11.01.2013
Þýska sjónvarpsstöðin ZDF Mediathek gerði sjónvarpsþátt um smábátaútgerð á Íslandi. Þáttagerðarmenn komu á Skagaströnd og fóru í róður með Öldu HU 112 með Sigurjóni Guðbjartssyni og Hafþóri Gylfasyni. http://www.zdf.de/ZDFmediathek#/beitrag/video/1816630/au%C3%9Fendienst:-Fischer-in-Island
10.01.2013
kvenfélagsins Einingar verður í Félagsheimilinu
á Skagaströnd laugardaginn 2. febrúar 2013.
Húsið opnað kl. 19:00.
Borðhald hefst stundvíslega kl. 19:30.
Veislustjóri er Lárus Ægir
Skemmtiatriði að hætti heimamanna
kvenfélagskonur sjá um matinn.
Hljómsveitin Upplyfting sér um að halda uppi
fjörinu til klukkan 03:00.
Miðasala verður í félagsheimilinu
sunnudaginn 27. janúar á milli klukkan 11:00 og 12:00
Miðaverð kr. 7000.
Ellilífeyrisþegar ásamt unglingum
fæddum árið 1997 greiða kr. 6000.
Kvenfélagskonur selja þorrabakka í rauðasal félagsheimilisins
sunnudaginn 3. febrúar á milli kl. 12:00 og 13:00 meðan birgðir endast .
Kvenfélagið Eining
09.01.2013
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2013 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um eftirfarandi almennan stuðning við tómstundastarf og nám:
Frístundakort
Samþykkt var að bjóða frístundakort sem nemi allt að 15 þúsund króna styrk fyrir hvert grunnskólabarn sem tekur þátt í íþrótta og æskulýðsstarfi. Ákvörðun gildir um íþrótta- og æskulýðsstarf sem fram fer á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2013.
Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Síðasti greiðsludagur vegna tímabilsins er 15. janúar 2014.
Til að fá endurgreiðslu vegna frístundastarfs þarf að framvísa á skrifstofu sveitarfélagsins greiðslukvittun sem sýnir fyrir hvaða frístundastarf er greitt og fyrir hvaða barn.
Námsstyrkir
Samþykkt var að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2012-2013 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð.
Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 24. febrúar 2013.
Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd.
Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð.
Sveitarstjóri
07.01.2013
Verkefnastyrkir til menningarstarfs 2013
Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra.
Ákveðið hefur verið að hafa eina úthlutun á árinu 2013, með umsóknarfresti til og með 7. febrúar.
Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:
· Fjölga atvinnutækifærum og efla samstarf á sviði menningar og lista.
· Stuðla að nýsköpun og þróun í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu.
· Verkefni sem stuðla að þátttöku allra þjóðfélagshópa í menningu og listum.
· Verkefni sem leiða til samstarfs við önnur lönd á sviði menningar og lista.
· Verkefni sem draga fram staðbundin eða svæðisbundin menningareinkenni eða menningararf.
· Verkefni sem stuðla að listsköpun og menningarstarfi ungra listamanna.
Stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstarfs 2013
Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um stofn- og rekstrarstyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis við SSNV.
Tilgangur styrkjanna er að efla starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs. Styrkirnir miðast við starfsemi árið 2013.
Menningarráð hefur ákveðið að þeir umsækjendur hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða við úthlutun ársins 2013:
Ø Stuðla að því að efla menningarstarfsemi á sviði lista, safna- og menningararfs.
Ø Stuðla að nýsköpun í menningarstarfsemi.
Ø Styðja við menningarstarfsemi sem fjölgar atvinnutækifærum á svæðinu.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Úthlutunarreglur og umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðu SSNV, www.ssnv.is, undir liðnum Menningarráð.
Umsóknir skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545 Skagaströnd, eigi síðar en 7. febrúar 2013. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag.
Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is.
04.01.2013
Vinnumálastofnun leitar eftir kraftmiklum og jákvæðum starfskrafti í liðsheild sína hjá Greiðslustofu á Skagaströnd. Um er að ræða tímabundið starf fulltrúa í símaveri.
Starfs- og ábyrgðarsvið
Símsvörun, almenn skrifstofustörf
Upplýsingagjöf
Önnur tilfallandi verkefni
Menntunar- og hæfniskröfur fulltrúa
Stúdentspróf er æskilegt
Góð reynsla af skrifstofustörfum
Góð tölvukunnátta
Góð íslensku- og enskukunnátta
Þekking á vinnumarkaði, stjórnsýslulögum og atvinnuleysistryggingarkerfinu er kostur
Samskiptahæfni og rík þjónustulund ásamt skipulagshæfileikum, sjálfstæði og metnaði til að skila góðu starfi
Umsóknarfrestur er til 11. janúar 2013. Öllum umsóknum verður svarað.
Greiðslustofa á Skagastönd er staðsett á Túnbraut 1-3 og er hlutverk hennar að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Þar starfa nú á þriðja tug starfsmanna.Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi Vinnumálastofnunar á heimasíðu hennar http://www.vinnumalastofnun.is/.
Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist til Líneyjar Árnadóttur, forstöðumanns Greiðslustofu á netfangiðliney.arnadottir@vmst.is, en hún veitir einnig frekari upplýsingar í síma 582-4900.
04.01.2013
Ágætu Skagstrendingar – gleðilegt nýtt ár.
Vegna þess að ekki var hægt að hafa brennu og flugeldasýningu eins og til stóð á gamlársdag verður síðbúin áramótabrenna í kvöld, föstudagskvöldið 4. janúar. Kveikt verður í brennunni kl. 20.30 og litlu síðar hefst flugeldasýning. Blysför er frá Fellsborg kl. 20:00 og skorað á alla að mæta.
