Lóan er komin á Skagaströnd - sigurvegarar í ljósmyndasamkeppni

Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri tók á móti Elís Valtýssyni og Hafdísi Hrefnu Birgisdóttur í d…
Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri tók á móti Elís Valtýssyni og Hafdísi Hrefnu Birgisdóttur í dag og gaf þeim bækur og páskaegg í verðlaun fyrir fallegu myndirnar sem þau tóku af Skagastrandar-lóum.

Á dögunum efndum við til ljósmyndasamkeppni þar sem leikskólabörn og 1.-4. bekkur í grunnskólanum voru hvött til þess leita að fyrstu lóunni á Skagaströnd þetta vorið!

Það gekk heldur betur vel og lóan er mætt í allri sinni dýrð!

Fyrsta myndin var tekin af honum Elís Valtýssyni þann 8. apríl sl. kl 14:50. Hann Elís eða Elli eins og hann er kallaður er í 3. bekk í Höfðaskóla. 

Önnur myndin kom svo frá henni Hafdísi Hrefnu Birgisdóttur en hún er tekin þann 8. apríl sl. kl. 16:20. Hafdís Hrefna er 5 ára Skagstrendingur og nemandi í leikskólanum Barnabóli. 

Krakkarnir gerðu sér lítið fyrir og sýndu fínu myndirnar sínar í spjalli við fréttamenn frá RÚV sem kíktu til okkar í dag og bíðum við spennt eftir innslaginu sem sýnt verður í fréttum í næstu viku. 

 

Foreldrafélög skólanna gáfu krökkunum bækur í verðlaun. Elís fékk bókina Fuglar á Fróni sem er vísnabók um 24 fuglategundir sem finna má á Íslandi. Hún Hafdís Hrefna fékk bókina Fagurt galaði fuglinn sá sem er um íslenska fugla og þeirra fagra kvak en hægt er að hlusta á söng fuglanna við lestur bókarinnar. Óskum við krökkunum innilega til hamingju og þökkum þeim kærlega fyrir þátttökuna.

Nú styttist í sumarið!

Sveitarstjóri