Fréttir

Nýr matslisti Gerd Strand

Nýr matslisti Gerd Strand til að meta færni sjö ára skólanemenda er nú komin út á vegum fræðsluskrifstofu Austur Húnavatnssýslu. Hefur verið unnið að gerð listans í þrjú ár af sérkennurum í húnvetnskum skólum ásamt fræðslustjóra A-Hún. Listinn er byggður upp af safni spurninga úr helstu færni- og getuþáttum sem hafa áhrif á nám og líðan nemenda í grunnskólum. Það eru sérkennararnir Gréta Björnsdóttir, Guðbjörg I. Guðmundsdóttir og Helga Ó. Aradóttir sem unnið hafa listann ásamt þeim Sigríði B. Aadnegard leik- og grunnskólakennara og Guðjóni Ólafssyni sérkennslufræðingi og fræðslustjóra sem stýrði verkinu. Að sögn höfundanna er hér komið tæki sem stuðlar að enn faglegri og markvissari vinnubrögðum í grunnskólum. Matslistinn veitir foreldrum og kennurum mikilvægar upplýsingar um stöðu nemandans í ákveðnum færni – og getuþáttum. Þær upplýsingar auðvelda síðan fagfólki skólanna að koma til móts við þarfir hvers og eins nemanda á réttum forsendum. Matslistinn byggir á níu spurningaflokkum sem allir hafa mikla þýðingu í sambandi við nám og skólagöngu sjö ára barna. Spurningaflokkarnir varða: málþroska, eftirtekt/einbeitingu, fljótfærni/hvatvísi, virkni, samskipti, fín-og grófhreyfingar, sértæka erfiðleika, tilfinningar og líðan og almennan skilning og þekkingu. Allt eru þetta flokkar sem mikilvægt er fyrir kennara og foreldra að hafa sem réttasta mynd af til að nám og líðan viðkomandi nemanda verði sem best. Þróunarsjóður grunnskóla veitti tvisvar styrki til að matslistinn gæti orðið að veruleika auk þess sem húnvetnsku skólarnir veittu liðsinni sitt með vinnuframlagi kennara sinna. Listinn hefur verið þaulprófaður og hefur hann staðist allar prófanir og því má fullyrða að hann mæli rétt og vel það sem honum er ætlað og gefi því áreiðanlegar upplýsingar. Einnig hafa sérfræðingar eins og sálfræðingar, talmeinafræðingur, iðjuþjálfi og aðrir á hinum ýmsu sviðum lagt höfundunum lið. Þessi nýji matslisti Gerd Strand hefur verið kynntur á nokkrum stöðum fyrir fagfólki og er það samdóma álit þess fólks að hér sé um að ræða kærkomið hjálpartæki fyrir grunnskólana. Þannig hefur þegar verið ákveðið að taka listann í notkun í grunnskólum Hafnafjarðar, Dalvíkur og Ólafsfjarðar strax og hann kæmi út í endanlegri útgáfu. Matslista Gerd Strand fyrir sjö ára nemendur í grunnskóla geta áhugasamir nálgast hjá skrifstofu Héraðsnefndar A-Hún á Blönduósi.