Mjög margir komust ekki til að kaupa flugelda fyrir gamlársdag og því eru verulegar birgðir til hjá okkur. Sala flugelda er afar mikilsverð tekjulind fyrir Björgunarsveitina Strönd og Ungmennafélagið Fram í þeim mikilvægu hlutverkum sem þau gegna í samfélaginu hér á Skagaströnd. Það kemur sér afar illa fyrir okkur að sitja uppi með miklar birgðir.
Flugeldasalan verður opin alla helgina kl. 15:00-18:00 að Skagavegi 2. Kaffi á könnunni og allir velkomnir.
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram.
31.12.2012
Vegna ófærðar og slæms veðurútlits er áramótabrennu og blysför á Skagaströnd frestað fram á nýárið. Einngi er frestað flugeldasýningu sem vera átti í tengslum við brennuna.
Sala flugelda er opin til kl 16.00 í dag gamlársdag.
Óskum Skagstrendingum öllum gleðilegs nýárs og vonumst til að nýárið verði stilltara í veðurfari en síðustu mánuðir og dagar þess sem er að kveðja.
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram
28.12.2012
Norðanóveður og stórhríð á morgun
Viðvörun fyrir laugardaginn 29. desember
28.12.2012
Dagsetning: 28. desember 2012 kl. 11:30
Veðurstofan varar við óveðri á Vestfjörðum síðdegis og í nótt og á morgun norðan- og vestanlands. Ekkert ferðaveður verður á vestan- og norðanverðu landinu.
Spáin er eftirfarandi: NA 20-25 m/s og snjókoma á Vestfjörðum strax síðdegis í dag en N og NA 18-33 m/s (stormur og sums staðar fárviðri) um vestanvert landið í nótt og á morgun, hvassast á Vestfjörðum og sunnanverðu Snæfellsnesi. Mikið hægari vindur A- og SA-lands og á Suðurlandi. Talsverð eða mikil snjókoma á N-verðu landinu en rigning eða slydda S- og A-lands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu vestantil annað kvöld, en hvessir þá A-lands í um 15-20 m/s.
Snjóflóðahætta: Víða hefur snjóað í fjalllendi undanfarna daga og snjóflóðahætta getur skapast hratt þegar hvessir. Þeim tilmælum er beint til skíðafólks, vélsleðamanna og annara, sem eru á ferð, að halda sig frá snjóflóðabrekkum og vera ekki á ferð, þar sem snjóflóð geta fallið. Einnig er fólki bent á að stöðva ekki farartæki sín á vegarköflum, þar sem hætta gæti verið á snjóflóðum.
Sjávarflóðahætta: Stórstreymt er þessa dagana samfara óvenju lágum loftþrýstingi, mikilli veðurhæð, ölduhæð og áhlaðanda. Sjómönnum er bent á að huga vel að bátum og skipum í höfnum áveðurs.
Fólki er bent á að ganga frá lausum munum, að það verður ekkert ferðaveður um N- og V-vert landið og að fylgjast náið með upplýsingum um veður og færð.
Vakthafandi veðurfræðingar: Björn Sævar Einarsson, Elín Björk Jónasdóttir og Árni Sigurðsson. Vakthafandi snjóflóðasérfræðingur: Sveinn Brynjólfsson.
28.12.2012
Flugeldasala björgunarsveitarinnar Strandar og UMF. Fram verður að Skagavegi 2 (við hliðina á þar sem Bílaskálinn var einu sinni).
Opnunartímar verða sem hér segir:
Föstudaginn 28.des. kl. 18-22
Laugardaginn 29.des. kl. 14-22
Sunnudaginn 30.des. kl. 14-22
Mánudaginn 31.des. kl. 10-16
Flugeldasalan er ein aðal fjáröflunarleið björgunarsveitarinnar Strandar og U.M.F. Fram.
Skagstrendingar og nærsveitamenn, verslum í heimabyggð það er allra hagur.
A.T.H að börn og unglingar 16 ára og yngri fá ekki að versla flugelda nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum og munið ábyrgðin er ykkar.
ÁRAMÓTABRENNA – BLYSFÖR - FLUGELDASÝNING
Ágætu Skagstrendingar nú fjölmennum við í blysför,
kveðjum árið 2012, kveikjum upp í brennu og horfum saman á glæsilega flugeldasýningu.
Blysförin mun leggja af stað kl 20:30 og kveikt verður í brennunni
kl 20:45. Þegar kominn er góður eldur í bálköstinn mun fara fram flugeldasýning sem styrkt hefur verið af fyrirtækjum bæjarins.
Með von um góða þátttöku
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram
28.12.2012
Vegna þess hve veðurhorfur eru slæmar fyrir laugardaginn 29. og sunnudaginn 30. desember er ekki gert ráð fyrir snjómokstri þessa daga nema neyðartilfelli komi upp.
Veðurspá gerir ráð fyrir miklu norðaustan og síðan norðan hvassviðri með snjókomu sem táknar stórhríð þessa daga. Útlit er fyrir að veðrið skelli á með fullum þunga aðfaranótt laugardags og því er fólki bent á að koma bifreiðum sínum á staði þar sem þeir lenda ekki inni í snjósköflum og/eða geta orðið fyrir skemmdum þegar snjóruðningur hefst.
Útlit er fyrir að veður lægi seinnipart sunnudags og aðfaranótt mánudagsins og gert ráð fyrir að snjómokstur hefjist snemma á mánudagsmorgni 31. desember.
Símanúmer verkstjóra er 861 4267 og ef kalla þarf út björgunarsveit skal hringt í 112
Sveitarstjóri