, dags. 27. sept. 2010
d) Sóknarnefndar Hólaneskirkju, dags. 21. sept. 2010
4. Fundargerðir:
a) Stjórnar byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún 15.09.2010
b) Samvinnunefndar um svæðisskipulag A-Hún. 28.09.2010
c) Stjórnar SSNV, 13.09.2010
5. Önnur mál
Sveitarstjóri
04.10.2010
Óvanaleg veðursæld hefur verið á Skagaströnd undanfarnar vikur miðað við árstíma. Sumum kann að þykja það undur mikil því frá lokum síðustu verslunamannahelgar hafa fjölmiðlar verið ósparir á að minna landsmenn á að haustið sé að koma. Þeir hafa rætt um haustlægðir og hryllt sig uppúr og niður við tilhugsunina um föl í fjöll. Það kann vel að vera að haustið sé komið á suðvesturhorni landsins en hér á Skagaströnd og raunar á öllu Norðurlandi vestra kvartar enginn - hér er enn hásumar.
Suðaustanáttin hefur verið ríkjandi og það þekkja kunnugir að þegar hún andar verða hitar mestir í landshlutanum. Þá verður eiginlega til hnúkaþeyr, hlýr og þurr vindur en nokkuð hvass.
Staðhættir á Skagströnd eru þó þannig að fjöllin veita nokkuð skjól og því verður hér lygnara en víða annars staðar. Þegar sólin skín við slíkar aðstæður má reikna með því að hitastigið hækki verulega. Sem kunnugt er segja opinberar hitatölur oft ekki mikið um raunverulegan hita. Á veðurathugunarstöðinni Blönduós, sem er á stór Skagstrandarsvæðinu, hefur mestur hiti verið í kringum 13° en á heimilismælum og víðar um Skagaströnd reiknast mönnum til að hitinn hafi verið minnst þremur til fjórum gráðum hærri.
Þeir sem fylgjast best með grassprettu að hausti eru fyrst og fremst golfarar. Með nef sitt og glyrnur ofan í snöggsleggnum flötum golfvallar Skagastrandar hafa þeir fundið út að grasið vex meira en góðu hófi gegnir. Um síðstu helgi voru því sláttuvélar teknar fram og nokkrar flatir slegnar og raunar einnig brautir. Rúllar nú boltinn „eðlilega“ og golfarar hafa tekið gleði sína á ný. Raunar hafa þeir lítið getað kvartað því nú hafa þeir fengið rúma fimm mánuði til að iðka leik sinn og hefur golfvertíðin sjaldan verið veðurbetri.
Þó svo að nú leggist vindar í norðanátt næstu tvo daga má búast við áframhaldandi hlýindum. Aftur mun suðrið sæla anda vindum þýðum. Veðurstofa Íslands spáir sunnan- og suðaustanáttum frá og með fimmtudegi. Á laugardaginn er til dæmist spáð 16 gráðu hita og þá er víst að fleiri kætast en golfarar.
Og hvaða tal var þetta um haustlægðir ...
01.10.2010
Vinnumálastofnun á Skagaströnd leitar eftir áhugasömum skrifstofustarfskrafti með góða leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR. Framhalds-eða háskólamenntun er kostur sem og reynsla af skrifstofustörfum.
Helstu verkefni Greiðslustofu Vinnumálastofnunar eru afgreiðsla umsókna um atvinnuleysisbætur og upplýsingagjöf.
Hlutverk Greiðslustofu er að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Á skrifstofunni á Skagaströnd starfar nú rúmlega 20 manna liðsheild. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og/eða kynna sér starfsemi Vinnumálastofnunar á www.vinnumalastofnun.is
Líney Árnadóttir forstöðukona veitir upplýsingar í síma 455 4200 og tekur við umsóknum ásamt ferilskrá á netfangið liney.arnadottir@vmst.is.
29.09.2010
Þorgrímur Þráinsson hlaut í gær barnabókarverðlaunin fyrir bókina Ertu guð afi? Þorgrímur er vel þekktur hér á Skagaströnd og hefur sýnt staðnum og íbúum hans margvíslegan heiður. Nokkrum sinnum hefur hann dvalið í Nesi listamiðstöð og unnið að ritstörfum.
Fyrir tveimur árum gaf hann eitt eintak af bókinni Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama inn á hvert heimili á Skagaströnd. Ekki er dregið í efa að hamingjan hefur síðan aukist á Skagaströnd, ekki aðeins meðal kvenna heldur líka karla, og á bókin efalaust þátt í því.
Þorgrímur hefur margsinnis í fjölmiðlum sagt frá dvöl sinni á Skagaströnd. Í grein sinni á vef World Class í september 2008 segir hann meðal annars.
Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að dvelja á Skagaströnd í júní, þar af í þrjár vikur með fjóra krakka. Hvílík lífsgæði. Fámennt samfélag, enginn asi, allir kurteisir, heimilislegt andrúmsloft, kaffihús, íþróttaviðburðir, sundlaug, golfvöllur, listamiðstöð og svo mætti lengi telja, í þessu rúmlega 500 manna samfélagi. Allt þorpið var leikvangur barnanna og það gerist af sjálfu sér að allir eru einhvern veginn að passa alla
Eftirfarandi er frétt Morgunblaðsins frá því í dag 29. september, um barnabókaverðlaunin og Þorgrím Þráinsson. Fréttin er birt með góðfúslegu leyfi Barkar Gunnarssonar, blaðamanns Morgunblaðsins:
Í gær vann Þorgrímur Þráinsson Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Ertu guð afi? Þorgrímur er meðal þekktari rithöfunda þjóðarinnar og hafa barna- og unglingabækur hans notið fádæma vinsælda í tvo áratugi.
Þorgrímur hóf rithöfundarferilinn með stæl og varð fyrsta bókin hans, Með fiðring í tánum, að metsölubók árið 1989. Tuttugu og einu ári síðar hefur Þorgrímur gefið út á þriðja tug bóka. Þorgrímur vann þessi sömu verðlaun árið 1997 fyrir bókina Margt býr í myrkrinu. Auk Íslensku barnabókaverðlaunanna hefur Þorgrímur hlotið Barna- og unglingabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkurborgar og Bókaverðlaun barnanna fyrir síðustu bók sína Núll, núll 9.
Bókin speglar lífsviðhorf hans
Þorgrímur segir að þessi nýjasta bók, Ertu guð afi?, fjalli um leyndarmál lífsins. Hún er um 77 ára gamlan mann sem er kallaður afi Afríka og samskipti hans við sonardóttur sína, Emmu Soffíu (11 ára) en þau eru að hittast í fyrsta skipti. Hún veit að hann býr yfir risa leyndarmáli sem hann segir hana ekki vera tilbúna til að heyra strax.
„Sagan á sér stað við Landakotstúnið,“ segir Þorgrímur. „Hún fjallar um samskipti þeirra tveggja. Afi Afríka er að kenna barnabarninu sínu sitthvað um lífið, þetta eru samskipti gömlu kynslóðarinnar við þessa nýjustu, í sinni fegurstu mynd.“
Þorgrímur segist hafa séð auglýsinguna um verðlaunin og flett þá upp í minnisbókinni sinni og fundið þetta efni. Það tók hann ekki langan tíma að átta sig á því að hann hafði í raun verið að skrifa þessa sögu alla ævina. Þar af leiðandi gengu skrifin mjög vel og hann kláraði hana á skömmum tíma. „Þessi bók endurspeglar viðhorf mín til lífsins,“ segir hann.
Næsta haust kemur framhald bókarinnar Núll núll 9 út hjá Forlaginu en hún nefnist Þokan. En þessi verðlaunabók kemur sjálfkrafa út hjá bókaforlaginu Vaka-Helgafell.
Verðlaun þegar nafnleynd er
Það er alkunna að þrátt fyrir að vera margverðlaunaður höfundur og átt metsölubækur á sölulistanum hefur Þorgrímur Þráinsson aðeins einu sinni fengið úthlutað úr Launasjóði rithöfunda. „Já, það er rétt,“ segir Þorgrímur. „Það er alltaf gaman að fá verðlaun fyrir verk sín en ég hefði örugglega ekki átt möguleika á að vinna þau nema vegna þess að keppnin var haldin í nafnleynd. Ég hef fimm sinnum sent verk í svona samkeppni þar sem er nafnleynd og fjórum sinnum unnið.“
Aðspurður hvort hann geti lifað af skrifunum einum saman þegar launasjóðurinn horfir alltaf framhjá honum segir hann það af og frá. „Skriftirnar eru ástríða sem maður sinnir en ég fæ tekjurnar aðallega frá hliðarverkefnum eins og fyrir Íþrótta- og ólympíusambandið, ég skrifa skýrslur fyrir breskt fyrirtæki um leiki sem fara fram hérlendis og var fenginn í að skrifa sögu Vals, það er á því sem ég lifi. Það þótt ég sé iðulega á topp tíu sölulista bóka, en það er bara ekki mikið úr þessu að fá þegar launasjóðurinn sér bara um sína.“
Sagan
» Íslensku barnabókaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1986.
» Margir af okkar dáðustu barnabókahöfundum hafa unnið til þeirra. Af þeim má nefna Iðunni Steinsdóttur, Brynhildi Þórarinsdóttur og Friðrik Erlingsson.
