Fréttir

Ertu með lögheimili á réttum stað???

Með vísan til laga nr. 73/1952 um aðsetursskipti, ber íbúum að tilkynna um flutning til íbúaskrár innan viku frá flutningi, bæði flutning innanbæjar og milli sveitarfélaga. Tilkynna ber flutninga á skrifstofu Höfðahrepps, Túnbraut 1 - 3, þar er opið frá kl. 09:00-12:00 og 13:00- 16:00 alla virka daga. Tilkynningarnar eru síðan sendar til Hagstofu Íslands.

Tvær nýjar bækur tengdar Skagaströnd.

Um þessi jól koma út margar bækur að vanda. Ein þessara bóka er “Minningar og lífssýn” eftir Björgvin Brynjólfsson. Björgvin er löngu landskunnur fyrir störf sín að stjórnmálum og verkalýðsmálum. Húnvetningar þekkja hann einnig m.a sem frumkvöðul að stofnun Sparisjóðs Skagastrandar. Saga Björgvins Brynjólfssonar er miklu meira en saga hans sjálfs. Hún er jafnframt saga síðustu aldar í hnotskurn. Björgvin segir frá ýmsum kímnilegum atvikum, svo sem því, að sá kunni framsóknarmaður, Björn á Löngumýri, taldi það engu fyrirstöðu að ganga í Alþýðuflokkinn-ef það mætti verða til að hann kæmist á þing. Auk æviminninganna, stjórnmálasögunnar og sögu verkalýðsbaráttunnar, er hér að finna flestar blaðagreinar Björgvins, ferðaþætti og fleira, þannig að segja má að þessi bók sé í raun heildaarritsafn hans. Höfundur gefur út og dreifir bókinni sjálfur. Út er komin ný heimildarskáldsaga eftir Björn Th. Björnsson sem ber nafnið “Glóið þið gullturnar”. Í kynningu með bókinni segir” Einn þeirra dönsku kaupmanna sem störfuðu hér fyrr á öldum var Fritz Hendrik Berndsen sem kom til Skagastrandar upp úr miðri 19.öld. Lífshlaup hans var hins vegar um margt óvenjulegt og skrautlegt, en afkomendur hans eru margir og hafa ýmsir þeirra sett mikinn svip á samfélagið á Skagaströnd. Björn Th. Björnsson hefur nú ritað heimildaskáldsögu um Fritz Hendrik sem byggir m.a. á endurminningum hans sjálfs”. Útgefandi er Mál og menning.

Lárus Ægir 58 ára í dag

Lárus Ægir Guðmundsson íþróttakennari og kirkjuþingsmaður á Skagaströnd er 58 ára í dag. Lárus hélt helstu máttarstólpum á Skagaströnd kaffisamsæti í tilefni dagsins. Lárus valdi hreinlegustu og best búnu kaffistofu bæjarins, sem er í fyrirtækinu SERO ehf að Vallarbraut 2, fyrir samsætið. Á meðfylgjandi mynd má sjá Lárus fyrir miðri mynd, t.h. eru svo Sigurður Skagfjörð, Jóhann Björn og Magnús Ólafsson. Til vinstri við Lárus eru þeir Vilhelm Björn og Adolf H. Berndsen. Lárusi eru hér með óskað til hamingju með daginn.

Myndvinnslu-námskeið

Lærið að meðhöndla “digital”, (stafrænu), myndirnar ykkar á stuttu og hnitmiðuðu námskeiði. Farið er yfir grunnatriði í lagfæringum og breytingum á myndum, skönnun, vistun og frágang mynda til að setja þær á veraldarvefinn, senda í tölvupósti eða prenta þær eftir mismunandi leiðum. Unnið er með verkfæri og skipanir til að afmarka og vinna með hluta myndar, sýnd meðferð lita og notkun „layera". Notast verður við Photoshop forritið. Námskeiðið tekur 6 klst. og verður haldið 16. og 18. nóvember .kl. 19.30 – 22.30 í tölvuveri Höfðaskóla Skagaströnd. Námskeiðið kostar kr. 6.000.- A.T.H. nauðsynlegt er að hafa grunnþekkingu á tölvum og tölvunotkun til að taka þátt í þessu námskeiði. Skráning og allar nánari upplýsingar í síma 895-2227, eða senda tölvupóst á johann@blonduskoli.is merkt “myndvinnsla” (Allir þáttakendur á námskeiðinu fá disk með nýjasta myndvinnslu-forritinu “ Adobe Photoshop Elements “ ).

