Fréttir

Námskeið um verðlagningu á vöru

Verðlagning vöru og þjónustu er oft ýmsum vandkvæðum háð og ósjaldan lenda menn í vandræðum með hana. Þann 24. nóvember verður Útflutningsráð með námskeið í áætlanagerð og verðlagningu útflutningsvöru og þjónustu í samvinnu við KPMG og SSNV-atvinnuþróun.   Námskeiðið verður haldið að Mælifelli á Sauðárkróki, mánudaginn 24. nóvember kl. 13-17. Á námskeiðinu verður fjallað um áhrif mismunandi aðferða á áætlaðan rekstrar- og efnahagsreikning.  Þátttakendur fá einnig áætlunarlíkan í Excel til afnota.  Námskeiðið er ætlað fyrirtækjum í útflutningi á vöru og þjónustu þ.á m. ferðaþjónustufyrirtækjum og öllum er velkomið að sækja það. Ekki er krafist greiðslu.  Nánari upplýsingar veitir Katrín María Andrésdóttir hjá SSNV- Atvinnuþróun, sími 455 6119, kata@ssnv.is. Þar er einnig tekið við skráningu á námskeiðið.  Einnig veitir Inga Hlín Pálsdóttir hjá Útflutningsráði nánari upplýsingar, sími 511 4000, inga@utflutningsra

Menningar- og hátíðardagskrá í Fellsborg

Samkvæmt tillögu menntamálaráðherra hefur Dagur íslenskrar tungu verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, frá árinu 1996. Höfðaskóli hefur ætíð síðan gert mikið úr deginumog haldið upp á hann með einhverjum hætti. Í fyrra var ákveðið í Höfðaskóla skyldi dagurinn einnig vera helgaður minningu Elínborgar Jónsdóttur fyrrverandi kennara við skólannn með því að halda menningar- og hátíðardagskrá fyrir bæjarbúa í félagsheimilinu Fellsborg. Nemendur skólans munu syngja, leika, flytja ljóð, sögur ofl. Í ár eru 50 ár liðin frá því eldri hluti skólabyggingar Höfðaskóla var tekinn í notkun og mun dagskrá kvöldsins því að einhverju leyti tengjast sögu skólans. Aðgangur er ókeypis en skólafélagið Rán verður með kaffi á borðum og veitingasölu í hléi og kostar 350 kr fyrir kaffi/svala og kökudisk. Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla vonast eftir að sjá sem flesta bæjarbúa í hátíðarskapi í Fellsborg.

Þrælerfiðar spurningar í Drekktu betur

Spurningarnar í drekktu betur á föstudagskvöldið voru þrælerfiðar og kvörtuðu og kveinuðu þátttakendur eins og þeir lifandi gátu. Sökudólgurinn var Finnur Kristinsson sem samdi spurningarnar en kona hans Guðbjörg Ólafsdóttir var hinn alvaldi spyrill og stóð sig með prýði. Hér skal tekið dæmi um erfiðar spurningar. Hvaða fjöll erunákvæmlega í vesturátt frá Spákonufellshöfða? Það reyndust nú vera Balafjöll á Ströndum. Spurt var hvað efsti hluti Árbakkafjalls héti. Svarið var Illviðrahnúkur. Svo vandaðist nú málið ærlega er Guðbjörg varpaði þeirri spurningu fram, hversu langt væri að sigla frá tiltekinni borg í Suður-Kóreu um Súez-skurð og Miðjarðarhaf til Skagastrandar. Af miskunsemi sinni leyfði Guðbjörg að svara mætta annað hvort í kílómetrum eða mílum. Vegalengdin var að því er sérlegum fréttaritara minnir um 12.000 kílómetrar. Við lá að þátttakendur fengju hjartaáfall við næstu spurningu. Hvaða nöfn má draga af þessum orðum: "Ógnarfjöldi, aleinn maður", "Ungur sveinn og dýr í skógi", Fer um geyminn, hægur, hraður" og "Hefur sárbeitt nef og klær"? Ekki var laust við að stöku viskustykki brynnu yfir við þessa spurningu. Svarið var þó einfalt, að minnsta kosti þegar það lá ljóst fyrir; Hermann, Björn, Kári og Örn! SVo er ekki úr vegi að nefna bjórspurninguna, en hún var um William nokkurn Addis sem fann árið 1770 upp apparat sem allir nútímamenn nota daglega. Hvað skyldi það nú hafa verið? Svörin voru mörg, skeið, gaffall og jafnvel salerni. Rétt var svar var þó tannbursti. Þrjú lið höfðu þó þetta svar á takteinum. Svo fóru nú leikar að Sigríður Stefánsdóttir og Halldór Ólafsson rétt mörðu sigur og fengu 14 stig og bjórkassann. Á eftir komu tvö lið sem fengu 13 stig hvort og voru ekki sátt við sinn hlut. Til samanburðar má þess geta að yfirleitt hafa sigurliðin í Drekktu betur fengið frá 22 til 23 stig. Má af þessu sjá hversu strangar spurningarnar voru í þetta sinn. Hins vegar skemmtu menn sér afar vel enda leyfi til að draga dár að spyrli og lasta spurningar hans og var það leyfi nokkuð vel nýtt. Næsti spyrill og höfundur spurninga verður Signý Richter.

