14.09.2015
Dagur Höfðans
Sveitarstjórn Skagastrandar ákvað að gera Dag íslenskrar náttúru sem verður haldinn hátíðlegur
16. september nk. að „Degi Höfðans“
Í tilefni af því verður efnt til gönguferðar um Höfðann
16. september kl 18.00. Lagt verður af stað frá Tjaldklauf og eru íbúar og aðrir hvattir til að mæta og eiga góða stund í gönguferð um náttúrperluna Spákonufellshöfða.
Þeir sem ekki geta mætt í skipulagða göngu eru hvattir til að taka göngu um Höfðann við fyrsta tækifæri.
Sveitarstjóri
10.09.2015
Veiðar hafa gengið ágætlega á Húnaflóa í sumar og góð veiði.
Undanfarna daga hefur verið sérstaklega mikið um að vera á höfninni á Skagaströnd sem hófst með því að togarinn Arnar HU 1 kom inn til millilöndunar og 4. september og þá var landað úr honum um 443 tonnum af fiski sem að mestu var makríll og grálúða. Sunnudaginn 6. september komu svo þrír línubátar frá Vísi í Grindavík til löndunar. Fjölnir GK-657 landaði tæpum 70 tonnum og bæði Páll Jónsson GK-7 og Sighvatur GK-57 lönduðu hvor um sig um 83 tonnum. Mánudaginn 7. september landaði Saxhamar SH-50 rúmum 44 tonnum. Auk þessa lönduðu nokkrir smærri bátar um 30 tonnum. Afli línubáta var að mestu þorskur og ýsa.
Samtals var landað um 754 tonnum á þessum fjórum dögum.
08.09.2015
Fyrirlestradagar á Skagaströnd
verða laugardagana 12. og 19. september í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra í samvinnu við Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum.
Fyrirlestrarnir verða í Bókasafni Halldórs Bjarnasonar,
Gamla kaupfélagshúsinu, Einbúastíg 2 á Skagaströnd.
Laugardaginn 12. september, kl. 14-15:
Annadís Greta Rúdolfsdóttir, lektor í aðferðafræði rannsókna við Háskóla Íslands, flytur fyrirlesturinn Óþekk(t)ar ömmur
Gerð er grein fyrir ævi nútímakvennanna Fanneyjar Bjarnadóttur (1913-2008) og Svövu Sigurðardóttur (1914-2012). Báðar voru fæddar utan hjónabands og voru lágt settar í stigskiptu kerfi samfélagsins. Þær gegndu hlutverkum móður og eiginkonu en voru einnig kynverur og neytendur samtímamenningar. Lífshlaup þeirra er sett í samhengi við hefðbundna hugmyndafræði um hina „góðu móður” og hvernig þær hugmyndir hafa haft áhrif á afstöðu afkomenda til þeirra og þær minningar sem lifa um þær.
Ruth J. Arelíusdóttir, Sandra B. Rúdólfsdóttir, Fanney Bjarnadóttir,
Annadís Greta Rúdólfsdóttir, Svava Sigurðardóttir. Mynd frá 1984.
Laugardaginn 19. september, kl. 13:30-16:20 verða fluttir fjórir fyrirlestrar:
Páll Sigurðsson, prófessor emeritus, flytur erindið Tveir norðlenskir lögskýrendur – Lögbókarskýringar Páls lögmanns Vídalíns og Björns Jónssonar, bónda og fræðimanns á Skarðsá.
Nanna Þorbjörg Lárusdóttir, sagnfræðingur, fjallar um Góðtemplarastúkurnar og áhrif mótandi orðræðu.
Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur, heldur erindið Að halda friðinn. Um sáttanefndir í Húnavatnssýslu og störf þeirra á 19. öld.
Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur, segir frá ömmu sinni í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna: Það var sól þann dag – um Súsönnu Margréti Gunnarsdóttur frá Norðurfirði á Ströndum (1926-2002).
Umræður, heitt verður á könnunni og allir velkomnir
Háskóli Íslands
08.09.2015
Skátastúlkur
Þessar stúlkur voru félagar í skátafélaginu Sigurfara á Skagaströnd.
Myndin var tekin kringum 1960 þegar skátafélagið starfaði af sem mestum krafti.
Efri röð frá vinstri: Þórunn Bernódusdóttir Stórholti, Guðrún Þórbjarnardóttir Flankastöðum,
Magdalena Axelsdóttir (d. 2015) Læk og Kristín Lúðvíksdóttir Steinholti.
Fermri röð frá vinstri: Ester Axelsdóttir Læk, María Bjarnadóttir (d. 1984) Holti/Eyri,
Sigríður Ágústsdóttir Blálandi og Jóhanna Hallgrímsdóttir (Júdý) Skála.
