05.09.2018
Malbikun á Skagaströnd hófst í gær þegar malbikunarflokkurinn lagði fyrstu fermetrana á útsýnsistaðinn á Spákonufellshöfða. Næstu daga verður lagt malbik víða um bæinn bæði á plön og götur. Alls er gert ráð fyrir að malbika 15.700 fermetra. Þar af verða 8.500 fm nýlagnir á plön og götur og 7.200 fm yfirlagnir á gamalt og lélegt slitlag gatna. Reiknað er með að malbikunarframkvæmdir standi yfir fram til 15. september en getur þó farið eftir veðri hvernig gengur.
Íbúar eru beðnir að virða athafnasvæði malbikunarflokksins og þær lokanir sem nauðsynlegt er að setja bæði í öryggisskyni og til að malbikið skemmist ekki á meðan það er að kólna. Sömuleiðis er fólk beðið að leggja ekki bílum í þær götur og á þau svæði sem malbikun er að hefjas á.
Sveitarstjóri
04.09.2018
Eitthvað verður um vatnstruflanir í Bankastræti og á Skagavegi í dag 04. sept 2018.
Sveitrstjóri
03.09.2018
Adolf J. Berndsen
Adolf Jakob Berndsen verður jarðsunginn frá Hólaneskirkju
föstudaginn 7. september næstkomandi klukkan 14:00
Með Adolf er fallinn frá öflugur forystumaður í málefnum samfélagsins
á Skagaströnd.
Maður sem tróð slóðina til að auðvelda okkur hinum leiðina til aukinnar
hagsældar og velferðar. Hann þjónaði í hreppsnefnd um árabil og var
oddviti nefndarinnar í 12 ár.
Adolf var eindreginn baráttumaður fyrir því sem hann taldi rétt og
sanngjarnt og lét þá ekki hlut sinn fyrir neinum hvort sem um var að
ræða ráðherra í ríkisstjórn eða gagnrýnendur sína hér heima. Fyrst og fremst var
hann þó fjölskyldumaður sem setti velferð barna sinna og barnabarna ávallt í
fyrsta sæti.
Aðstandendum er vottuð samúð nú þegar Adolf hverfur inn í ljósið eftir
erfið veikindi í nokkur ár.
29.08.2018
Vatnslaust í Bankastræti og norðurhluta Skagavegar
, lokað verður fyrir vatnið í Bankastræti og norðurhluta Skagavegar
fimmtudaginn 30. ágúst 2018 eftir hádegi og eitthvað frameftir.
Sveitarstjóri.
28.08.2018
Fyrri haustgöngur fara fram föstudaginn 7. september. Seinni haustgöngur fara fram föstudaginn 14.september. Eftirleitir verða 21. september.
Gangnaforingi er Jón Heiðar Jónsson.
Réttarstjóri í báðum réttum er Hrönn Árnadóttir.
23.08.2018
Þór Arason verður jarðsunginn frá Hólaneskirkju laugardaginn 25. ágúst klukkan 14:00
Hógværð og iðjusemi eru fyrstu orðin sem upp koma í huga þeirra sem þekktu Þór Arason, þegar þeir minnast hans. Hann var maður sem vann öll sín verk af alúð, hávaðalaust og vel. Eftirsóttur verkmaður þó aldrei færi mikið fyrir honum enda dulur og hlédrægur. Þór var tryggur vinur vina sinna, greiðvikinn og afar hjálpsamur. Nú er hann kominn á bjartari stað með verkfærin sín albúinn að leysa þau verkefni sem honum verða þar falin, orðalaust en betur en flestir aðrir.
Hugur okkar, sem nutum þess að vera samferða Þór í lífinu, er hjá aðstandendum hans, sem nú kveðja góðan dreng.
22.08.2018
Norræna félagið á Skagaströnd mun taka á móti hópi frá vinabæ Skagastrandar Ringerike í Noregi um næstu helgi. Hópurinn sem telur 28 manns, kemur föstudaginn 24. ágúst og verður í heimsókn fram á sunnudaginn 26. ágúst. Þau munu gista í Salthúsinu og ætla m.a. að skoða Spákonuhof, fara í Kálfshamarsvík og heimsækja Nes listamiðstöð. Áhugafólk um norrænt samstarf og/eða þeir sem vilja hitta fólkið og kynnast því eru beðnir að hafa samband við undirritaða.
Sigríður Stefánsdóttir,
formaður Norræna félagsins á Skagaströnd.
Sími: 774 1434
20.08.2018
Keppni sterkustu manna landsins
fer fram 23 - 25. Ágúst 2018
Fimmtudagur 23. ágúst
Kl. 13 Blönduós, Drumbalyfta,
Bæjartorginu við félagsheimilið
Kl. 17 Skagaströnd, Kast yfir vegg, Grundarhólum við Spákonuhof
Föstudagur 24. ágúst
Kl. 12 Sauðárkrókur, Réttstöðulyfta,
við safnhús Skagfirðinga
Kl. 17 Ólafsfjörður, Víkingapressa og Mylluganga, við Tjarnarborg
Laugardagur 25. ágúst
Kl. 12 Mývatn, Framhald og Réttstöðuhald, við Dimmuborgir
15.08.2018
Innritun er hafin fyrir næsta skólaár Tónlistarskóla A-Hún. Umsóknum skal skila rafrænt á síðu tónlistarskólans http://www.tonhun.is undir flipanum umsóknir. Opið er fyrir umsóknir til 26. ágúst. Þeir sem gengu frá umsókn í vor þurfa ekki að sækja aftur um.
Nánari upplýsingar í síma 868-4925. Skólastjóri.
14.08.2018
Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að gerður hefur verið samningur við BioPol á Skagaströnd um vöktun í samræmi við samning um verndun hafrýmis Norður Atlantshafi. Þar segir:
Í sumar bættist ný strönd við kerfisbundna vöktun stranda á Íslandi samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR (samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins). Starfsfólk Biopol hefur tekið að sér OSPAR vöktun á ströndinni Víkur á Skagaströnd fyrir Umhverfisstofnun og fór starfsmaður Umhverfisstofnunar, þann 12. júlí sl. og aðstoðaði þau við fyrstu vöktunina. Á ströndinni var mikið rusl sem kemur frá sjávarútvegi, eins og t.d. netakúlur, olíubrúsar og fiskikassar. Einnig fannst mikið af plastbrotum í ýmsum stærðum (sjá mynd). Ströndin verður vöktuð þrisvar sinnum á ári og verða niðurstöðurnar skráðar inn í gagnagrunn hjá OSPAR.
Víkur verður sjötta ströndin sem er vöktuð á Íslandi samkvæmt aðferðafræði OSPAR, en hinar eru: Surtsey, Bakkavík á Seltjarnanesi, Búðavík á Snæfellsnesi, Rauðisandur og Rekavík bak Höfn á Hornströndum (Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar: https://ust.is/atvinnulif/haf-og-vatn/voktun-stranda/).