12.01.2009
Næsta fimmtudag verður býður Textílsetrið upp á námskeið í Kvennaskólanum á Blönduósi. Kennt verður að prjóna tvær ermar á einn prjón, "tíglaprjón", ýmis uppfit og affellingar og fleira.
Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Ásdís Birgisdóttir, textílhönnuður.
Námskeiðið hefst kl. 20 á miðvikudagskvöldið og boðið verður upp á kaffi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.
09.01.2009
Eftir að hafa kýlt magann yfir jól og áramót er kominn tími til að vekja heilasellurnar. Í kvöld byrjar spurningakeppnin Gettu betur í Kántrýbæ.
Keppnin hefst stundvíslega klukkan 21:30. Stjórnandi, spyrill og alvaldur verður að þessu sinni Árdís Indriðadóttir, bókasafnsvörður. Hún hefur verið ansi getspök í fyrri keppnum, meðal annars sigrað einu sinni ásamt syni sínum. Yfirleitt hafa þau verið með stigahæstu liðunum.
Nafni keppninnar hefur verið breytt lítilsháttar. Áður hét hún Drekktu betur og var átt við að forráðamenn keppninna fengu inni í Kántrýbæ án endurgjalds en þátttakendur sáu um að drekka upp í húsaleigu, þ.e. kaffi, kók eða eitthvað annað ... Núna er komin nokkur festa á keppnina, aðsóknin mikil og varla þörf á frekari hvatningu. Áherslan er sem fyrr á skemmtilega samkomu, góðan félagsskap og ánægulega keppni um rétt svör. Ekki spillir svo fyrir að bjórkassi er í verðlaun fyrir sigurliðið.
23.12.2008
Sveitarfélagið Skagaströnd óskar öllum íbúum, velunnurum og vinum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Fyrir hönd sveitarstjórnar
Sveitarstjóri
19.12.2008
Bryndís Scram les upp úr bók sinni Í sól og skugga í Bjarmanesi á sunnudaginn kl. 16.
Bókin er endurminningar Bryndísar þar sem hún dregur upp litríkar mannlífsmyndir frá Bandaríkjunum, Kanada, Suður-Ameríku, Finnlandi, Eystrasaltslöndunum, Suður-Evrópu og ekki síst frá öðrum heimkynnum sínum, Andalúsíu.
Ævintýraleg tilvera, heitar tilfinningar og iðandi mannlíf - allt þetta ber hún hér fram á blómum skrýddu veisluborði minninganna.
19.12.2008
Á sunnudaginn var, þriðja sunnudag aðventu, vígði sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson sr. Úrsúlu Árnadóttur til þjónustu á Skagaströnd. Athöfnin fór fram í Hólakirkju.
Til altaris þjónaði sr. Hjörtur Pálsson. Vígsluvottar voru sr. Gísli Gunnarsson, sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir og sr. Guðni Þór Ólafsson, prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi, sem lýsti vígslu.
Það var kór Hóladómkirkju sem söng við athöfnina en organisti var Jóhann Bjarnason.
Séra Úrsúla hyggst flytja búferlum frá Akranesi yfir hátíðirnar og hefur störf þann 1. janúar á Skagaströnd.
18.12.2008
Jólatónleikar Tónlistarskóla A-Hún, á Skagaströnd, fóru fram í Hólaneskirkju 17. desember. Þar komu nemendur skólans fram og léku listir sínar á hljóðfæri. Einnig sungu tveir nemendur skólans. Tónleikarnir voru vel sóttir og nemendum klappað lof í lófa.
Meðfylgjandi myndir tók Signý Richter.
Efsta myndin: Arnar Páll, Elmar, Anna Dís, Gunnþór, Bergrós Helga, Elías Gunnar, Róbert Björn og Sæunn flytja jólalag ásamt Skarphéðni Einarssyni, kennara þeirra.
Á næstu mynd spilar Daði Sveinsson á blokkflautu. Til aðstoðar er Hugrún Sif, kennari hans.
Á þriðju myndinni spilar Elín Ósk Björnsdóttir á trompett.
Fjórða myndin er af Ívan Árna Róbertssyni.
Fimmta myndin er af Valgerði Ingvarsdóttur sem leikur á þverflautu.
Á sjöttu myndinni má sjá Róbert Björn Ingvarsson og Skarphéðinn, kennara hans, plokka gítarinn.
Sjöunda myndin er af Hebu Líf Jónsdóttur sem þenur harmónikkuna.
