08.02.2019
Hólanes hf 1976
Þessi mynd sýnir horfinn tíma. Hún var tekin í vinnslusal frystihúss
Hólaness hf 1976. Á henni má telja 21 konu sem eru að snyrta og
pakka fiski. Ekki þekkjast allar konurnar en frá hægri eru:
Guðrún Sigurðardóttir, óþekkt, Kristín Sigurðardóttir, Bergljót Óskarsdóttir (d. 22.2.2004),
óþekkt, Hólmfríður Rögnvaldsdóttir (d.13.10.2000), Jóhanna Thorarensen (d. 6.3.2004),
Laufey Sigurvinsdóttir (d. 21.12.1994), fjórar óþekktar, Elísabet Kristjánsdóttir (d. 21.3.1991)
(nær), óþekkt (fjær), Elísabet Árnadóttir, Guðrún Guðbjörnsdóttir en aðrar eru óþekktar.
Nú hefur vinnslusalnum verið breytt í rannsóknarstofur og Vörusmiðju BioPol ehf.
06.02.2019
Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar 30. janúar 2019 setti sveitarstjórn stefnu og markmið í úrgangsmálum. Tilefni stefnunnar var m.a. umræða á íbúafundi sl. haust um skipulagsmál þar sem úrgangsmál, endurvinnsla og meðhöndlun úrgangs var til umfjöllunar.
01.02.2019
Á þorrablóti
Myndin var tekin á þorrablóti í Fellsborg 2. febrúar 2013.
Á henni er verið að syngja um hóp kvenna sem tók upp á því
að stunda sjósund, oftar en ekki út við Sandlæk.
Þar er dýpi ekki mikið þannig að hætta á drukknun er hverfandi.
Aftur á móti vildi sandur festast milli tánna á konunum
sem þær skoluðu gjarnan af sér í sundlauginni þegar þær fóru
í heita pottinn þar til að fá aftur hita í kroppinn.
Klæðnaður söngkvennanna er því við hæfi en þær eru, frá vinstri:
María Ösp Ómarsdóttir, Lena Rut Jónsdóttir, Þorgerður Þóra Hlynsdóttir,
Sigríður Stefánsdóttir og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir.
01.02.2019
Dregið hefur verið í jólasveinalestri, leik sem bókasafn Skagastrandar var með fyrir jólin.
Vinningshafar eru Jón Benedikt Jensson og Steinunn Kristín Valtýsdóttir.
Í vinning fengu þau bókina Þitt eigið tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson og tvo miða Á þitt eigið leikrit eftir Ævar Þór sem verður sýnt í Þjóðleikhúsinu.
Bókasafn Skagastrandar óskar þessum ungu lestrarhestum innilega til hamingju með vinninginn og óskar þeim góðrar skemmtunar í leikhúsinu.
Kveðja Guðlaug
31.01.2019
Sunnudagaskólinn og messan sameinast í kirkjurýminu og hentar öllum aldurshópum. Það er yndislegt að eiga fallega morgunstund í kirkjunni. Taka undir í söng. Hlusta á gefandi Biblíusögu, horfa á leikþætti og biðja fallegra bæna.
Prestur leiðir stundina ásamt fermingarbörnum, leikhóp-TTT og sunnudagaskólabörnum. Börn úr Tónlistarskóla A-Hún. leika á hljóðfæri og syngja. Þau eru Arna Rún Arnarsdóttir, Ísak Andri Jónsson og Sigríður Kristín Guðmundsdóttir. Hugrún Sif Hallgrímsdóttir leikur á flygilinn og félagar úr kór Hólaneskirkju leiða söng. Að messu lokinni er boðið upp á veitingar á kirkjuloftinu.
Bryndís Valbjarnardóttir, sóknarprestur.
29.01.2019
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 30. janúar 2019 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 8:00.
Dagskrá:
Gjaldskrá sveitarfélagsins 2019
Samningur um endurskoðun
Aðalskipulag
Framkvæmdir 2019
Byggðasamlag um menningar- og atvinnumál
Fundargerð stjórnar 17.12.2018
Fjárhagsáætlun 2019
Ályktun um úrgangsmál
Frístundakort fyrir grunnskólanema
Efling fyrirtækja og frumkvöðla
Bréf
Umboðsmanns barna, dags. 17. janúar 2019
Umhverfisstofnunar, dags. 14. desember 2018
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 23. janúar 2019
Fundargerðir
Tómstunda- og menningamálanefndar 22.01.2018
Stjórnar SSNV, 08.01.19.
Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 14. 12. 2018.
Önnur mál
Trúnaðarmál
Sveitarstjóri
29.01.2019
Foreldrar barna með lögheimili á Skagaströnd eiga rétt á 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn á grunnskólaaldri, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám.
Frístundakortin taka gildi 1. janúar ár hvert og gilda í eitt ár. Skil á gögnum vegna frístundaþátttöku síðastliðins árs er í síðasta lagi 31. janúar næsta árs. Eftir það fellur réttur þess árs niður.
25.01.2019
Af óviðráðanlegum orsökum verðu rannsóknarstofan og myndgreining lokuð mánudaginn 4. febrúar og þriðjudaginn 5. febrúar. Opið verður miðvikudaginn 6. febrúar eins og venjulega og aukalega fimmtudaginn 7. febrúar.
