04.05.2007
Nú um helgina (5.-6.maí) mun afródansarinn og trommarinn Cheick Bangoura halda námskeið á Skagaströnd. Þetta eru kraftmiklir tímar, fullir af rytma og hreyfingu.
Námskeiðin verða haldin í íþróttahúsinu á Skagaströnd og geta þátttakendur valið um hvort þeir læra dans, á trommur eða bæði.
Cheick Bangoura kemur frá Gíneu en hefur búið á Íslandi undanfarin átta ár og kennt Íslendingum að dilla sér í takt við afrískan trumbuslátt. Hann hefur haldið námskeið fyrir fólk á öllum aldri, bæði hérlendis og erlendis. Dansinn og tónlistin er tónlistin og dansinn í blóð borin enda er hann sonur eins þekktasta afródansara heims, Moustapha Bangoura. Cheick talar mjög góða íslensku.
Þetta er gott tækifæri til þess að skemmta sér og sleppa aðeins fram af sér beislinu um leið og þið lærið eitthvað nýtt.
Dansinn er skemmtilegur og kraftmikill og heitur trommuslátturinn tryggir ekta afríska stemningu. Það geta allir tekið þátt og miðar Cheick tímana við hópinn hverju sinni. Það þarf sko engar ballerínur til þess að dansa afró.
Trommutímarnir, þar sem kennt er á djembe (bongó) trommur eru ekki síður skemmtilegir. Cheick er afar fær trommuleikari og getur er eins og heil hljómsveit sé að spila þegar hann slær trommurnar. Farið verður í gegnum grunntakta í afrískri tónlist.
Námskeiðin verða á laugardag og sunnudag, eina og hálfa klukkustund í senn.
Verð á mann kr. 3500-
Nánari upplýsingar veitir Bergþóra í síma 844 0987
03.05.2007
3. maí 2007
Fréttir frá leikskólanum Barnabóli
Heimsókn frá Noregi
Leikskólinn Barnaból fékk góða heimsókn frá Noregi 23. apríl s.l. en þá komu átta leikskólakennarar og starfsmenn tveggja leikskóla frá Kragero í Noregi. Fyrir hópnum fór Lára Bylgja Guðmundsdóttir leikskólastjóri en hún er ættuð frá Skagaströnd og búsett í Kragero. Þar sjórnar hún tveim leikskólum um 20 og 16 barna og er annar þeirra staðsettur á lítilli eyju. Lára Bylgja var fyrsti leikskólastjórinn á Barnabóli þegar hann opnaði árið 1977 og stjórnaði honum í rúmt ár. En leikskólinn Barnaból verður einmitt 30 ára þann 7. júní n.k. og þó leikskólastarf og umhverfi leikskólans hafi breyst mikið á þessum 30 árum þekkti Lára Bylgja aftur sumt af leikföngunum og útileiktækjunum sem enn eru í fullri notkun hér.
Kragero fólkið stoppað góðan tíma hjá okkur og við skiptumst á upplýsingurm um skólana og hvað væri líkt og hvað ólík með þeim. Lögð er mikil áhersla á útivist og hreyfingu í Kragero eins og hjá okkur. M.a. starfrækja þau útileikskóladeild fyrir elstu leikskólabörnin sem dvelja þá á ákveðnum stað út í skógi mest allan daginn og leika sér með þann efnivið sem umhverfið býður upp á. Þar hafa þau aðgang að í litlu húsi „hytte“ sem er með snyrtingu og aðstöðu til að matast í. Á leikskólanum Barnabóli höfum við einmitt verið að prufa útileikskóladeild á Tjaldstæðinu og hefur það gefist vel. Dvalargjöldin eru mun hærri hjá þeim en hér og þeim fannst Barnaból vera vel búinn og voru m.a. hrifinn af sandkassanum okkar með skjólinu fyrir austanáttinni og fannst svarti sandurinn afar áhugaverður. Það stendur til að starfsfólk Barnabóls fari í heimsókn til þeirra næsta vor.
Leikskólastarfið
Maí er runnin upp með þétta dagskrá eins og ávalt á þessum árstíma. Elstu börnin hleypa heimdraganum og sofa eina nótt í Skíðaskálanum í útskriftaferð 8.-9. maí. Farið verður í sveitaferðina 21. maí að Tjörn á Skaga. Útskriftarárgangurinn fer í þriggja daga vorskóla í Höfðaskóla. Það eru hjóladagar alla fimmtudaga og síðasti leikfimisdagurinn verður 15. maí og þá mega allir fara í sturtu. Föstudaginn 25. maí er útskrift úr hópastarfi vetrarins með hefbundnu sniði.
