Fréttir

Hressilegt haustveður

Það hefur blásið hressilega síðasta sólarhringin en fyrsta alvörulægð haustsins gekk yfir. Meðalvindhraðinn á veðurstöðinni á Skagastrandarhöfn komist mest í 23 m/sek en í vindhviðum allt upp í 35 m/sek. Ýmsir lausir hlutir fóru af stað og hafa starfsmenn hreppsins haft í nógu að snúgast við að festa hluti og koma í veg fyrir tjón. Þó nokkuð tjón varð þegar hjólhýsi á tjaldstæðinu fauk í heilan hring og er það stórskemmt, ef ekki ónýtt á eftir. Hjólhýsinu var komið inn í hús til geymslu á meðan veðrið gengur yfir. Sett hefur verið inn línurit sem sýnir veðrið á 10 mínútna fresti í gær, 26. september og er hægt að nálgast það undir skýrslur á vefnum. Einnig er hægt að fylgjast með veðri á veðurstöðinni á Skagaströnd á netinu og er slóðin: http://skip.sigling.is/vedur_sjolag/srtNVL.html

Félagsmálaráðherra kemur á einn fund

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, hefur ákveðið að koma á einn kynningarfund um sameiningu Áshrepps, Blönduósbæjar, Höfðahrepps og Skagabyggðar, en ráðherrann verður gestur slíkra funda víða um land. Félagsmálaráðherra verður gestur fundarins á Skagaströnd 27. september. Þar sem þetta er eini fundurinn sem ráðherra hefur tök á að mæta eru íbúar sveitarfélaganna hvattir til að sækja fundinn og heyra sjónarmið hans.

Málefnaskrá í dreifingu á mánudag

Samstarfsnefnd um sameiningu Áshrepps, Blönduósbæjar, Höfðahrepps og Skagabyggðar afgreiddi í vikunni málefnaskrá sem lögð verður fyrir kjósendur og verður henni dreift á öll heimili í sveitarfélögunum nk. mánudag. Ritið er komið á sérstakar heimasíður Blönduósbæjar og Höfðahrepps og einnig á Húnahornið. Ritið er 12 síður á stærð, prýtt ljósmyndum og töflum með fjárhagslegum upplýsingum.

Gangnaseðill 2005

GANGNASEÐILL 2005 Það tilkynnist hér með að haustgöngur fara fram laugardaginn 17. september sé fært leitarveður, ella þá næsta leitarfæran dag. Göngurnar verða unnar af hestamannafélaginu Snarfara. Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottósson. Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir en Rögnvaldur Ottósson í hrossarétt. 1. Göngur: Menn frá Hestamannafélaginu Snarfara smali svæðið frá Urriðalæk vestur yfir flárnar og Grasás yfir Ytri-Botnalæk í veg fyrir gangnamenn úr Skagabyggð. Heiðina vestan sýslumarka eftir venju til réttar, einnig Borgina utan skógræktargirðingar. Gert er ráð fyrir að gangnamenn úr Skagabyggð smali svæðið norðan Brandaskarðsgils milli Stallabrúna og Hrafnár til norðurs. Fé og hross úr heiðinni og Borginni og úr heimahögum sé rekið að Spákonufellsrétt laugardaginn 17. september og réttað samdægurs. Ber eigendum að vera þar til staðar og hirða búfé sitt svo að réttarstörfum verði lokið fyrr en dimmt er orðið. 2. Eftirleit fer fram laugardaginn 24. september verði bjart veður ella næsta leitarfæran dag. Þær annast Ásgeir Axelsson. 3. Fjárskil verða sunnudaginn 2. október á Sölvabakka á þau mæti Ásgeir Axelsson fyrir Höfðahrepp. 4. Útréttir: Í fyrri og seinni Fossárrétt hirðir Gunnlaugur Sigmarsson Í fyrri Vindhælisrétt hirðir Ásger Axelsson Í seinni Vindhælisrétt hirðir Eðvarð Ingvason 5. Smölun heimalanda: Fjáreigendur eru hvattir til að hreinsa vel landspildur sínar af öðru búfé en þeirra eigin fyrir göngur sem og eftirleit, svo að göngur og réttir geti orðið árangursríkar. Að öðru leyti en hér er tekið fram eru skyldur og réttindi manna samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Austur - Húnavatnssýslu. Greiðslur til og frá fjallskilasjóði fara fram hjá sveitarstjóra. Skagaströnd 11. september 2005 Í umboði Hreppsnefndar Höfðahrepps _________________________________ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.

Næsti fundur hreppsnefndar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps miðvikudaginn 14. september 2005 á skrifstofu hreppsins kl 800. Dagskrá: 1. Rekstraryfirlit sveitarsjóðs og stofnana, janúar-ágúst 2005 2. Sameining sveitarfélaga a) Kynningarrit um sameiningu b) Fundargerðir samstarfsnefndar 3. Bréf: a) Fjárlaganefndar Alþingis, dags. 5. sept. 2005. b) Skíðadeildar U.M.F. Tindastóls c) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 31. ágúst 2005. d) Impru nýsköpunarmiðstöðvar, dags. 25. ágúst 2005. 4. Fundargerðir: a) Hafnarnefndar, 5. september 2005. b) Húsnæðisnefndar,7. september 2005. c) Skólanefndar, 29. ágúst 2005. d) Byggingarnefndar, 12. sept. 2005. e) Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 25. ágúst 2005. f) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 17. mars 2005. g) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 10. júní 2005. h) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 1. júlí 2005. 5. Önnur mál. Sveitarstjóri

