30.10.2007
Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði í fyrsta sinn menningarstyrkjum við athöfn í Hóladómkirkju föstudaginn 26. okt. sl.
Það var með undirritun þriggja ára menningarsamnings milli Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ráðuneyta mennta- og ferðamála fyrr á þessu ári að grundvöllur skapaðist til þess að veita verkefnastyrki til þeirra einstaklinga, félaga eða fyrirtækja sem sinna menningarstarfi á svæðinu. Í framhaldi af samningnum var menningarfulltrúi ráðinn til starfa og auglýst eftir styrkumsóknum.
Ráðinu bárust alls 50 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 50 milljónum í styrki. Fjörutíu og ein umsókn hlaut styrk og alls var úthlutað 17.650 þús. kr. Hæstu styrkir námu einni milljón króna en þeir lægstu voru eitt hundrað þúsund. Þau verkefni sem hlutu styrk voru mjög fjölbreytt, s.s. frumsamið leikrit, tónleikar, sögusýningar, varðveisla menningararfsins, ráðstefnur og útgáfustarfsemi.
Í ávarpi formanns Menningarráðs, Guðrúnar Helgadóttur, kom fram að þessi úthlutun markaði mikilvægan áfanga í menningarstarfi á Norðurlandi vestra og greinilegt væri að á Norðurlandi vestra starfaði öflugur hópur fólks að listum, fræðum og menningartengdri ferðaþjónustu. Guðrún telur að ein helsta atvinnuháttabreyting samtímans sé að mikilvægið færist frá framleiðslu efnislegra gæða í föstu formi yfir í framleiðslu á gæðum sem ekki er beint hægt að festa hönd á. Má þar nefna hluti eins og góð þjónusta, tilkomumikil leiksýning, hrífandi mynd, ljóð sem snertir tilfinningar, ímynd vöru og lag sem vekur minningar.
Við athöfnina sungu fjórar söngkonur úr Húnaþingi vestra við undirleik Guðmundar Helgasonar, Sólveig S. Einarsdóttir lék á orgel og Þórhallur Barðason söng. Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga tók til máls fyrir hönd styrkhafa og þakkaði veitta styrki sem hún sagði án efa verða til eflingar menningarlífi á svæðinu.
Eftirtaldir umsækjendur hlutu styrk að upphæð ein milljón:
Áhugahópur um styttu af ferjumanninum - Gerð bronsstyttu af Jóni Ósmann.
Sveitasetrið Gauksmýri – Hrafnaþing, uppsetning sýningar um íslenska hrafninn.
Grettistak – Útgáfa bókar með myndum Halldórs Péturssonar af atburðum í Grettis sögu.
Héraðsskjalasafn Skagfirðinga – Gerð stafræns ljósmyndasafns.
Karlakórinn Heimir – Dagskrá um Stefán Íslandi.
Ópera Skagafjarðar – La Traviata – tónleikar – upptaka – myndband.
Spákonuarfur – Gerð leikþáttar um Þórdísi spákonu o.fl.
Textílsetur Íslands, Blönduósi – Norrænt textílþing og sýning.
Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á næsta ári með umsóknarfresti til 15. mars og 15. september.
Meðfylgjandi eru þrjár ljósmyndir – Ljósm.: Pétur Jónsson. Myndtextar:
Mynd 1: Guðrún Helgadóttir, formaður menningarráðs, afhendir styrkhöfum viðurkenningu.
Mynd 2: Styrkhafar Menningarstyrks Norðurlands vestra
Mynd 3: Menningarráð Norðurlands vestra og menningarfulltrúi
26.10.2007
Guðmundur Jónsson mun halda tónleika í Kántrýbæ, næstkomandi þriðjudagskvöld, 30. október 2007.
Tónleikarnir hefjast kl 21 og aðgangseyrir er kr.1.500,-
Eins og flestir vita er Guðmundur nýbúinn að gefa út þriðja diskinn (Fuður) í trílógíunni Japl, Jaml og Fuður.
23.10.2007
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Fisk Seafood boðið starfsmönnum fiskvinnslu á Skagaströnd að vinna við vinnslu félagsins á Sauðárkróki. Þegar þessi staða kom upp átti sveitarstjórn Skagastrandar fund með Jóni E. Friðrikssyni framkvæmdastjóra Fisk Seafood og fór yfir stöðuna. Þar skýrði Jón ástæður þess að starfsmönnum hafi verið gert fyrrgreint tilboð og kom m.a. fram að hann taldi ekki forsendur til óbreyttrar vinnslu á Skagaströnd í ljósi þeirrar kvótaskerðingar sem fyrirtækið hefur orðið fyrir.
