05.09.2007
Háskólinn á Akureyri og BioPol ehf, nýtt sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd, skrifuðu í dag undir samning um samstarf á sviði sjávarlíftækni. Jákvæð áhrif á byggðarþróun á Skagaströnd. Styrkum stoðum rennt undir nýtt rannsóknarfyrirtæki í sjávarútvegi.
Rannsóknir á lífríki Húnaflóa eru meðal þess sem ráðist verður í samkvæmt nýjum samningi á milli BioPol ehf. og Háskólans á Akureyri. BioPol ehf. er nýtt sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd sem er ætlað að standa að margvíslegum rannsóknum m.a. á lífríki Húnaflóa, líftækni og nýsköpun.
„Ætlun okkar er að stuðla að nýjum áherslum í atvinnumálum á Skagaströnd,“ segir Adolf Berndsen, oddviti Skagastrandar og stjórnarformaður BioPol. „Í kjölfar þeirra breytinga sem hafa orðið á sjávarútvegi Íslendinga er gríðarlega mikilvægt að atvinnulífið sé vakandi fyrir tækifærum í sjávarútvegi. Okkar von er að þetta fyrirtæki komi til með að vera brautryðjandi í rannsóknum á lífríki hafsins og skapa fjölmörg störf í sjávarbyggðum allt í kringum Ísland, þegar fram líða stundir. Þess má til dæmis geta að talið er að aðeins um 1% lífvera sjávar hafi verið kannaðar að einhverju marki og því eru viðfangsefnin nær óþrjótandi.“
Jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun
Bæði forsvarsmenn BioPol og Háskólans á Akureyri eru bjartsýnir á að stofnun fyrirtækisins og samningurinn muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun á svæðinu. Þá mun samstarfið ótvírætt stuðla að aukinni þekkingu á helstu auðlind Íslendinga, hafinu sem umlykur landið. Þessu til viðbótar mun samningurinn efla hagnýtar rannsóknir á sviði sjávarlíftækni, sem getur haft í för með sér umtalsverða verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag.
Eins og áður sagði mun kjarnastarfsemi BioPol ehf. byggja á rannsóknum á lífríki Húnaflóa, rannsóknum á vettvangi líftækni, nýsköpunar og markaðsetningu á afurðum líftækni úr sjávarlífverum. Auk þess verður fræðsla á háskólastigi í tengslum við fyrrgreindar rannsóknir ásamt varðveislu lífsýna úr sjávarlífríki við Ísland.
Þá er ætlunin að BioPol ehf. og Háskólinn standi árlega saman að málstofu um sjávarlíftækni þar sem farið verður yfir stöðu verkefna sem samstarfið hefur leitt af sér og ávinning af samstarfinu. Auk þess skal stefnt að því að opna netsvæði þar sem safnað verður saman upplýsingum um rannsóknarverkefni samstarfsaðila á sviði sjávarlíftækni.
Í eigu Skagastrandar
Undanfarna mánuði hefur Sveitarfélagið Skagaströnd unnið að stofnun setursins í samvinnu við ýmsa aðila. Sveitarfélagið er nú eigandi setursins en ætlunin er að fjölga hluthöfum og samstarfsaðilum á næstu misserum. Í stjórn BioPol ehf. sitja fimm manns og mun Háskólinn á Akureyri skipa einn þeirra án tillits til eignarhalds eða eignaraðildar. Dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor í viðskipta og raunvísindadeild HA verður fulltrúi skólans í stjórninni.
Meginmarkmið samningsins við Háskólann á Akureyri er að efla samstarf varðandi rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknarverkefni og liggur helsti styrkleiki samstarfsins í samlegð ólíkrar sérfræðiþekkingar og þar með meiri líkum á árangri stærri rannsókna- og þróunarverkefna.
Fyrir á Skagaströnd er líftæknifyrirtækið Zero ehf. sem vinnur að framleiðslu bragðefna með sérþróuðum aðferðum sem gerir fyrirtækið einstak í sinni röð í heiminum.
