Fréttir

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 13. ágúst 2014 kl 800 á skrifstofu sveitarfélagsins. Dagskrá: Fjármál: Yfirlit jan – júní 2014 Bréf EFS um fjármálastjórn sveitarfélaga Siðareglur sveitarstjórnar Leikskólinn Viljayfirlýsing v/atvinnuuppbyggingar í A-Hún Kosning fulltrúa á ársfund Róta bs. Tilnefningu fulltrúa í svæðisbundinn stýrihóp v/ferðaþjónustu Erindisbréf nefnda Bréf: Áslaugar Ottósdóttur Sambands íslenskra sveitarfélaga Landssambands Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna Fundargerðir: Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 7.08.2014 Menningarráðs Norðurlands vestra, 4.06.2014 Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 27.06.2014 Önnur mál Sveitarstjóri

Ráðstefna um listir og auðlindir strandmenningar

Ráðstefna um auðlindir standmenningar verður í Fellsborg Skagaströnd laugardaginn 16. ágúst 2014 kl 9.00 – 16.00. Dagskrá ráðstefnunnar sem nefnist Rusl - RASK er: 09:15 Opnun ráðstefnunnar Adolf H. Berndsen, oddviti Skagastrandar 09:30 “Fram með ruslið,” RASK verkefnið kynnt Heidi Rognskog and Mona Eckhoff, listamenn og verkefnisstjórar 09:15 Menningarverkefni í litlu samfélagi Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri Skagaströnd 09:45 Nes listamiðstöð Hrafnhildur Sigurðardóttir, listamaður og stjórnarmaður í Nes listamiðstöð 0:15 Sjálfbærni í vanþakklátum heimi Mark Swilling, prófessor við Stellenbosch háskóla 11:00 Kaffihlé 11:15 Staðblær í samfélögum og sjálfboðastarf Laila Skaret, menningarfulltrúi í sveitarfélaginu Smøla 11:35 Innri og ytri landakort Hilde Rognskog, listamaður 12:00 Hádegisverður 12: 45 “Stórar frásagnir vaxa upp á litlum stöðum” Olav Juul fyrrv. bæjarstjóri í sveitarfélaginu Læsø 13:15 Draumalandið Andi Snær Magnason, rithöfundur og aðgerðarsinni 14:30 Upplifun af samfélögum – ímynd og áhrif Selma Dôgg Sigurjónsdóttir – Nýsköpunarmiðstöð Íslands 15:15 Samantekt og lok ráðstefnu Ráðstefnan er öllum opin og þeir sem hafa áhuga á nýjum hugmyndum, skapandi hugsun og listrænni nálgun ættu ekki að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara.

