Fréttir

Atvinnuhúsnæði óskast á leigu

Fiskverkandi leitar eftir atvinnuhúsnæði til leigu á Skagaströnd. Hann óskar eftir 50 til 100 fermetrum sem hentar fyrir fiskvinnslu, pökkun og söltun. Nauðsynlegt er að aðgangur sé að heitu og köldu vatni. Nánari upplýsingar gefur Brynjólfur John Gray í síma 845 7519, netfangið er adalgata3b@simnet.is.

Mokum frá sorptunnunum, tæming næstu daga

Þó ekki sé mikill snjór á Skagaströnd hefur skafið að húsum og víða er erfitt að komast að sorptunnum. Íbúar eru beðnir um að moka vel frá tunnunum svo starfsmenn Sorphreinsunar geti án vandkvæða komist að þeim, flutt þær út að götu og tæmt. Á morgun, fimmtudag, verður almenna sorptunnan losuð, og á föstudaginn endurvinnslutunnan. 

Gleðibankinn með tónleika í Kántrýbæ

Gleðibankinn býður nú upp á skemmtun í Kántrýbær miðvikudagskvöldið 12. janúar kl. 20:30. Gleðipinnar kvöldsins verða þeir Svavar Knútur Kristinsson, söngvaskáld, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og tónsmiður. Á tónleikunum flytja þeir frumsamið efni í tónum og tali eins og þeim einum er lagið.  Þeir félagar hafa starfað saman um árabil, m.a. í barnadagskránni Karímarímambó, en einnig hafa þeir samið og flutt dagskrá um skáldið Stein Steinarr í grunnskólum víða um land við mjög góðar undirtektir. Á tónleikunum á Skagaströnd verður efnið fjölbreytt að vanda, en yrkisefnin snúast að mestu um hina mannlegu tilveru, hamingjuleitina og fleira í þeim dúr og moll. Svavar Knútur sendi fyrir skemmstu frá sér geisladiskinn Ömmu með þekktum íslenskum sönglögum og hlaut lofsamlega dóma fyrir. Áður hafði hann gefið út Kvöldvöku, sem er eingöngu með frumsömdu efni.  Nefna má að lagið Draumalandið, lag Sigfúsar Einarssonar, er á disknum Ömmu og hefur verið mikið leikið á útvarpsstöðvum undanfarna mánuði og hefur náð miklum vinsældum. Hann hefur gert víðreist og komið fram á fjölda tónleika hérlendis og erlendis á undanförnum misserum og verið í spennandi samstarfi við trúbadúra víða um heim.  Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hefur um langt árabil starfað með ýmsum tónlistarmönnum, bæði hér heima og á Norðurlöndum, auk þess að vera vel þekkt ljóðskáld og barnabókahöfundur.  Af nýjustu verkum hans má nefna Sálma á nýrri öld í samstarfi við Sigurð Flosason og ljóðabækurnar Segðu mér og segðu ... og Hjartaborg, að ógleymdum rómuðum þýðingum hans á söngljóðum eftir sænska vísnaskáldið Cornelis Vreeswijk. Aðgangur að tónleikunum er aðeins kr 1.000 og er fólk hvatt til þess að mæta og hlýða á skemmtilega dagskrá.

Liggja þín tækifæri á netinu ?

Náðu árangri á netinu - námskeið í markaðssetningu á netinu. Staður : Félagsheimilið á Blönduósi 13. og 14. janúar Tími: 09:00-16:00 báða daga. Kynntar verða breytingar og aðferðir í markaðsetningu á netinu með tilkomu m.a. Facebook og Twitter ásamt notkun leitarvéla. Hver þátttakandi fær úttekt á heimasíðu sinni með leiðbeiningum og ábendingum um hvernig hægt er að ná betri árangri Námskeiðið er fjárfesting sem skilar sér strax í bættum árangri. Vegleg vinnubók fylgir. Boðið verður upp á léttan hádegisverð og kaffiveitingar. Fyrirlesari er Hjörtur Smárason, ráðgjafi ( sjá www.marketingsafari.org ) en hann mun m.a. segja frá því hvernig honum tókst að fá yfir 800.000 manns frá 213 löndum til þáttöku á vefnum án þess að kosta til einni einustu krónu. Einstakt tækifæri fyrir þá sem eru að selja vöru eða þjónustu og/eða vilja kynna sér undraheima netsins. Skráning á nordurland.vestra@vmst.is fyrir 10. janúar. Vinsamlegast gefið upp nafn, kennitölu, síma og netfang. Námskeiðið er í boði Vinnumálastofnunar og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Ekki missa af þessu eftirsótta námskeiði - Allir Velkomnir.