Í framhaldi af þeim fundi átti sveitarstjórnin fund með starfsmönnum þar sem staða og horfur voru ræddar og hvaða valkosti starfsmenn hefðu. Starfsmenn hafa ekki svarað því enn hvort þeir fallist á breyttar forsendur í starfi og eru bæði þeir og forsvarsmenn Fisk Seafood að meta stöðuna.
03.10.2007
Dagbók
um ferð til Växjö, vinabæjar Skagastrandar í Svíþjóð, vegna þátttöku í menningarhátíð æskunnar 2007 dagana 19. – 24. september. Fulltrúi frá Skagaströnd var hljómsveitin S.P.O.R. sem samanstendur af Almari Frey Fannarssyni, Ómar Ísak Hjartarsyni, Kristjáni Ými Hjartarsyni, Sævari Hlyn Tryggvasyni og Þorsteini Ýmir Ásgeirssyni. Leiðsögumaður var Baldur Magnússon.
Ferðin var farin vegna boðs Växjö um þátttöku og var málið á forræði tómstunda- og menningarmálanefndar sveitarfélagsins Skagastrandar.
Växjö 19. september 2007
Utanferð
Ferðin út gekk mjög vel þrátt fyrir að hafa tekið samtals 16 tíma og þar af 8 í bið. Ferðin var annars viðburðarlítil og við fegnir að komast til áfangastaðarins Växjö rétt fyrir kl 19:00 að staðartíma.
Vel var tekið á móti okkur í Växjö. Strákarnir gistu hjá tveimur “fjölskyldum”, en þær eru sitthvor einbúinn. Annars vegar Rickard Magnusson “project manager” og tónlistarkennari við háskólann í Växjö og hins vegar Michael Ringdahl “project manager” og stjórnandi í “Musikhuset”. Ég gisti hinsvegar á Royal Corner og var sendur beint í kvöldmat með hinum stjórnendunum.
Växjö 20. September 2007
Dagur 1
Fyrsti dagurinn byrjaði snemma; kl 7:45 i tonlistarskola Växjö þar sem strákarnir fengu að fylgjast med kennslu/námi hjá popphljómsveit undir
stjórn kennara. Að tímunum loknum fengum við "guided tour" en það tók að sér síðhærður unglingssvíi sem sýndi strákunum m.a. þrjár tónlistarbúðir.
Eftir hádegi þann dag fengu þeir aðstöðu í tónlistarhúsi Växjö (Musikhuset) til æfinga en það er einskonar félagsmiðstöð hljómsveita ásamt annarri starfsemi sem er ekki eins áberandi. Eftir tveggja tíma æfingu fórum við niður í bæ og tókum púlsinn á pizzamenningu Växjö.
Svo var boðið uppá “Guitar comedy workshop” kl 17.00. Þetta var örugglega hápunktur dagsins en Svíinn Mattias Ia Eklund fór galdrafingrum um gítarinn sinn fyrir fullum sal af þungarokkurum (strákarnir okkar fengu heiðurssæti upp við sviðið) og sagði skemmtisögur af sjálfum sér um leið og hann kenndi mismunandi gítarstíla sem hann hafði tileinkað sér sem þungarokkari.
Kl 19:00 var boðið til veislu í tónlistarskólanum þar sem allir þáttakendur vinabæjanna mættu og ætlunin var að blanda saman fólkinu og gefa því tækifæri að kynnast hvort öðru. Eftir smá spark í rassinn fóru piltarnir okkar á kostum og voru Ómar og Almar hrókur alls fagnaðar hjá þeim sem þorðu að nálgast þessa síðhærðu villimenn.
Växjö 21. September 2007
Dagur 2
Mæting í sal Framhaldsskóla Växjö (Katedralskolan) kl 9.00 og byrjað að undirbúa hádegissýningu. Þar sem strákarnir voru með aðeins meira dót en danshóparnir og kórarnir voru þeir síðastir í prufu en þegar komið var að þeim var klukkan orðin 11 og tími til að byrja sýninguna svo þeir fengu enga vitræna hljóðprufu en þurftu að byrja strax að spila þar sem þeir voru fyrstir á svið.
Þeir byrjuðu á laginu um fuglana (Snert hörpu mína himinborna dís), Fjöllin hafa vakað, og enduðu á Krummi svaf í klettagjá. Undirtektir voru góðar (enda ungir svíar frekkar rokkaðir að því að mér sýndist.) en vegna hljóðprufunnar komu seinni lögin tvö ekki eins vel út og það fyrsta enda spila þeir þau tvö mun þyngra. Á eftir strákunum okkar komu svo kórar og danshópar og sýndu sín atriði en aðeins eitt atriði af átta komst nálægt því að vera jafn eftirminnilegt og þungarokkararnir okkar, bæði var tónlistin flott og þóttu þeir með skemmtilega sviðsframkomu og var bassaleikarinn (Kristján) nefndur þar fremstur meðal jafningja.
