Fréttir

Vefmyndavélarnar á höfninni enn óvirkar

Eins og þeir sem reyna að heimsækja vefmyndavélarnar á höfninni hafa tekið eftir þá eru þær enn óvirkar.  Verið er að vinna í málinu og ástæðan eru tæknilegir örðugleikar með ADSL beininn.   Þessi gerð beina ræður að því er virðist ekki við vefmyndavélarnar. Aðrar lausnir hafa verið skoðaðar í samráði við tæknimenn Símanns. Vonast er til að einhver niðurstaða verði komin í málið í næstu viku.

Kosningar til stjórnlagaþings

Kjörfundur á Skagaströnd vegna kosninga fulltrúa á stjórnlagaþing verður haldinn laugardaginn 27. nóvember í Fellsborg. Hann hefst klukkan 10 árdegis og lýkur klukkan 21 um kvöldið.

Og á laugardaginn verður kveikt á jólatrénu

Og nú er jólatré komið á Hnappsstaðatún. Af einskærri tilhlökkun leikur það nú við hvern sinn fingur enda verða ljósin á því tendruð á morgun, laugardaginn 27. nóvember, kl. 17. Og af óviðráðanlegri forvitni leggja jólasveinarnir leið sína ofan úr Spákonufelli því, ljósadýrðin á jólatrénu sker í augun og forvitnin er að gera útaf við þá. Það er gömul venja þeirra að hafa líka með sér eitthvað góðgæti með sér til að gefa börnum. Og börnin fara að hlakka til ... enda eru jólasveinarnir aldrei kátari en í upphafi aðventu en þá hefur vinnuálagið ekki enn sett mark sitt á þessa hörkuduglegu og góðgjörnu karla sem hafa það að tilgangi lífs síns að gleðja góðu börnin. Og svo verða jólalögin sungin. Tekur þá hver undir með sínu nefi. Um leið er dansinn stiginn í kringum hið nýja jólatré og fylgt öllum þeim hefðum og venjum sem myndast hafa í gegnum árin. Og í anda verður gengið í kringum einiberjalyng, yfir sjó og land með Adam og sjö sonum hans, tiplað á hrakningum Jóns á Völlunum, sagt hvernig eigi að skúra gólf, sungið um Sigga sem leitar að flibbahnappnum hans pabba síns meðan mamma er á bakvið eldavélina og kyssir jólasveininn ... Og Grýla stendur fjarri, andlega niðurbrotin, með galtóman pokann sinn, pælir í að skipta um starfsvettvang, mennta sig upp á nýtt enda frekar ógeðfellt að hafa þann eina lífsstarfa að éta börn. Þá er nú betra að rápa um í búðum, skoða jólatilboðin og fara í nudd.

Rökkurró, jassbræðingur í kirkjunni

Systkinin Albert Sölvi og Jóhanna Marín Óskarsbörn ætla að fagna aðventunni með ljúfum djassbræðingi í Hólaneskirkju á sunnudagskvöldið kl. 20. Albert Sölvi leikur á saxafón og Jóhanna Marín á orgel og píanó. Ljúfir tónar munu því leika um fallegu kirkjuna í upphafi aðventu á trúarlegum og andlegum nótum í rökkrinu. Aðgangseyrir  er 1.000 kr.    Tónleikarnir eru styrktir af Menningarráði Norðurlands vestra.

Fatamarkaður

Rauða krossdeild Skagastrandar verður með fatamarkað í húsi deildarinnar að Vallarbraut 4, þriðjudaginn 23. nóvember og miðvikudaginn 24. nóvember frá kl. 17:00 til 20:00. Seld verða notuð föt á mjög góðu verði. Hlökkum til að sjá ykkur

Fimmtán rétt svör tryggðu sigurinn

Góð mæting var á spurningakeppnina Drekktu betur í Kántrýbæ síðasta föstudagskvöld og létt var yfir mannskapnum. Ragna og Jonni voru spyrlar og stóðu sig afar vel eins og þeirra var von og vísa.  Getvísi þátttakenda var auðvitað misjöfn eins og við vara að búast. Ekki þó við því að búast að allir myndu til dæmis hvað stendur á vegaskiltinu hér uppi á Kerlingarholti, hvað væri langt inn á Blönduós eða út að Hrauni. Þetta voru svona spurningar um sjálfsagða hluti, eitthvað sem allir hafa fyrir augunum en fáir muna svo þegar spurt er. Hvað heitir svo hún Didda á saumastofunni fullu nafni? Hvað hét fyrsti togari Skagstrendinga sem hafði sama nafn og hús nokkurt ber enn hér í bænum? Sigurvegarar urðu Ástrós og Jóhanna og höfðu þær Elvu Dröfn sér til aðstoðar sem ritara ... og verður ekki fjölyrt frekar um það ;-)  Sigurinn vannst á fimmtán réttum svörum sem líklega ber vitni um að spurningarnar hafi verið frekar erfiðar. Peta og Vigdís Elva verða spyrlar í næstu spurningakeppni sem verður föstudaginn 3. desember og verður það að öllum líkindum síðasta keppnin fyrir jól.