Myndir frá vel heppnuðu menningarkvöldi

Menningarkvöld var haldið á 30. desember sl. í Kántrýbæ á Skagaströnd. Húsið fylltist og allir skemmtu sér afar vel. Fyrir utan að bjóða upp á góða skemmtun var markmiðið að safna fé fyrir fjölskyldu sem lent hafði með börn sín í alvarlegum slysum. Ekki er enn ljóst hversu mikið safnaðist en það verður gefið upp um leið og öll framlög hafa skilað sér. Meðfylgjandi eru myndir sem Hugrún Sif Hallgrímsdóttir tók. Skemmtiatriðin voru mörg og óvenjuleg. Spákonurnar á Skagaströnd sögðu í blöndu af gamni og alvöru frá komandi tímum. Ari Eldjárn, uppistandari, mætti á staðinn og skemmti fólki á sinn einstaka hátt. Fjöldi góðra tónlistarmanna eru á Skagaströnd og stigu margir þeirra á svið og léku við hvern sinn fingur og ekki síður á raddböndin.

EKKI vatnslaust

Viðgerðum á vatnsveitunni hefur verið frestað vegna veðurs. Ekki hefur verið ákveðið hvenær hafist verður handa á ný, en greint verður frá því hér á vefnum.

Góðan daginn, fínt veður eins og alltaf ...

Veðrið í dag á Skagaströnd í dag er mjög svipað því sem það var í desember. Nú er hæg norðaustanátt, 7 m/s, og frost er 3,5 gráður, sem er nokkuð lægra en meðalhitinn í síðasta mánuði, en hann var 0,5 gráður.  Ástæða er til að vekja athygli á sjálfvirkri veðurathugunarstöð sem staðsett er við höfnina. Hér vinstra megin er linkur á hana og þar er m.a. hægt að sjá hitastig, vindhraða, vindátt, flóðatöflu og flóðahæð. til viðbótar er hægt að skoða veðrið langt aftur í tímann en upplýsingar skrást sjálfvirkt á tíu mínútna fresti.

Enn metafli á Skagaströnd

Aldrei hefur komið meiri afli að landi á Skagaströnd en síðustu fjóra mánuði liðins árs en þeir eru raunar fyrstu mánuðir nýs fiskveiðiárs, sem nær frá byrjun september til ágústloka. Síðustu árin hefur mikill fiskur borist á landi eins og sjá má á eftirfarandi tölum:  Árið 2007-08 6,0 þúsund tonn. Árið 2008-09 8,3 þúsund tonn. Árið 2009-10 9,1 þúsund tonn. Aðeins er þriðjungur fiskveiðiársins 2010-11 liðinn og nú þegar er aflinn 6,2 þúsund tonn.  Af þessu má sjá að nú þegar er aflinn meiri en allt fiskveiðiári 2007-08. Og sé miðað við sömu mánuði undanfarin ár er ljóst að aflinn er miklu meiri en áður hefur þekkst.

Frekar hlýtt og lygnt í desember á Skagaströnd

Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út yfirlit yfir veðrið á Skagaströnd í nýliðnum desember. Í stuttu máli hefur veðrið verið til lítilla vandræða. Meðalhitinn mánaðarinn skreið rétt yfir frostmark, var 0,5 gráður. Hlýjasti dagur mánaðarins var sá 26. er hitinn fór upp í 8 gráður að meðaltali. Tæpri viku áður hafði þó mælst kaldasti dagurinn. Frá 16. og fram til 25. desember ríkti kuldakafli sem náði lágmarkinu þann 21. en um klukkan 15:40 þann dag var kaldast, -9,8 gráður. Eftir það losaði frostið og á jóladag var hitinn kominn upp í frostmark og hlýtt var fram á gamlársdag en þá var meðalhitinn -0,5 gráður. Vindgangur á Skagaströnd, ef svo má að orði komast, var með ágætum í desember. Að meðaltali var blásturinn um 7,2 m/s sem þykir nú varla mikið. Hvassast var þann 18. desember en þann dag mældist 14,8 m/s að meðaltali. Lygnast var í upphafi mánaðarins, þá mældist 1,7 m/s í tvo daga, 2. og 3. desember. Enn er ekki úrkoma mæld á Skagaströnd þó er ljóst að stundum rignir og stundum snjóar. Það gerist hins vegar aldrei samtímis. Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út veðurspá fyrir janúar. Í stuttu máli mun ýmist snjóa eða rigna í mánuðinum. Oft verður úrkomulaust. Stundum frystir en þó verður hitastigið oftar en ekki yfir frostmarki. Nánari upplýsingar um veður veitir útibúið, Veðurstofa Íslands.

Fjárhagsáæltun samþykkt

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagastrandar 2011 Á fundi sveitarstjórnar 29. desember 2010 var fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 samþykkt. Í áætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur verði 283.602 þús. rekstrartekjur 136.986 þús. og samtals tekjur samstæðu 420.588 þús. Rekstrargjöld eru áætluð 392.910 þús. og þar af er kostnaður vegna launa áætlaður 213.132 þús. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliðið er áætluð jákvæð um 5.700 þús. en heildarniðurstaða að teknu tilliti til fjármagnsliða verði jákvæð um 9.236 þús. Í sjóðstreymi áætlunar er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 42.176 þús. Samanlagðar fjárfestingahreyfingar eru áætlaðar 42.000 þús. Að teknu tilliti til fjárfestinga og fjármögnunarhreyfinga er áætlað að handbært fé lækki um 11.224 þús. Fjárhagsáætlun 2011