Strákarnir fengu svo smá frítíma fram til kl 17 en þá var mæting fyrir kvöldtónleikana. Eftir að búið var að hlaða öllum búnaði í kerru og spenna fyrir bíl var haldið útí sveitina norður af Växjö ásamt hljómsveitunum “Chamber 4” frá Växjö og “Kolkarma” frá Lundúnum Englandi. Þar var trommusetti og hljómflutningstækjum komið fyrir í staðnum “Pannkaghusett” sem er útihús sem búið er að breyta í einskonar kántrýbæ sem selur sænskar pönnukökur.
Strákarnir fengu góða hljóðprufu með atvinnurótara og komu fyrir vikið mun betur út en í hádeginu. Englendingarnir voru besta hljómsveit kvöldsins en Svíarnir stóðu strákunum (sem komu síðastir fram) langt að baki enda gerði söngvarinn þeirra ekki annað en arga eins og stunginn grís.
Áhorfendur voru svona eins og meðalkvöld í Kántrýbæ og kunnu vel að meta strákana eftir að hafa hlustað á Death-Metal á undan.
Växjö 22. septembar 2007.
Dagur 3
Eina skipulagða dagskráin fyrir strákana voru tónleikar um kvöldið svo þeir sváfu frameftir og fóru svo niður í bæ að skoða sig um og slæpast. Þeir mættu svo kl 17 í Musikhuset klukkan þar sem þeir funduðu saman og endurskoðuðu programið sitt og fækkuðu “cover” lögunum og settu inn meira af eigin efni. Þar sem þeir voru síðastir í hljóðprufu fórum við í bæinn og átum hamborgara og röltum aðeins áður en þeir byrjuðu í hljóðprufu með sama rótara og kvöldið áður.
S.P.O.R. byrjaði svo kvöldið fyrir fullum sal (Size: Fellsborg) og rokkaði feitt. Áhorfendur voru yngri en kvöldið áður og kunnu vel að meta strákana sem eignuðust allavega eina sænska grúppíu og nokkra aðdáendur sem báðu um að fá sent efni um email þegar það væri til.
Fjórar hljómsveitir fylgdu í kjölfarið, “Drowned in Despair” , “Kolkarma”, “Chamber 4” og svo rak “Elohim” lestina fyrir nánast tómum sal þar sem klukkan var orðin tólf og útivistartími sænskra unglinga útrunninn.
Strákarnir voru að mínu mati önnur besta hljómsveitin á eftir bretunum en samt eina hljómsveitin sem spilaði tónlist fyrir minn smekk.
Mjög vel heppnað kvöld.
Växjö 23. September 2007.
Dagur 4
Dagurinn hófst um hálf ellefu og byrjaði Michael á að fara með okkur í kjallara gallerí [Uffes Källare] þar sem listakennari [Rikkard Olofsson] var með sýningu á verkum sínum síðustu 3 mánaða. Strákarnir voru nú ekki yfir sig hrifnir af verkunum en skoðuðu þó galleríið og fiktuðu jafnvel í einu verkinu (en það var einmitt ætlast til þess) og var listamaðurinn mjög ánægður með það þar sem langflestir gesta hans hafi bara gengið framhjá verkinu stjarfir yfir fáránleikanum. Kjallarinn var líka einskonar tónlistarkompa og voru nöfn margra hljómsveita sem spilað höfðu í kjallaranum skrifaðar á veggina.
Að loknu hámenningarinnspýttinu forum við í hádegisverð í Växjö Concert Hall.
Næst var stefnan tekin út fyrir bæinn og farið í hið afskekkta “Red Pulse” studio þar sem hljóðtæknimaðurinn Johann (rótarinn frá kvöldtónleikunum) sýndi strákunum stúdíóið og svaraði spurningum þeirra. Strákarnir voru mjög hrifnir af stúdíóinu og þá sérstaklega staðsetningu þess… umlukið skógi stutt frá einu stærsta vatninu hjá Växjö. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir færu þangað aftur eftir 2-3 ár í upptökur.
Síðustu heimsókn dagsins var aflýst en það var heimsókn í annað studio þar sem ein stærsta meal-hljómsveit Svíþjóðar “Bullet” frá Växjö var að taka upp en einn úr hljómsveitinni þurfti að fara til Moskvu.