Myndina tók Guðmundur Kr. Guðnason.
04.09.2015
SUNDLAUG SKAGASTRANDAR
AUGLÝSIR.
Vegna dræmrar aðsóknar verður almenn opnun felld niður frá og með 7. september og er því síðasti opni dagurinn í dag, föstudag 4. september.
Þökkum öllum fyrir komuna í sumar í litlu kósý laugina og sjáumst næsta sumar.
Eva Dís, Gígja og Halla.
04.09.2015
Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur 16. september nk.
Í bréfi sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sent sveitarfélögum er hvatt til að dagurinn verði haldinn hátíðlegur. Þar segir: „ Öll eigum við okkar óskastað í íslenskri náttúru, hvort sem það er tjörn í túnfætinum heima, lundur í íslenskum skógi, fjall sem býður einstakt útsýni, friðlýst svæði eða leynistaður sem geymir ljúfar minningar og leyndarmál. Hver sem staðurinn er þá endurspeglar hann þá staðreynd að íslensk náttúra er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga. Í ár beinum við sjónum að þessari tengingu manns og náttúru og þeirri fjölbreytni sem endurspeglast í ólíkum uppáhaldsstöðum hvers og eins okkar.“
Sveitarstjórn Skagastrandar tók bréfið fyrir á fundi sínum 2. september sl. og ákvað að gera daginn að „Degi Höfðans“ og efna til gönguferðar um höfðann 16. september kl 18.00. Íbúar og aðrir eru hvattir til að mæta og eiga góða stund í gönguferð um náttúrperluna Spákonufellshöfða.
#staðurinnminn #DÍN
03.09.2015
Nýr vaktsími læknis og hjúkrunarfræðings var tekinn í notkun 1. sept. á svæði Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Blönduósi.
Nýtt númer er 1700 eftir lokun skiptiborðs og um helgar
Upplýsingar fyrir tímapantanir, opnunartíma og starfsemi heilsugæslustöðvar HSN á Blönduósi má finna á heimasíðu stofnunarinnar www.hsn.is/blonduos
...
Slys og alvarleg veikindi þar sem bráðrar þjónustu er þörf hringið í 112.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands
02.09.2015
Nýtt sjóðheitt 6 vikna Zumba námskeið
hefst 9. september 2015
Tímarnir verða tvisvar í viku í félagsheimilinu Fellsborg.
Á mánudögum og miðvikudögum kl:17:15-18:15
Verð : 16.000 kr
Skráning fyrir 6. sept á lindabj@simnet.is
Zumba er sannkölluð gleðisprengja !!!!!!
Bíð spennt eftir að hitta ykkur í fjörinu !!!!!
Jafnt fyrir algjöra byrjendur sem lengra komna J
Linda Björk
02.09.2015
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, var mættur í Félagsheimilið á Blönduósi í dag til að undirrita „Þjóðarsáttmála um læsi“ ásamt fulltrúa Heimilis og skóla og fulltrúum sveitarfélagana í Austur Húnavatnssýslu, Húnaþingi vestra og Strandabyggð. Illugi hélt stutt ávarp í upphafi fundar og þá hélt Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, ávarp en að því loknu var sáttmálinn undirritaður.
Í kynningarbæklingi um „Þjóðarsáttmála um læsi“ segir m.a. að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni haustið 2015 vinna að Þjóðarsáttmála um læsi í samvinnu við sveitarfélög og skóla með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns.
„Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra. Þá kemur einnig fram í bæklingnum að öll börn eigi að fá tækifæri til að eiga daglega lestrarstund til loka grunnskóla. Foreldrar og aðstandendur þurfi að vera virkir þátttakendur í námi barna sinna og fylgjast með framvindu og árangri. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi en bágur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir.“
Höf. ass
Heimild: Húnarhornið
31.08.2015
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 2. september 2015 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins.
Dagskrá:
Fjármál sveitarfélagsins
Bréf EFS, dags. 13. júlí 2015
Árshlutayfirlit rekstrar jan. – júní 2015
Fjárfestingar og framkvæmdir 2015
Leikskólinn Barnaból
Viðmiðunarreglur um kirkjugarðsstæði og fleira
Náttúrustofa Norðurlands vestra
Þjóðarsáttmáli um læsi
Bréf:
Skagabyggðar, dags. 6. júlí 2015
UMFÍ – v/Hreyfiviku, dags. 21. ágúst 2015
Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, dags. 13. ágúst 2015
Róberts F. Gunnarssonar, dags. 6. ágúst 2015
Fundargerðir:
Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 1.07.2015
Stjórnar SSNV, 30.06.2015
Stjórnar SSNV, 17.08.2015
Stjórnar SSNV, 25.08.2015
Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 03.07.2015
Önnur mál
Sveitarstjóri