Samnýting fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar
Einnig er stefnt að aukinni samnýtingu fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar til þess að stuðla að framgangi hagnýtra rannsókna á sviði sjávarlíftækni og þar með hugsanlega verðmætasköpun. Ætlunin er að Háskólinn á Akureyri hafi aðgang að húsakynnum, búnaði og gögnum BioPol ehf. til kennslu og rannsókna á sviði sjávarlíftækni og annarra þeirra verkefna sem tengjast starfseminni.
Verkefnisstjóri, með þekkingu á sjávarlíftækni, hagnýtri örverufræði, vinnslutækni matvæla, nýsköpunar og atvinnuþróunar, mun koma frá Háskólanum. Hlutverk hans verður fyrst og fremst mótun faglegra áherslna samstarfsins og umsjón rannsóknarverkefna.
BioPol ehf. leggur til aðgengi að sérfræðiþekkingu og aðstoð við mótun rannsóknarverkefna og útfærslu þeirra. Skipuð verður sameiginleg stýrinefnd sem hefur það hlutverk að sjá um framkvæmd samningsins og undirsamninga sem honum tengjast. Árangur samstarfsins verður metinn af nefndinni, en í henni munu eiga sæti tveir fulltrúar frá hvorum aðila og mun hún funda a.m.k. á sex mánaða fresti.
Formleg undirskrift samningsins var miðvikudaginn 5. september kl. 11.00 í anddyri Borga, Háskólanum á Akureyri. Samninginn undirrituðu Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans og Adolf H. Berndsen, stjórnarformaður BioPol ehf. og oddviti Skagastrandar.
Frekari upplýsingar gefa:
Halldór G. Ólafsson
framkvæmdastjóri BioPol ehf.
Sími 8570443
Dr. Hjörleifur Einarsson
Prófessor við Háskólann á Akureyri
Sími: 8969611
Magnús B. Jónsson
sveitarstjóri Skagastrandar
Sími 455 2700
05.09.2007
Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á sviði menningarmála vegna ársins 2007.
Um verkefnastyrki á grundvelli menningarsaming ríkisins og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar úthlutunarreglur og sérstakar áherslur ársins 2007, menningarsamninginn og stefnumótun í menningarmálum á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð.
Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að árið 2007 hafi þau verkefni forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:
Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað.
Nýsköpun á sviði lista, menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu.
Umsókn ásamt greinargóðri lýsingu á verkefninu með verk- og fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur og ábyrgðaraðila skal send Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Bjarmanesi, 545 Skagaströnd eigi síðar en 1. október 2007.
Nánari upplýsingar veita Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra s. 892 3080, netfang menning@ssnv.is og Guðrún Helgadóttir formaður Menningarráðs Norðurlands vestra, s. 453 6585, netfang gudr@holar.is.
04.09.2007
Starfsmaður óskast sem leiðbeinandi í félagsstarfi eldri borgara.
Um er að ræða 50% starfshlutfall í afleysingu fram að áramótum vegna veikinda starfsmanns.
Félagsstarfið er í Fellsborg mánudaga og fimmtudaga kl 13-17.
Umsóknarfrestur er til 11. september nk.
Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.
Sveitarstjóri
04.09.2007
Kæru Skagstrendingar
Í ljósi þess að ýmislegt hefur verið til meðferðar og umfjöllunar sem ástæða er til að skýra og kynna er ykkur nú sent þetta fréttabréf.
Nýtt nafn
Nafni sveitarfélagsins hefur verið breytt og heitir það nú Sveitarfélagið Skagaströnd frá 1. september 2007. Nafnabreytingin er gerð í framhaldi af ákvörðun hreppsnefndar Höfðahrepps 12. júní sl. og byggðist m.a. á skoðanakönnun á meðal íbúanna.
Skólamáltíðir
Á fundi sínum 27. ágúst sl. ákvað sveitarstjórn að taka upp skólamáltíðir við Höfðaskóla. Í framhaldi af þeirri ákvörðun hefur verið samið við Kántrýbæ um að taka að sér matreiðslu og sjá fyrir aðstöðu. Hefjast skólamáltíðir þar mánudaginn 17. september nk. Nemendur þurfa að skrá sig í máltíðir þrjá eða fjóra daga vikunnar, mánudaga til fimmtudaga. Hver máltíð kostar 250 krónur og er þar einungis rukkað fyrir áætluðum hráefniskostnaði.
