11.12.2008
Skagstrendingar stofnuðu Gleðibanka í gærkvöldi að viðstöddum fjölda manns. Allir sem einn staðgreiddu þeir hlut sinn og gekk afgreiðslan afar fljótt fyrir sig enda var enginn hörgull á greiðslu. Í dag gengu svo umboðsmenn Gleðibankans í fyrirtæki og keyptu allir sem ekki gátu mætt á stofnfundinn.
Fyrsta verk Gleðibankans var svo að gefa út svokallað Gleðikort. Fyrir það fæst veglegur afsláttur í helstu verslunum, veitingahúsum, söluskálum og bensínstöðvum á Skagaströnd, en þau eru Kántrýbær, Söluskálinn, Olís og matvöruverslunin Samkaup Úrval. Líkur benda til þess að allir Skagstrendingar hafi nú fengið Gleðikort og muni nota það á morgun en þá er Afsláttardagurinn mikli á Skagaströnd og þann dag gildir kortið.
Eftir stofnun bankans var gengið til gleðistarfa. Sýndar voru myndir frá skeri nokkru sem er enn kaldara en klaki vor, sagðar voru örskopsögur af Skagstrendingum, leikin var syrpa af jólalögum og í boði Sjóvá fengu gestir kaffi og kökur eins og hver gat í sig látið. Þess má hér geta að engin krosstengsl eru á milli Gleðibankans og Sjóvá en þó er meira en hugsanlegt að fyrrnefnda fyrirtækið reyni að taka hið síðarnefnda yfir áður en langt um líður.
Gjaldmiðill Gleðibankans er bros. Hluturinn í bankanum er þannig virtur á eitt þúsund bros en gangvirðið er að öllum líkindum miklu hærra og tala menn um fjölda brosa, jafnvel hlátra í því sambandi.
Það óvenjulega við hlutabréf í Gleðibankanum er að hann er ævarandi bundin þeim sem keypti hann. Arðurinn er skattfrjáls en engu að síður framtalsskyldur. Gerð skal grein fyrir eigninni á blaðsíðu 1 á framtali, lið 1.4.
Þar skal rita eftirfarandi texta:
"Undirritaður á 1.000 bros í Gleðibankanum en það eru ómetanleg auðæfi og algjörlega skattfrjáls samkvæmt heilbrigðri skynsemi."
Síðan skal bæta við broskalli :-) og helst lita hann gulan.
Gleðibanki Skagastrandar getur ekki orðið gjaldþrota (það var að vísu líka sagt um gömlu bankana!). Bankinn hefur grínlausa milligöngu um varðveislu verðmæta, hvort heldur þau eru í gríni, skopi eða öðrum gleðigjaldeyri. Hann annast gleðivísitölu, gætir að gengi gríns miðað við aðra miðla og gefur út gleðikort, gleðipillur og gleðibréf af öllu tagi fyrir gleðimenn og konur.
Í trúnaði sagt er einlægur tilgangur stofnenda Gleðibankans á Skagaströnd að hvetja til bjartsýni. Þrátt fyrir alvarlega stöðu þjóðarinnar telja þeir ekki ástæðu til að leggjast í þunglyndi eða berja á náunganum þrátt fyrir smávægilegan skoðanaágreining á þeim málum sem nú er sem mest rætt um.
Við þurfum að vera bjartsýn, sýna hverju öðru velvilja og það er fyrst og fremst gert með því að fólk sýni tilfinningar sínar og brosi, það eykur viðskiptin við bankann. Gleðibankinn er fyrst og fremst spurning um hugarfar. Skagstrendingum finnst nauðsynlegt að geta litið upp frá bölsýni og barlómi og horft á það sem eykur þor og bjartsýni. Nú eru líka að koma jól og brátt fer sól að hækka á lofti.
Gleðibankinn er vettvangur til að láta sér líða vel enda heimsendir ekki í nánd eftir því sem best er vitað. Hlutabréfin eru stæling á því sem við getum átt í veraldlegum eignum, því sem ryðgar bara og fúnar - það er ekkert grín ... Hins vegar er ekkert eins og gleðin sem á sína bestu birtingarmynd í einlægu brosi.
