Fréttir

Landsbankinn Skagaströnd 30 ára.

Föstudaginn 20. júlí 2012 verða liðin 30 ár frá því að Landsbankinn opnaði útibú á Skagaströnd. Í tilefni tímamótanna bjóðum við gestum og gangandi í afmæliskaffi og ís í útibúinu, föstudaginn 20. júlí. Gamlar myndir verða til sýnis frá starfseminni. Það er von starfsmanna útibúsins að þú eigir kost á að líta við og þiggja veitingar í tilefni afmælisins.

Ljósmyndasýning í Kaffi Bjarmanesi

Vigdís Heiðrún Viggósdóttir er með ljósmyndasýningu í kaffihúsinu Bjarmanesi, Skagaströnd, sem stendur fram í ágúst. Opið er kl: 11:30-22 alla daga. Vertu hjartanlega velkomin og sjáðu sýninguna, „MEÐ EIGIN AUGUM‘‘

Flugdrekamyndir frá Skagaströnd

Það eru ýmsar leiðir til að taka skemmtilegar myndir og ljósmynaáhugi mikill og vaxandi með aukinni tækni og allskonar áhugaverðum ljósmyndabúnaði. Ljósmynaáhugafólk sækist eftir ýmsum og mismunandi myndefnum til úrvinnslu: Fólk, atburðir, birta, litir, fjöll og form eru þekkt viðfangsefni. Tæknin og möguleikarnir til áhugverðrar myndatöku eru allt að því óþrjótandi. Ein leiðin til að taka skemmtilegar myndir er að senda myndavélina upp í flugdreka og láta hana grípa sjónhorn fuglsins og færa það til eigandans og þeirra sem hann deilir myndefni sínu með. Einn af þeim sem stundar slíka flugdrekaljósmyndun er Árni Geirsson ráðgjafi hjá Alta ehf. Hann var á ferð um Skagaströnd fyrir nokkru og tók mjög skemmtilegar myndir með hjálp flugdrekans sem hann birtir á heimasíðu sinni: http://www.flickr.com/photos/arnigeirsson/sets/72157630503619218/

Frá Djásn og dúllerí

Keramik, pokakerlingar og steinahús eru meðal þess sem er nýtt í Djásnum og dúlleríi á Skagaströnd í sumar og úrvalið af bútasaumuðum teppum og dúkum hefur aldrei verið meira. Fataslárnar eru stútfullar af fallegum lopapeysum og enginn ætti að þurfa að vera með kaldar hendur, fætur eða höfuð næsta vetur því að af sokkum, vettlingum og húfum er feykinóg. Í Djásnum og dúllreíi er einnig er hægt að versla skrautpúða, skartgripi, bjölluseríur, bækur, veski, tækifæriskort, efni, einband, sængurgjafir, sápur, dúkkuföt, pils og kragar svo eitthvað sé nefnt. Djásn og dúllerí er til húsa í gamla Kaupfélagshúsinu við höfnina. Opið er frá kl. 14-18 alla daga en einnig er tekið á móti hópum utan opnunartíma ef óskað er. Tekið er við greiðslukortum.

Norðurá auglýsir útboð á stækkun urðunarhólfs

ÚTBOÐ Norðurá bs. óskar tilboða í verkið - Urðunarstaður Stekkjarvík Blönduósbæ - Stækkun. Helstu magntölur eru: Gröftur og tilfærsla jarðvegs 35.000 rúmmetrar. Lagnir 200 metrar. Verklok eru 31. ágúst 2012. Útboðsgögn fást á skrifstofu Eflu hf. verkfræðistofu, Höfðabakka 9 frá og með mánudeginum 9. júlí 2012, kl. 14, gegn skráningu á samskiptaaðila bjóðanda í útboði. Opnun tilboða verður 23. júlí 2012, kl. 14:00 í þjónustuhúsi urðunarstaðarins Stekkjarvík Blönduósbæ.

Hárstofan Viva aglýsir

Jæja.....nú er komið að því að ég fari í barneignarfrí. Síðasti vinnudagurinn minn er föstudagurinn 13. júlí (allt orðið fullt). Hægt er að fá tíma hjá Hörpu Þórsdóttur hársnyrti dagana 17. – 19. júlí, pantið tímanlega. Opið verður í ljósabekkinn eftir að stofan lokar á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtu-dögum frá 17.00 – 19.00. Tímapantanir í síma 452 2666. Halla María Þórðardóttir mun koma til starfa á stofunni í lok ágúst. Nánar auglýst síðar. Sumarkveðja, Dísa Ásgeirs.

Gæsluvöllur

Gæsluvöllur verður starfræktur á leikvelli Barnabóls 10. júlí – 3. ágúst 2012 Gæsluvöllurinn verður opinn virka daga kl 13 - 16. Börn á aldrinum tveggja til sex ára geta sótt völlinn gegn 400 kr greiðslu fyrir hvert skipti. Í leikskólanum verður opin salernisaðstaða fyrir börnin en að öðru leyti verður fyrst og fremst um gæslu utandyra að ræða. Æskilegt er að börnin taki með sér nesti og er sérstaklega bent á að öll leikföng sem þau kunna að taka með sér eru á eigin ábyrgð. Þrátt fyrir áætlaðan opnunartíma er allur réttur áskilinn til að leggja þetta þjónustutilboð niður ef aðsókn að gæsluvellinum verður lítil eða engin. Sveitarstjóri

Starfsmaður í íþróttahús/sundlaug

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir starf í íþróttahúsi/sundlaug laust til umsóknar. Starfið er fólgið í vaktavinnu í íþróttahúsi yfir vetrarmánuðina og sundlaugarvörslu á sumrin. Leitað er eftir reglusömum starfsmanni sem er lipur í samskiptum, fær um sjálfstæð vinnubrögð og hefur hæfni til að starfa með börnum og unglingum. Laun samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjalar. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar og hægt að sækja þau á vef sveitarfélagsins www.skagastrond.is Umsóknarfrestur er til og með 10. júlí 2012. Nánari upplýsingar veitir Árni Geir í síma: 861 4267. Sveitarstjóri

Atvinna í boði

Höfðaskóli auglýsir Stuðningsfulltrúa vantar við Höfðaskóla veturinn 2012 – 2013 Um er að ræða: · 50% stöðu stuðningfulltrúa á yngstastig · 75% stöðu stuðningsfulltrúa á miðstig · 30% stöðu stuðningsfulltrúa í Frístundaver yngsta stigs Umsækjendur þurfa að hafa gaman af að vinna með börnum, vera þolinmóðir, ákveðnir og sjálfstæðir í starfi. Menntun í uppeldisfræðum er kostur en ekki skilyrði. Umsóknir berist á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar eða á netfangið hofdaskoli@skagastrond.is Umsóknarfrestur er til 12. júlí, hægt er að nálgast umsóknar - eyðublöð á skrifstofu sveitarfélagsins eða á heimasíðu þess. Nánari upplýsingar veitir skólastjóri, í síma 452 2800 eða gsm 8490370. Skólastjóri

Kjör forseta Íslands 2012

Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd vegna forsetakosninganna fer fram í félagsheimilinu Fellsborg. Kjörfundur hefst klukkan 10.00 að morgni laugardagsins 30. júní 2012 og stendur til kl. 21.00 Kjörstjórnin.