Malbikun gengur vel

Malbikun á höfninni hófust á laugardag og gengur ágætlega. Byrjað var á að leggja yfir gámasvæði á Miðgarði og upp að hafnarvoginni. Síðan var lagt á götuna upp með Hafnarlóð 6, mjölskemmunni. Einnig verður lagt á götu upp að leikskólanum og á plönin við Samkaup og söluskálann, þá verður lagt á stuttan kafla á Oddagötu. Auk þess verða teknir fyrir nokkrir kaflar sem gert verður við. Að undanförnu hefur verið unnið að undirabúningi malbikunar og gengið frá götum og plönum. Hefur þetta leitt til þess að aðgengi og umferð hefur truflast talsvert. Fólk hefur tekið þessum truflunum af hinu mesta jafnaðargeði og fær vonandi umbun þolinmæði sinnar þegar malbik verður komið á umrædd svæði. Reiknað er með að malbikun ljúki endanlega á mánudag. Klæðning verður lögð á Vallarbraut og meðfram Bogabaut, Bankastræti og hluta Ránarbrautar.

Vígsla sparkvallar.

Nýr sparkvöllur var vígður á skólalóðinni á Skagaströnd fimmtudaginn 8. september. Eyjólfur Sverrisson fótboltakappi mætti sem fulltrúi KSÍ og hann ásamt Adolf H. Berndsen oddvita klipptu á borða sem táknrænt merki um að völlurinn væri formlega tekin í notkun. Við þetta tækifæri afhenti Eyjólfur bæði skólanum og ungmennafélaginu Fram fótbolta að gjöf til notkunar á sparkvellinum. Eftir formlegar athafnir var vígsluleikur þar sem Calle Jakobsen íþróttakennari stjórnaði yngstu nemendum skólans í líflegum sparkvallarleik. Fjöldi bæjarbúa kom og tók þátt í og fylgdist með vígslunni og einnig voru fulltrúar styrktaraðila viðstaddir en átakið er styrkt af KSÍ, Kb-Banka, VÍS og Eimskip. Hreppsnefnd Höfðahrepps bauð öllum viðstöddum upp á grillaðar pylsur og sáu hreppsnefndarmenn um grillun og afgreiðslu þeirra. Vígslan fór fram í blíðskaparveðri sem var skemmtileg tilbreyting frá ríkjandi köldum, votum og vindasömum síðsumardögum. Grunneining sparkvallarins er gerfigras sem fyllt er með svokölluðum gúmmísandi og gefur undirlaginu mýkt. Utan um völlinn er timburveggur 120 sm hár nema til endana þar sem veggir eru hafðir hærri við mörkin. Undir vellinum er síðan snjóbræðslukerfi sem ætlað er að tryggja notkun hans allt árið. KSÍ og styrktaraðilar lögðu til gerfigrasið og útlagningu þess en sveitarfélagið stendur straum af öðrum kostnaði. Umsjón með byggingu vallarins var á höndum Ágústs Þórs Bragasonar umhverfisstjóra sveitarfélagsins og sáu starfsmenn sveitarfélagsins um hluta verksins en um byggingu undirstöðu og tréverks sá Trésmiðja Helga Gunnarssonar. Kostnaður við byggingu vallarins liggur ekki endanlega fyrir en reiknað er með að hann verði á bilinu 8-10 milljónir króna.

Golfklúbbur Skagastrandar fær góðan stuðning.

Þróunardeild R&A(Royal and Ancient Golf Club of St.Andrews) ákvað nú í sumar að senda til Íslands tvær flatarslátturvélar og tvær brautarslátturvélar til að styðja við uppbyggingarstarf á íslenskum golfvöllum. Stjórn Golfsambands Íslands ákvað að auglýsa eftir þörf klúbbanna á vélum sem þessum. Sérstaklega var horft til minni klúbba sem hafa fáa félaga til að standa undir rekstri þeirra, en hafa náð að byggja upp góða velli. Stjórn Golfsambands Íslands hefur nú ákveðið að úthluta Golfklúbb Skagastrandar flatarslátturvél og brautarslátturvél. Þessi stuðningur er mikils virði og góð viðurkenning á starfi Golfklúbbsins.

Síðsumarrósir

Skafti Fanndal sest helst á hverjum morgni út á bekk á Hnappstaðatúni og fær sér eina pípu. Hann segir að þetta sé orðin siður hjá sér og honum líði vel þarna hjá rósunum. Reyndar segist hann helst kalla svæðið Vigdísarvelli því það hafi verið byggt upp þegar Vigdís Finnbogadóttir forseti kom í heimsókn 1988. Þegar okkur bar að brostu fjallarósirnar við Skafta þarna í morgunsólinni.

Styrkir til leikskóla- og grunnskólakennaranáms

Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir eftir umsóknum um styrki til að stunda grunnskólakennara- eða leikskólakennaranám. Um er að ræða tvo styrki að upphæð 250 þús. hvorn á ári til einstaklinga sem stunda fullt staðnám í HÍ, KHÍ eða HA. Styrkirnir verða veittir með því skilyrði að viðkomandi einstaklingar starfi að loknu námi, jafn mörg ár og styrktímanum nemur við grunnskólann eða leikskólann á Skagaströnd. Umsóknarfrestur er til 12. september n.k. Allar nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri í síma 4522707 Sveitarstjóri Höfðahrepps