Skólastjóri hefur þegar sent forráðamönnum skólabarna kynningarbréf og eyðublað til skráningar.
Frístundakort
Á síðasta fundi hreppsnefndar Höfðahrepps 27. ágúst sl. var samþykkt að gefa út frístundakort fyrir alla einstaklinga í sveitarfélaginu á grunnskólaaldri. Fyrirkomulag frístundakortsins verður þannig:
· Að það nýtist til skipulegs íþrótta- og æskulýðsstarfs á Skagaströnd.
· Að það sé til greiðslu fyrir allt að 15.000 króna þátttökugjöldum á tímabilinu 1. september 2007 til 31. ágúst 2008.
· Að það nái til starfsemi íþróttafélaga og skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur 6 vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjöldum. Kortið getur náð til allrar frístundaiðkunar, þ.m.t. tónlistar- og listnáms.
· Að sú starfsemi sem frístundakortið getur náð til sé viðurkennd af sveitarstjórn. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarstjórnar.
Framkvæmd notkunar frístundakortsins verður þannig að foreldrar greiða fyrir námskeiðið og koma með kvittun á skrifstofu sveitarfélagsins þar sem þeir fá endurgreitt allt að 15.000 kr. fyrir frístundastarf barna sinna.
Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf.
Á vegum sveitarfélagsins hefur frá því í apríl á þessu ári verið unnið að stofnun sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd í samstarfi við dr. Hjörleif Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Í framhaldi af undirbúnings- og stefnumótunarvinnu stofnaði sveitarfélagið Sjávarlíftæknisetrið Bio Pol ehf. Stofnfé þess er 7 milljónir króna. Markmið eigenda og stjórnenda BioPol ehf er að koma upp rannsóknar- og vísindasetri sem geti skapað þekkingu, störf og verðmæti í framtíðinni.
Halldór Gunnar Ólafsson sjávarútvegsfræðingur hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri BioPol ehf. Þegar hafa verið lögð drög að samstarfi við Háskólann á Akureyri með samstarfssamningi sem undirritaður verður 5. september nk. Einnig hefur verið stofnað til sambands við Scottish Association for Marine Science í Skotlandi.
Meginstarfsemi setursins byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna geta m.a. beinst að möguleikum á nýtingu sjávarfangs sem ekki hefur haft skilgreind not eða eiginleikar ekki verið þekktir. Einnig gæti rannsóknarstarfið beinst að umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum.
Á vettvangi lífríkisrannsókna er stefnt að því að byggja upp samstarf við sambærilegar rannsóknarstofur bæði innan lands og utan.
Við rannsóknir á vettvangi sjávarlíftækni verður lögð áhersla á að kortleggja þau verðmæti sem þekkt eru ásamt því að leita nýrra verðmæta og nýsköpunar, t.d á vettvangi fæðubótaefna, snyrtivara, sem og íblöndunarvara fyrir matvæla- og fóðuriðnað. Skrifstofa BioPol ehf er að Bjarmanesi á Skagaströnd.
Menningarfulltrúi
Menningarráð Norðurlands vestra hefur ráðið Ingiberg Guðmundsson til starfa sem menningarfulltrúa. Forsendur ráðningarinnar eru gerð menningarsamnings milli ráðuneyta mennta- og samgöngumála annars vegar og SSNV hins vegar um eflingu mennigarstarfs á svæðinu. Starfssvið menningarfulltrúa er m.a. dagleg umsýsla fyrir menningarráðið, fagleg ráðgjöf og efling samstarfs að menningarmálum. Ingibergur hóf störf 1. september sl. og hefur skrifstofu að Bjarmanesi á Skagaströnd.
Með góðri kveðju
Magnús B. Jónsson
sveitarstjóri
22.08.2007
Sunnudaginn 19. ágúst 2007 voru dregin út nöfn vinningshafa í ævintýraeyjuleik Söluskálans á Skagaströnd.