Kjörskrá vegna stjórnlagaþings

Kjörskrá Kjörskrá fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd vegna kosninga til Stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til kjördags. Kjörskrá miðast við skráð lögheimili eins og það var samkvæmt þjóðskrá fjórum vikum fyrir kjördag eða 6. nóvember 2010 og miðast við þá sem fæddir eru 27. nóvember 1992 og fyrr. Athugasemdum við kjörskrá skal skila á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir kjördag, 27. nóvember 2010. Sveitarstjóri

Djásn og dúllerí hefur opnað jólamarkað á Skagaströnd

Mikil jólastemning er í galleríinu Djásn og dúllerí á Skagaströnd og þar er fallegt handverk af ýmsum toga á boðstólum. Eftir að hafa skoðað fjölbreytt úrval sýningarmuna er notalegt að tylla sér með kaffibolla í stássstofunni og ylja sér við snarkandi arineld, hlusta á jólatónlist eða líta í bók. Þá verður öðru hvoru lifandi tónlist í boði en það verður nánar auglýst síðar.   Aðstandendur Djásna og dúllerís bjóða alla velkomna í heimsókn. Opið er frá kl. 14 - 18 alla laugardaga og sunnudaga til jóla. Einnig verður opið á Þorláksmessu frá kl. 14 - 21. Söluvörur eru fjölbreyttar og er best lýst í eftirfarandi vísu:  Málverk, bjöllur, myndir, prjón, möndlur, gler og sokkar. Gjafavara gleður sjón í galleríi okkar.

Stefnt að opnun Spákonuhofs og Þórdísarstofu næsta sumar

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir framkvæmdir í gamla samkomuhúsinu (Tunnunni) á Skagaströnd á vegum Spákonuarfs, en félagið eignaðist húsnæðið nú í sumar.  Þegar er búið að einangra  veggi og loft og er langt komið að klæða veggi. Í framhaldinu verða gólf, gólfefni ,raflagnir og vatnslagnir endurnýjaðar. Tveir iðnaðarmenn hafa unnið við verkið og bætast fleiri við á næstunni. Hönnun leikgerðar og innra skipulags er unnin í samráði við Ernst og Ágústu Bachman sem stofnuðu og starfrækja Sögusafnið/leikmyndagerð en þau eru einnig eigendur og  höfundar að Sögusafnininu í Perlunni.    Samstarfið við Ágústu og Ernst hefur staðið um nokkurn tíma en á vordögum afhentu þau Spákonuarfi afsteypu af Þórdísi spákonu sem verður hluti af sýningunni.  Áformað er að opna Spákonuhofið og Þórdísarstofu næsta sumar. Síðastliðið sumar sá Spákonuarfur um sýningarhald í Árnesi. Aðsókn var góð gestir vel á annað þúsund. Jafnframt því að sinna sýningarhaldi var boðið upp á spádóma og sölu á handverki.   Á Kántrýdögum í sumar varð að fjölga spákonum og tókst gott samstarf um það við Töfrakonur í Húnavatnshreppi. Enginn vafi er á að áhugi fyrir spádómum er mikill og fer vaxandi. Þórdísargöngur  á Spákonufell eru orðnar fastur liður í starfi félagsins og er áhugi manna að ganga á  Spákonufellið vaxandi.  Þannig hafa í ár um 180 manns ritað nafn sitt í gestabók sem staðsett er á „toppnum“.  Spákonuarfur áformar í  vetur að gefa út sögu Þórdís spákonu sem rituð er af þeim spákonum Sigrúnu Lárusdóttir, Dagnýju M.Sigmarsdóttir og Svövu Sigurðardóttir. Sagan verður skreytt teikningum eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson.

Frístundakort

Á fundi sveitarstjórnar 17. nóvember sl. var samþykkt að bjóða, eins og undanfarin ár, frístundakort sem nemi allt að 15 þúsund krónum fyrir hvert grunnskólabarn sem tekur þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ákvörðun um frístundakort gildir frá 1. september 2010 til 31. ágúst 2011. Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Síðasti greiðsludagur vegna tímabilsins er 15. september 2011