26.08.2005
Nýr löndunarkrani hefur verið settur upp á Skagastrandarhöfn. Kranin sem er frá Framtak hf. er af gerðinni HMC 66 og er lyftigeta hans 1000 kg x 7 metrar. Upphaflega átti að setja kranan upp í júní-júlí en uppsetning tafðist vegna viðgerða á stálþilskantinum sem hann stendur á. Þegar tekið var gat í bryggjuna til að leggja raflagnir kom í ljós að gat var á stálþilinu og hafði skolað undan þekjunni á 25 fm svæði. Þurfti því að fá kafara með sérstakan útbúnað til að gera við stálþilið utan frá og steypa síðan styrkingar innan við þilið.
Kranin er nú loksins kominn upp og er honum ætlað að svara eftirspurn við löndun þar sem mikið hefur verið af handfæra og línubátum í sumar eins og undanfarin ár.
19.08.2005
Fréttatilkynning frá Landsbankanum
18. ágúst 2005
Rebekka Maren Þórarinsdóttir var einn af fyrstu viðskiptavinum Landsbankans á Skagaströnd til að fá í hendur greiðslukort með persónulegu útliti, svokallað Mitt kort. Rebekka notaði mynd af sér á kortið sitt sem hún fékk afhent í útibúi Landsbankans á dögunum. Það er því ljóst að verslunarmenn mega eiga von á fjölbreyttum og skemmtilegum greiðslukortum því alls hafa um tvö þúsund viðskiptavinir Landsbankans um land allt hannað sín eigin greiðslukort og eru þau óðum að komast í umferð.
Æ fleiri nýta sér þann möguleika að setja eigin myndir á kort sín, til dæmis af börnum, maka, áhugamálum og gæludýrum. Einnig má velja úr sérstöku myndasafni bankans, þar sem meðal annars er að finna merki félaga í Landsbankadeildinni í knattspyrnu.
Allir viðskiptavinir Landsbankans geta fengið Mitt kort, bæði debet og kredit, án endurgjalds fyrst um sinn. Hönnun og umsókn kortanna fer fram á netinu (www.landsbanki.is) og er afgreiðslutíminn aðeins örfáir dagar.
15.08.2005
Björgunarskipið Húnabjörg á Skagaströnd sótti togarann Hegranes til Eskifjarðar og dró hann til Sauðárkróks en vél togarans bilaði þegar hann var á veiðum út af Austfjörðum. Hegranes SK er ísfisktogari í eigu Fisk Seafood og hefur aðallega veitt fyrir fiskvinnsluna á Sauðárkróki.
Björgunarskipið Húnabjörg reyndist mjög vel í túrnum sem tók rúma tvo sólarhringa og er lengsti leiðangur þess hingað til. Komu skipin til hafnar á Sauðárkróki um kl 20 í gærkvöldi. Skipstjóri á Húnabjörgu var Guðmundur Henry Stefánsson.
12.08.2005
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps mánudaginn 15. ágúst 2005 á skrifstofu hreppsins kl 1700.
Dagskrá:
1. Hafnarreglugerð fyrir Skagastrandarhöfn
2. Sparkvöllur
3. Skipulagsmál:
a) Deiliskipulag fyrir Hólaberg
b) Svæðisskipulag Norðurlandsskóga
4. Bréf:
a) Finnboga Guðmundssonar, dags. 8. ágúst 2005.
b) Sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 5. ágúst 2005.
c) Pjaxa, bókaútgáfu, dags. í ágúst 2005.
d) Sjálfsbjargar, dags. 8. júlí 2005.
e) Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Bl.ósi, dags. 28. júlí 2005
5. Fundargerðir:
a) Húsnæðisnefndar, 10. ágúst 2005.
b) Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 3. ágúst 2005.
6. Önnur mál.
Sveitarstjóri
11.08.2005
Uppbygging sparkvallarins á skólalóðinni gengur vel og styttist óðum í að hann verði fullbúinn. Gerfigrasið var lagt á í byrjun ágúst og veggirnir eru óðum að rísa. Sparkvöllurinn sem er samstarfsverkefni KSÍ og Höfðahrepps hefur verið unnin af Trésmiðju Helga Gunnarssonar og starfsmönnum Höfðahrepps. Verkinu hefur miðað ágætlega og er nú að komast á lokastig þar sem tréverkið í kringum völlinn er vel á veg komið og hellulögn meðfram vellinum er á lokastigi. Gerfigrasið var lagt á af sérfræðingum frá framleiðanda sem gengu frá því á tveimur dögum. Eftir að grasið hafði verið sett á var fyllt í það með einskonar gúmmísandi sem gefur vellinum bæði þéttleika og mýkt. Gúmmísandurinn er hins vegar misvel þokkaður á heimilum þar sem hann vill berast með fótboltagörpum á öllum aldri inn í hús að leik loknum. Í undirlagi sparkvallarins er snjóbræðslulögn sem mun auka mjög á nýtingu vallarins yfir vetrarmánuðina.
22.07.2005
Tillaga að deiliskipulagi Ægisgrund, Skagaströnd; lóðir opinberra bygginga.
Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum, tillögu að deiliskipulagi Ægisgrund Skagaströnd, lóðir opinberra bygginga.
Á lóð Ægisgrundar 2-12 hafa verið íbúðir aldraðra og verður þar engin breyting á. Á lóð Ægisgrundar 14 hefur verið starfrækt dvalarheimili aldraðra og verður áfram, en að auki mun heilsugæslustöð flytja starfsemi sína í viðbygginu sem fyrirhuguð er.
Í tillögunni er markaður byggingarreitur fyrir viðbyggingu, lóðarmörk dregin, grein gerð fyrir bílastæðum og byggingarskilmálar settir fram.
Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í skrifstofum Höfðahrepps, Túnbraut 1-3 á Skagaströnd til miðvikudagsins 10. ágúst 2005.
Athugasemdum skal skila á skrifstofu Höfðahrepps fyrir kl. 16.00 miðvikudaginn 24. ágúst 2005 og skulu þær vera skriflegar. Þeir sem ekki gera athugasemd innan þessa frests teljast samþykkir tillögunni.
18.07.2005
Hér eru loksins myndir frá Goggamóti í frjálsum íþróttum í Mosfellsbæ, KB bankamóti í knattspyrnu í Borgarnesi og Bikarkeppni FRÍ 2 deild í frjálsum á Sauðárkróki. Skagstrendingar áttu þar fulltrúa helgina 24/6 – 26/6 sem allir stóðu sig með miklum sóma.
Stefán Velemir tók þátt í Goggamótinu í Mosfellsbæ sem haldið var í 15 sinn. Því miður fannst ekki mynd af Stefáni en á myndinni sjáum við aðra keppendur frá USAH og þjálfarann Steinunni Huldu Magnúsdóttur við keppni í spjótkasti.
Sæþór, Alex Már, Elías Kristinn og Guðjón Páll kepptu sem Hvöt í 5 flokki í Borgarnesi. Með þeim voru tveir strákar frá Blönduósi og einn úr sveitinni og Ólafur Benediktsson þjálfari Hvatar. Glöggir menn sjá hins vegar að strákarnir eru í búningum Umf. Fram. Þessir strákar gerðu sér lítið fyrir og gerðu eitt jafntefli en unnu 5 leiki og þar með sinn flokk í mótinu.
Á myndinni frá mótinu á Sauðárkróki má sjá Sigurrós Ósk, Elna, Laufey Inga, og Kristján Heiðmar með Sunnu Gestsdóttur. Sunna keppti fyrir USAH í nokkrum greinum en okkar fólk fór til að læra og þau voru starfsmenn við ýmsar greinar á mótinu.
Skagstrendingar geta verið stoltir af þessum ungu fulltrúum sínum á íþróttavellinum.
Íþróttafulltrúi Höfðahrepps
07.07.2005
Í Námsstofunni er ekkert sumarfrí. Í gær 6. júlí var kynning á kjarasamningi sjúkraliða í fjarfundabúnaði Námsstofunnar. Þar mættu 6 sjúkraliðar.
Þessa dagana er Þóra Ágústsdóttir í Álaborg í Danmörku að vinna að lokaverkefni sínu við háskólann þar. Verkefnið er á sviði Evrópufræði og fjallar um hvers vegna Ísland hefur ekki sótt um aðild að ESB. Síðan er hún væntanleg aftur hingað í Námsstofuna í áframhaldandi vinnu við verkefnið.
Karen Lind Gunnarsdóttir er í B.A. námi við Háskólann á Akureyri í sálfræði og samfélags- og hagþróunarfræði. Hún notar aðstöðuna í Námsstofunni til að vinna úr rannsókn sem kallast “Félagslegt umhverfi Evrópubúa”. Hún tekur viðtöl á Skagaströnd, Blönduósi og Hvammstanga og vinnur síðan úr sínum gögnum í Námsstofunni.
Hildur Inga Rúnarsdóttir er að ljúka cand.theol við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hún er að skrifa kandidatsritgerð í Nýja testamenntisfræðum til 10 eininga sem er rannsókn á frumheimild: Rómverjabréfið 12:9-13 út frá félags- og menningarsögulegri aðferðafræði.
Guðlaug Grétarsdóttir er í sumarönn við Háskólann á Akureyri í “Vísindasmiðju” og “Margmiðlun”. Hún er að vinna verkefnavinnu í þessum áföngum ásamt því að undirbúa B.Ed. ritgerð sína.
Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan.
Júlí 2005
Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd
Hjálmur Sigurðsson
S: 8440985
27.06.2005
Opna TM mótið, sem jafnframt er minningarmót um Karl Berndsen, var haldið á Háagerðisvelli 25. júní. Keppendur voru alls 25 frá sex golfklúbbum. Nokkur rigning var fyrri hluta mótsins en síðan stytti upp. Leiknar voru 18 holur, með og án forgjafar. Úrslit urðu sem hér segir:
Konur:
Án forgjafar
Svanborg Guðjónsdóttir GSS
Ingibjörg Ó. Guðjónsdóttir GSS
Fanney Zophoníasdóttir GÓS
Með forgjöf
Svanborg Guðjónsdóttir GSS
Ingibjörg Ó. Guðjónsdóttir GSS
Fanney Zophoníasdóttir GÓS
Karlar
Án forgjafar
Árni Már Harðarson GA
Jón Jóhannsson GÓS
Ingibergur Guðmundsson GSK
Með forgjöf
Ingibergur Guðmundsson GSK
Lúðvík Vilhelmsson GÓS
Adolf H. Berndsen GSK
24.06.2005
Fimmtudaginn 23. júní var vígður nýr 9 holu púttvöllur á tjaldstæði Höfðahrepps. Fyrsta púttið sló Ingibergur Guðmundsson, fyrsti formaður Golfklúbbs Skagastrandar en vígslan var keppni milli hans og Hjálms Sigurðssonar, tómstunda- og íþróttafulltrúi Höfðahrepps.
Ekki fara sögur af úrslitum en þó töldust þau hagstæðari öðrum aðilanum.
Púttvöllurinn er öllum opinn en þeir sem vilja keppa verða að minnsta kosti til að byrja með að hafa með sér púttara og kúlur.