Þess í stað fór Michael með okkur að einum vatnsturna Växjö en undir honum er alveg magnað bergmál vegna hvelfingar sem höfð var neðaná tanknum… þar æptum við og örguðum og prufuðum bergmálið… mjög gaman.
Smá bið var svo þar til “Carmina Burana” hofst kl 17:00. Þar voru á ferð listamenn Växjö og vinabæjanna með magnaða uppsetningu á þessu snilldarverki eftir Orff. Strákarnir voru mis-hrifnir en ég held þó að þeir hafi allir haft gaman af “O Fortuna” hlutanum í upphafi og í lokin. Á eftir var svo boðið uppá kvöldverð með öllum þátttakendum sýningarinnar og öllum vinabæjar fulltrúum.
Að lokinni máltíðinni fékk ég afhentar gjafir til Skagastrandar sem átti að afhenda í Gala kvöldverðinum kvöldið áður en þar sem strákarnir voru að spila á sama tíma gat ég ekki mætt í það.
Svo var boðið uppá diskó fyrir unga fólkið sem stóð til hálf ellefu um kvöldið.
24. September 2007.
Heimferðardagur.
Rickard og Michael skutluðu okkur niður á lestarstöð þar sem menn kvöddust og þeim voru afhentar gjafir frá Skagaströnd.
Töluverð bið var eftir fluginu heim og var þeim stundum varið á Strikinu í Kaupmannahöfn þar sem farið var í verslanir og svo á “Believe it or not” safnið.
Heimferðin var svo frekar tíðindalítil en við keyrðum inní Skagaströnd á slaginu tvö að nóttu 25. sept.
Baldur Magnússon, leiðsögumaður.
02.10.2007
Námskeið um nýja nálgun í uppeldi og kennslu barna og unglinga var haldið á vegum Fræðsluskrifstofunnar þann 26. september s.l. í félagsheimilinu Ásbyrgi Laugarbakka.
Aðferðin sem kynnt var heitir „Uppeldi til ábyrgðar - uppbygging sjálfsaga.“ Hugmyndin byggir á að þroska siðferðisvitund nemenda og kenna þeim að breyta rétt, án utanaðkomandi umbunar eða refsingar. Þátttakendur fengu kynningu á kostum þess að nota þessa nálgun í skólastarfi.
Ítarlegra námskeið um hvernig virkja á þessa hugmyndafræði í starfi skólanna verður haldið í Höfðaskóla í nóvember. Fjörutíu og fimm starfmenn grunn- og leikskóla Húnavatnssýslna og Borðeyri sóttu kynninguna.
Mynd: Þátttakendur og Leiðbeinandi.
29.09.2007
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í hreppsnefnd Höfðahrepps þriðjudaginn 2. október 2007 á skrifstofu hreppsins kl 800.
Dagskrá:
Verkefni Héraðsnefndar A-Hún.
a. Félagsþjónusta A-Hún.
b. Embætti skipulags- og byggingarfulltrúa
c. Brunavarnir – rekstur slökkviliðs
Drög að reglugerð um lögreglusamþykktir.
Samþykkt um kattahald.
Umsóknir um styrki til Menningarráðs Norðurlands vestra
Bréf:
a) Landsskrifstofa Staðardagskrár 21, dags. 25. september 2007.
b) Menningarráðs Norðurlands vestra, 24. september 2007.
c) Umhverfisráðuneytisins, dags. 20. september 2007.
d) Áskorun um sundlaugarbyggingu
Fundargerðir:
a) Skipulags- og byggingarnefndar, 13.09.2007.
b) Hagsmunaaðila í úrgangsmálum, 16.08.2007.
c) Stjórnar Norðurár bs., 4.09.07.
d) Menningarráðs Norðurlands vestra, 21.09.2007.
e) Stjórnar SSNV, 23.08.2007.
f) Stjórnar SSNV, 19.09.2007.
g) Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 28.08.2007
h) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 30.08.2007.
Önnur mál
Sveitarstjóri
27.09.2007
Skrifstofa Menningarráðs Norðurlands vestra, að Bjarmanesi á Skagaströnd, var formlega opnuð föstudaginn 21. september sl.
Guðrún Helgadóttir, formaður ráðsins, bauð gesti velkomna. Í ræðu hennar kom fram að á þessu ári hafi fjórir nýir menningarfulltrúar verið ráðnir og með því hringnum lokað í samningum ríkis og sveitarfélaga um eflingu menningarstarfs á landsbyggðinni.
Formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Adolf H. Berndsen, óskaði íbúum svæðisins til hamingju með nýgerðan samning ríkis og SSNV en samningurinn er forsenda fyrir þeim nýju verkefnastyrkjum á sviði menningarmála sem auglýstir hafa verið.