» Þátttakan í ár var afar góð og bárust á fjórða tug handrita í keppnina. Verðlaunaféð nemur 500.000 krónum.
---
Bækur Þorgríms Þráinssonar eru þessar samkvæmt bókmenntavefnum 100.bokmenntir.is:
Barnabækur
Amó Amas
Bak við bláu augun
Hjálp, Keikó! Hjálp!
Hlæjandi refur: sagan um Úlfhildi og indíánastrákinn sem flúði til Íslands
Kvöldsögur
Kýrin sem hvarf
Lalli ljósastaur
Litla skrímslið
Margt býr í myrkrinu
Með fiðring í tánum
Mitt er þitt
Nóttin lifnar við
Sex augnablik
Spor í myrkri
Svalasta 7an
Tár, bros og takkaskór
Undir 4 augu
Kennslubækur
Fjögur í rusli
Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama
Skáldsögur
Allt hold er hey
Ævisögur
Meistari Jón: predikari af Guðs náð
Hljóðbækur
Margt býr í myrkrinu
28.09.2010
Fimm þátttakendur hafa skráð sig á námskeiðið Sóknarbraut á Blönduósi og sex á Hvammstanga. Námskeiðið fjallar um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki.
Það er Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við SSNV og Sveitarfélagið Skagaströnd og Blönduósbæ sem stendur fyrir námskeiðinu.
Námskeiðið er alls 40 kennslustundir sem skiptast í 10 hluta auk þriggja opinna vinnusmiðja sem þátttakendur geta mætt í og unnið að sínu verkefni undir handleiðslu leiðbeinanda. Hver hluti er fjórar klst. Stefnt er að því að námskeiðið hefjist 6. október.
Námskeiðið er ómetanlegt fyrir þá sem áhuga hafa á að stofna fyrirtæki. það gefur góða yfirsýn yfir þau mál sem hafa þarf í huga við stofnun og rekstur. Vitað er að margir Skagstrendingar hafa áhuga á að hasla sér völl í ferðaþjónustu og námskeiðið hentar mjög vel í þeirri atvinnugrein. Lögð er áhersla á markaðssetningu, stjórnun og fjármál.
Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar.
27.09.2010
Mánudagsmynd Ljósmyndasafns Skagastrandar er úr safni Guðmundar Guðnasonar. Hún er líklega tekin á árunum 1960 til 70. Um tilefnið er ekki vitað og hópurinn gæti verið á ferðalagi. Ljóst er að nokkrir Skagstrendingar eru á myndinni og þeir sem þekkja þá eru beðnir um að láta Hjalta Viðar Reynisson, verkefnisstjóra Ljósmyndasafnsins vit. Síminn hjá honum er 455 2700 og hann er við fyrir hádegi alla virka daga.
Í síðustu viku leitaði Hjalti eftir nöfnum manna við vegavinnu eða túnvinnu á Skagströnd. Ekki þekktust nú margir þeirra en þó er vitað að lengst til hægri er Guðmundur Guðnason og við hlið hans er Ágúst Jakobsson. Þeir sem til þekkja eru því hvattir til að gaumgæfa myndina og láta vita beri þeir kennsl á þá sem enn eru ekki nafngreindir.
27.09.2010
Fræðsluskrifstofa Austur-Húnavatnssýslu stóð fyrir námskeiði í Félagsheimilinu á Blönduósi, fimmtudaginn 23. september.
Fyrirlesari að þessu sinni var Gylfi Jón Gylfason, sálfræðingur og var markmið hans að kynna þátttakendum fjölbreyttar hugmyndir, ráð og leiðir til að draga úr neikvæðri hegðun í kennslustarfinu og hvað gera má til að byggja upp jákvæðan skólabrag.
Kennarar og starfsfólk grunn- og leikskóla Húnavatnsþings og Borðeyrar fjölmenntu í Félagsheimilið og geta nú nýtt sér þessar ágætu upplýsingar í starfi.
Mynd
Þátttakendur og leiðbeinandi fyrir utan Félagsheimilið á Blönduósi
24.09.2010
Annað hvert ár efnir Rauði kross Íslands til landssöfnunarinnar Göngum til góðs til styrktar alþjóðaverkefnum sínum. Nú blæs Rauði krossinn aftur í lúðra og efnir til sjöttu landssöfnunarinnar laugardaginn 2. október fyrir starf félagsins í Afríku.
Söfnunin er annars eðlis en flestar skyndisafnanir sem Rauði krossinn efnir til eins og í kjölfar neyðaraðgerða vegna náttúruhamfara eða átaka. Valin eru langtímaverkefni sem oft er erfitt að finna fjármagn fyrir.