Þessu öllu til staðfestingar þá rituðu stofnendur Gleðibankans þau orð sem þeim finnst vera mest íþyngjandi á litla miða. Þetta voru m.a. orð eins og kreppa, þunglyndi, bankar, skuldir, milljarðar, gjaldþrot, spilling, atvinnuleysi, útrás og verðbólga. Miðunum var síðan troðið í fallbyssu Skagstrendinga og í lok fundarins var skotið úr henni. Brunnu þar upp miðarnir og þar með voru vandamálin fyrir bí - þeim var beinlínis skotið út í veður og hvassan vind.
Fundu Skagstrendingar allir sem einn að þeim var mikið létt eftir þennan gjörning og sneru léttir í lund heim á leið.
11.12.2008
Stjórn Vaxtassamnings Norðurlands vestra úthlutaði í síðustu viku 20.4 milljónum króna til nokkurra verkefna sem byggðar eru á umsóknum.Sótt var um tæpar 62 milljónir króna í 27 umsóknum.
Stjórnin ákvað að úthluta samtals kr. 20.400.000, og skiptist sú upphæð í kr. 15.000.000 í peningum og andvirði kr. 5.400.000 í sérfræðiaðstoð sem bakhjarlar VNV leggja fram (sjá vef VNV).
Skagafjörður
Árlega sækja tugþúsundir ferðamanna Byggðasafnið í Glaumbæ heim og þar er orðið verulega aðkallandi að skipuleggja, endurbæta og stækka aðstöðuna. Til að svo megi verða þarf að ljúka tilteknum áföngum í fornleifarannsóknum á safnssvæðinu í Glaumbæ. Fornleifadeild Byggðsafns Skagfirðinga og samstarfsaðilar hennar hljóta til þess styrk að upphæð kr. 1.000.000.
Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði, ásamt allnokkrum ferðaþjónustuaðilum í sama héraði, hefur uppi áform um stofnun ferðamiðstöðvar með það að markmiði að koma á framfæri þeim vörum og þjónustu sem í boði eru á svæðinu og vera um leið n. k. bókunarmiðstöð. Verkefnið hlýtur styrk að upphæð kr. 1.500.000, auk fyrirheits um sérfræðiaðstoð að andvirði allt að kr. 500.000.
Nú er mikil vakning á meðal sláturleyfishafa og margra annarra um að bæta nýtingu og auka verðmæti ýmiss konar hliðarafurða úr slátrun og kjötvinnslu. Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga og MATÍS (sem nýverið opnaði starfsstöð á Sauðárkróki) fá kr. 2.000.000. til rannsókna og vöruþróunar á þessu sviði.
Blönduós
Handverkshús á Blönduósi er verkefni, sem fyrirtækin Sigurberg og Blanda vinna að í sameiningu. Stjórn VNV leggur þessum fyrirtækjum til sérfræðiaðstoð að andvirði allt að kr. 500.000, til frekari þróunar á hugmyndinni.
Laxasetur á Blönduósi er verkefni, sem Alva Kristín Ævarsdóttir hefur forgöngu um, og nýtur hún m. a. fulltingis Landssambands veiðifélaga og Blönduóssbæjar. Verkefnið hlýtur kr. 500.000 í peningum og kr. 400.000 á formi sérfræðiaðstoðar.
Húnaþing vestra
Hýruspor er vinnuheiti verkefnis, sem unnið hefur verið að um allnokkurt skeið. Markmiðið er að efla samstöðu og samvinnu þeirra sem búa og starfa á Norðurlandi vestra og byggja afkomu sína að meira eða minna leyti á íslenska hestinum. Ætlunin er að stofna formleg samtök sem skulu starfa í anda svokallaðrar „samstarfskeppni“ og er gert ráð fyrir kynningar- og stofnfundum í upphafi ársins 2009. Aðild verður opin öllum þeim, sem falla undir áðurnefnda skilgreiningu og eru tilbúnir að starfa undir þessum formerkjum. Meðal forgönguaðila eru Krossaneshestar, Sveitasetrið á Gauksmýri, Íslenskar hestasýningar og Sögusetur íslenska hestsins, auk Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra. Verkefnið hlýtur styrk að upphæð kr. 2.000.000, auk allt að kr. 1.000.000 á formi sérfræðiaðstoðar.
