Fréttir

Listamenn nóvembermánaðar

Fjölgar nú aðeins listamönnum hjá Nes-listamiðstöðinni í nóvember. Í október voru aðeins þrír listmenn við þessa ágætu stofnun og var ástæðan fyrst og fremst forföll að ýmsum ástæðum sem fyrst og fremst eru rakin til persónulegra ástæðna en ekki þess að menn vilji ekki koma til mánaðardvala á Skagaströnd að vetrarlagi. Afar mikil aðsókn hefur hins vegar verið að Nes-listamiðstöðinni og að því leytinu til eru allir ánægðir með starfsemina. Þessir listamenn koma hingað til dvalar í nóvember. Sverrir Sveinn Sigurðsson rithöfundur Timo Rytkönen, myndlistarkona frá Finnlandi Kate Dambach málari frá Bandaríkjunum Ben Taffinder skúlptúristi frá Bretlandi Carola Luther rithöfundur frá Bretlandi og Noemi Romano hönnuður og listamaður frá Ítalíu.

Fjöldi Skagstrendinga í símenntun

Námskeiðið „Eflum byggð“ hófst fyrir stuttu á Skagaströnd. Það er Farskóli Norðurlands vestra sem stendur fyrir því en kennarar er ýmist heimamenn eða koma annars staðar frá. Tólf þátttakendur hófu námið og enn er að fjölga í hópnum.   Markmiðið með námskeiðinu er að auka starfshæfni íbúanna með því að skapa jákvætt andrúmsloft í samfélaginu gagnvart breytingum og þróun í atvinnulífinu. Einnig að skapa jákvætt andrúmsloft gagnvart fræðslu í samfélaginu og auka námsgæði og aðgang að áframhaldandi menntun í samfélaginu.   Á fyrstu önn  er kennt í átta vikur, þ.e. þrjú kvöld í viku hverri.  Uppistaðan á námskeiðinu er svokallaður Lífsvefur. Þar er litið var á manneskjuna „sem vef þar sem uppistaðan er meðfæddir hæfileikar og eðli hvers einstaklings, en ívafið í vefinn er sú þekking og reynsla sem hver einstaklingur hafði aflað sér á leið sinni í gegnum lífið“ (Margrét Björk Björnsdóttir. 2007. Römm er sú taug...BA – ritgerð í ferðamálafræði. Hólar í Hjaltadal). Farið í hvað einstaklingurinn getur gert til að efla sig og samfélagið sem hann býr í. Fjallað um sjálfið, sjálfstraustið, tjáskipti, samskipti, fjölskyldu og vinnustað, nám og námstækni, fjármál heimilanna og fleira. Námsefni kemur frá Mími – símenntun og fleirum.   Kennd er upplýsingatækni. Þeir sem áður hafa tekið þátt í námskeiðinu telja að tölvuþekkingin nýttist þeim best í daglegu starfi af þeim námsþáttum sem kenndir voru þar. Það er því mikilvægt að efla tölvulæsi fólks til að tölvan nýtist þeim bæði í daglegum störfum og tómstundum. Námsefnið er bókin UTN 1036 sem ætluð er framhaldsskólanemendum og er aðlagað að námshópnum.   Kennd er íslenska, talmál og ritmál, uppsetning bréfa, umsóknir um störf.   Áttahagafræði er einnig á námskránni. Gengið er út frá því að þátttakendur séu alltaf að „selja“ sitt heimasvæði. Hvernig er náttúran á heimaslóð? Hvað er vert að skoða? Námsefni kemur frá kennurum Háskólans á Hólum.   Þekking í ensku er mikilvæg. Góður skilningur á ensku nýtist við upplýsingaleit á netinu, til samskipta og á ferðalögum erlendis. Lögð er áhersla á þjálfun í talmáli. Hér er um að ræða námsefni sem Farskólinn hefur látið taka saman, sérsniðið fyrir fullorðna nemendur með stutta formlega skólagöngu að baki.   Stærðfræði er mikilvæg í daglegu lífi.  Hér er um að ræða margvíslega upprifjun, s.s. prósentureikning; hækkun og lækkun, einfaldir vaxtaútreikningar, eúmfræði og mælingar. Námsefni tekið saman af Farskólanum, fyrir fullorðna námsmenn.   Bókhaldsþekking getur nýst á fjölmörgum sviðum. Sett eru upp hagnýt dæmi í samráði við þátttakendur. Bókhaldið tengist Excel hluta upplýsingatækninnar, stærðfræði og frumkvöðlafræði. Námsefnið er bókhald 1 og efni frá kennara.   Þátttakendur gera færnimöppu þar sem þeir skrá alla sína þekkingu og færni og skiptir þá ekki máli hvernig hennar var aflað. Námsefnið er Færnimappa frá Mími – símenntun og Europass ferilskráin.   Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í námskeiðinu geta haft samband við Farskólann í síma 455 6010 og 455 6011. Verkefnisstjóri námsins er Gunnar T. Halldórsson en hann sér um allan daglegan rekstur. Síminn hans er 661 2505.