Nánari upplýsingar í síma 4554100
Heilbrigðisstofnun Norðurlands/Blönduósi
25.01.2019
1st. OPIÐ HÚS 2019! sunnudagur 27 janúar kl 14.00 - 16.00
Before it gets dark, come by the Nes studios to start the year off with some creative inspiration!
Many works by our international artists are reflections of you, your environment and place here, in Skagaströnd and Iceland :)
25.01.2019
Í janúar 2019 eru 80 ár frá skiptingu Vindhælishrepps hins forna í þrjú sveitarfélög sem gerð var um áramótin 1938-1939 og var upphaf Höfðahrepps sem í dag heitir Sveitarfélagið Skagaströnd.
Þéttbýlið á Skagaströnd er auðvitað töluvert eldra og má í því sambandi benda á að íbúar á Skagaströnd voru um 60 um aldamótin 1900 og þá voru 15 hús á staðnum. Verslunarstaðurinn Skagaströnd er enn eldri því elstu heimildir benda til þess að verslun hafi verið hafin hér fyrir setningu einokunarverslunar 1602 því Skagaströnd varð einmitt einn af þeim illa þokkuðu einokunarverslunarstöðum danskra kaupmanna í þau 185 ár sem hún stóð fram til 1787.
Vindhælishreppur hinn forni náði allt frá Skagatá og fram að Kirkjuskarði á Laxárdal. Það tók því að bera á því strax árið 1872, þegar farið var að skipa hreppsnefndir að það þótt langt að sækja fundi fyrir þá sem bjuggu næst endum hreppsins. Hugmyndir um að skipta gamla Vindhælishreppi ná þó enn lengra aftur og hægt að rekja heimildir um þær hugmyndir aftur til ársins 1806. Þá var aðallega talað um að skipta hreppnum í tvo hluta og nefna þá eftir kirkjusóknum Höskuldstaðahrepp og Hofshrepp.
Þorpið á Skagaströnd fór svo að vaxa, einkum á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Þá voru komnar vélar í bátana, búið að steypa fyrstu bryggjuna og raunverulegar hafnarframkvæmdir að hefjast þegar gerður var garður úr landi og út í Spákonufellsey, en vinna við það hófst 1935.
Þegar þarna var komið sögu voru góðbændur í sveitarfélaginu sem voru helstu útsvarsgreiðendur orðnir mjög áhyggjufullir vegna vaxandi íbúafjölda í þorpinu sem þeir sáu ekki fram á að gætu framfleytt sér. Þá var einnig skollin á heimskreppa og ágreiningur milli sveitar og þorps fóru vaxandi.
Í hreppsnefndarkosningum 1937 náðu þorpsbúar svo meirihluta í hreppsnefndinni og þá virðist flestum verða ljóst að nauðsynlegt væri að skipta hreppnum upp og eingöngu talað um þrjá hreppa.
Meðal þeirra mála sem tekist var á um milli hreppshlutanna var ómagaframfærsla og hve mikið land ætti að fylgja þorpinu. Eftir allnokkur fundahöld í öllum nýju hreppshlutunum og störf skiptanefndar fékkst niðurstaða í landsstærðina sem enn gildir og að ómagaframfærslan skyldi vera sameiginlega í sjö ár eftir skiptingu. Auðvitað voru mörg fleiri úrlausnarmál en þeim var öllum fundinn nýr farvegur. Nýju sveitafélögin áttu að heita Vindhælishreppur, Höfðahreppur og Skagahreppur.
Skipting hreppsins í þrjá hreppa var rædd á fundi hreppsnefndar á þorláksmessu 1938 og þá var ákveðið að aðskilnaður hreppanna tæki gildi 1. janúar 1939 kosning nýrra hreppsnefnda skyldi fara fram 15. janúar 1939.
Í þeirri ágætu bók Byggðin undir Borginni segir svo í niðurlagi umfjöllunar um hreppaskiptinguna:
„Ekki munu allir íbúar hreppsins hafa fagnað þessari niðurstöðu; um það vitnar til dæmis vísa Vilhjálms Benediktssonar frá Brandaskarði:
Ekki prísa ég ykkar mennt
sem að því verki stóðu
að sundur flísa og saga í þrennt
sveitina mína góðu.
Um áramót 1938-1939 gengu kauptúnsbúar til hvílu í Vindhælishreppi vitandi að þeir myndu vakna upp í nýju sveitarfélagi að morgni án þess að hreyfast úr stað. Er ekki að efa að með ýmsum hafa tilfinningar verið blendnar; hvernig myndi þessu fámenna og fátæka sveitarfélagi farnast? Framhjá því varð ekki litið að margir innbúar hins nýja Höfðahrepps lágu við sveit. En ýmis teikn voru á lofti um betri tíð. Skammt undan voru fengsæl fiskimið og silfur hafsins, síldin, óð á hverju sumri inn allan Húnaflóa.“
Nafni sveitarfélagsins var svo breytt úr „Höfðahreppur“ í „Sveitarfélagið Skagaströnd“ eftir atkvæðagreiðslu um nafnabreytinguna samhliða sveitarstjórnarkosningum 2006.
Skagaströnd í janúar 2019
Magnús B. Jónsson