Tónlistarhátíðin Gæran

Tónlistarhátíðin Gæran verður haldin fimmta árið í röð í húsakynnum Loðskinns á Sauðárkróki, dagana 14.- 16. ágúst 2014. Um næstu helgi gefst tónlistarunnendum einstakt tækfæri að taka þátt í árlegum viðburði í litlu sjávarplássi úti á landi. Stór geymslusalur, sem hýsir gærur í stöflum stóran hluta ársins, er í ágúst tæmdur til að rýma fyrir stóru sviði og fólki sem vill skemmta sér og hlusta á góða tónlist. Það eru yfir 100 hæfileikaríkir tónlistarmenn sem skipa þau 24 tónlistaratriði sem koma fram á hátíðinni. Þar á meðal eru heitustu nöfn dagsins í dag ásamt stærstu nöfnum morgundagsins. Sauðárkrókur iðar af lífi þegar Tónlistarhátíðin Gæran stendur yfir og er þetta upplifun sem engin má missa af! Örfáar breytingar hafa orðið á þeim listamönnum sem koma fram í ár, en þeir eru: Fimmtudagur: Hafdís Huld, Sister Sister, Hlynur Ben, Val--‐kirja og Bergmál. Föstudagur: Kiriyama family, Úlfur Úlfur, HIMBRIM, Johnny and the rest, Myrká, The Bangoura band, Sjálfsprottin spévísi, Una Stef, Klassart og Boogie Trouble. Laugardagur: Dimma, Reykjavíkurdætur, Nykur, Rúnar Þóris, Kvika, Mafama, Skúli Mennski, Beebee and the Bluebirds og Sunny side road. Nú er undirbúningur fyrir hátíðina á lokastigi og standa aðstandendur hátíðarinnar ásamt stórum hópi sjálfboðaliða í ströngu að því að vinna þau fjölmörgu handtök sem þarf til. Dagskrá hátíðarinnar teygir sig yfir þrjá daga. Sólóistakvöld verður haldið á fimmtudeginum 14. ágúst á Skemmtistaðnum Mælifelli og tónleikarnir á föstudeginum 15. og laugardeginum 16. verða á aðalsvæði hátíðarinnar. Það er 18 ára aldurstakmark en yngri tónlistarunnendur eru velkomnir í fylgd með foreldri/forráðamanni, 12 ára og yngri fá frítt inn. Miðasala er hafin á midi.is og í Gestastofu Sútarans á Sauðárkróki og kostar einungis 6.500kr inn á hátíðina. Bestu Kveðjur frá Sauðárkróki! Laufey Kristín s. 823 8087 Sigurlaug Vordís s. 618 7601

Goð og gróður - listaverk úr járni

Sunnudaginn 10. ágúst, kl. 14:00, verður opnuð sýning á um 30 listaverkum úr járni í miðbænum á Skagaströnd. Erlendur Finnbogi Magnússon er höfundur þessara verka sem hann hefur unnið úr gömlu efni frá sjósókn, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Í myndverkunum, sem eru frá einum og upp í sex metra að hæð, má einnig sjá margs konar handverk frá fyrri tímum. Fimmtíu ár eru síðan Erlendur sýndi fyrstu járnverk sín á umdeildri myndverkasýningu á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Eitt þeirra verka er í eigu Reykjavíkurborgar.

24 tíma te athöfn

Listamaðurinn Adam Wojcinski, sem dvelur og starfar við Nes listamiðstöð á Skagaströnd, stóð fyrir gjörningi, te athöfn, sem stóð yfir í 24 klukkustundur. Klukkan 8:15 þann 5. ágúst hófst te athöfnin þar sem Adam bauð til japanskrar tedrykkju til minningar um þá sem fórust við kjarnorkusprenginguna í Hiroshima. Athöfnin fór fram í friðsæld þagnar og íhugunar þar sem beðið var fyrir friði í heiminum. Fyrst var lagað te fyrir þá sem fórust í Hiroshima, síðan lagað te fyrir þá sem komnir voru til tedrykkju og var athöfnin endurtekin í sífellu. Þegar klukkan var orðin 8:15 þann 6. ágúst endaði gjörningur Adams á því að hinn friðsæli staður tedrykkjunnar var brenndur, en einmitt á þeim tíma árið 1945 var sprengjunni varpað á borgina Hiroshima.

Vantar starfskraft á fiskmarkaðinn

Fiskmarkað Íslands hf. vantar starfskraft á Skagaströnd: Starfssvið er m.a. þjónusta við viðskiptavini, seljendur og kaupendur, löndun ofl. Viðkomandi er ætlað að vera hægrihönd stöðvarstjóra og getað leyst hann af. Viðkomandi þarf að hafa lyftararéttindi og hæfni til þess að læra á tölvukerfi fyrirtækisins. Æskilegt væri að viðkomandi hefði þekkingu og starfsreynnslu í sjávarútvegi og einnig vigtarréttindi en ekki skilyrði. Umsóknarfrestur um starfið er til 12. ágúst n.k. og skal umsóknum skilað skriflega til Fiskmarkaðs Íslands hf, bt/ Reynis Lýðssonar 545 Skagaströnd sem jafnframt veitir upplýsingar um starfið í síma 840-3749 og Páll í síma 840-3702

