Fréttir

Kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu

Kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010 liggur frami á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar. Kjörskrárstofninn miðast við þá sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 13. febrúar 2010. Kjörskrána má einnig nálgast hér. Sveitarstjóri

Aðalfundur Golfklúbbsins á þriðjudaginn

Aðalfundur Golfklúbbs Skagastrandar verður haldinn þriðjudaginn 2. mars nk. kl. 20 í kaffihúsinu Bjarmanesi. Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf Önnur mál. Nýir félagar eru sérstaklega boðnir velkomnir.

Opið hús í kvöld hjá Nesi

Opið hús er hjá Nesi listamiðstöðf í kvöld, fimmtudaginn 25. febrúar, frá klukkan 18 til 21. Listamenn febrúarmánaðar munu sýna gestum og gangandi afrakstur dvalar sinnar hér á Skagaströnd. Í febrúar hafa 10 listamenn dvalið á Skagaströnd, unnið að list sinni og ekki síður hafa þeir sankað að sér efni til frekari listsköpunar. Nadine Poulain Vídeo, Þýskalandi Franz Rudolf Stall, ljósmyndari og keramik, Frakklandi Erla S. Haraldsdóttir, myndlist og videó, Íslandi Craniv Boyd, myndlist og videó, Bandaríkjunum Morgan Levy, ljósmyndari, Bandaríkinjunum Jee Hee Park, blönduð tækni, Suður-Kóreu Paola Leonardi, ljósmyndari, Englandi Margaret Coleman, myndhöggvari, Bandaríkjunum Anna Marie Shogren, dansari, Bandaríkjunum Mari Mathlin, myndlist, Finnlandi Skagstrendingar eru hvattir til að líta inn að Fjörubraut 8 og kynna sér starfsemi listamiðstöðvarinnar, skoða verk listamannanna og ekki síst kynnast þeim og viðhorfi þeirra. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Opnu húsi frestað hjá Nes listamiðstöð

Vegna slæmrar veðurspár hefur verið ákveðið að fresta opnu húsi hjá Nes listamiðstöð sem vera átti í kvöld. Veðurstofan hefur gefið út stormaðvörun: Búist er við stormi á Ströndum og annesjum á NV-landi seint í kvöld og til morguns.   Á fimmtudaginn 25. febrúar frá kl. 18 til 21 verður opið hús hjá listmönnunum og taka þeir þá fagnandi á móti gestum og gangandi.

Námskeið í vattarsaumi hjá Textílsetrinu

Textílsetur Íslands verður með námskeið í vattarsaumi helgina 27. og 28. febrúar. Vattarsaumur er forn aðferð sem er eldri en bæði prjón og hekl.  Aðferðir við vattarsaum eru margar en byggja allar á að unnið er með þráð og grófa nál, vattarsaumsnál. Unnið er með léttlopa eða hespulopa.  Nemendur læra amk. tvær aðferðir, en margar aðferðir eru þekktar og kennari er með mörg sýnishorn. Námskeiðið er 18 kennslustundir og kostar 19.500 krónur.

Nammidagurinn haldinn hátíðlegur

Fjöldi barna fer nú um verslanir og fyrirtæki á Skagströnd og syngja. Að launum fá þau nammi. Öskudagurinn er nammidagur. Ekkert fer fyrir öskupokunum og fæst gera börnin geri sér grein fyrir uppruna dagsins enda varla ástæða til. Öskudagurinn er þannig orðinn að hátíðisdegi.  Það er svo annað mál að mörgum finnist frekar hvimleitt þegar þeim börnum er gefið sælgæti fyrir sönginn. Nær væri að gefa þeim eitthvað hollara -  en ekki eru börnin sammála. Líklegast eru þó allir ánægðir að fá hress og kát börn í heimsókn sem hafa undirbúið sig og syngja af þrótti og gleði. Þá er gaman á Skagaströnd.

Verkefnastyrkir til menningarstarfs

Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á árinu 2010, með umsóknarfrestum til og með 15. mars og 15. september. Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða: Efling atvinnustarfsemi, þekkingar og fræðslu á sviði menningar og lista. Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað. Nýsköpun og þróun menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkefni sem stuðla að þátttöku allra þjóðfélagshópa í menningarstarfi. Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Skilyrði er að viðkomandi sýni fram á mótframlag. Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar úthlutunarreglur 2010 og stefnumótun í menningarmálum á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Menningarráðs Norðurlands vestra sem hægt er að nálgast á heimasíðunni www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Í umsókninni skal m.a. vera greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur. Umsóknir vegna fyrri úthlutunar ársins 2010 skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545  Skagaströnd, eigi síðar en 15. mars 2010. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag. Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is.