Skagaströnd
Á Skagaströnd hefur um árabil verið unnið að vöruþróun á sviði bragð- og íblöndunarefna. Meðal annars er þar komin á nokkurn rekspöl þróun á bragðkjörnum byggðum á þangi. Fyrirtækin H-59 og MarinAgra hljóta styrk að upphæð kr. 2.500.000 til frekari þróunar og áætlanagerðar.
Möguleikar til kræklingaeldis í Húnaflóa eru til skoðunar hjá áhugasömum hópi einstaklinga og fyrirtækja á Skagaströnd. Fyrir þessum hópi fer fiskeldisfræðingurinn Jón Örn Stefánsson. VNV leggur fram kr. 1.000.000 til að afla nauðsynlegra gagna til þess að leggja mat á hvort kræklingarækt getur verið fýsilegur kostur til atvinnuuppbyggingar við Húnaflóa. Til viðbótar getur komið sérfræðiaðstoð frá bakhjörlum VNV, að andvirði allt að kr. 1.500.000.
Fyrir allt svæðið
Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi vinnur að kynningarmyndbandi (DVD) um Norðurland allt. VNV leggur verkefninu til kr. 500.000.
Hveravellir eru áningarstaður á fjölfarinni leið og nokkurs konar hlið að Norðurlandi vestra, ef komið er sunnan Kjöl. Undanfarin sumur hafa á milli 40 og 50 þúsund manns lagt leið sína á Hveravelli yfir sumarið og þar bráðliggur orðið á að taka til hendinni, bæði með tilliti til bættrar aðstöðu og þjónustu, sem og til verndar hinni stórbrotnu náttúru og sögulegra minja á staðnum. Stjórn VNV hefur ákveðið að leggja Hveravallafélaginu og samstarfsaðilum þess til framlag að upphæð kr. 1.500.000 í peningum, og sérfræðiaðstoð fyrir allt að kr. 1.000.000.
Wild North er fjölþjóðlegt verkefni og eru helstu markmið þess uppbygging sjálfbærrar, náttúrutengdrar ferðaþjónustu á Norðurslóðum, og að treysta með því undirstöður greinarinnar, afkomu þeirra sem í henni vinna og notkun auðlindarinnar til langs tíma. Ferðaþjónustuaðilar og vísindamenn leggjast á eitt um að kanna áhrif ferðamennsku á atferli villtra dýra, með það fyrir augum að ferðamennskan hafi sem minnst áhrif á atferli dýranna og þannig á lífríkið allt. Þátttakendur af Norðurlandi vestra eru m. a. Náttúrustofa Norðurlands vestra, Æðarvarp ehf. á Illugastöðum og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, auk Selaseturs Íslands sem er leiðandi í verkefninu. Meðal annarra íslenskra þátttakenda má nefna Melrakkasetur á Súðavík, Fræðasetur Háskóla Íslands á Húsavík og ferðaþjónustufyrirtækið Norðursigling í sama bæ. Auk þess koma grænlenskir, færeyskir, norskir og skoskir þátttakendur að verkefninu, sem lesa má nánar um á vefnum http://www.thewildnorth.org/ . VNV leggur verkefninu til kr.2.500.000 í peningum, auk sérfræðiaðstoðar allt að andvirði kr. 500.000.
10.12.2008
Fimmtudaginn 11.desember kl. 20.oo
Prjónakaffi og jólamarkaður í Kvennaskólanum á Blönduósi.
Safnbúð og kaffistofa Heimilisiðnaðarsafnsis er einnig opin.
Jólamarkaður – vandað handverk til sölu
Prjónakaffi - áhugasamir eru hvattir til að mæta
með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.
Heimilisiðnaðarsafnið – safnbúðin og kaffistofan eru opin.