Norðvestlendingur ársins 2007

Börnin á Skagaströnd Feykir í samstarfi við Húnahornið og Skagafjörð.com stóð á dögunum fyrir kosningum um það hvaða einstaklingur eða hópur væri að þeirra mati Norðvestlendingur ársins 2007. Þegar búið var að taka saman tölvupóstkosningu og netkosningu á miðlunum báðum stóðu börnin á Skagaströnd uppi sem sigurvegarar. Í öðru sæti varð Þórarinn Eymundsson hestamaður í Skagafirði og þriðji varð Björn Þór Kristjánsson, ferðaþjónustuaðili í Austur Húnavatnssýslu. Feyki var boðið í félagsheimilið á Skagaströnd síðast liðinn föstudag en þar var sveitarstjórinn að afhenda nemendum 6. bekkjar greiðslu fyrir vinaarmbönd sem börnin höfðu hnýtt handa bæjarbúum. Launin, 25 þúsund krónur, gengu til Rauða kross Íslands og munu verða nýtt í barnahjálp. Því næst hélt skólastjórinn yfir þeim tölu og sagði börnunum litla sögu frá því er hún þar sem hún var stödd í kennslustund í fjarnámi sínu á Akureyri, fékk fréttirnar af því að börnin hennar á Skagaströnd hefðu verið tilnefnd sem Norðvestlendingar ársins. Sagði Hildur að bara það að vera útnefndur væri mikill heiður fyrir þau og hún væri svo sannarlega stolt af þeim. Þakið ætlaði síðan af húsinu er börnunum var tilkynnt að þau hefðu með þeirra orðalagi “rústað” keppninni og væru Norðvestlendingar ársins 2007. Flottir krakkar Hildur Ingólfsdóttir, skólastjóri Höfðaskóla var að vonum stolt af sínum börnum og sagði að það hefði komið sér þægilega á óvart að einhver annar en heimamenn hefði tekið eftir afrekum krakkanna. –Þau eru mjög dugleg þessi hópur og samhent. Það er líka gaman að segja frá því að þegar það er eitthvað sem þeim mislíkar hér í skólanum eru þau dugleg að safna undirskriftum til þess að fá því breytt. Við reynum þá að hlusta á þau og koma til móts við þau og þannig höfum við náð að vinna vel saman. Eins lögðu krakkarnir sem tóku þátt í Reyklaus í fyrra, mikið á sig og var verkefni þeirra stórglæsilegt og engin heppni að þau unnu þá keppni heldur var það verð skuldað, segir stoltur skólastjóri. Í sama streng tekur sveitarstjórinn sem segir að börnin séu dugleg að koma til sín og ræða málin og benda á hvað þeim þyki að betur mætti fara. Það er ekki af ástæðulausu sem börnin á Skagaströnd voru tilnefnd sem Norðvestlendingar ársins enda komust þau ósjaldan í fréttirnar síðasta árið fyrir afrek sín. Afrek sem verðskuldað veittu þeim titilinn Norðvestlendingur ársins. Afrekaskráin Fyrsta afrek þeirra sem til er tekið, var þegar hópur úr skólanum tók þátt í Skólahreysti sem er keppni milli grunnskóla landsins og fer þannig fram að 4 keppendur koma frá hverjum skóla og etja kappi í 5 greinum sem tengjast þoli, styrk og snerpu. Hér má sjá hluta úr frétt frá því snemma á árinu – Í undankeppninni s.l. fimmtudag tóku alls 9 skólar víðsvegar að frá Norðurlandi þátt. Keppnin var æsispennandi allan