Eftirfarandi hlutu GSM síma:
Agnar Logi Eiríksson, Melabraut 23, 540 Blönduós
Agnes B.Albertsdóttir, Neðra - Holti, 541 Blönduós
Bjarki Gunnarsson, Bankastræti 7, 545 Skagaströnd
Kristinn Daníel Guðmundsson, Laufhaga 6, 800 Selfoss
Eftirfarandi hlutu aukavinninga:
Rögnvaldur Ottósson, Réttarholti, 545 Skagaströnd
Ari Jón Þórsson, Bogabraut 24, 545 Skagaströnd
Helgi Þór Kristjánsson, Norðurbraut 13, 530 Hvammstanga
17.08.2007
Nú eru Kántrýdagarnir að renna upp og íbúar á Skagaströnd að komast í hátíðarskap. Í gærkvöldi (fimmtudag) var mikið um að vera. Íbúar við hverja götu komu saman og útbjuggu og settu upp alls kyns skraut og skreytingar. Eiginlega var hálfgerð karnivalstemming því um leið og skreytingar komu upp í einni götu hófst rúntur eða göngutúrar um hana til að skoða og sjá hvernig þetta væri nú gert. Kannski svolítil samkeppni en allt á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Eiginlega minnti þetta svolítið á þegar jólaskreytingarnar eru að koma upp á aðventunni. Stemningin ekkert ólík enda Kántrýdagar að mörgu leyti líkir jólunum í eðli sínu. Dagar til að gleðjast, skreyta og fagna, hafa gaman.
Dagskráin hefst svo í dag kl 18.00 með því að krakkarnir bjóða heim í kofabyggðina og halda uppskeruhátíð á garðræktinni. Svo er kántrýsúpan kl 19.00 og þá fara hoppukastalarnir í gang. Kántrýsöngvarinn Gis Jóhannsson og Guðmundur Jónsson sjá svo um tónlistina í hátíðartjaldinu en Haldapokarnir trekkja stemninguna í Kaffi Bjarmanesi. Í Kántrýbæ sér hljómsveitin Sólon um stuðið fram á nótt.
17.08.2007
Miðvikudaginn 15. Ágúst s.l. tóku allir kennarar grunnskóla Húnaþings þátt í dags námskeiði, á vegum Fræðsluskrifstofunnar, um vandaðan upplestur og framsögn.
Kennarar voru: Baldur Sigurðsson, dósent og Þórður Helgason, dósent.
Á námskeiðinu var m.a. fjallað um grundvallaratriði í kennslu munnlegrar tjáningar, líkamsstöðu, öndun, upplit og framsögn
Unnið var með ljóð og laust mál og dæmi gefin um mismunandi kennsluaðferðir.
Þátttakendur fengu einnig tækifæri til að slípa eigin frammistöðu og taka þátt í jákvæðri og uppbyggjandi gagnrýni.
Auk þess var fjallað um þýðingu raddbeitingar með tilliti til aga og stjórnunar.
Mynd: Þátttakendur og leiðbeinendur að störfum.
Frekari upplýsingar veitir undirritaður
*************************************************
Guðjón E Ólafsson, sérkennslufræðingur
Fræðslustjóri A- Húnvetninga
símar: 4554305 og 8955796
tölvupóstur, gol@mi.is
17.08.2007
Þann 14. ágúst s.l. var haldið, á vegum Fræðsluskrifstofunnar, námskeið um notkun námsefnisins Geisli og Eining í stærðfræði. Tuttugu og fimm kennarar grunnskólanna í Húnavatnssýslum mættu til að læra um notkun námsefnisins. Þátttakendur fengu Ítarlega kynning á námsefninu og hugmyndum að baki þess.
Kynntar voru skipulagsaðferðir sem auðvelda kennurum að skipuleggja kennslu stærðfræðinnar.
Leiðbeinandi á námskeiðinu var Jónína Marteinsdóttir, kennari. Námskeiðið var haldin í Grunnskóla Húnaþings vestra.
Mynd: Þátttakendur og Leiðbeinandi.
