23.02.2011
Námskeið um uppbyggingu verkefna og fyrirtækja í skapandi greinum á Norðurlandi vestra verður haldið 31. mars, 1. og 2. apríl á Sauðárkróki. Þátttakendur gefst kostur sækja námskeiðið á grundvelli verkefnis sem þeir vilja vinna að og er gert ráð fyrir virkri þátttöku þeirra á námskeiðinu.
Leiðbeinandi er Ása Richardsdóttir, B.A. í alþjóðasamskiptum og með diplóma í menningarstjórnun.
Fjallað verður um hugmyndavinnu og skipulagningu verkefna, fjármögnun, markaðssetningu, alþjóðlega tengslamyndun og samstarf. Námsefni er fléttað saman við verkefni þátttakenda og þau þróuð í samstarfi námskeiðshópsins og leiðbeinanda.
Eins og áður sagði verður námskeiði haldið á Sauðárkróki, fimmtudaginn 31. mars kl. 14 -18, föstudaginn 1. apríl, kl. 10 - 6, laugardaginn 2. apríl, kl. 10-14. Námskeiðið er 20 kennslustundir.
Verðið 15:000 kr. Upplýsingar í síma 455-6010 og á heimasíðu Farskólans: www.farskolinn.is.
Skráningar skal senda á netfangið Rannveig@farskolinn.is Umsóknarfrestur er til 3. mars.
Til athugunar: Við skráningu þurfa þátttakendur að senda neðangreindar upplýsingar:
Nafn, netfang, síma, stofnun/fyrirtæki/félag og svara eftirfarandi spurningum.
1. Hvert er verkefnið þitt og á hvaða sviði skapandi greina er það? ( hámark 50 orð)
2. Verði verkefnið að veruleika, hver verður lokaútkoma þess? (hámark 70 orð)
Leiðbeinandinn, Ása Richardsdóttir, hefur unnið í menningu, listum og fjölmiðlum í 25 ár, framleitt, leitt og skapað fjölmörg verkefni og viðburði. Hún hefur kennt menningarstjórnun frá 2001, bæði í háskólum hér heima og erlendis Hún hefur veitt stofnunum, félögum og hópum ráðgjöf, sérstaklega á svið alþjóðlegs samstarfs. Hún var framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins 2002 - 2010 og þar áður stofnandi Kaffileikhússins sem og starfsmaður RÚV - sjónvarps í 6 ár, með háskólanámi. Hún er með BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Kent í Kantaraborg, diplóma í menningarstjórnun frá Fondation Marcel Hicter í Brussel og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er nú forseti Leiklistarsambandsins og vinnur sjálfstætt að verkefnum og rannsóknum.
22.02.2011
Morgunblaðið segir frá því í dag að 5.360 kíló af kvenfólki hafi vigtað sig í einu hóp á hafnarvoginni á Skagaströnd vegna átaks sem nú stendur yfir hjá konum í bænum. Meðaltalið er því tæp 77 kg sem út af fyrir sig er nú ekki svo ýkja mikið.
Í frétt Óla Benna segir eftirfarandi:
„70 konur eru skráðar á námskeiðið „Á réttri leið – bætt heilsa, betri líðan“ en það mun standa yfir í tíu vikur undir leiðsögn fjögurra kvenna á Skagaströnd.
Nálægt 40% kvenna á aldrinum 18 ára og eldri, búsettra á Skaga- strönd, eru með í fjölbreyttu átaki til að bæta heilsu sína og líðan. Konurnar fjórar sem leiða hópinn eru iðjuþjálfi, Pilates- og jógakennari, hjúkrunarfræðingur og þroskaþjálfi. Konurnar mæta í alls konar leikfimi þrjá daga í viku og fá auk þess ýmsa fræðslu um hollt og gott mataræði og margt annað sem stuðlar að bættri heilsu og meiri lífsfyllingu. Þannig hafa konurnar hist á „smökkunarkvöldi“ þar sem þær skiptust á uppskriftum að hollusturéttum og smökkuðu hver hjá annarri.
Meðal markmiða kvennanna með átakinu er að grenna sig og styrkja og því mættu þær á hafnarvogina til að vita hvað hópurinn væri þungur samanlagt í upphafi átaksins. Ætlunin er að vigta hópinn aftur undir lok námskeiðsins til að sjá hvaða árangri konurnar hafa náð í sameiningu. Hópurinn hefur náð samningi við Samkaupsverslunina á staðnum um að veita þátttakendum 10% afslátt af grænmeti og ávöxtum næstu tíu vikur og ætti það að ýta enn frekar undir að góð- ur árangur náist í baráttunni við aukakílóin.“
21.02.2011
Helga Björg Jónasardóttir, www.vaxandi.is, mun halda námskeið í kertagerð n.k. laugardag 26. febrúar í Kvennaskólanum á Blönduósi á vegum Textílsetursins.
Kertagerð er auðveld og skemmtileg. Lítinn búnað þarf til, annað en það sem finnst í hverju eldhúsi. Eftir eitt byrjendanámskeiði er hver og einn fær um að halda áfram heima og búa til sín eigin kerti.
Kennarinn kemur með öll áhöld og efni sem þarf fyrir námskeiðið.
Námskeiðið er í eldhúsi Kvennaskólans í kjallara og stendur frá kl. 14-18. (tími ekki alveg staðfestur en námskeiðið er 4 klst. eða 6 kennslustundir.)
Námskeiðið kostar 8.500 kr. Efni er innifalið.
