Fréttir

Mynd vikunnar

Snjómokstur Um árabil var skíðalyfta rekin í suðurhlíðum Spákonufells.  Umhirða lyftunnar og að halda henni opinni var í höndum skíðadeildar  umf Fram en í deildinni voru áhugamenn um skíðamennsku.  Stundum kom fyrir að það snjóaði það mikið að vír lyftunnar  snjóaði á kaf og þá var ekki um annað að ræða en að moka hann upp með handafli svo hægt væri að opna lyftuna.  Þessi mynd var tekin í einu af þessum tilvikum.  Her manns er að moka upp vírinn en oftar en ekki þurfti að moka  mannhæðardjúpt eftir vírnum þar sem dýpst var.  Þá var ekki nóg að moka einn skurð heldur þurfti að moka tvo,  annars vegar vírinn á leið upp og hins vegar vírinn á leið niður.  Á þessari mynd má þekkja Ingiberg Guðmundsson næst okkur og  Magnús B. Jónsson næst honum en aðrir á myndinni eru óþekktir.

Nýtt orgel í Hólaneskirkju á Skagaströnd

Við hátíðamessu í Hólaneskirkju á Skagaströnd á aðfangadagskvöld var vígt og tekið í notkun nýtt orgel í kirkjunni. Það var sóknarpresturinn, Bryndís Valbjarnardóttir, sem vígði orgelið og Sigríður Gestsdóttir, fyrir hönd sóknarnefndar, afhenti Hugrúnu Sif Hallgrímsdóttur, organista og kórstjóra, lyklana að nýja orgelinu. Orgelið er úr ljósri eik af gerðinni  AHLBORN ORGANUM III og er þýskt en að mestu leiti framleitt á Ítalíu samkvæmt staðli, BDO, sem eru samtök þýskra orgelsmiða og hefur það hlotið sérstaka viðurkenningu fagaðila. Orgelið er 57 sjálfstæðar raddir sem deilast á þrjú nótnaborð og fótspil en að auki eru 128 aukaraddir sem hægt er að sækja og  skipta út í stað aðalraddanna. Þessi möguleiki eykur fjölbreytni orgelsins mikið. Raddirnar eru teknar upp í stafrænu formi úr góðum pípuorgelum og síðan endurspilaðar aftur í  stafrænu formi þegar leikið er á orgelið og þannig næst fallegur pípuorgelhljómur úr orgelinu. Orgelið kostaði rúmlega 3 milljónir króna og er að fullu greitt með fjórum minningargjöfum sem bárust kirkjunni í desember mánuði. Við athöfnina þakkaði Sóknarnefnd Hólaneskirkju gefendum innilega fyrir höfðinglegar gjafir og þann mikla hlýhug og velvilja sem þau sýna kirkjunni og því starfi sem þar fer fram.

Blysför - Brenna - Flugeldasýning

Fyrirkomulag áramótabrennu og blysfarar verður með svipuðu sniði og undanfarin ár.  Brennan verður staðsett við Snorraberg (vegamót Vetrarbrautar og Ásvegs) og leggur blysförin af stað frá félagsheimilinu Fellsborg.   Lagt verður af stað frá Fellsborg kl 20:30 og kveikt verður í brennunni um kl 20:45.  Þegar góður eldur er kominn í bálköstinn sjáum við glæsilega flugeldasýningu sem styrkt hefur verin af fyrirtækjum bæjarins.   Þökkum stuðninginn og með von um góða þáttöku. Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram  

Flugeldasala

Flugeldasala Björgnarsveitarinnar Strandar og Umf. Fram verður í ár að Oddagötu 4 í húsnæði Rauðakrossins.  Opnunartímar verða sem hér segir: Föstudaginn 28. des kl. 20-22 Laugardaginn       29. des kl 16-22 Sunnudaginn        30. des kl 16-23 Mánudaginn         31. des kl. 11-15   ATH!! Börn yngri en 12 ára fá ekki afgreiðslu nema í fylgd með fullorðnum og unglingar yngri en 16 ára fá ekki afgreidda skotelda. Þökkum stuðninginn og með von um góða þáttöku. Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram

Mynd vikunnar

Gleðilegt ár 2019 Ljósmyndasafnið óskar öllum gleðiríks góðs nýs árs um leið og það  þakkar alla hjálp á árinu 2018. Safnið óskar allaf eftir að fá að láni  myndir sem fólk á heima hjá sér og tengjast Skagaströnd á einn eða  annan hátt. Öllum myndum er skilvíslega skilað aftur til eigenda sinna  eftir að þær hafa verið skannaðar og settar út á netið.  Ljósmyndasafnið er jú sameign okkar allra og því fleiri myndir sem  þar eru því skemmtilegra verður það.  Þar eru nú aðgengilegar um 13.500 myndir sem allar tengjast  Skagaströnd á einn eða annan hátt.  Lifið heil.

Gleðilegt nýtt ár

Sveitarfélagið Skagaströnd óskum íbúum sínum og landsmönnum öllum, farsældar á nýju ári, með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Varaaflsvélar keyrðar til rafmagnsframleiðslu

Rafmagnsnotendur á Skagaströnd og Skaga að vestanverðu að Hrauni  Á morgun laugardag 29.12.2018 frá kl 07:30 til kl 15:00 verða varaaflsvélar keyrðar til rafmagnsframleiðslu á Skagaströnd og á Skaga að vestanverðu að Hrauni. Ekki er reiknað með rafmagnstruflunum vegna þessa. Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Norðurlandi í síma 528 9690.

Skrifstofan lokuð 28.12

Skrifstofa sveitarfélagsins Skagastrandar verður lokuð föstudaginn 28. desember 2018. Áramótakveðjur Starfsfólk

Mynd vikunnar

Gleðileg Jól Jólin eru tími samveru og fjölskyldunnar. Kirkjugarðurinn er einn af  þessum stöðum sem við heimsækjum fyrir eða um jólin til að minnast  þeirra sem áður nutu jólanna með okkur og gerðu þau yndisleg.  Við treystum því að þau séu hjá okkur um jólin og njóti þeirra með  okkur þó þau séu horfin yfir á annað tilverustig.  Ljósmyndasafnið óskar öllum Skagstrendingum og öðrum velunnurum  gleðilegra jóla og hamingjuríks komandi árs.

Hólaneskirkja - nýtt orgel.

Um þessar mundir er verið að setja upp nýtt orgel í Hólaneskirkju. Orgelið er smíðað í Þýskalandi og er af gerðinni AHLBORN ORGANUM III. Það er innflytjandi orgelsins Sverrir Guðmundsson organisti og rafeindavirki sem annast það verk.   Orgelið verður vígt við messu á aðfangadagskvöld kl. 23:00