Skemmtilegir tónleikar í Kántrýbæ

Hljómsveitin Janus frá Skagaströnd hélt tónleika í Kántrýbæ laugardagskvöldið 30. október. Í rauninni var um einskonar endurkomu-tónleika að ræða því hljómsveitin hafði ekki komið saman í um 20 ár. Janus var á árum áður dansleikjahljómsveit ungra manna sem voru að hefja tónlistarferilinn. Sumir héldu áfram í hljómsveitum aðrir héldu tónlistargáfunni við með örðum hætti. Sá eini úr Janus sem hefur náð því að lifa af tónlistinni er Guðmundur Jónsson, vel þekktur sem gítarleikari og lagahöfundur “Sálarinnar hans Jóns míns”. Á tónleikunum í Kántrýbæ sáu þeir Guðmundur Jónsson og Hjörtur Guðbjartsson um gítarleik auk þess greip Hjörtur í banjóið eins og honum er einum lagið. Þorvaldur Skaptason sá um söng, Kristján Blöndal þandi húðirnar, Jón Sigurjónsson lék á bassa og Þórarinn Grétarsson spilaði á flautur og munnhörpu. Það má segja að þessi endurkomutónleikar hafi komið verulega á óvart. Gamlir vinir og aðdáendur mættu til að hlusta og taka undir í gömlum Janus-standördum eins og “Ég læðist oft upp á háaloft...” og þeir fengu svo sannarlega að heyra gömlu lögin og miklu meira en það. Hlómsveitin sýndi ótrúlega breidd í lagavali og tókst að skila tónlist allt frá mýkstu ballöðum upp í harðast rokk með miklum ágætum og kom við á leiðinni í írskri þjóðlagatónlist og hráum blús. Það má segja að það hafi kannski ekki verð svo ótrúlegt með Gumma Jóns við stjórnvölin og afbragðs tónlistamenn í áhöfn en það var jú vitað í þröngu samfélagi sjávarþorpsins að þeir höfðu ekki æft nema nokkra tíma á föstudag og rifjað það helsta upp fyrr á laugardeginum. Unga fólkið sem ekki þekkti Janus nema í nostalgíusögum hinna eldri, kom þegar leið á tónleikana og leit inn, margir með efablik í augum, þar sem lesa mátti spurn um hvort hér væri nokkuð fyrir fólk með síðari tíma tónlistarsmekk. Það sneri enginn við í dyrunum á Kántrýbæ og áður en langt var liðið höfðu endurkomutónleikarnir breyst í dúndrandi dansleik. Þegar leið á gerði hljómsveitin hógværar tilraunir til að segja þetta bara gott og hætta en áheyrendaskarinn klappaði og stappaði þar til áfram var haldið. Endurkomutónleikar Janus urðu sem sagt að frábærlega skemmtilegum og eftirminnilegum tónlistarviðburði sem gjarnan mætti endurtaka.

Heimsókn frá Ringerike

Síðastliðinn þriðjudag og miðvikudag dvöldu hér góðir gestir frá Ringerike. Þetta voru aðstoðarskólastjóri Hov Ungdomsskole í Hönefoss (Ringerike), mæður tveggja nemenda í 10. bekk og tveir myndatökumenn. Tilgangur heimsóknarinnar var að undirbúa nemendasamskipti Hov Ungdomsskole og Höfðaskóla næsta vor og kynnast aðstæðum hér á landi en einnig eru Norðmennirnir að vinna að gerð myndbands um allan undirbúning og framkvæmd nemendasamskiptanna. Nemendur 9. og 10. bekkjar Höfðaskóla hafa undanfarið ár verið í samskiptum við nemendur 10. bekkjar í Hov Ungdomsskole í Hönefoss, vinabæ Skagastrandar í Noregi. Ástæða samskiptanna er væntanleg utanlandsferð þessara nemenda Höfðaskóla til Hönefoss í maí á næsta ári og heimsókn 10. bekkjar frá Hönefoss í byrjun júní sama ár. Þrátt fyrir að kennaraverkfall hindraði eðlilegt skólastarf þá hittu Norðmennirnir nemendur 9. og 10. bekkjar utan skólans, kynntust félagslífi og áhugamálum þeirra ásamt því að skoða atvinnulífið í staðnum. Þá gistu þeir á heimilum foreldra nemenda í 9. og 10. bekk.

Auglýsing frá björgunarsveitinni Strönd

Nýtt björgunarskip Björgunarsveitin Strönd og Björgunarbátasjóður Húnaflóa eru nú komin með samkomulag við Landsbjörgu um kaup á björgunarskipi frá Bretlandi. Með góðum stuðning sveitarfélaga við Húnaflóa, fyrirtækja og einstaklinga hefur tekist að fjármagna skipið með þeim hætti að ljóst er að það mun koma til landsins innan fárra vikna. Um er að ræða öflugt skip af sömu gerð og sýnt var í Skagastrandarhöfn um síðustu páska. Starfsmaður óskast Björgunarbátasjóður auglýsir eftir starfsmanni í 50% starf til og hafa umsjón með björgunarskipinu, viðhaldi þess og búnaði. Hann hafi einnig það hlutverk að annast eftirlit með skipinu í höfn og bera ábyrgð á leiðbeiningum og æfingum áhafnar skipsins. Nánari upplýsingar um starfið veitir Reynir Lýðs. Umsóknarfrestur er til 25. október 2004. Nafn á skipið Björgunarbátasjóður leitar jafnframt eftir nafni á hið nýja björgunarskip. Hugmyndakassi verður settur upp í söluskálanum og björgunarsveitarmenn taka einnig við hugmyndum. Nýr björgunarsveitarbíll Björgunarsveitin hefur fest kaup á nýrri Toyota Land Cruiser 90 bifreið. Bíllinn er í breytingu fyrir 38” dekk og jafnframt verður settur í hann allur sá búnaður sem björgunarsveitir gera kröfur um í bíla sína. Sveitin mun fá hann afhentan í byrjun nóvember. Við það tækifæri verður bíllinn til sýnis og jafnframt mun Toyota hafa bílasýningu á Skagaströnd. Þökkum góðan stuðning við starf okkar, stjórn Björgunarsveitarinnar Strandar.