Umsóknir í vaxtarsamning Norðurlands

Nú, þegar almenningur og fyrirtæki eru hvött til að horfa fram á veginn og láta ekki deigan síga þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu, er ekki úr vegi að minna á að nú hefur öðru sinni verið auglýst eftir umsóknum um stuðning frá Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Markmið samningsins eru að efla atvinnulíf og þekkingu innan Húnavatns- og Skagafjarðarsýslna. Styrkhæf verkefni skulu annars vegar lúta að rannsóknum og menntun, eða ferðaþjónustu og menningu hins vegar. Samstarf tveggja eða fleiri aðila er skilyrði fyrir styrkveitingu. Umsóknarfrestur er til 20. nóvember nk. Nánari upplýsingar er að finna á vef SSNV og hjá starfsmanni sjóðsins, hjordis.gisladottir@ssnv.is

Vinnumálastofnun leitar eftir starfsfólki

  Greiðslustofa Vinnumálastofnunar á Skagaströnd leitar eftir starfsfólki vegna  aukinnar umsýslu með atvinnuleysistryggingar. Um er að ræða tímabundin störf í 4 – 6 mánuði við bakvinnslu umsókna, almenn skrifstofustörf, símsvörun og upplýsingagjöf. Leitað er að áhugasömu fólki með góða leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR. Boðið verður upp á nýliðaþjálfun. Hlutverk Greiðslustofunnar er að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið en hún heyrir undir Vinnumálastofnun Norðurlandi vestra sem rekur jafnframt þjónustuskrifstofur í umdæminu. Hjá stofnuninni starfar nú 15 manna hópur sem tekur vel á móti nýju samstarfsfólki. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og kynna sér þau störf sem eru í boði ásamt því að skoða upplýsingar um starfsemi Vinnumálastofnunar á www.vinnumalastofnun.is. Athygli er vakin á því að þar sem um tímabundin störf er að ræða og hafa þarf hraðar hendur við ráðningar þá verður ekki fylgt formlegu umsóknarferli heldur valið úr þeim umsækjendum sem setja sig í samband og skila inn umsókn með ferilskrá. Líney Árnadóttir forstöðukona veitir upplýsingar í síma 582 4900 og tekur við umsóknum á netfangið liney.arnadottir@vmst.is  

Prjónakaffi í Kvennaskólanum á Blönduósi

Miðvikudaginn 12.nóvember kl. 20.00 verður boðið upp á svokallað prjónakaffi í Kvennaskólanum á Blönduósi. Kynnt verður ný prjónabók Ístex, ný hönnun og fjölbreytt framleiðsla á handprjónabandi. Gestir frá Ístex verða Védís Jónsdóttir, hönnuður, Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri og Rebekka Kristjánsdóttir, sölustjóri. Mikið úrval bóka og uppskrifta að skoða og að sjálfsögðu boðið upp á kaffi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.