Í söfnuninni í ár hefur Rauði krossinn sett á oddinn verkefni félagsins í Malaví fyrir börn og ungmenni sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis, og Síerra Leóne þar sem um er að ræða verkefni fyrir stríðshrjáð börn og endurhæfingu barnahermanna. Samstarfið við Rauða krossinn í Malaví hófst árið 2002 með söfnunarfé úr Göngum til góðs það ár og við Rauða krossinn í Síerra Leóne í kjölfar landssöfnunarinnar árið 2004.
Mikið hefur áunnist í verkefnum Rauða krossins í Malaví og Síerra Leóne á þessum árum og samstarfið eflst og dafnað vegna langtímaskuldbindingar Rauða kross Íslands. Með því að sýna samstöðu og samhug með systurfélögum okkar í þessum löndum getum við saman tekið þátt í að skapa börnum í Afríku betri lífsskilyrði.
Með söfnuninni Göngum til góðs vill Rauði krossinn gefa fólki í landinu tækifæri til að gefa af sér, ekki einungis með því að gefa fé heldur einnig til að sameinast um brýnt málefni og sýna samhug sinn í verki með því að gerast sjálfboðaliði eina dagsstund. Þeir sem ganga hús úr húsi gegna ákaflega mikilvægu hlutverki, en það væri til lítils ef ekki væru einhverjir heima til að taka á móti þeim og stinga fé í baukinn.
Hægt er að skrá þátttöku í síma: 897-2884 eða á bogig@simnet.is, vinsamlegast skráið fyrir kl: 18:00 miðvikudaginn 29. september.
Það er von okkar að sem flestir sýni stuðning í verki og Gangi til góðs laugardaginn 2. október.
R.K.Í
Skagastrandardeild
24.09.2010
Kirkjukór Hólaneskirkju er að fara af stað með metnaðarfullt verkefni sem hann vill bjóða söngfólki í Skagafirði og Húnavatnssýslum að taka þátt í. Um er að ræða gospeltónleika undir stjórn Óskars Einarssonar , ásamt hljómsveit, sem verða haldnir á þremur stöðum í sýslunum helgina 22. til 24. október n.k.
Kirkjukór Hólaneskirkju hefur um árabil notið leiðsagnar hins margrómaða gospelkóngs Íslands, Óskars Einarssonar, við flutning gospeltónlistar. Upphaf samstarfs kórsins og Óskars má rekja aftur til ársins 1999 en þá kom Óskar til Skagastrandar og hélt sitt allra fyrsta „gospelnámskeið“. Segja má að námskeiðið hafi slegið algerlega í gegn því síðan þá hefur Óskar farið vítt og breitt um Ísland og haldið merkjum gospeltónlistarinnar á lofti með því að miðla þekkingu sinni til kóra og sönghópa.
Kórfélagar hafa nú ákveðið að fá Óskar Einarsson ásamt hljómsveit og gestasöngvurum í lið með sér til þess að halda gospeltónleika á Skagaströnd, í Skagafirði og á Hvammstanga. Æfð verða upp 15-17 lög og þau flutt undir stjórn Óskars fyrir Húnvetninga og Skagfirðinga. Verkefnið er hugsað sem eins konar uppskeruhátíð eftir námskeiðahald undanfarinna ára.
Hér með er kórfólki, ungu sem öldnu, úr Skagafirði og Húnavatnssýslum boðið að taka þátt í verkefninu.
Tónleikarnir verða haldnir helgina 22.-24. október 2010 en æfingar hefjast á næstunni.
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Menningarráði Norðurlands vestra og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli
Áhugasamir hafi samband við Sigríði í síma 820-2644 eða Halldór í síma 896-7977.
23.09.2010
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti 26. ágúst s.l. tillögu að aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagastrandar 2010-2022.
Skipulagsuppdrættir, greinargerð og umhverfisskýrsla voru til sýnis á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3 frá 25. maí til 22. júní 2010 með fresti til að skila inn athugasemdum til 7. júlí 2010. Ennfremur var tillagan til sýnis hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík og á heimasíðu sveitarfélagsins, www.skagastrond.is.
Tvær athugasemdir bárust vegna tillögu að tilfærslu Skagastrandarvegar. Athugasemdirnar gáfu ekki tilefni til breytinga á tillögunni og hefur hún verið send Skipulagsstofnun sem gerir tillögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu tillögunnar. Greinargerð með athugasemdum og umsögnum um þær eru inn á heimasíðu sveitarfélagsins (sjá hér).
Þeir sem óska eftir nánari upplýsingum um tillöguna og niðurstöður sveitarstjórnar geta snúið sér til sveitarstjóra Skagastrandar.
Sveitarstjóri