Áttunda myndin er af Ingibjörgu Maríu Reynisdóttur sem syngur jólalagið vinsæla, Hvít jól við undirleik Páls Szabo.
18.12.2008
Þriðji ísbjörninn var alveg lifandi kominn inni í Höfðaskóla í vikunni. Hann var þó algjörlega meinlaus enda aðeins skáldsaga eftir Þorgrím Þráinsson.
Bókina skrifaði Þorgrímur á Skagaströnd síðastliðið sumar en sögusviðið er einmitt í A-Húnavatnssýslu. Hugmyndina af sögunni fékk hann þegar hann dvaldi í sumar í Nes-listamiðstöðinni á Skagaströnd þegar ísbirnir fóru að gera vart við sig í nágrenninu.
Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð, Spákonuarfur og Nes listamiðstöð ákváðu í sameiningu að færa öllum nemendum Höfðaskóla eintak af bókinni að gjöf. Tilgangurinn er að hvetja til bóklestrar og skapandi skrifa.
Þorgrímur mætti í skólann mánudaginn 15. desember, las upp úr bókinn og áritaði auk þess sem hann ræddi við eldri nemendur um gildi frumkvæðis og ábyrgðar á eigin lífi.
Gefendur, í samstarfi við Höfðaskóla, stefna að því á nýju ári að koma á smásagnasamkeppni innan skólans.
15.12.2008
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 17. desember 2008 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 8:00.
Dagskrá:
1. Fjárhagsáætlun 2009
a) Forsendur tekjuáætlunar
b) Rekstraforsendur
c) Bréf Samgönguráðuneytis, dags. 10. desember 2008.
2. Bréf:
a) UMFÍ, dags. 29. okt. 2008.
b) Menningarráðs Nl. vestra, dags. 31. okt. 2008.
c) Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 6. nóv. 2008.
d) Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 5. nóv. 2008.
e) Farskólans, dags. 10. nóv. 2008.
f) Heilbrigðisráðuneytisins, dags. 21. nóv. 2008.
g) Vinnumarkaðsráðs Nl. vestra, dags. 19. nóv. 2008.
h) Snorraverkefnisins, 28. nóv. 2008.
i) Þjóðhátíðarsjóðs, dags. 1. des. 2008.
j) Stígamóta, 28. nóv. 2008.
k) Sturlu Böðvarssonar, 1. þingm. Nv kjördæmis, dags. 2. des. 2008.
l) Ámundakinnar, dags. 10. des. 2008.
m) EBI Brunabótar, 12. des. 2008.
3. Fundargerðir:
a) Byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún. 11.11.2008.
b) Byggðasamalags um Atvinnu- og menningarmál, 2.12.2008.
c) Stjórnar Norðurár bs. 3.12.2008
d) Stjórnar SSNV, 8.12.2008.
4. Önnur mál
Sveitarstjóri
15.12.2008
Lárus Ægir Guðmundsson hefur stofnað styrktarsjóð til eflingar menningar- og listalíf á Skagaströnd og Skagabyggð. Sjóðnum er einnig ætlað að greiða styrki til þeirra sem verða fyrir slysum eða alvarlegum veikindum og þarfnast aðstoðar.
Stofnfé sjóðsins eru 50 milljónir króna og áætlað að stykir úr honum geti numið allt að 5 milljónur á ári.
Lárus Ægir er borinn og barnfæddur á Skagaströnd, rætur hans liggja þar sem hefur hann starfað mestan hluta ævi sinnar. Af þeim verkefnum sem hann hefur unnið að má nefna þessi:
· Sveitarstjóri á Skagaströnd frá árinu 1972 til 1984
· Framkvæmdastjóri frystihússins Hólanes frá 1984 til 1994
· Stofnandi, eigandi fiskmarkaðarins Örva á Skagaströnd, framkvæmdastjóri hans frá 1994 til 2007
Lárus Ægir hefur sinnt fjölmörgum málum sem til framfara hafa horft á Skagaströnd. Hann keypti meðal annars í félagi við aðra gamla kaupfélagshúsið og gerði það upp. Húsið hefur að hluta til þegar verið tekið í notkun og í því eru skrifstofur Menningarráðs Norðurlands vestra og BioPol ehf.
Hann átti líka þátt í að kaupa húsið sem áður var frystihúsið Hólanes en til stendur að breyta því og finna hentuga starfsemi fyrir það.