Bílskúr og íbúðarhús í sama stíl - fúnkis

  Það telst ekki til tíðinda að fólk byggi sér bílskúr við húsið. Hitt er líklega sjaldgæfara að fólk reyni að fella viðbyggingu að stíl íbúðarhússins. Eigendur og jafnframt íbúar að  Lækjarbakka við Strandgötu eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir nýja bílskúrinn þó enn sé hann ekki fullkláraður. Hann virðist falla afar vel að íbúðarhúsinu og er hvort tveggja byggt í svokölluðum fúnkisstíl.   Fúnkis var upprunnin í Þýskalandi snemma á síðustu öld og setti svip sinn á byggingar þar í landi og miklu víðar. Stíllinn var nokkurs konar andstæða við skrautlegar byggingar sem lengi tíðkaðist að reisa.  Notagildið varð mótvægið.   Til Íslands barst fúnkisstíllinn upp úr 1930. Í kreppunni miklu á fjórða áratugnum kom sér vel að geta byggt sem allra einföldust hús, en þrátt fyrir það varð hreinræktaður fúnkisstíll aldrei ráðandi stefna í byggingum hér.   Húsið Lækjarbakki var byggt árið 1946.   Meðfylgjandi myndir tók Sigurður Sigurðarson  

Fiskur - fiskur - fiskur

Mikill þorskafli hefur borist að undanförnu til Skagastrandar enda góð aflabrögð í Húnaflóa og út af Norðurland. Stærri skip leggja nú upp en endranær. Í morgun (þriðjudag) komu þrjú skip til Skagastrandar. Gullhólmi SH 201 var með 29,1 tonn a, Sturla GK 12 með 64,3 tonn og Rifsnes SH 44 með 59 tonn. Einungis lítill hluti þessa afla fór á markað. Þó fóru 16 tonn af afla Gullhólma á markað, en aðeins 2,1 tonn af afla Sturlu og 9,4 af afla Rifsness. Stórir flutningabílar voru snemma í morgun komnir á hafnarbakkann og fluttu aflann til útgerða skipanna. Ekki er er dagurinn allur, í kvöld koma Kristbjörg FH og Kristinn SH inn með mikinn afla. Meðfylgjandi myndir tók Sigurður Sigurðarson.

6. nóvember - forvarnardagur í grunnskólum

    Forvarnardagur 2008 verður haldinn í öllum grunnskólum landsins fimmtudaginn 6. nóvember næstkomandi. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.   Lykilpunktar Forvarnardagurinn 6.nóvember 2008 Unglingar sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna Ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf falla mun síður fyrir fíkniefnum Því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau verði fíkniefnum að bráð Byggir á niðurstöðum íslenskra vísindamanna sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa vakið alþjóðlega eftirtekt   Forvarnardagur verður haldinn í öllum grunnskólum landsins. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.   Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.   Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þeir unglingar sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.   Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.  

Sunnlenskt skólafólk notar húnvetnskt hugvit

Huglægur matslisti Gerd Strand,  sem skólafólk beggja Húnavatnssýslna þróaði, hefur hlotið verðskuldaða athygli.  Markmiðið með gerð listans er að færa kennurum sjö ára barna í hendur tæki sem þeir geta notað til að fá skýrari mynd af helstu færni- og getuþáttum sem hafa áhrif á gengi nemenda í skóla. Matslistann má nota sem almenna skimun en einnig til að meta þörf á nákvæmari greiningu barna sem sýna frávik.  Sú tilgáta var höfð að leiðarljósi við gerð listans að því meira sem unnið er af greiningum, mati, skimunum og áætlunum af starfsfólki skóla þeim mun líklegra er að starfsemin verði í samræmi við getu, eðli og þarfir hvers og eins nemanda. Tilgangurinn er því að stuðla að enn markvissari og faglegri vinnubrögðum í grunnskólunum. Nokkur  námskeið,sem veita þátttakendum réttindi til að nota matslistann, hafa þegar verið haldin. Síðasta námskeiðið var haldið fyrir sérkennara og kennara yngstu nemenda grunnskólanna á Suðurlandi, 31. október 2008.   Mynd: Sigríður Aadnegard, aðstoðarskólastjóri með nemendum  að loknu réttindatökunámskeiði á Selfossi.