Opinn saumaklúbbur vekur lukku

Opinn saumaklúbbur var í Bjarmanesi í gærkvöldi og vakti hann mikla lukku. Rúmlega tuttugu konur, handverksfólk og aðrar áhugasamar mættu en enginn karl. Þótti það lítill skaði. Flestir mættu með handavinnuna sína en aðrir bara til að spjalla. Verkefnin voru af ýmsu tagi, það var heklað, prjónað, saumað, búin til jólakort og skrappað svo eitthvað sé nefnt. Sumir notuðu tækifærið til að byrja á eitthverju sem þeir ekki höfðu gert áður og gátu þá fengið þá aðstoð og stuðning sem þurfti. Næsti kúbbfundur verður á sunnudaginn klukkan 13 og eru allar konur hvattar til að mæta með handavinnuna sína og njóta þess að skapa í góðum félagsskap. Það verður kaffi á könnunni. Meðfylgjandi myndir tók Ólafía Lárusdóttir.

Menningarráð styrkir fjóra á Skagaströnd

Fjórir aðilar á Skagaströnd fengu í gær styrki frá Menningarráði Norðurlands vestra. Ráðið er í eigu sveitarfélaganna og er ætlað að efla menningarstarf og vinna að auknu samstarfi, samnýtingu starfskrafta og efla traust og tengsl milli þeirra aðila sem standa að menningarmálum. Meðal þeirra sem hlutu núna styrkir var Kántrýbær fékk eina milljón króna til að koma upp Kántrýsetri. Spákonuarfur fékk eina milljón króna sem notaðar verða í gerð afsteypu eða líkneskis af Þórísi spákonu. Nes-listamiðstöð fékk 750.000 krónur vegn dvalar og verkefna listamanna. Loks fékk Skagaströnd 500.000 krónur vegna gerða heimilarmyndar um sveitarfélagið en myndin er verkefni Halldórs Árna Sveinssonar sem var gestalistamaður hjá Nes-listamiðstöð í sumar.

Poppmessa í Hólaneskirkju

Fimmtudagskvöldið, 30. október nk. kl. 20:30 verður haldinn poppmessa í Hólaneskirkju. Messan verður létt og skemmtileg með fjölbreyttri dagskrá þar sem leikin verður lifandi tónlist m.a. á gíta og bassa. Kirkjukórinn syngur og einsöngvararnir Halldór G. Ólafsson og Sigríður Stefánsdóttir syngja einsöng sem og sóknarpresturinn sjálfur. Á dagskrá eru lög eftir Eric Clapton, Simon og Garfunkel og Geirmund Valtýsson svo einhverjir séu nefndir. Tónlistarstjórn er í höndum Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur organista. Komum í poppmessu og eigum saman góða og létta stund.