Fimmtudaginn 7. júní á leikskólinn Barnaból 30 ára afmæli og þá er öllum boðið í afmælisveislu og á sýningu á verkum barnanna frá kl. 16-18 og vonumst við til að sem flestir , fyrrum nemendur og starfsfólk leikskólans mæti sem og bæjarbúar. Um miðjan júní förum við með öll börnin í sund, farið verður í marga gönguferðir og í síðustu vikunni fyrir sumarfríslokun verður grillveisla og karnivalstemming á leikskóallóðinni. Sumarfríslokun leikskólans er frá og með 9. júlí til 11. ágúst.
Með ósk um gleðilegt sumar
Þórunn Bernódusdóttir
leikskólastjóri
29.04.2007
Kjörskrá
Kjörskrá fyrir Höfðahrepp vegna kosninga til Alþingis liggur frammi á skrifstofu Höfðahrepps til kjördags.
Kjörskrá miðast við skráð lögheimili eins og það var samkvæmt þjóskrá fimm vikum fyrir kjördag og er því miðað við 7. apríl sl.
Athugasemdum við kjörskrá skal skila á skrifstofu Höfðahrepps fyrir kjördag, 12. maí 2007.
Skagaströnd, 29. apríl 2007
Sveitarstjóri
24.04.2007
Mánudaginn 23. apríl var haldið, á vegum Fræðsluskrifstofunnar, námskeið sem bar yfirskriftina "Námsmat sem námshvati".
Leiðbeinandi og umsjónarmaður var Sigrún Björk Cortes, kennari. Fyrirlesari varpaði fram mörgum áhugaverðum spurningum sem vöktu til umhugsunar og umræðna. Dæmi um spurningar sem leitast var við að svara: Til hvers námsmat? Hvað segir í Aðalnámskrá grunnskóla um námsmat? Er rétt að meta einungis nemendur? Hver er stefnan í þínum skóla? Einnig var nokkur tími notaður til að ræða kosti samkennslu í skólastarfi.
••••
Mikil ánægja var með námskeiðið eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Námskeiðið fór fram í félagsheimilinu Fellsborg Skagaströnd.
Myndir: þátttakendur að störfum og uppstilltir
24.04.2007
Á Sumardaginn fyrsta fór fram hin árlega stærðfræðikeppni FNV og 9. bekkja grunnskóla á Norðurlandi vestra. Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, grunnskóla og fyrirtækja á Norðurlandi. Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram 12. mars og tóku 105 nemendur af Norðurlandi vestra þátt í henni. Að þessu sinni komust 2 nemendur Höfðaskóla í úrslitakeppnina, þau Kristján Ýmir Hjartarson og Laufey Inga Stefánsdóttir.
Bæði stóðu sig mjög vel í úrslitakeppninni og lenti Kristján Ýmir í öðru til þriðja sæti. Í verðlaun hlaut hann reiknivél, minniskubb, bók, tölvuorðabók, bol og eignarbikar ásamt 10.000 kr.
Nánar má lesa um keppnina á heimasíðu FNV, http://www.fnv.is
Elva Þórisdóttir.
21.04.2007
Hinn víðfrægi gospel-snillingur Óskar Einarsson verður með gospelnámskeið í Hólaneskirkju á Skagaströnd helgina 28.og 29. apríl.
Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir,og hefur Óskar lofað að koma með liðsauka úr Fíladelfíukórnum sínum ef mæting á námskeiðið verður góð.
Þeir sem hafa verið á námskeiðum hjá Óskari vita hvað það er gaman og gefandi að vinna með þessum frábæra listamanni. Hann smitar alla með lífskrafti sínum og fjöri.
Allir sem hafa gaman af söng og samveru með glöðu fólki eru hvattir til þess að taka þessa daga frá og skrá sig á námskeiðið hjá Siggu Stefáns fyrir miðvikudaginn 25. apríl í síma: 4522644 eða 8202644 en hún veitir allar nánari upplýsingar.
Sjáumst syngjandi kát,
Kirkjukór Hólaneskirkju
20.04.2007
Fréttatilkynning frá Impru nýsköpunarmiðstöð, 20. apríl 2006
Efling fyrirtækja og ný tækifæri skoðuð
Frumkvöðlastarf á Norðurlandi vestra
Fyrir skömmu lauk námskeiðinu Sóknarbraut sem Impra nýsköpunarmiðstöð gekkst fyrir á Skagaströnd og Blönduósi. Sóknarbraut er hagnýtt námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki. Alls tóku 11 frumkvöðlar frá Norðurlandi vestra þátt í námskeiðinu.