tímann, ekki bara inni á vellinum heldur líka í áhorfendastúkunni og létu nemendur Höfðaskóla ekki sitt eftir liggja þar, frekar en í keppninni sjálfri. Keppendur Höfðaskóla þau Ingimar Vignisson, Patrik Snær Bjarnason, Silfá Sjöfn Árnadóttir og Sólrún Ágústa stóðu sig mjög vel og hafnaði liðið í 3. sæti, á eftir Borgarhólsskóla frá Húsavík sem varð í 2. sæti og Grunnskóla Siglufjarðar sem sigraði þessa umferð. Glæsilegur árangur hjá keppendum Höfðaskóla og eiga þau og þjálfari þeirra, Helena Bjarndís Bjarnadóttir íþróttakennari hrós skilið. Liðið lagði mikið á sig og æfði vel fyrir keppnina, fór m.a. í æfingaferð í Voga á Vatnsleysuströnd þar sem finna má útihreystibraut sem hentaði vel til æfinga fyrir Skólahreystina. Annað afrek krakkanna var þegar þau tóku þátt í keppninni Reyklaus sem er Evrópusamkeppni meðal reyklausra 7. – 8. bekkja. Að launum hlutu þau Danmerkurferð fyrir bekkinn. Sýnum brot úr gamalli frétt. -Til að eiga möguleika á að vinna til fyrstu verðlauna þurftu bekkirnir að senda inn áhugavert efni tengt tóbaksvörnum. Nánari útfærsla var ekki tilgreind til að þrengja ekki hugmyndir að verkefnum. Í ár, eins og áður, bárust mjög mörg vel unnin verkefni og var þriggja manna dómnefnd vandi á höndum að velja sigurvegara. Alls bárust 90 lokaverkefni og voru mörg frábærlega unnin, bæði hvað varðar hugmyndir og útfærslu. Verkefni 8. bekkjar Höfðaskóla á Skagaströnd var mjög viðamikið og er greinilegtað bæði var lagður mikill metnaður og heilmikið starf í alla þætti þess. Gaman er að er geta þess að Höfðaskóli hefur áður hlotið fyrstu verðlaun í þessari samkeppni, en það var fyrir 6 árum síðan. Eitthvað þótti krökkunum á Skagaströnd lítið til sundlaugar staðarins koma og tóku nokkrir krakkar sig til og söfnuðu undirskriftum þar sem óskað var eftir því að byggð yrði ný sundlaug í bænum. Gengu þau á milli húsa, kynntu sinn málstað og söfnuðu undirskriftum sem síðan voru afhentar sveitarstjórn. Sem í framhaldinu samþykkt að athuga kostnað við að byggja nýja sundlaug. Á haustdögum komu nemendur í 6. bekk Höfðaskóla til fundar við sveitarstjórann. Erindi krakkanna var það að þau ætluðu að hnýta vinaarmbönd handa öllum bæjarbúum. Báðu þau sveitarstjóra um að kaupa af sér armböndin en ágóðinn átti að renna til Rauða kross Íslands. Síðast en ekki síst björguðu þau horaða jólatrénu. Forsaga þess máls var að þegar kveikt var á jólatré bæjarbúa í miðbænum kom í ljós að tréð sem keypt hafði verið þetta árið þótti ákaflega rýrt. Létu bæjarbúar óánægju sína í ljós og var ákveðið að skipta því út fyrir fallegra tré. Ekki fannst börnunum þetta vera í anda jólanna og stóðu fyrir undirskriftasöfnun trénu til bjargar auk þess að standa vörð um tréð. Það varð því úr að nýja “flotta” tréð fór upp í miðbænum en hið rýra var sett upp við kirkjuna. Heimild: Feykir Myndir:ÁGI