Opinn saumaklúbbur í Bjarmanesi

Þegar nánar er að gáð er ýmislegt um að vera á Skagaströnd í skammdeginu. Í dag er dreift meðal íbúa áskorun frá nokkrum mætum konum og hljóðar hún á þessa leið: „Við erum hér nokkrar sem ætlum að hittast í Bjarmanesi, föndrum við hitt og þetta, sauma, prjóna, hekla, skrappa eða bara spjalla sem er líka fínt. Við reynum að læra af hverri annarri og hjálpast að. Gaman væri ef sem flestir létu nú sjá sig Við ætlum að hittast einu sinni í viku fram til jóla og sjá svo til með framhaldið. Svo stefnum við að því að halda jólamarkað í desember. Allir velkomnir til skrafs og ráðgerða - heitt kaffi á könnunni“ Undir áskorunina rita þessar: Guðrún Soffía Pétursdóttir Ásthildur Gunnlaugsdóttir Gígja Óskarsdóttir Jóhanna Karlsdóttir Áslaug Ottósdóttir Ólafía Lárusdóttir Þær ætla að hittast í dag, þriðjudag, 28. október frá kl. 19 til 23 og næsta sunnudag, 2. nóvember frá kl. 13 til 18. Framvegis munu þær koma saman annan hvern þriðjudag og anna hvern sunnudag til skiptis.

50 manns mættu á Drekktu betur

Þrátt fyrir slæmt veður mættu um fimmtíu manns á spurningakeppnina „Drekktu betur“ í Kántrýbæ síðasta föstudagskvöld. Hjörtur Guðbjartsson var spyrill hélt uppi fjörinu og þóttu spurningar hans afar fjölbreytilegar. Bjórspurningin vafðist fyrir mörgum. Hjörtur spurði hver hlotið hefði hin bandarísku Seacology umhverfisvernarverðlaun. Einhvern veginn hafði þessi frétt farið framhjá flestum og hlutu því aðeins fjögur lið bjórglasið. Það var hins vegar hinn góðkunni grínari, fréttamaður og stjórnmálamaður Ómar Ragnarsson sem hlaut þessi verðlaun í byrjun mánaðarins en þau hafa verið veitt til þess einstaklings í heiminum sem leggur mikið af mörkum til verndunar lífríkisins. Leikar fóru þannig að sigurvegarar með tuttugu og tvö stig voru þeir Magnús B. Jónsson og Sigurður Sigurðarson og var það mál manna að þeir tveir hefðu óumdeilanlega mest úrval af gangslausum upplýsingum til reiðu. Hlutu þeir bjórkassann í verðlaun. Næsta keppni verður haldin 7. nóvember og verður spyrill Finnur Kristinsson, en verði hann fjarverandi mun Guðbjörg Ólafsdóttir, eiginkona hans spyrja. Þau unnu fyrstu keppnina sem haldin var í lok september síðast liðinn. Meðfylgjandi myndir tók Ólafía Lárusdóttir á föstudagskvöldið.

Frístundakort fyrir grunnskólanema

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur endurnýjað ákvörðun sína um að foreldrar barna á Skagaströnd geta fengið 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Frístundakortin gilda frá 1. sept. 2008 til 31. ágúst 2009. Þátttaka í tómstundastarfi getur verið afar kostnaðarsöm og þá sérstaklega fyrir stórar fjölskyldur. Frístundakortunum er ætlað að draga úr kostnaði og jafna möguleika ungmenna til þátttöku í slíku starfi, óháð félagslegum aðstæðum og efnahag fjölskyldna þeirra. Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Með frístundakortunum eiga foreldrar barna á grunnskólaaldri rétt á 15 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn, til niðurgreiðslu á íþrótta- og tómstundastarfi. Eftir að greitt hefur verið fyrir það námskeið eða starf sem barnið vill taka þátt í, er farið með kvittunina á skrifstofu sveitarfélagsins þar sem áðurnefnd fjárhæð er endurgreidd. Einu skilyrðin við notkun frístundakortsins eru þau að starfsemin sé viðurkennd af sveitarstjórn og um hana séu veittar allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Skrappað í Kántrýbæ

Nokkrar konur sem hafa haft að tómstundagamni að “skrappa” komu saman í Kántrýbæ sl. laugardag og buðu gestum og gangandi að koma og líta á handverkið og kynnast skrappinu. Þær sátu og sköppuðu fagurlegar skreyttar myndasíður og höfðu alls kyns tól og tæki auk smekkvísi og hugmyndaauðgi að vopni. Skrappaðar myndasíður af börnunum voru greinilega eitthvað sem kom til greina sem jólagjöfin til afa og ömmu í ár og jólakortin áttu góða möguleika á að vera handunnin og fallega skröppuð.

