19.04.2005
Þrír nemendur í 7. bekk Höfðaskóla kepptu í hinni árlegu Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnaþingi sem haldin var 14. apríl á Laugabakka. Það voru þau Alexandra Ólafsóttir, Kristján Ýmir Hjartarson og Laufey Inga Stefánsdóttir.
Keppendur voru alls 12 frá öllum grunnskólum á svæðinu.
Þarna voru margir úrvals lesarar og erfitt hlýtur að hafa verið að gera upp á milli þeirra. Krakkarnir okkar voru í þeim hópi, þau stóðu sig með svo mikilli prýði að klappliðið var að rifna úr stolti.
Veitt voru verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin og sigurvegarinn var Alexandra okkar.
(Heimild http//hofdaskoli.skagastrond.is)
18.04.2005
Boðað er til fundar um forvarnamál í Austur-Húnavatnssýslu mánudaginn 25. apríl kl. 20 -22 í Félagsheimilinu á Blönduósi
Á fundinn koma fulltrúar frá forvarnaverkefninu Vertu til og kynna verkefnið og starfsemi þess.
Vertu til! er samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lýðheilsustöðvar um að efla forvarnir í sveitarfélögum landsins
Mætum öll og leggjum okkar af mörkum við að móta framtíðarsýn og stefnu sveitarfélaganna til forvarna.
Kaffiveitingar
Starfshópur um forvarnir í A-Hún.
Hægt er að skoða heimasíðu Vertu til á slóðinni:
www.vertutil.is
18.04.2005
Næstkomandi fimmtudag (sumardaginn fyrsta) ætlum við að bjóða ykkur í heimsókn í vinnsluna okkar að Oddagötu 12 Skagaströnd (gömlu rækjuvinnsluna).
Allir eru velkomnir frá kl: 13:00 – 15:00.
Í tilefni dagsins bjóðum við uppá:
· Lifandi tónlist
· Lifandi fiskar í búri
· Kynning á framleiðslunni og framleiðsluaðferðum.
· Matreiðslumaður verður á staðnum, matreiðir og gefur smakk af framleiðsluvörum okkar.
· Leikskólabörn verða með sýningu á verkum sem þau gerðu eftir heimsókn í vinnslunna.
Vonumst til að sjá sem flesta.
Starfsfólk og stjórnendur.
11.04.2005
Nokkrir borgarísjakar eru á Húnaflóa. Þegar björgunarsveitarmenn á Skagaströnd fóru til að taka á móti nýju björgunarskipi heilsuðu þeir upp á einn jakann. Hann var ekki mjög stór en hafði skemmtilega lögun. Áhöfn björgunarskipsins sagði talsvert af jökum á siglingaleið austan við Horn en urðu ekki varir við samfelldan ís eða spangir.
11.04.2005
Nýtt björgunarskip sem á að þjóna öllu Húnaflóasvæðinu kom til heimahafnar á Skagaströnd í gær sunndudaginn 10. apríl. Skipinu var siglt frá Reykjavík en þaðan hafði það komið með skipi frá Bretlandi en það var keypt frá Plymouth. Björgunarskipið sem er smíðað 1988 er úr trefjaplasti og með yfirbyggingu úr áli. Í því eru tvær 500 hestafla Caterpillar vélar sem skila því á allt að 18 mílna hraða. Skipið er mjög vel útbúið sem björgunarskip, m.a. er léttabátur sem hægt er að sjósetja á auðveldan hátt. Hins vegar er eftir að setja nýjustu siglingtæki um borð í það svo sem sjálfstýringu og siglingatölvu.
Við komuna til Skagastrandarhafnar gátu þeir sem óskuðu fengið að skoða skipið en fyrirhugað er að hafa formlega mótttöku eftir tvær til þrjár vikur og gefa skipinu nafn. Eftir að lokið hefur verið við að ganga frá búnaði og öðru sem þarf að gera til að skipið teljist fullbúið er stefnt að því að fara í kynnisferð á hafnir við Húnaflóa.