Stuðningsfulltrúi óskast

Atvinna í boði! Stuðningsfulltrúa vantar í 45 – 85 % starfslutfall á yngsta – og miðstig og í Frístund Vinnutími: virkir dagar frá kl 8 og fram að eða yfir hádegi og/eða til kl 16:00. Umsækjendur þurfa að hafa gaman af að vinna með börnum, vera þolinmóðir, ákveðnir og sjálfstæðir í starfi. Umsóknir berist á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar eða á netfangið hofdaskoli@skagastrond.is fyrir mánudaginn 4. ágúst 2014. Hægt er að nálgast umsóknareyðublöð á skrifstofu sveitarfélagsins eða á www.skagastrond.is Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarfélagsins. Skólastjóri

Pistill frá Lárusi Ægi Guðmundssyni

Mun Höfðinn „týnast“? Hvað ætlar nýja sveitarstjórnin að gera? Á Höfðanum er afar fallegt útivistarsvæði eins og Skagstrendingum er vel kunnugt. Allskonar gróður er þar að finna ásamt töluverðu fuglalífi og afar sérstakri bergmyndun víðast hvar. En ákveðið vandamál er að búa um sig á Höfðanum. Lúpínan er komin þangað og á hverju ári leggur hún undir sig meira og meira svæði. Ég býst ekki við að það sé hægt að ráða við hana í hlíðinni við Réttarholt en það má stöðva hana þar. En á hinn bóginn er hún farin að dreifa sér víða annarsstaðar um Höfðann. Á flestum stöðum er hún þó á afar takmörkuðum svæðum og sumsstaðar bara eitt og eitt blóm en þeim fjölgar ár frá ári og byrja að mynda stærri flekki. Það er ekki auðvelt að hamla vexti og útbreiðslu lúpínu en það er hægt en til þess þarf markvissar aðgerðir sem þurfa að standa yfir í nokkur ár. Á nokkrum friðuðum svæðum á Íslandi hafa menn háð harða glímu við lúpínuna m.a. í þjóðgarðinum í Skaftafelli og nokkur sveitarfélög eru líka í þessari baráttu. Ef ekkert verður að gert mun lúpínan leggja undir sig og kæfa allan núverandi gróður á Höfðanum. Þá mun þessi fallega útivistarparadís glata mörgum sérkennum sínum auk þess sem Höfðinn verður ekki auðveldur yfirferðar eins og þeir vita sem ganga á þeim svæðum sem lúpínan hefur yfirtekið. Það þarf að rífa lúpínuna upp með rótum þar sem hún er að byrja að nema land. Einnig að halda áfram að slá þau svæði þar sem hún hefur myndað flekki en það hefur verið gert í nokkur ár. Þessir flekkir stækka samt og það þarf að öllum líkindum að eitra þar líka. Enn er sá tími að það má koma í veg fyrir að lúpínan eyðileggi náttúrufegurð Höfðans. Verði brugðist við strax má uppræta hana og bjarga Höfðanum. Ég legg til að sveitarstjórnin ákveði nú þegar stefnu til 4ra ára þar sem markvisst verði tekið á þessu máli og byrjað strax í ár. Það væri t.d. hægt að setja á stofn 3ja manna vinnuhóp sem í umboði sveitarstjórnar myndi kynna sér allt sem viðkemur árangurríkum aðferðum til eyðingar lúpínu og hefði jafnframt frumkvæði og ábyrgð á því að málið verði tekið föstum tökum. Fegurð og útivistargildi Höfðans er í stórhættu. Það þarf að bregðast við strax. LÆG