Viðskiptahugmyndir þátttakendanna sem nú útskrifuðust eru af fjölbreyttum toga. Meðal þeirra eru verkefni á sviði matvælaframleiðslu, smíði og iðnframleiðslu auk margs konar þjónustu. Þátttakendur eru sumir hverjir nú þegar með fyrirtæki í rekstri en aðrir skoðuðu ný tækifæri til atvinnusköpunar í sinni heimabyggð. Fram komu margar áhugaverðar viðskiptahugmyndir. Sérstaka viðurkenningu hlaut þó Oddný María Guðmundsdóttir fyrir áhugaverða og efnilega hugmynd sem tengist matvælavinnslu.
Impra nýsköpunarmiðstöð gengst fyrir fjölbreyttum námskeiðum um land allt. Að þessu sinni var boðið upp á námskeiðið Sóknarbraut á Blönduósi og Skagaströnd, en kennt var til skiptist á stöðunum. Hugmyndin að baki námskeiðinu byggir á að brúa bilið á milli hugmyndar og markvissrar framkvæmdar með því að leiðbeina og þjálfa þátttakendur í því að takast á við frumkvöðlastarf, stjórnun og rekstur fyrirtækis. Framkvæmd námskeiðsins var unnin í samvinnu við Hauk Suska-Garðarsson atvinnuráðgjafa hjá Samtökum Sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, sveitarfélagið Höfðahrepp og sveitarfélagið Blönduósbæ. Aðalleiðbeinandi á Námskeiðinu var G. Ágúst Pétursson viðskiptaráðgjafi.
Frekari upplýsingar um námskeið á vegum Impru nýsköpunarmiðstöðvar má finna á Vefnum undir slóðinni http://www.impra.is/namskeid/. Einnig má snúa sér til Brynju Sigurðardóttur (sími: 5707100, brynjasig@iti.is).
Myndtexti:
Mynd 1: Útskriftarhópurinn ásamt leiðbeinendum á námskeiðinu. Talið f.v.: G. Ágúst Pétursson (leiðbeinandi á námskeiðinu), Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson, Sigurður Steingrímsson (verkefnisstjóri hjá Impru), Guðrún Magnúsdóttir, Karitas Pálsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Oddný María Guðmundsdóttir, Guðmundur J. Björnsson, Sunna Gestsdóttir, Eymundur Þórarinsson, og Haukur Suska-Garðarsson (atvinnuráðgjafi SSNV). Á myndina vantar Valdimar Viggósson, Kristján Blöndal og Sigurð Svavarsson sem einnig sátu námskeiðið.
Mynd 2: Oddný María Guðmundsdóttir hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir áhugaverða og efnilega viðskiptahugmynd.
18.04.2007
Fimmtudaginn 19. apríl, sumardaginn fyrsta, verður Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, með opinn stjórnmálafund á Gistiheimilinu Dagsbrún Skagaströnd kl. 20,30.
Allir velkomnir !
Sjálfstæðisflokkurinn í norðvesturkjördæmi.
17.04.2007
Föstudaginn síðastliðinn fékk Kvenfélagið Eining kransakökumeistarann Halldór Kr. Sigurðsson til að koma og halda námskeið í kransakökugerð fyrir okkur hérna á Skagaströnd. Námskeiðið, sem haldið var í Félagsheimilinu, sóttu 12 konur sem allar gerðu 40 manna kransaköku.
Þær komust að því að það er bara ekkert mál að gera kransaköku. Gerð var ein lítil líka sem konurnar fengu að borða og er óhætt að segja að hún hafi runnið ljúft niður. Við þökkum Halldóri kærlega fyrir komuna til okkar.
F.h. Kvenfélagsins, Vigdís Elva
12.04.2007
Styrkur úr Menningarsjóði Höfðahrepps
Tómstunda- og menningarmálanefnd auglýsir eftir styrkumsóknum úr Menningarsjóði Höfðahrepps. Umsóknir geta átt við hvers konar menningarstarf, en sérstaklega er bent á myndlist, tónlist, leiklist, ritlist, varðveislu menningar og ýmsa menningarviðburði. Forsenda úthlutunar er að styrkþegar efli menningu í sveitarfélaginu og að umsækjandi eigi þar heimilisfesti.
Umsóknareyðublað og reglur um menningarsjóð eru á skrifstofu Höfðahrepps. Umsóknafrestur er til 15. maí 2007.
Tómstunda- og menningarmálanefnd Höfðahrepps