Aðeins 12 nemendur komast að.
Nemendur taki með sér svuntu, inniskó, nesti og lítinn kassa eða poka fyrir afurðirnar. Nánari upplýsingar og skráning: www.textilsetur.is og í gsm. 894-9030.
21.02.2011
Í gær opnaði Aimée Xenou listamaður hjá Nesi listamiðstöð athyglisverða sýningu í kjallaranum í Bjarmanesi.
Sýningin er gagnvirk, þ.e. áhorfendum stendur til boða að taka þátt í henni, og hafa því bæði börn og fullorðnir gaman að því að skoða hana.
Einnig er getraun í gangi sem allir geta tekið þátt í og eru verðlaun í boði fyrir þann sem tekst best að leysa þrautina.
Opið er alla vikuna frá klukkan 14 til 19.
17.02.2011
Tunglið tyllti sér eitt andartaka á Litla-spena í Spákonufelli og karlinn leit niður á mannlífið við Höfðann með nokkurri velþóknun. Þeir sem lögðu leið sína um nálægt hinu fagra fjalli gátu heyrt hann tuldra með sér að þarna væri nú flest allt í góðu standi. Hann ætti svosum að vita það enda víðförull með afbrigðum, fer víða um heiminn á hverri nóttu.
Svo hélt hann áfram ferð sinn, en þeir sem eftir stóðu veltu fyrir sér hvort tunglferðir séu ekki með öllu óþarfar því tíðum staldrar tunglið við ofan á Spákonufelli og grípur í spenann.
Ráð er að tvísmella á myndina og birtist hún þá svo stór að hugsanlega má greina augnlit karlsins í tunglinu.
16.02.2011
Landaður afli á Skagaströnd fyrstu fimm mánuði kvótaársins 2010-11 er tæplega 34% meiri en á sama tímabili síðasta kvótaárs. Þetta eru 6.510 tonn og hefur líklega aldrei áður borist jafn mikill afli á land í bænum.
Aflinn það sem af er kvótaárinu er meiri en barst allt kvótaárið 2007-8 og aðeins um 21% minna en næsta kvótaár á eftir, 2008-9.
Landaður afli í janúar á Skagaströnd var 336 tonn sem aðeins minna en í janúar á síðasta ári, en þá barst 353 tonn á land.
Aflahæstu bátar í janúar voru þessir:
Sighvatur GK-57, 2 landanir, samtals 116 tonn.
Fjölnir Su-57, 1 löndun, samtals 60,5 tonn
Sóley Sigurjóns GK-200, 1 löndun, samtals 55,8 tonn
Berglín GK-300, 1 löndun, samtals 51 tonn
Alda HU-112, 7 landanir, samtals 28 tonn
Sæfari SK-112, 7 landanir, 12 tonn
Flugalda ST-54, 2 landanir, 11 tonn
Kvótaárið miðast við upphaf september og lýkur í lok ágúst árið eftir. Meðfylgjandi er súlurit sem sýnir afla hvers kvótaárs. Bláu súlurnar sýna mánaðarlegan afla þess sem nú stendur yfir.
15.02.2011
Aðalfundur Ungmennafélagsins Fram verður haldinn í Höfðaskóla þriðjudaginn 22. febrúar klukkan 20.
Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.
Fundarboðendur vonast til að sjá sem flesta mæta.
11.02.2011
Sunnudaginn 13. febrúar býður Ungmennafélagið Fram til súpuveislu í fjáröflunarskyni í félagsheimilinu Fellsborg frá kl. 12 – 14.
Í boði verður matarmikil ungversk gúllassúpa og kakósúpa fyrir börnin.
Sýndar verða ljósmyndir frá starfi Umf. Fram, gamlar og nýjar myndir og ekki að efa að á þeim munu margir sjá einhverja sem þeir þekkja.
11.02.2011
Í dag föstudaginn 11. febrúar er 112 dagurinn. Af því tilefni ætlar björgunarsveitarbíllinn, slökkviliðsbíllinn og sjúkrabíllinn að vera við Samkaup Úrval á milli kl: 17:00 og 18:00.
Einnig verður Skagastrandardeild Rauða krossins með brúðu og býður gestum að blása og hnoða.
Rauði krossinn hlakkar til að sjá sem flesta.
10.02.2011
Listviðburður á vegum Ness listamiðstöðvar verður í Hólaneskirkju sunnudagskvöldið 13. febrúar kl. 20. Höfundurinn er Aimée Xenou og er um að ræða dans- og tónlistargjörning. Nafnið er „Flutningur fjölskyldu í máli og mynd - fyrri hluti“ og helgast það af því að foreldrar listakonunnar og bróðir taka mikilvægan þátt í viðburðinum
Aðrir listamenn sem taka þátt eru stúlkur sem lært hafa dans í vetur hjá Andreu Kasper og bróðirinn:
Andrea Kasper, dansari og danshöfundur
Sigurlaug Máney Hafliðadóttir, dansari
Guðrún Anna Halldórsdóttir, dansari
Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir, dansari
Björn Rothmüller, tónlistarmaður, orgelleikari
Allir velkomnir - Viðburðurinn er ókeypis og tekur um 30 mínútur.
Aimée þakkar öllum listamönnunum, samfélaginu á Skagaströnd, Hallbirni Björnssyni (Ice-Technology), stjórn Nes listamiðstöðvar, Ólafíu Lárusdóttur og Ursulu Árnadóttur fyrir áhuga þeirra og innlegg.