Í síðustu viku kynnti Lárus Ægir styrktarsjóðinn með bréfi sem hann sendi til allra íbúa á Skagaströnd og Skagabyggð. Bréfið fer hér á eftir:
Ég – Lárus Ægir Guðmundsson – stofnaði í upphafi þessa árs styrktarsjóð sem ber nafnið Minningarsjóður um hjónin frá Garði og Vindhæli. Hann er stofnaður til minningar um afa mína og ömmur í föður- og móðurætt, þau Helgu Þorbergsdóttur og Jóhannes Pálsson sem bjuggu í Garði á Skagaströnd og Láru Kristjánsdóttur og Lárus G. Guðmundsson sem bjuggu á Vindhæli í Skagabyggð og síðar á Skagaströnd. Stofnfé sjóðsins er 50 milljónir króna og er hér formlega greint frá tilvist hans.
Tilgangur sjóðsins er að efla og styrkja menningar- og listalíf í Sveitarfélaginu Skagaströnd og í Skagabyggð í víðtækri merkingu þessara orða. Jafnframt er heimilt að greiða styrki til þeirra sem verða fyrir slysum eða alvarlegum veikindum og þarfnast aðstoðar.
Ástæða stofnunar sjóðsins er sú að ég hef átt mitt dagsverk í þessari byggð og þykir vænt um hana. Hér hefur mér vegnað vel og vil því gjarnan láta samborgara mína njóta í nokkru góðs af afrakstri starfa minna.
Í stjórn sjóðsins eru börn mín þrjú, þau Stefán Ægir, Soffía og Erla María og er það í þeirra höndum að ákveða og sjá um úthlutanir úr sjóðnum en styrkir úr honum geta numið allt að 4-5 milljónum króna á hverju ári.
Ég vil hvetja einstaklinga og félög, sem hafa hugmyndir og áform sem falla að tilgangi framangreinds sjóðs, að hafa samband við stjórnendur hans með formlegri umsókn þar sem gerð er góð grein fyrir viðkomandi máli.
Gert er ráð fyrir að úthlutað verði úr sjóðnum þrisvar til fjórum sinnum á ári. Ekki verður um sérstakan umsóknarfrest að ræða heldur má senda inn umsóknir hvenær sem er og skulu þær berast til Soffíu Lárusdóttur, Tröllateig 24, 270 Mosfellsbæ.
Nú er lag til að láta gamminn geysa og horfa til þess hvort ekki kunni að leynast ýmsar hugmyndir varðandi viðburði sem gaman væri að hrinda í framkvæmd fljótlega, sem og á næstu misserum og árum.
Bestu kveðjur,
Lárus Ægir Guðmundsson
15.12.2008
Skagaströnd hefur fengið 10,8 milljóna króna framlag vegna tímabundins samdráttar í aflamarki þorsks á árinu. Þetta er hluti af 250 milljóna króna framlagi ríkissjóðs til sveitarfélaga á landinu.
Tvö sveitarfélög á Norðurlandi vestra fá úthlutað að þessu sinni en það eru Skagaströnd sem fær 10.754.656 og Skagafjörður sem fær 4.231.041
Úthlutunin nú byggist á sambærilegum forsendum og árið 2007 sem er áhrif ákvörðunar um aflaniðurskurð á einstök sveitarfélög þar sem aflamark er skráð. Þó er að þessu sinni miðað við minnkun aflamarks eins og það var í hverju sveitarfélagi um sig þann 1. september 2007, en ekki meðaltal úthlutaðs aflamarks nokkur fiskveiðiár þar á undan eins og gert var fyrir ári.
Framlagið kemur frá samgönguráðuneytinu sem telur að með framlaginu sé betur mætt áhrifum af niðurskurði í aflamarki þorsks í hverju sveitarfélagi þar sem skoðuð er staða aflamarks við upphaf þess tíma er niðurskurðurinn tók gildi. Alls er 200 milljónum króna varið til þessa þáttar.
Þá er sú breyting gerð nú, að sérstakt tillit er tekið til breytinga sem átt hafa sér stað í lönduðum afla milli fiskveiðiáranna 2006-2007 og 2007-2008. Alls er 50 milljónum króna varið til þessa þáttar, en framlaginu er ætlað að mæta minnkandi umsvifum í starfsemi hafna vegna ákvörðunar um niðurskurð í aflamarki þorsks.
Við úthlutunina var tekið mið af því, að vægi ofangreindra þátta er misjafnt í atvinnustarfsemi einstakra sveitarfélaga. Ennfremur var ákveðið að hámarksúthlutun til einstakra sveitarfélaga yrði 35 milljónir króna. Markmið úthlutunarinnar er að framlag renni til þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir umtalsverðum áhrifum vegna hins tímabundna samdráttar í þorskafla.