Stuðningur og styrkur til ferðaþjónustu / atvinnulífs - Nýsköpun.

Vakin er athygli á möguleika til að sækja um ýmsa styrki til feðaþjónustu og atvinnulífs.Sjá auglýsingu Byggðastofnunar http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/Aug-1.pdf Byggðastofnun, styrkir vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar 100 milljónir 2008 til eflingar atvinnu og nýsköpunar. Bundið við svæði sem verst hafa orðið úti vegna kvótaskerðingar. Í A-Hún fellur Skagaströnd undir þá skilgreiningu Frestur til 19. febrúar 2008. Umsóknarblöð á www.byggdastofnun.is og www.ssnv.is Ferðamaálastofa, styrkir til úrbóta á ferðamannastöðum . Frestur til 28. janúar 2008. Sjá á www.ferdamalastofa.is Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar, 160 milljónir til ferðaþjónustu. Umsóknarblöð, á www.ferdamalastofa.is Frestur til 5. febrúar 2008. Atvinnuráðgjafar SSNV veita aðstoð og upplýsingar vegna umsókna. Upplýsingar á www.ssnv.is

Pistill frá formanni Umf. Fram

Ágætu foreldrar og forráðamenn. Ég vil fyrir hönd félagsins byrja á að þakka ykkur fyrir samstarfið það sem af er vetri. Þátttaka barnanna í íþróttastarfi félagsins nú í haust hefur verið með ágætum. Birna og Ágúst munu halda áfram að sjá um þjálfun á vegum félagsins en gerðar hafa verið lítilsháttar breytingar á stundatöflunni en þær hafa þegar verið auglýstar í Höfðaskóla. Því miður lítur ekki út fyrir að hægt verði að halda áfram að sækja sameiginlegar frjálsíþróttaæfingar á vegum USAH á Blönduósi, eins og gert var fyrir áramót, þar sem ekki hefur fengist þjálfari til að sjá um þær æfingar. Við munum hins vegar halda okkar striki hér heima í staðinn. Fyrirhugað er að byrja með skíðaferðir upp í Tindastól næsta laugardag (19. janúar) þar sem útlit er fyrir að nú sé kominn vetur og nægur snjór verði í fjallinu. Öllum er frjálst að nýta sér ferðirnar svo lengi sem pláss leyfir í rútunni. Gert er ráð fyrir að börn fædd árið 1996 og fyrr geti farið án fullorðinna en yngri börn þurfa að vera á ábyrgð einhvers fullorðins. LAGT VERÐUR AF STAÐ FRÁ ÍÞRÓTTAHÚSINU KL. 12:00 og miðað verður við að heimkoma verði á milli 17:00 og 18:00. Hver og einn verður að sjá um nesti og lyftugjöld fyrir sig. Gert er ráð fyrir að ferðirnar haldi áfram með þessum hætti þangað til annað verður auglýst. Svipað fyrirkomulag verður haft á innheimtu æfingagjalda nú á vormisseri eins og áður. Æfingagjöldin, 10.000 kr, eru aðgöngumiði að öllum æfingunum þ.e. ekki þarf að greiða sér fyrir fótbolta og sér fyrir íþróttaskóla. Veittur verður 25% systkinaafsláttur fyrir börn frá sama heimili. Rétt er að minna fólk á að nýta sér frístundakort sveitarfélagsins til endurgreiðslu á æfingargjöldum. GJAFIR VERÐA VEITTAR ÞEIM SEM GREITT HAFA ÆFINGAGJÖLDIN FYRIR 01.03.08. Kveðja, Halldór G. Ólafsson formaður Umf. Fram

Sérstakar aðstæður í snjónum.

Mjög sérstakar aðstæður sköpuðust í snjóþekjunni sem lá yfir á Skagaströnd í gærkvöldi (miðvikudag). Jafnfallin lausamjöll hafði lagst yfir og þegar kvöldaði lækkaði hitastigið en jafnframt hvessti hressilega. Í stað þess að snjóinn færi að skafa eins og oftast er við þessar aðstæður rúllaðist hann upp í mismundandi stóra snjóbolta. Þessi snjóboltagerð náttúrunnar blasti svo við íbúunum í morgun og ljómaði í hádegissólinni.

Flugeldasala 2007.

Björgunarsveitin Strönd og UMF. Fram voru með sína árlega flugeldasölu í áhaldahúsi staðarins. Að venju var dregið úr bónuspotti en þeir sem versluðu fyrir 25.000 krónur eða meira komust í pottinn. Eftir lokun þann 31.des. var dregið úr pottinum og sá heppni þetta árið var Kristján Pétur Guðjónsson. Að sjálfsögðu voru verðlaunin vegleg flugeldaveisla. Flugeldasalan er ein mikilvægasta fjáröflun félaganna og þakka þau veittan stuðning í gegnum árin.

Skrifað undir vaxtasamning Norðurlands vestra á Sauðárkróki

Skrifað var undir fyrsta Vaxtasamning Norðurlands vestra á Sauðárkróki í dag. Samningurinn er til þriggja ára og er framlag ríkisins samtals um 90 milljónir króna. Miklar vonir eru bundnar við samninginn. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skrifaði undir samninginn fyrir hönd ríkisins en Adolf Berndsen formaður sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, skrifaði undir fyrir hönd heimamanna. Sérstök áhersla verður lögð á tvo klasa, annars vegar menntun og rannsóknir og hins vegar menningu og ferðaþjónustu. Með samningnum skuldbindur iðnaðarráðuneytið sig til að greiða 90 milljónir til verkefnanna á næstu þremur árum og er það hluti af mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar þorskkvótans. Við sama tækifæri var undirritaður viðaukasamningur við vaxtarsamning sem er samningur fyrirtækja og stofnana um aðkomu að vaxtarsamningi í formi fjármagns, sérfræðivinnu eða aðstöðu. 17 fyrirtæki og stofnanir eru aðilar að samningnum og nema framlög þeirra samtals um 56,4 milljónum króna á samningstímanum, en þau eru; SSNV atvinnuþróun, Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélagið Aldan,Landsvirkjun, Kaupþing banki, Byggðastofnun, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst, Nýsköpunarmiðstöð, Veiðimálastofnun, Menningarráð Norðurlands vestra, Verið- vísindagarðar, Biopol, Selasetur Íslands og Forsvar. Heimild: Húnahornið

Hver verður Norðvestlendingur ársins ?

Eftirfarandi frétt birtist á Húnahorninu og er vitnað í héraðsfréttablaðið Feyki. Tökum þátt í skemmtilegri kosningu Feykir mun nú í fyrsta sinn vera með kosningu á þeim íbúa, eða hópi, á Norðurlandi vestra sem þykir hafa skarað fram úr á árinu sem nú er liðið. Valdir voru 10 einstaklingar eða hópar sem unnið hafa til afreka, hver á sínu sviði, á árinu og munu lesendur Feykis, Húnahornsins og Skagafjarðar.com geta kosið um það hver eigi útnefninguna mest skilið. Það var ekki auðvelt að takmarka fjöldann við 10 aðila og margir fleiri hefðu átt skilið að vera útnefndir. Lesendur Feykis geta sent tölvupóst á feykir@nyprent.is og skilað þannig sínu atkvæði en einnig verður hægt að kjósa á Húnahorninu og Skagafirði.com. Þórarinn Eymundsson, hestamaður á Sauðárkróki. Þórarinn vann sér keppnisrétt á Heimsmeistaramótið í hestaíþróttum 2007, á úrtökumótum sem LH heldur fyrir HM. Á þeim mótum vann hann glæsilega bæði tölt og fimmgang á hestinum Krafti frá Bringu. Þeir félagar héldu sigurgöngu sinni áfram á Íslandsmótinu en Þórarinn er Íslandsmeistari í tölti og fimmgangi. Þetta er annað árið í röð sem þeir vinna þessa báða titla og er það einstakt afrek í sögu hestaíþrótta. Þórarinn vann svo tvö gull á HM í Hollandi, í fimmgangi og sem samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum. Einnig vann hann silfurverðlaun í tölti. Helga Margrét Þorsteinsdóttir frjálsíþróttakona USVH. Helga Margrét hefur þrátt fyrir ungan aldur náð frábærum árangri og hefur sannað sig sem alhliða frjálsíþróttakona. En Margrét var aðeins hársbreidd frá því að slá Íslandsmet kvenna í sjöþraut á árinu. Björn Þór Kristjánsson, ferðaþjónustumógúll í Austur-Húnavatnssýslu. Björn Þór opnaði í samstarfi við aðra veitingastaðinn Pottinn og pönnuna á Blönduósi í sumar samhliða því að vera með ferðaþjónustu á Húnavöllum og vera í forsvari fyrir hópi sem er að byggja upp þjónustu við ferðamenn á Hveravöllum. Björn Þór er ekki einungis maður hugmynda hann er einnig maður framkvæmda. Börnin á Skagaströnd. Börnin á Skagaströnd eru engum lík, þau höfnuðu í þriðja sæti í Skólafitness á Norðurlandi og sigruðu skólakeppnina Reyklaus. Þegar þau langaði í nýja sundlaug fóru þau af stað og söfnuðu undirskriftum og skiluðu inn til sveitarstjórnar og komu þannig hreyfingu á málin. Aftur voru þau á ferðinni þegar henda átti jólatré bæjarins og fá nýtt sökum hversu horað tréð var. Horaða trénu var fundinn nýr staður. Þá seldur þau bænum eitt vinaband á hvern íbúa bæjarins til þess að safna fé fyrir Rauða Krossinn. Með æsku sem þessa er engu að kvíða í málefnum íbúa Skagastrandar. Lilja Pálmadóttir Hofi og Steinunn Jónsdóttir Bæ á Höfðaströnd. Þessar ungu konur komu að máli við sveitarstjórn Skagafjarðar og ætla að gefa sveitarfélaginu sundlaug með tilheyrandi aðstöðu á Hofsósi. Húsfreyjurnar á Vatnsnesi. Húsfreyjurnar standa á sumrin fyrir glæsilegu Fjöruhlaðborði og á haustin tekur við sviðaveisla. Þá gáfu þær sveitarfélaginu 1,5 milljón króna til þess að byggja við félagsheimilið á Vatnsnesi. Kraftakerlingar þarna á ferð. Alexandra Chernyshova, söngkona Hofsósi. Alexandra sem er í forsvari fyrir Óperu Skagafjarðar stóð fyrir uppsetningu á La Traviata á árinu. Uppsetningin fékk frábæra dóma og hefur Ópera Skagafjarðar sýnt La Traviata fyrir fullu húsi vítt og breytt um landið síðustu mánuði. Jakob Jónsson, Léttitækni á Blönduósi. Jakob er í forsvari fyrir fyrirtæki sem er eitt það fremsta í sinni röð hér á landi. Léttitækni sérhæfir sig í öllum lausnum þegar kemur að lagerhaldi fyrirtækja auk þess að vera með, eins og nafnið gefur til kynna, ýmis léttitæki. Fyrirtækið er í örum vexti en engu að síður segir Jakob að það borgi sig að reka höfuðsvöðvar þess heima á Blönduósi og vera með útibú í Reykjavík. Sigríður Sigurðardóttir, Safnstjóri Byggðasafns Skagafjarðar. Sigríður hefur gengt þessu ári í 20 ár og var nú í haust haldið sérstakt málþing tileinkað Sigríði og hennar störfum. Varla er haldin sú sýning í Skagafirði að Sigríður eigi ekki þar einhvern hlut að máli og eru fáir sem sinna starfi sínu að jafn mikilli ástríðu og Sigríður. Aðstandendur Húnahornsins. Húni.is er heimasíða þar sem finna má fréttir og fróðleik af mannlífi í Húnavatnssýslum. Heimasíðan er rekin af áhugafólki um mannlíf á svæðinu og algjörlega í sjálfboðavinnu. Engu að síður er heimasíðan uppfærð oft á dag og nær að vera einstaklega lifandi og skemmtileg.