Handverksfólk sem hefur áhuga á því að selja á markaðnum er bent á að hafa samband við Ásdísi gsm. 894-9030
TEXTÍLSETUR ÍSLANDS
Kvennaskólanum
Árbraut 31, Blönduósi
452 4300 - 894 9030
textilsetur@simnet.is
www.textilsetur.is
09.12.2008
Á miðvikudagskvöldið 10. desember kl. 20:30 verður haldin skemmtun í Bjarmanesi. Um er að ræða dálitla tilraun til að vega upp á móti niðurdrepandi krepputali og bölsýni. Fyrir framtakinu stendur hópur Skagstrendinga sem finnst tilveran of góð til að eyða henni í stöðuganbarlóm:
„Við neitum því að láta kreppuna stjórna lífi okkar heldur tökum á móti jólum og hækkandi sól með gleði í hjarta ... Þess vegna ætlum við að koma saman og stofna Gleðibankann.“
Dagskrá kvöldsins
Gleðibankinn, kynning og stofnun
Skagstrendskar skopsögur
Sagt frá skeri nokkru sem er enn kaldara, í máli og myndum
Afsláttardagurinn kynntur og gleðikortið afhent
Tónlist, uppspretta gleðinnar
Upplestur úr jólabókum
Afhending hlutabréfa
Fallbyssan: Öllu neikvæðu skotið út í hafsauga
Kaffi, kakó og kökur í boði Sjóvá
Við skrifum bölsýnina og vandamálin á litla miða, setjum þá í fallbyssuna og svo skjótum við ófögnuðinum út í geiminn. Búið ...!!
Afsláttardagurinn
Föstudaginn 12. desember 2008 veita eftirtalin fyrirtæki á Skagaströnd afslátt gegn framvísun gleðikortsins:
• SamkaupÚrval ..... 5%*)
• Kántrýbær ............ 10%*)
• Söluskálinn ...........10%*)
• Olís ....................... 5 krónu afsláttur af eldsneyti.
*) Afslátturinn gildir ekki fyrir áfengi og tóbak.
Öllum er heimill aðgangur að skemmtuninni og er ekki krafist neins aðgangseyris.
05.12.2008
Kaffihlaðborð verður í Bjarmanesi sunnudaginn 7. desember frá kl. 14.00 til 18.00.
Í boði er kaffi, heitt súkkulaði og jólate, marsipan og marengstertur, brauðtertur og flatkökur með hangikjöti svo eitthvað sé nefnt.
Verð 1000 kr. fyrir fullorðna – 500 kr. fyrir börn 5 - 12 ára.
Frítt fyrir 0 - 4 ára.
Eygló Amelía kemur og syngur nokkur jólalög. allir hjartanlega velkomnir.
Á sama tíma verður jólamarkaður í kjallara Bjarmaness þar sem fjölmargir listamenn selja handverk sitt.
05.12.2008
Halldór Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf., verður spyrill í spurningakeppninni Drekktu betur sem haldin verður í Kántrýbæ í kvöld.
A föstudagskvöldið verður sjötta og jafnframt síðasta spurningakeppnin á þessu ári. Fyrri keppnir hafa verið ákaflega skemmtilegar, spyrlar fróðir og komið á óvart með fjölbreytni sinni og ekki hafa þátttakendur verið síðri.
Halldór hefur verið önnum kafinn síðustu tvær vikur við að búa til spurningar sínar. Hann hefur auðvitað mestar áhyggjur yfir því að þær verði of léttar. Við sjáum nú bara til með það. Hitt vita flestir að hann hefur einu sinni unnið bjórkassann sem er í verðlaun og ætti nú að vita hverskonar spurningar þarf að leggja fyrir hina vísu Skagstrendinga.
05.12.2008
Gríðarleg breyting hefur orðið á umsvifum í Skagastrandarhöfn. Mikill afli berst nú til lands og á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins barst 55% af þeim afla sem hér var landað allt síðasta tímabil.
Fiskveiðitímabilið hefst sem kunnugt er í september. Landaður afli á Skagaströnd á þremur fyrstu mánuðum þess er nú rúmlega tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra.
Í september, október og nóvember bárust á land samtals 3.282 tonn, en sömu mánuði í fyrra var landað 1.580 tonnum og árið 2006 var aflinn 1.865 tonn.
Þetta er afar mikil breyting og því til staðfestingar má nefna að allur afli síðasta fiskveiðiári var 5.984 tonn en þar áður var aflinn 9.273 tonn.