Fjölmenni í labbitúr með Óla Benna

Uppi á Höfða stendur fólk í hnapp og virðir fyrir sér ókunnan fugl í trébúri, svartan á væng með hvítan haus og bæði arnarnef og arnarklær. Togarinn Arnar hafði komið að landi fyrir nokkrum mínútum með þennan nafna sinn um borð sem var orðinn uppgefinn á að berjast yfir hafið og fékk far með skipi í land.   Jón Örn segir að þetta sé gjóður eða svokallaður fiskiörn. Hann tekur fuglinn úr búrinu og sleppir honum. Gjóðurinn flögrar um með tignarlegum vængjatökum arnarins eins og hann sé ráðvilltur en hverfur svo út yfir Húnaflóa.   Þannig hefst jákvæðnigangan á Skagaströnd á miðjum sunnudegi.   "Þarna var forðum daga bryggja, þarna var verslunarhús sem stóðum um aldir og þarna má greina Spákonufellsey sem var sprengd niður til hálfs í hafnargerð". Óli Benna fór á kostum með samferðamönnum sínum  í labbitúr í gærdag. Þrátt fyrir ískalda norðaustanáttina mættu um áttatíu manns til að skoða útbæ Skagastrandar með Óla.   Og Óli var ekki einn um frásagnirnar. Fjölmargir krydduðu ferðina með ýmiskonar sögulegum staðreyndum og ekki síður gamansögum. Gengið var frá Spákonufellshöfða og um svokallaðan útbæ, en til hans heyrir næsta nágrenni Höfðans ásamt höfninni.   Fyrir unga Skagstrendinga og aðflutta var gangan hin besta skemmtun og var sem löngu gengnir menn og horfin hús fengu nýtt líf, að minnsta kosti í hugum þátttakenda. Kostuleg var sagan af sveitarstjóranum sem fór sparlega með og hafði það fyrir sið að klippa ópalið sitt í tvennt. Þannig fékk hinn ungi Adolf Berndsen hálft ópal að launum fyrir að skreppa út í Siggabúð og kaupa það.   Gaman var að sögunni um manninn sem fékk ekki frið til að vera dauður. „Ertu ekki dauður?“ var spurt. „Heldurðu að dauður maður bjóði góðan dag,“ svarði „líkið“.   Og svo er það Bankastræti. Heitir það svo vegna þess að einn íbúanna átti fleiri erindi í bankann en aðrir? Eða var það kannski af því að sá hinn sami fór aldrei tómhentur heim úr vinnunni og gat þess vegna lánað það sem aðrir áttu og var því sjálfur kallaður „banki“? Áhugverð pæling í bankakreppunni sem var annars ekki til umfjöllunar í gönguferðinni.   Komið var við í gamla Kaupfélagshúsinu sem svo er kallað. Það keypti Laura ehf. undir forystu Lárusar Ægis Guðmundssonar fyrir nokkrum árum og hefur gert það upp af miklum myndarskap.  Göngumenn fengu að skoða húsið og var það kærkomið enda hlýtt inni. Lárus sagði frá húsinu og kom fram að í því hafði ekki aðeins verið verslun Kaupfélag Skagstrendinga heldur margt annað svo sem bakarí, skrifstofur, birgðageymslur, íbúðir, leikhús, bíó, saumastofa, prjónastofa, ballstaður, svefnpláss stúlkna á síldarárunum og ef til vill margt fleira.   Þannig lifnaði sagan við og bæði gengið fólk og horfin  byggð var töfrað fram með lýsingum og frásögnum. Jafnvel álfarnir og huldufólkið í Höfðanum fékk sinn kafla í frásögninni.   Eftir kaldan en skemmtilegan göngutúr var gott að komast í hlýjuna í gamla skólanum, Bjarmanesi þar sem beið heitt kaffi, kakó og vöfflur.