Fréttir

Skemmtilegt skáldakvöld

Það voru góðir gestir sem létu ljós sitt skína á Skáldakvöldi Gleðibankans, sl. miðvikudagskvöld, í Rannsóknasetri HÍ á Skagaströnd. Rithöfundarnir, Gerður Kristný og Aðalsteinn Ásberg, lásu þar upp úr verkum sínum og sögðu frá tilurð þeirra. Gerður Kristný las nokkur ljóð upp úr nýútkominni ljóðabók sinni, Strandir, sem kom út á síðasta ári en með nafni bókarinnar vísar hún til átthaga ömmu sinnar er þar átti heima. Þá las hún einnig upp úr ljóðabókinni Blóðhófni en fyrir hana fékk hún Íslensku bókmenntaverðlaunin. Aðalsteinn Ásberg flutti nokkrar þýðingar sínar á ljóðum skálda frá Hjaltlandseyjum en þar dvaldi hann um tíma fyrir nokkrum árum. Einnig las hann m.a. upp úr ljóðabókinni Sjálfsmyndir sem hann sendi frá sér á síðastliðnu hausti. Ennfremur söng hann eigin lög og annarra við eigin texta. Einnig ræddu rithöfundarnir við áheyrendur, bæði í kaffihléi og eftir að dagskránni lauk. Að lokinni dagskrá klöppuðu þakklátir áheyrendur flytjendum lof í lófa og héldu heim á leið með bros á vör og aukna innistæðu í Gleðibankanum. Skáldakvöldið var styrkt af Minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Ruslatunnur enn að fjúka!!

Enn eitt hvassviðrið er nú að ganga yfir Norðurland og nú um hádegi mánudaginn 28. janúar var vindur um 24-25 m/sek. og hviður um 34-35 m/sek. Spáð er hvössum vindi næstu tvo daga og virðist sem ekki muni draga verulega úr fyrr en á fimmtudag. Nokkuð ber á því enn að sorptunnur fjúki í hvassviðri. Þrátt fyrir að hver stormurinn hafi rekið annan undanfarna tvo mánuði eru tunnurnar enn illa frágengnar á nokkrum stöðum og hafa verið að fjúka. Húseigendur er eindregið hvattir til að gæta að sorpílátum og ganga þannig frá þeim að hvorki þau fjúki eða það sem í þeim er fari af stað. Sama gildir auðvitað um aðra lausa hluti utan dyra. Skaðinn af sem því hlýst að lausamunir fjúki eru ekki eingöngu hinn fokni hlutur heldur allt sem hann kann að skemma á leið sinni á „vængjum vindsins“ að ekki sé minnst á þá hættu sem fólk kann að vera í af sorpílátum og öðru sem er á slíku ferðalagi. Sveitarstjóri

Starf hjá Greiðslustofu á Skagaströnd

Vinnumálastofnun leitar eftir kraftmiklum og jákvæðum starfskrafti í liðsheild sína hjá Greiðslustofu á Skagaströnd. Um er að ræða tímabundið starf fulltrúa í símaveri. Starfs- og ábyrgðarsvið Símsvörun, almenn skrifstofustörf Upplýsingagjöf Önnur tilfallandi verkefni Menntunar- og hæfniskröfur fulltrúa Stúdentspróf er æskilegt Góð reynsla af skrifstofustörfum Góð tölvukunnátta Góð íslensku- og enskukunnátta Þekking á vinnumarkaði, stjórnsýslulögum og atvinnuleysistryggingarkerfinu er kostur Samskiptahæfni og rík þjónustulund ásamt skipulagshæfileikum, sjálfstæði og metnaði til að skila góðu starfi Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2013. Öllum umsóknum verður svarað. Greiðslustofa á Skagastönd er staðsett á Túnbraut 1-3 og er hlutverk hennar að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Þar starfa nú á þriðja tug starfsmanna. Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi Vinnumálastofnunar á heimasíðu hennar http://www.vinnumalastofnun.is/. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist til Líneyjar Árnadóttur, forstöðumanns Greiðslustofu á netfangið liney.arnadottir@vmst.is, en hún veitir einnig frekari upplýsingar í síma 582-4900.

Námsstyrkir

Sveitarfélagið Skagastönd veitir styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2012-2013 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 25. febrúar 2013. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Sveitarstjóri

Mynd vikunnar.

Ljósmyndasafn Skagastrandar á um 11.000 myndir. Um það bil 2500 þeirra eru komnar á netið þar sem hægt er að skoða þær og senda inn athugasemdir um viðkomandi mynd ef einhverjar eru. Til gamans mun verða sett ein mynd á viku hér á heimasíðu sveitarfélagsins og er fólk beðið um að vera safninu innan handar með þær upplýsingar sem óskað er eftir um þær myndir. Netfang ljósmyndasfnsins er: myndasafn@skagastrond.is en einnig má senda upplýsingar á netfangið: olibenna@hi.is eða hafa bara beint samband við Óla Benna í síma 451 2210 sem sér um ljósmyndasafnið nú um stundir. Með von um gott samstarf, Ólafur Bernódusson Um mynd vikunnar: Á myndinni er Ole Aamundsen athafnamaður á Skagaströnd ásamt konu sinni og fósturdóttur. Ole, sem var norskur að uppruna, var lengi umboðsmaður á Skagaströnd fyrir Shell olíufélagið og rak líka lýsisbræðslu og útgerð um tíma. Ef þú veist hvað konan og stúlkan á myndinni heitir vinsamlegast sendu þá ljósmyndasafninu þær upplýsingar á netfangið myndasafn@skagastrond.is