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar - Ferðaþjónusta

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til eflingar ferðaþjónustu - Auglýst er eftir umsóknum Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita alls 160 milljónum króna til eflingar ferðaþjónustu á þeim svæðum sem verða fyrir aflasamdrætti vegna skerðingar á veiðiheimildum. Auglýst er eftir umsóknum um stuðning við verkefni til atvinnusköpunar í ferðaþjónustu á ofangreindum svæðum. Umsækjendur geta verið sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki og er hámarksstyrkur til hvers verkefnis 8 milljónir kr. Verkefnin verði unnin á árunum 2008-2009 og verður styrkurinn greiddur í tvennu lagi, helmingur hvort ár. Seinni greiðslan er háð árangursmælingu í samræmi við ákvæði í umsókn, en hver umsækjandi gerir tillögu að árangursmælikvarða fyrir viðkomandi verkefni. Við afgreiðslu umsókna verður sérstaklega litið til langtímaáhrifa verkefna á sköpun nýrra starfa á svæðunum og hversu hratt störfin geta orðið til. Ekki er um að ræða styrki til menntunar eða rannsókna. Umsóknum skal skila á sérstökum umsóknareyðublöðum, sem hægt er að nálgast á vefsíðum Byggðastofnunar ( www.byggdastofnun.is ) og Ferðamálastofu ( www.ferdamalastofa.is ) Umsóknum skal skila til Byggðastofnunar, Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki eða Ferðamálastofu, Lækjargötu 3, 101 Reykjavík fyrir 5. febrúar 2008. Nánari upplýsingar gefur Helga Haraldsdóttir, Iðnaðarráðuneyti.

Áhugafólk um uppbyggingu á ferðaþjónustu

ÁHUGAFÓLK UM UPPBYGGINGU Á FERÐAÞJÓNUSTU Fundur verður haldinn í Fellsborg fimmtudaginn 10. janúar næstkomandi kl. 18:00. Á fundinum verður farið yfir nýja möguleika er varða styrkveitingar til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Einnig verður kynning á skýrslu sem var útbúin fyrir atvinnumálanefnd Skagastrandar um möguleika í ferðaþjónustu á Skagaströnd. Á fundinn mæta atvinnuráðgjafi og menningarfulltrúi frá SSNV. Allir sem hafa áhuga á uppbyggingu ferðaþjónustu eða standa í slíkum rekstri eru hvattir til að mæta og kynna sér málin. Atvinnumálanefnd Skagastrandar og SSNV atvinnuþróun