Hreppsnefndarfundur þriðudaginn 12. okt. 04

Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps þriðjudaginn 12. október 2004 á skrifstofu hreppsins kl 16.00. Dagskrá: 1. Tillögur sameiningarnefndar um breytingar á sveitarfélagaskipan. 2. Erindi hreppsnefndar til fjárlaganefndar. 3. Námsstofa – tenging FS nets. 4. Byggðakvóti – umsókn um byggðakvóta 5. Starfsleyfi fyrir sorpurðun Höfðahrepps í landi Neðri Harrastaða 6. Gjaldskrá fyrir hundahald 7. Bréf a) Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 28. sept. 2004. b) SSNV um aukaársþing, dags. 24. sept. 2004. c) Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaráðstefnu, dags. 3. sept. 2004. d) Sambands íslenskra sveitarfélaga um landsþing, dags. 21. september e) Stéttarfélagsins Samstöðu, dags. í september 2004. f) Norræna félagsins í Ringerike, dags. 13. sept. 2004. g) Svavars Sigurðssonar, dags. 3. sept. 2004. h) Undirbúningshóps um stofnun textílseturs, dags. 20. sept. 2004. 8. Fundargerðir: a) Byggingarnefndar, 20. ágúst 2004. b) Leikskólanefndar, 15. sept. 2004. c) Skólanefndar, 16. sept. 2004. d) Stjórnar SSNV, 27. ágúst 2004. e) Stjórnar SSNV, 1. sept. 2004. f) Framkvæmdaráðs um svæðisskipulag, 24. ágúst 2004. g) Heilbrigðisnefndar Nl.v. 28. sept. 2004. h) Launanefndar sveitarfélaga, 15. sept. 2004. 9. Önnur mál.

Fréttatilkynning

Ævintýrið Skrapatungurétt Stóðsmölun og réttir í A-Húnavatnssýslu Dagana 18. og 19. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur geta leigt hesta hjá heimamönnum eða mætt með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 18. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Þeir reiðmenn sem koma með hesta sína á föstudegi í Strjúgsstaði eru beðnir að hafa samband við landeigenda í síma 846 0411. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal, hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Þátttakendur eru beðnir að virða það, að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu sem telur hundruð. Í ár hefur verið búið til nýtt embætti í kringum þennan viðburð, ferðamannafjallkóngur. Fyrstur til að bera þann titil er Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Ferðamannafjallkóngurinn, sem er heimavanur á þessum slóðum, mun sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín. Á laugardagskvöldinu kl 20 verður haldið til grillveislu í reiðhöllinni við Blönduós. Þeir sem vilja snæða í grillveislunni er beðnir að panta fyrir hádegi föstudaginn 17.september í síma 452 7171 eða 896 6011. Partýstemningin nær svo hámarki á dansleik síðar um kvöldið í Félagsheimili Blönduóss. Á Réttardansleiknum leikur hljómsveitin Sixties fyrir dansi. Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 10. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna menn og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum. Mikið úrval söluhrossa verður á boðstólnum í Skrapatungurétt og hægt að gera góð kaup. Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað sungið og skemmt sér að sið Íslendinga. Allir eru gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar og bókanir í stóðsmölun, í síma 891 7863 eða í netfangi haukur@anv.is

Togarinn Örvar fer ekki slipp

Togarinn Örvar HU 2 sem fara átti í slipp í Póllandi á næstu dögum fer ekki fyrr en í byrjun janúar á næsta ári. Ástæður þessarar seinkunar er að skipasmíðastöðin sem átti að taka hann upp hefur mikið af verkefnum og seinkaði því slipptökunni. Togarinn kom inn til löndunar fyrir mánaðarmótin og landaði rúmum 250 tonnum af unnum afurðum. Afli skipsins í síðustu veiðiferð mun því hafa verið nærri 350 tonn upp úr sjó, aðallega grálúða. Aflaverðmæti var um 65 milljónir króna eftir 38 úthaldsdaga. Örvar mun halda til veiða í næstu viku á þriðjudag - miðvikudag.