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 23. janúar 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Samþykktir sveitarstjórnar (fyrri umræða) 2. Íbúaþing 3. Dreifnám 4. Menningarverkefni 5. Gjaldskrár 6. Undirbúningur hitaveituvæðingar 7. Bréf: a. Mílu hf. dags. 9. janúar 2013 b. Lögfræðings Sambands ísl. sveitarfélaga, dags.20. des. 2012 c. Framkvæmdastjóra Bs. um menningu og atvinnum., dags. 20. des. 2012 d. Skógræktarfélags Íslands, dags. 30. nóv. 2012 e. Landsbyggðin lifi, dags. 2. nóv. 2012 f. Snorraverkefnisins, dags. 8. nóv. 2012 g. Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, dags. 26. okt. 2012 8. Fundargerðir: a. Hafnarnefndar, 10.01.2013 b. Fræðslunefndar, 17.12.2012 c. Byggðasamlags um menningu og atvinnumál, 19.12.2013 d. Menningarráðs Norðurlands vestra, 6.12.2012 e. Menningarráðs Norðurlands vestra, 18.12.2012 f. Stórnar Norðurár bs. 29.11.2012 g. Almannavarnanefndar Húnavatnssýslna, 28.11.2012 h. Skólanefndar FNV, 12.12.2012 i. Stjórnar Byggðasamlags um málefni fatlaðra, 4.12.2012 j. Stjórnar Byggðasamlags um málefni fatlaðra, 27.12.2012 k. Stjórnar SSNV, 19.12.2012 l. Stjórnar SSNV, 4.12.2012 m. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, 11.12.2012 n. Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 23.11.2012 9. Önnur mál Sveitarstjóri

S k á l d a k v ö l d á miðvikudag kl 20

S k á l d a k v ö l d verður í bókasafni Rannsóknaseturs HÍ (Gamla kaupfélaginu) á Skagaströnd miðvikudagskvöldið 23. janúar, kl. 20.00. Ljóðskáldin Gerður Kristný og Aðalsteinn Ásberg koma fram á skáldakvöldi, lesa upp og segja frá verkum sínum. Aðgangur ókeypis. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er fæddur 1955 og hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, frumsaminna og þýddra, auka barnabóka og annars bókmenntaefnis. Hann er ennfremur þekktur fyrir söngljóð sín og vísnatónlist sem er að finna á fjölmörgum geisladiskum og hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Á liðnu hausti sendi hann frá sér ljóðabókina Sjálfsmyndir, en auk hennar kom frá hans hendi Hjaltlandsljóð, safn þýðinga á nútímaskáldskap frá Hjaltlandseyjum. Gerður Kristný er fædd árið 1970 og hefur gefið út um það bil 20 bækur fyrir bæði börn og fullorðna. Ljóðabókin Blóðhófnir færði henni Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010 og í fyrra kom út eftir hana ljóðabókin Strandir. Hún hefur m.a. hlotið Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins, Ljóðstaf Jóns úr Vör og Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Skáldakvöldið er styrkt af Minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli

Starf hafnarvarðar laust til umsóknar

SKAGASTRANDARHÖFN AUGLÝSIR STARF HAFNARVARÐAR LAUST TIL UMSÓKNAR Starfssvið: Vigtun og skráning í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, gerð reikninga fyrir höfnina, almenn hafnarvarsla, viðhaldsvinna, og tilfallandi störf. Hæfniskröfur: Almenn tölvukunnátta, skipstjórnarréttindi æskileg, löggilding sem vigtunarmaður er kostur. Laun samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjalar. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar og hægt að sækja þau á vef sveitarfélagsins www.skagastrond.is Umsóknarfrestur er til og með 8. febrúar 2013. Nánari upplýsingar veitir: Magnús B. Jónsson Sími: 455 2700. Netfang: magnus@skagastrond.is

Prjónakaffi

Prjónakaffi verður haldið í Textilsetrinu fimmtudaginn 17. janúar 2013 kl. 20:00 Í Textilsetrinu eru tveir erlendir listamenn og þrír textilnemendur sem munu kynna hvað þær eru að vinna með. Listamennirnir eru frá Kanada annars vegar og Hollandi hinsvegar. Nemendurnir eru frá Textilskóla í Kaupmannahöfn og munu kynna skólann sinn og verkefni. Tungumál engin fyrirstaða þar sem frásögnin verður þýdd á íslensku jafnharðan. Hvetjum alla sem áhuga hafa á spennandi hannyrðum/handverki að koma, sjá og taka prjónana sína með. Textilsetur Íslands Árbraut 31 540 Blönduós Sími : 8949030 Facebook: Textilsetur Íslansds

Súpukvöld og markaður

Miðvikudaginn 16. janúar frá kl. 18:00 - 20:00 ætlar Umf. Fram að vera með súpukvöld og markað í Fellsborg. Í boði verður að kaupa gúllassúpu (eða kakósúpu fyrir börnin ef þau vilja hana frekar), súpan kostar 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir grunnskólabörn (frítt fyrir 5 ára og yngri). Einnig býðst fólki að leigja borð og selja þar notað útivistar- og íþróttadót (fatnað og búnað), hafið samband við Dísu Ásgeirs. í síma 452 2923 eða 895 5472 ef þið viljið fá borð. Fjölmennum og eigum saman skemmtilega kvöldstund um leið og við styrkjum félagið til góðra verka og ekki er verra ef okkur tekst að grynnka á dótinu í geymslunni :) Kveðja Umf. Fram.