Við opnunina söng Alexandra Chernyshova sópransöngkona nokkur lög en hún er búsett á Hofsósi og kennir m.a. við Tónlistarskóla Skagafjarðar.
Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi, lýsti þeirri von sinni að opnun skrifstofu og nýjar styrkveitingar myndu efla og auðga menningarstarf á Norðurlandi vestra. Þá sagði hann stuttlega frá sögu Bjarmaness, hússins þar sem skrifstofan er staðsett.
Menningarráð Norðurlands vestra auglýsti fyrstu úthlutun verkefnastyrkja í byrjun september en umsóknarfresturinn rennur út 1. október nk. Það eru því síðustu forvöð að sækja um.
Myndir: Ljósmyndari er Jón Sigurðsson
Alexandra Chernyshova sópransöngkona.
Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi og Guðrún Helgadóttir, formaður Menningarráðs Norðurlands vestra, við opnun skrifstofunnar.
25.09.2007
Með menningarsamningi gefst hugmyndaríku og fólki færi á að sækja um styrki til menningarstarfs og menningaratburða. Nú er lag til að láta til skara skríða í menningarmálum. Minnt er á að umsóknarfrestur til að skila inn umsóknum um verkefnastyrki í Menningarráð Norðurlands vestra rennur út 1. október nk. Verkefnastyrkjunum er úthlutað á grundvelli menningarsamnings ríkisins og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og til úthlutunar eru 30 mkr. á árinu 2007. Allar nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð eru að finna á heimasíðu SSNV: www.ssnv.is
Nánari upplýsingar veitir einnig Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra s. 892 3080 , netfang menning@ssnv.is
12.09.2007
Það tilkynnist hér með að haustgöngur fara fram laugardaginn 15. september sé fært leitarveður, ella þá næsta leitarfæran dag.
Göngurnar verða unnar af hestamannafélaginu Snarfara.
Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottósson.
Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir og hrossarétt Rögnvaldur Ottósson.
1. Göngur: Menn frá Hestamannafélaginu Snarfara smali svæðið frá Urriðalæk vestur yfir flárnar og Grasás yfir Ytri-Botnalæk í veg fyrir gangnamenn úr Skagabyggð. Heiðina vestan sýslumarka eftir venju til réttar, einnig Borgina utan skógræktargirðingar. Gert er ráð fyrir að gangnamenn úr Skagabyggð smali svæðið norðan Brandaskarðsgils milli Stallabrúna og Hrafnár til norðurs.
Fé og hross úr heiðinni og Borginni og úr heimahögum sé rekið að Spákonufellsrétt laugardaginn 15. september og réttað samdægurs. Bæði fjárrétt og hrossarétt verður þann dag.
Ber eigendum að vera þar til staðar og hirða búfé sitt svo að réttarstörfum verði lokið fyrr en dimmt er orðið.
2. Eftirleit fer fram laugardaginn 22. september verði bjart veður ella næsta leitarfæran dag.
Í eftirleit leggi þessir til menn:
Ásgeir Axelsson 2 menn
Rögnvaldur Ottósson 2 menn
Eðvarð Ingvason 1 mann
Rúnar Jósefsson 1 mann
Gangnaforingi verði Rögnvaldur Ottósson
3. Fjárskil verða sunnudaginn 30. september á Sölvabakka á þau mæti Ásgeir Axelsson fyrir fjallskiladeild Skagastrandar
4. Útréttir:
Í fyrri Fossárrétt hirðir Gunnlaugur Sigmarsson
Í seinni Fossárrétt hirðir Rögnvaldur Ottósson
Í seinni Kjalarlandsrétt hirðir Eðvarð Ingvason
5. Smölun heimalanda: Fjáreigendur eru hvattir til að hreinsa vel landspildur sínar af öðru búfé en þeirra eigin fyrir göngur sem og eftirleit, svo að göngur og réttir geti orðið árangursríkar.
Að öðru leyti en hér er tekið fram eru skyldur og réttindi manna samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Austur - Húnavatnssýslu.
Greiðslur til og frá fjallskilasjóði fara fram hjá sveitarstjóra.
Skagaströnd 12. september 2007
_________________________________
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.
12.09.2007
Lárus Ægir Guðmundsson hefur fjárfest í nýjum bíl, svörtum eðalvagni af Toyotu gerð.
Eftir 550.000 kílómetra akstur á gömlu Toyotunni í samfellt 16 ár hefur Lárus loksins keypt sér nýjan bíl.
Gamla gráa Toyotan er því til sölu, fæst fyrir lítið að sögn fróðra manna.