Það er Bjögunarbátasjóður Húnaflóa og Landsbjörg sem kaupa skipið og munu sjá um rekstur þess í nánu samstarfi við Björgunarsveitina Strönd.
Umsjónarmaður með skipinu hefur verið ráðinn Guðmundur Björnsson.
07.04.2005
Þann 2 apríl s.l. fór Dansdeild UMF FRAM í Íslandsmeistarakeppnina í línudansi með 46 keppendur í 6 hópum. Foreldrar sáu um að koma sínum börnum suður og voru því margir Skagstrendingar í höllinni að horfa á og styðja sitt fólk. Úrslit urðu eftirfarandi hjá okkar fólki:
6-8 ára Fjörkálfarnir: sýning
9-12 ára Gullstjörnurnar: 4 sæti
9-12 ára Skeifurnar 6: 3 sæti
9-12 ára Skuplurnar: 1 sæti
13-16 ára Ladies: 2 sæti
Fullorðnir I Hófarnir: 4 sæti.
Eftir keppnina bauð dansdeildin sínum krökkum á skauta og í pizzu og voru foreldrar og systkini velkomin þar og voru um 80 manns í pizzuveislunni.Það er mat allra að vel hafi tekist til og krakkarnir til fyrirmyndar. Linda Björk og dansdeildin þakka öllum samstarfið í vetur!
30.03.2005
Björgnarskip Björgunarsveitarinnar Strandar og Björgunarbátasjóðs Húnaflóa kom til landsins á sunnudaginn var. Samskip flutti skipið frá á Englandi og skipaði því upp í Reykjavík. Verið er að undirbúa skipið til siglingar í heimahöfn á Skagaströnd og verður greint nánar frá komu þess þegar nær dregur. Um er að ræða fullbúið björgunarskip en Landsbjörg hefur á undanförum árum staðið fyrir átaki í að kaupa hingað skip frá Bretlandi og staðsetja víðsvegar um landið. Á meðfylgjandi korti sem fengið er frá Landsbjörgu má sjá staðsetningu björgunarskipanna og viðbragðstíma þeirra.
29.03.2005
Höfðahreppur auglýsir eftir flokkstjórum til starfa í Vinnuskólanum sumarið 2005. Æskilegt er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Höfðahrepps og er umsóknarfrestur til 4. apríl. Nánari upplýsingar veitir Ágúst Þór í síma 899 0895.
23.03.2005
Við þekkjum öll viðkvæðið að muna eftir að gefa fuglunum í harðindum á vetrum. Það að gefa Fálka æti er þó óvananlegra en hann hefur verið í fæði á Hólanesinu um hríð. Ekki gerir hann sér allt að góðu en hefur verið sólginn í lambshjörtu og hefur fengið allt upp í 5 hjörtu á dag. Hefur hann fest ástfóstri við íbúana á Hólanesinu og hefur Inga í Straumnesi verið honum betri en enginn og fætt hann reglulega. Myndirnar tók Gunnlaugur Sigmarsson.
22.03.2005
Þann 21. mars s.l. færði kvenfélagið Eining á Skagaströnd Hólaneskirkju 30 sálmabækur að gjöf. Stjórn Einingar færði kirkjunni gjöfina fyrir hönd kvenfélagsins en sr. Magnús Magnússon sóknarprestur í Skagastrandarprestakalli veitti bókunum viðtöku fyrir hönd safnaðarins og þakkaði við það tækifæri fyrir þessa góðu gjöf með von um að hún kæmi í góðar þarfir í helgihaldi framtíðarinnar. Á meðfylgjandi mynd má sr. Magnús taka við einni bók úr hendi Jóhönnu Sigurjónsdóttur formanns kvenfélagsins en baki henni eru aðrir stjórnarmeðlimir, Guðrún Soffía Pétursdóttir varaformaður, Ragnheiður Sandra Ómarsdóttir meðstjórnandi og Erla Hauksdóttir meðstjórnandi.