09.08.2007
Er ekkert pláss fyrir bílinn í bílskúrnum ? Er geymslan yfirfull ? Ertu að kafna í drasli ? Er þá ekki upplagt að gera eitthvað í því ?
Fyrirhugað er að halda flóamarkað á Kántrýdögum, laugardaginn 18. ágúst ef næg þátttaka er fyrir hendi.
Þeir sem hafa áhuga og vilja vera með sölubás og selja gamallt dót, allt frá fingurbjörgum til sláttuvéla vinsamlegast hafið samband við okkur sem allra fyrst. Í síðasta lagi þriðjudaginn 14. ágúst. n.k.
Við veitum allar nánari upplýsingar.
Björk Sveins, Súsý Magg, Dadda Sigmars.
452 2909 452 2827 861 5089
09.08.2007
Undirbúningur fyrir Kántrýdaga stendur nú sem hæst og er dagskráin sem óðast að taka á sig mynd. Kántrýdagarnir verða með mjög svipuðu sniði og í fyrra enda feikna vel heppnaðir þá.
Á föstudeginum 17. ágúst er gert ráð fyrir að yngsta kynslóðin byrji með því að bjóða heim í Smábæ á Kofavöllum og kynni húsakynni og bæjarbrag í kofabyggðinni. Eftir það verður boðið til Kántrýsúpu að hætti Sibba í hátíðartjaldi. Þá munu Gummi Jóns og einhverjir fleiri vera með tónlistardagskrá í tjaldinu. Í Kaffi Bjarmanesi verður tónlist að hætti Haldapokanna fram yfir miðnætti. Hljómsveitin Sólon leikur svo fyrir gesti og dansara í Kántrýbæ fram til kl. 03.
Laugardagurinn 18. ágúst byrjar á dorgveiðikeppni á höfninn kl. 11.00. Flóamarkaður verður opnaður í gamla vinnsluhúsinu á Hólanesi (Fjörubraut 8). Þar verður lagt upp með að fólk finni einmitt það sem það vantar hjá þeim sem þurfa einmitt að losna við sömu nytjagripi. Hoppukastalar verða svo settir upp á hátíðarsvæðinu kl 13.00 en barna- og fjölskyldudagskrá hefst kl 15.00. Þar verður margt gott til skemmtunar fyrir börn á öllum aldri. Í Kaffi Bjarmanesi verður kaffihlaðborð kl 15-18. Þegar líður á daginn þyngist takturinn og kl 17.00 verður rokkað í hátíðartjaldi þar sem ungar hljómsveitir taka nokkrar syrpur. Á hótel Dagsbrún verður skjávarpasýning á myndum af fólki og fyrirbærum á Skagaströnd. Barinn á hótelinu verður opinn fyrir þá sem eiga erfitt með að horfast í augu við gömlu myndirnar af sér. Stóru grillin verða svo hituð upp og höfð til staðar fyrir sameiginlegu grillveisluna þar sem hver kemur með sinn búnað og grillmeti. Hugmyndir eru uppi um að veita verðlaun fyrir frumlegasta picnik búnaðinn. Skemmtidagskrá á palli hefst svo kl 20.30 þar sem verður Afró danssýning og Hara systur, Gis Jóhannsson, Lúgubandið, Angela og Hans Birgir og fleiri skemmta. Í Kántrýbæ verður svo dansað fram á nótt við undirleik Kántrýsöngvarans Gis og félaga.
Sunnudaginn 19. ágúst verður hin hefðbundna ómissandi gospellmessa í hátíðartjaldi og hefst kl 13.30. Þar mun séra Fjölnir Ásbjörnsson stýra messuhaldi en Óskar Einarsson stjórna gospellkórnum.
Íbúar eru hvattir til að skreyta hús, garða, götur, bíla, sjálfa sig og hvern annan. Í fyrra var áberandi að íbúar í ákveðnum götum stóðu sérlega vel að skreytingum og eru væntingar til að fleiri sýni góða takta í þessum efnum.
Stöndum saman og skemmtum okkur saman
Tómstunda- og menningarmálanefnd