Upplýsingar um mynd vikunnar

Samkvæmt upplýsingum frá Aðalbjörgu Hafsteinsdóttur, Ara E. Jónssyni og Eygló Gunnarsdóttur eru konurnar á myndinni þær Ásta Brynhólfsdóttir (f.1912 - d.1997) til vinstri en hún var gift Alfreð Kristjánssyni (f. 1920). Þau komu bæði frá Hrísey. Þau hjón áttu eina kjördóttur Sigurveigu (f.1951) og er hún í fangi móður sinnar. Konan hægra megin við séra Pétur er Sigurlaug Helgadóttir (f.1916 -d. 2009) sem var gift Gunnari Grímssyni (f.1907 -d.2003) en hann var kaupfélagsstjóri á Skagaströnd um einhver ár. Kjörsonur þeirra er Gunna Gauti (f. 1952) dýralæknir og er það hann sem er í fangi móður sinnar. Myndin var að öllum líkindum tekin 1952 við skírn þeirra Sigurveigar og Gunnars Gauta. Ljósmyndasafnið þakkar þeim Aðalbjörgu, Ara og Eygló kærlega fyrir hjálpina.

Vinabæjamót á Skagaströnd

Norrænt vinabæjamót var haldið á Skagaströnd dagana 3.-5. júlí sl. Skagaströnd hefur í 25 ár verið í vinabæjakeðju með Aabenraa í Danmörku, Lohja í Finnlandi, Ringerike í Noregi og Växjö í Svíþjóð. Samhliða vinabæjatengslum sveitarfélaganna eru norrænu félögin í þeim með vinabæjatengsl innbyrðis. Vinabæjamót eru haldin á tveggja ára fresti til skiptis í sveitarfélögunum og eru því á 10 ára fresti á hverjum stað. Sú hefð hefur skapast að bjóða til til vinabæjamóta þremur pólitískum fulltrúum, einum „starfsmanni“ við vinabæjasamskipti og einum fulltrúa norræna félagsins. Öllum með mökum. Hópur gesta getur því farið upp í um 40 manns. Í ár ákvað bæjarráð Aabenraa að afþakka boð um þátttöku og mun taka samstarfið til nánari skoðunar seinna á árinu. Frá öðrum vinabæjum komu 8-9 manns auk fulltrúa norræna félagsins í Aabenraa og voru gestir mótsins því 28. Dagskrá fyrir gesti mótsins var upphaflega miðuð við að bjóða upp á talsverða útivist og vera í nánu sambandi við íslenska náttúru. Þegar leið að mótinu kom hins vegar í ljós að veður myndi ekki gefa mikið færi á slíku þar sem mótsdagana gekk á með norðan allhvössu veðri og úrhellisrigningu. Dagskráin beindist því fyrst og fremst að því að kynna menningu og strauma í Austur Húnavatnssýslu. Fyrri mótsdaginn var Laxasetur Íslands og Heimilisiðnaðarsafnið skoðuð og farið í heimsókn í púðagerðina Lagð að Hólabaki og í Þingeyrarkirkju. Norræna félagið bauð svo til kvöldverðar þar sem fiskréttir voru í aðalhlutverki. Seinni mótsdaginn var haldinn fundur um það helsta sem er að gerast í sveitarfélögunum og um framtíð vinabæjasamstarfsins. Þar var lýst mörgum áhugaverðum verkefnum sveitarfélaganna og á fundi um samstarfið var mjög eindreginn vilji fulltrúanna til að halda því áfram. Eftir fundinn var farið í heimsókn í Rannsóknarsetur HÍ, BioPol, Spákonuhof og í Nes listamiðstöð. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður þar sem mótinu var formlega slitið. Þrátt fyrir erfiðar veðuraðstæður þótti mótið takast vel og hinir norrænu gestir lýstu ánægju sinni með það. Í samstarfinu kemur oft fram hve mikill munur er á stærð Skagastrandar og hinna vinabæjanna í keðjunni þar sem íbúar eru um 30-40 þús. og í þeim stærsta, Växjö eru íbúar 85 þús. Það er því eðlilega talsverður munur á verkefnum og umfangi þeirra en á mótinu kom vel fram mikill áhugi gestanna á íslensku samfélagi, ekki síst vinabæ þeirra Skagaströnd. Skýrslu um mótið á sænsku má finna hér