Það sem af er hafa átján skip og bátar lagt upp á Skagaströnd, sumir einu sinni og aðrir mun oftar.
Aflahæstu skipin eru þessi:
Rifsnes SH44 - 188.235 tonn
Valdimar GK195 - 160.492 tonn
Kristinn SH112 - 159.094 tonn
Sturla GK12 - 150.050 tonn
Örvar SH77 - 83.836 tonn
Togarinn Arnar kom 24. nóvember og landaði samtals 317.930 tonnum af frystum flökum og heilfrystu.
03.12.2008
Biopol sjávarlíftæknisetur hefur hafið rannsóknir á beitukóngi í Húnaflóa. Hún er unnin í samstarfi við Vör-Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð, Sægarp ehf. á Grundarfirði og Vík ehf. á Skagaströnd.
Markmiðið er að gera frumathugun á hvort beitukóngur (Buccinum undatum) finnist í veiðanlegu magni í Húnaflóa.
Framkvæmd verkefnisins fer fram með þeim hætti að trossur með gildrum er lagðar á völdum svæðum sem eru valin sérstaklega með tilliti til botngerðar og dýpis þar sem aukin líkindi eru á að beitukóngur ætti að geta verið fyrir hendi. Aflinn sem fæst í gildrurnar verður tekin í land til rannsókna. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.
Beitukóngsveiðarnar hafa gengið ágætlega og hefur nú verið vitjað fjórum sinnum um gildrurnar og þær fluttar til.
Fyrstu trossurnar voru lagðar rétt sunnan við Skagaströnd svo hafa þær verið færðar norðar í hvert sinn sem vitjað er. Hafrún HU12 hefur verið notuð til veiðanna og er öll aðstað um borð til fyrirmyndar.
Aflinn var frekar dræmur í annari vitjun, líklega vegna veðurs.
Eftir þriðju vitjun á laugardaginn síðasta var hálf tindabykkja sett til viðbótar við hökkuðu síldina í gildrurnar. Tindabykkjan virðist hafa góð áhrif á veiðina því að í síðust vitjun var heildaraflinn 139 kg eða að meðaltali 2,3 kg í gildru.
Mesta veiðin í eina gildru var 4,9 kg sem þykir nokkuð gott. Veiðin virðist vera best á 10 til 20 föðmum. Áætlað er að leggja trossurnar fjórum sinnum í viðbót í þessari atrennu.
03.12.2008
Enskunám er nú að hefjast í Farskólaverkefninu "Eflum byggð á Skagaströnd". Kennt verður daganna 3. des og 10. des og alla eftir áramót verður kennt á fimmtudögum í átta vikur.
Öllum er heimil þátttaka, hún kostar ekkert og námsgögnin eru líka ókeypis. Fólk getur einnigvalið að taka bara ensku og sleppt öðrum námshlutum.
Allir tímar hefjast kl. 18:00 og þeim lýkur kl. 21:00. Lögð er áhersla á að gefa öllum tækifæri á að læra með sínum hraða og námsefnið sniðið að þörfum hvers og eins. Ekki er lögð áhersla á heimanám og lokapróf er ekki haldið enda tilgangurinn að gefa fólki hvatningu til frekara náms.
Hægt er að skrá sig í síma 455 6010 eða senda tölvupóst á netfangið asdish@farskolinn.is.
02.12.2008
Kveikt var á ljósunum á jólatrénu á Skagaströnd í gær. Lítilsháttar frost og smávægileg snjófjúk kom ekki í veg fyrir að jólasveinarnir mættu á staðinn og þarna á Hnappstaðatúninu voru auðvitað mætt langflest börn á Skagaströnd og foreldrar þeirra.
Svo var sungið og dansað í kringum jólatréð sem lék við hvern sinn fingur eða grein. Jólasveinarnir komu víða að meðal annars var þarna einn sem talaði bara útlensku. Hann var líklega í námsferð hjá þeim íslensku. Þeir kokmu færandi hendi og er það líklega tímanna tákn að þeir útdeildu "blandi í poka" til allra barna en ekki einhverju fornlegu eins og kertum eða spilum.
Grýla var víðs fjarri með pokann sinn og var hann sem endranær galtómur.