Kortasjá

Vakin er athygli lesenda www.skagastrond.is að á vefinn er komin kortasjá fyrir Skagaströnd. Kortasjáin er loftmynd sem er tekin ..... á sólríkum sumardegi. Hægt er að draga myndina nær með því að nota stýristiku efst til vinstri á kortinu. Á kortasjánni er líka fyrsti vísir að örnefnamerkingu sem þarf auðvitað að fylla betur í. Þá eru merkingar á þjónustustofnunum með sérstökum kortatáknum. Kortasjána má opna með því að smella á hnappinn sem er þannig merktur neðar á síðunni.

Með listamönnum eru íbúar Skagastrandar 21% fleiri

Íbúum Skagastrandar fjölgaði um 21% á síðasta ári ef með eru taldir þeir 108 listamenn sem bjuggu í bænum á árinu á vegum Ness listamiðstöðvar. Miklu munar um þá 173 listamenn fyrir samfélagið sem komið hafa upphafi en fyrstu gestirnir komu árið 2008.   Listin hefur mikil og hefur ótvírætt góð áhrif á sveitarfélagið, til dæmis rekstur þjónustufyrirtækja svo sem matvöruverslun, veitingastað, kaffihúss og svo framvegis. Vonir standa til að enn fleiri listamenn komi á þessu ári, jafnvel um 140 manns. Íbúðarmálin takmarka þó fjölgun þeirra því ekkert er um lausar íbúðir í bænum. Flestir listamenn koma frá Bandaríkjunum og að auki hafa margir Englendingar, Írar og Þjóðverjar dvalið á Skagaströnd. Margt bendir til þess að listamennirnir séu einstaklega  duglegir að kynna listamiðstöðina, Skagströnd og Ísland á meðal samlanda sinna þegar heim er komið. Til Skagastrandar komið listamenn af ótrúlega mörgu þjóðerni og fjarlægum löndum eins og Brasilíu, Austur Tímor, Singapore og Suður Kóreu. Mörgum er minnisstæð yndæl kona frá Ástralíu sem lét sér ekki nægja að halda listsýningu og heldur steig á svið á í Kántrýbæ eftir spurningakeppnina og söng þjóðlagatónlist frá heimalandi sínu. Hún hafði aldrei séð snjó og þótti einna furðulegast að hún heyrði marr þegar hún gekk um í snjó. Enginn hafði sagt henni neitt um þetta einkennilega hljóð. Fjölmargir listamenn halda enn góðum tengslum við Nes listamiðstöðina og ekki síður ýmsa íbúa á staðnum. Nefna má að nærri tvö þúsund „vinir“ eru skráðir á Fésbókarsíðu listamiðstöðvarinnar. Eftirfarandi er ágætt dæmi um áhugaverða vefslóðir listamanna sem hér hafa dvalið: http://theballparkiniceland.wordpress.com/  http://ameriskur.blogspot.com/  http://carnetsndart.blogspot.com/  http://juliepoitrassantos.blogspot.com/  http://lindsaypalmer.blogspot.com/2010/01/this-is-tale-of-adventure.html  http://www.renatapadovan.com/frozenatsea/content/index.html  http://olivergardiner.blogspot.com/  Flestum sem starfað hafa í ferðaþjónustu er kunnugt um hið mikla gildi sem frásagnir ánægðra ferðamanna hafa. Listamenn sem til Skagastrandar koma eru miklir áhrifavaldar og hvetja aðra listamenn til að sækja um dvöl hér.

Íbúafundur um aðalskipulag kl. 17 í dag

Boðað er til almenns íbúafundar í dag, mánudag 1. febrúar kl. 17 í Fellsborg. Fjallað verður um tillögur að aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagastrandar 2010-2022.   Kynnt verður tillaga að landnotkun fyrir sveitarfélagið í heild og þéttbýli á Skagaströnd  og auk þess umhverfis-skýrsla aðalskipulagsins.   Í aðalskipulagi er mörkuð stefna sveitarstjórnar um landnotkun í sveitarfélaginu til framtíðar. Tekin eru frá svæði fyrir samgöngu- og þjónustukerfi, atvinnusvæði, íbúðabyggð, frístundabyggð, verndarsvæði o.fl.  Megintilgangur fundarins er að gefa íbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum áður en gengið verður frá aðalskipulags-tillögunni til auglýsingar.   Skipulagsráðgjafar frá Landmótun gera grein fyrir tillögunum og taka á móti athugasemdum. Íbúar eru hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á það samfélag sem þeir búa í.  Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri