Fréttir

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 26. ágúst 2009 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Kosning a) Oddvita og varaoddvita til eins árs b) Fulltrúa í atvinnu- og ferðamálanefnd c) Varamann í fræðsluefnd 2. Almannavarnaáætlun vegna innflúensufaraldurs 3. Bréf: a) Félags fólks í frítímaþjónustu, dags. 15. júlí 2009 b) Héðins Sigurðssonar, dags. 10. ágúst 2009 c) Félags skógarbænda, dags. 24. júlí 2009 d) Framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, dags. 28. júlí 2009 4. Fundargerðir: a) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 9. júlí 2009 b) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 16. júlí 2009 c) Menningarráðs Nl. vestra, 25. júní 2009 d) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 26. júní 2009. 5. Önnur mál Sveitarstjóri

Starfsfólk vantar hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd

Vinnumálastofnun á Skagaströnd leitar eftir starfsfólki. Í boði eru tímabundin störf á greiðslustofu og þjónustuskrifstofu til áramóta.  Leitað er að áhugasömu fólki með góða leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi.  Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR.  Framhalds- eða háskólamenntun er kostur sem og reynsla af skrifstofustörfum. Helstu verkefni eru afgreiðsla umsókna, almenn skrifstofustörf, símsvörun og upplýsingagjöf. Hlutverk Greiðslustofu Vinnumálstofnunar er að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið en þjónustuskrifstofan þjónustar hins vegar atvinnuleitendur á Norðurlandi vestra.  Á skrifstofunni á Skagaströnd starfar nú rúmlega 20 manns.   Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og kynna sér þau störf sem eru í boði ásamt því að skoða upplýsingar um starfsemi Vinnumálastofnunar á www.vinnumalastofnun.is.   Athygli er vakin á því að þar sem um tímabundin störf er að ræða þá verður ekki fylgt formlegu umsóknarferli heldur valið úr þeim umsækjendum sem setja sig í samband og skila inn umsókn með ferilskrá.   Líney Árnadóttir forstöðukona veitir upplýsingar í síma 455 4200 og tekur við umsóknum á netfangið liney.arnadottir@vmst.is

„Góður og fróður“ áhrif kennarans sem stjórnanda

Mjög áhugavert námskeið var haldið í gær fyrir alla kennara grunnskóla Húnavatnssýslna og grunnskóla Borðeyrar í upphafi skólastarfs.   Meginmarkmið námskeiðsins var að vekja kennara til umhugsunar um hlutverk sitt og hvaða aðferðir gagnist best til þess að ná góðum árangri í starfi. Fjallað var um hlutverk kennarans sem stjórnanda/leiðtoga og rætt um hvað einkennir góða kennara. Kynntar voru  aðferðir sem gagnast kennurum í samskiptum sínum við nemendur og í bekkjarstjórnun. Gefin voru dæmi um leiðir sem kennarinn geta farið til þess að draga úr neikvæðri hegðun nemenda og byggja upp jákvæðan skólabrag.   Námskeiðið, sem var á vegum Fræðsluskrifstofunnar og haldið í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd, sóttu 70 kennarar   Kennarar námskeiðsins voru:  Helgi Arnarson skólastjóri,  Hjördís Jónsdóttir kennari og Margrét Karlsdóttir kennari. Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með daginn.   Myndir: Þátttakendur og  Leiðbeinendur.  

Ljósmyndasýning um síldarárin á Skagaströnd

Síldarárin á Skagaströnd nefnist ljósmyndasýning sem sett hefur verið upp í bænum. Hún er risastór í þeim skilningi að myndirnar eru allar afar stórar, 2,5 m á hæð og 3,5 m á breidd. Sýningarstaðurinn er líka talsvert frábrugðinn því sem venjulegt má teljast. Í stað þess að halda sýninguna innanhúss hafa myndirnar verið festar utan á hús víða um bæinn. Síldarárin svokölluðu hafa jafnan yfir sér nokkurn ljóma en eins og önnur ævintýri tók síldarævintýrið á Skagaströnd enda. Þó saltað væri flest árin frá 1935 til 1962 dró mikið úr söltun á Skagaströnd eftir 1945 er Norðurlandssíldin fór að leita á nýjar slóðir. Ljósmyndasýningunni er ekki ætlað að vera tæmandi lýsing á tuttugu og sjö síldarárum. Þess í stað hafa verið valdar myndir sem Skagstrendingurinn Guðmundur Guðnason tók árið 1959. Þær eru allar svart-hvítar og afar vel teknar. Úr safni Guðmundar eru nú birtar myndir sem sýna annars vegar vinnuna sjálfa, uppskipun, síldarspekúlasjónir og vinnu á plani og hins vegar skemmtilegar nærmyndir af nokkrum einstaklingum við vinnu sína.  2500 manna bær skipulagður Óvíða höfðu síldarárin meiri áhrif en á Skagaströnd. Á vegum nýsköpunarstjórnarinnar var árið 1945 skipulagður um 2.500 manna bæ. Íbúar á Skagaströnd þá ekki nema liðlega 300 talsins. Það er því vægt til orða tekið að bærinn hafi átt að breyta um svip. Nær er að tala um endurbyggingu hans. Síldariðnaður átti að vera hornsteinn bæjarins. Reisa átti risastóra verksmiðju og nýbyggingaráð myndi styðja þau félag, sem vildu setja upp sildarverkmiður við Húnaflóa, ef þær yrðu settar upp á Skagaströnd. Gert var ráð fyrir að nokkrum síldarsöltunarstöðvum yrði komið á fót af einstaklingum og félögum enda mætti ganga út frá að söltun yrði mjög mikil. Þá átti að kanna vilja til að koma upp niðursuðu- eða niðurlagningarverksmiðju á síld á Skagaströnd. Í tillögunum var talið heppilegast að gera einkum 35-50 tonna báta út frá Skagaströnd. Lagði Einar Olgeirsson til að nýbyggingarráð hlutaðist til um smíði fimm fiskiskipa af þessari stærð. Skipin yrðu síðan seld með því skilyrði að þau væru gerð út frá Skagaströnd. Myndi þetta gefa fólki aukna möguleika á öruggri vinnu yfir veturinn. Síldarverksmiðja byggð Þegar hafnargerð hófst á Skagaströnd fór stjórn Síldarverksmiðja ríkisins þess á leit við ríkisstjórnina að fá leyfi til að hefja byggingu nýrra verksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd. Var stefnt að því að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar til vinnslu fyrir síldarvertíð 1946. Þetta samþykkti Alþingi í lok febrúar árið 1945. Benda má á að á vertíðinni 1945 veiddust í Húnaflóa um 43% þeirrar síldar sem Síldarverskmiðjur ríkins fengu til vinnslu. Byggingakostnaðurinn verksmiðjunnar á Skagatrönd fór langt fram úr áætlun og var ríkisstjórnin mikið gagnrýnd fyrir það. Fór þá heldur að grynnka á eftirlæti stjórnvalda við síldariðnaðinn. Kom líka fleira til. Síldarvetríðin 1945 var ein sú slakasta um árabil og sú lélegasta frá því Síldarverksmiðjur ríkisins tóku til starfa árið 1930. Síldin hverfur Það kom brátt á daginn að aflatregðan 1945 markaði upphaf hrun veiða Norðurlandssíldarinnar. Örlögin höguðu málum því svo að framkvæmdir við nýju verksmiðjuna á Skagaströnd hófust á sama tíma og síldin ákvað að leita á nýjar slóðir. Með hruni veiða Norðurlandssíldarinnar var brostinn sá grunnur öll nýsköpun á Skagaströnd hvíldi á. Innan tíðar varð ljóst að draumurinn um síldarútvegsbæinn sem átti að vera fyrirmynd annarra bæja, myndi aldrei rætast. Enn í dag gnæfir verksmiðjustrompurinn yfir bæinn eins og risavaxinn minnisvarði um þessa stóru drauma.  

Er barnið þitt á leið til skóla?

Nú eru skólarnir að byrja og á hverju ári eru rúmlega fjögur þúsund börn sem stíga sín fyrstu skref sem virkir þátttakendur í umferðinni. Af þessu geta skapast margar hættur sem brýnt er að fyrirbyggja.Hér eru nokkur atriði sem Umferðarstofa leggur áherslu á varðandi öryggi skólabarna. Getur skapað hættu að aka barninu Hafa skal í huga að öll umferð ökutækja við skóla skapar hættu. Af þeim sökum er mikilvægt að foreldrar séu ekki að aka börnum sínum að óþörfu til skóla og skapa með því hættu fyrir aðra gangandi vegfarendur – ekki  síst börn. Víða geta aðstæður verið þannig að það sé hættulegt að láta barnið ganga eitt til skóla. T.d. þar sem fara þarf yfir götur þar sem mikil umferð er. Í slíkum tilfellum er vitanlega réttlætanlegt að keyra barnið en einnig er sá möguleiki að einhver fullorðin gangi með barninu til og frá skólanum. Nota skal sérstök stæði Þegar nauðsyn krefur að börn séu keyrð í skóla er mjög mikilvægt að þau fari út úr bílnum þar sem þau eru örugg. Ekki stofna lífi barnsins og annarra í hættu með því að sleppa þeim út við gangstéttarbrún. Nota skal sérstök stæði eða útskot sem eiga að vera við flesta skóla. Það er líka mikilvægt að muna að barn sem er að hefja skólagöngu er ekki orðið nógu hávaxið til að sitja eingöngu með bílbelti og því er nauðsynlegt að nota hefðbundin bílpúða eða bílpúða með baki. Er stysta leiðin örugg?  Ef mögulegt er að láta barnið ganga eitt til skólans skal finna og ganga leiðina með barninu nokkrum sinnum áður en skólaganga hefst. Velja skal þá leið sem sjaldnast þarf að ganga yfir götu. Styðsta leiðin er ekki alltaf sú öruggasta. Það er mikilvægt að brýna fyrir barninu að þó það sjái bíl þá sé ekki öruggt að bílstjórinn sjái það. Ekki ganga út á milli kyrrstæðra bíla Þar sem fara þarf yfir götu á að stoppa, líta vel til beggja hliða og hlusta. Ganga síðan yfir ef það er óhætt. Aldrei má ganga út á götu á milli kyrrstæðra bíla. Alltaf skal nota gangbrautir þar sem þær eru. Kenna skal barninu að nota handstýrð umferðarljós rétt. Hvað rauði og græni liturinn táknar. Ef barnið er komið út á gangbrautina þegar græna ljósið fer að blikka og það rauða birtist þá á það að halda áfram yfir götuna – ekki fara til baka. Allir eiga að nota endurskin Ef engin gangstétt er á að ganga á móti umferðinni, eins fjarri henni og unnt er. Ef fleiri eru saman á að ganga í einfaldri röð. Allir eiga að nota endurskinsmerki eða vera í yfirhöfnum með endurskini. Börn sem eru að hefja skólagöngu eiga alls ekki að ferðast ein um á reiðhjóli. Samkvæmt lögum mega börn yngri en 7 ára ekki hjóla ein á akbraut og börnum sem eru yngri en 15 ára ber skylda til að nota hjálm. Er foreldrið góð fyrirmynd? Hafa skal í huga að foreldrar eru fyrirmynd barnsins. Hvernig hegða þeir sér í umferðinni? Barnið lærir meira af því sem foreldrarnir gera en því sem þeir segja. Munum því að ganga aldrei á móti rauðu ljósi og  nota alltaf viðeigandi öryggisbúnað, t.d. öryggisbelti, hjólreiðahjálma og endurskinsmerki. Textinn er frá Umferðarstofu

Kántrýdagar að hefjast í sól og yl

Skagströnd er að búa sig undir Kántrýhátíð. Íbúarnir hafa verið að skreyta bæinn síðustu daga og útkoman er óskaplega skemmtileg. Verðið spillir ekki heldur fyrir, glampandi sól og hiti um 15 gráður þegar þetta er skrifað um kl. 15 á föstudegi.  Starfsfólk Vinnumálastofnunar brá undir sig betri fætinum, stökk út í sólina og dansaði af lífsins list eins og sjá má á þessum myndum. Fjöldi fólks er kominn í bæinn . Húsbílar, tjaldvagnar og fellihýsi eru víða í görðum og tjaldsvæðið er næstum því orðið fullt. Hátíðin hefst með fallbyssuskoti á Bjarmanesi kl. 18 og þá eru opin hús í Smábæ á Kofavöllum. 

Þórdísarganga á Spákonufell um helgina

Spákonuarfur efnir til Þórdísargöngu á Spákonufell laugardaginn 15. ágúst kl. 10:00.  Gangan er tileinkuð Þórdísi spákonu. Lagt verður af stað frá golfvellinum á Skagaströnd. Að lokinni göngu verður boðið upp á veitingar sem eru innifaldar í verði. Fararstjóri í göngunni er Ólafur Bernódusson. Á leiðinni mun hann fræða þátttakendur um Þórdísi spákonu og vísa á staði sem tengjast sögu hennar og afrekum.  Þátttökugjald er 1.500 kr. en frítt er fyrir 16 ára og yngri. Upplýsingar í síma 861-5089.

Heilsugæslan fær veggteppi

Ellefu bútasaumskonur á Skagaströnd og Blönduósi afhentu heilsugæslunni á Skagaströnd veggteppi. Þærr hafa hist regluleg í um sex til sjö ár og unnið að bútasaumi. Meðal annars hafa þær gefið veggteppi á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi og leikskólann. Við hátíðlega athöfn á fimmtudaginn var veggteppið afhent Heilsugæslunni og því fundið veglegur staður.  Listamennirnir hafa saumað inn í teppið tilvísanir til umhverfisins. Í miðjunni er t.d. Árnes, elsta húsið á Skagaströnd og ísbjarnarhúnar eru vísun til nafns sýslunnar. Meðfylgjandi mynd tók Ólafur Bernódusson.

Sýningar, listsköpun og námskeið í Nes listamiðstöðinni

Í Nesi listamiðstöð á Skagastönd dvelja nú fimmtán listamenn. Í tilefni Kántrýdaga ætla þeir að bjóða fólki að líta inn frá kl 16:00 til 18:00 á laugardaginn og sjá hvað þeir eru að vinna að.   Á sama tíma mun Cynthia Delaney opna ljósmyndasýningu í Kælinum í listamiðstöðinni. Hún hefur undanfarið ljósmyndað víðáttuna, einangrunina og hina einstöku kúrekamenningu í norðausturhluta Nevada. Kl. 14:00 sama dag ætla þær Liz, Pat og Jess að bjóða fólki að taka þátt í listsköpun þar sem þær munu blanda saman sjónlist, hljóðlist og ljóðlist. Fólk er hvatt til að kíkja á þær og taka með sér pensla, pappír eða sögur. Sýningin SOLITUDE - Landslag í umróti verður opin á föstudaginn kl. 17:00-20:00 og á laugardag og sunnudag frá kl. 13:00-16:00 í nýja sýningarsalnum Gamla kaupfélagið á Skagaströnd.  Myndlistarsýningin, sem er sett upp af Nesi Listamiðstöð á Skagaströnd í samvinnu við Neues Kunsthaus Ahrenshoop og Kunstlerhaus Lukas, er samsýning listamanna frá Íslandi, Lettlandi og Þýskalandi. Sýningin öll er unnin útfrá ljóðum skálda frá þessum löndum og íslensku skáldin sem listamennirnir leggja út frá eru Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason. Fulltrúar Íslands á sýningunni eru Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Jeannette Castioni. Þessi glæsilega myndlistarsýning er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra, Fisk Seafood á Sauðárkróki og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli. Gleymda herbergið er samsýning tveggja listamanna sem unnið hafa ílistamiðstöðinni síðustu tvo mánuði . Þær Hanneriina Moisseinen frá Finnlandi og Kreh Mellick frá Bandaríkjunum umbreyttu kjallara, gleymdu herbergi, Gamla Kaupfélagsins yfir í hið áhugaverðasta sýningarrými og munu sýna þar verk sín alla helgina milli kl 13:00-17:00. Sýningin stendur til 23. ágúst. Mánudaginn 17. ágúst mun Ljósmyndarinn Cynthia Delaney, bjóða börnum og unglingum Skagastrandar upp á frítt ljósmyndanámskeið. Krakkarnir koma þá með sínar eigin vélar og þau fara saman um bæinn og taka myndir.

Smá breytingar á dagskrá Kántrýdaga

Vegna veikinda verður hljómsveitin Lausir og liðugir ekki á Kántrýdögum í Kántrýbæ. í þeirra stað spila hljómsveitin Fúsleg helgi á fimmtudagskvöldið frá klukkan 23 og er frítt inn. Á föstudagskvöldið sér hljómsveitin Sólun um fjörið í Kántrýbæ eftir klukkan 23. Með þessum breytingum er dagskrá Kántrýdaga þessi: Fimmtudagur 13. ágúst                                              Götur Skagastranda skreyttar 23:00    Upphitun í Kántrýbæ             Hljómsveitin Fúsleg helgi hitar upp fyrir á Kántrýdaga, frítt inn Föstudagur 14. ágúst                                  18:00                Kántrýdagar hefjast með fallbyssuskoti 18:00 - 19:00     Lokadagur á Kofavöllum                         Smábæingar bjóða alla velkomna 17:00                Ljósmyndasýning í Bjarmanesi, kjallara                         Helena Mara sýnir myndir frá Skagaströnd 17:00 - 20:00     Myndlistarsýning í Gamla kaupfélaginu                         Solitude, Samsýning listamanna frá Lettlandi, Þýskalandi og                          Íslandi 19:00 - 21:00     Hoppukastalar við hátíðarsvæði 19:00 - 20:00     Kántrýsúpa í hátíðartjald                         BioPol ehf. býður - allir velkomnir 20:00 - 22:00     Spádómar í Árnesi                         Spáð í spil, bolla og lesið í lófa 20:00 - 21:30     Dagskrá í hátíðartjaldi                          Angela og Basombrio bandið                          Valdi og Anna frá Dagsbrún                          Trúbadorinn Íris frá Búðardal ásamt félögum 21:00                Uppistand í Bjarmanesi              Madame Klingenberg með uppistand og spádóma 21:30 - 23:00     Varðeldur og söngur á Hólanesi             Allir sem eiga hljóðfæri eru hvattir til að koma með þau; gítar,              munnhörpu, trommur, flautur  o.s.frv. 23:00 -  3:00      Ball í Kántrýbæ                         Hljómsveitin Sólon heldur uppi fjörinu  24:00    Tónleikar í Bjarmanesi                         Fannar, Haffi og gestir leika af fingrum fram                                     Laugardagur 15. ágúst                                     10:00                Þórdísarganga á Spákonufell                          Lagt upp frá golfskálanum 11:00 - 13:00     Dorgveiðikeppni á höfninni, verðlaun fyrir þyngsta fiskinn 12:00                 Fallbyssuskot við Bjarmanes 12:00                 Ljósmyndasýning í Bjarmanesi, kjallara                           Helena Mara sýnir myndir frá Skagaströnd 13:00 -  16:00     Bílskúrssala á Bogabraut 13                          Kolaportsstemming, bækur, hákarl, sultur og fleira og fleira 13:00 - 17:00       Myndlistarsýning í Gamla kaupfélaginu                           Solitude, Samsýning listamanna frá Lettlandi, Þýskalandi og  Íslandi. 13:00 - 20:00        Hoppukastalar við hátíðarsvæði 13:00 - 16:00        Veltibíll Sjóvár verður á hátíðarsvæðinu 14:00 - 18:00        Árnes, elsta húsið á Skagaströnd                            Til sýnis með húsbúnaði frá fyrri hluta 19. aldar 14:00                   Sjónlist, hljóðlist og ljóðlist í Nes listamiðstöð                            Komið með pensla, sögur eða bara ykkur sjálf og takið þátt í listsköpun með Jess, Liz og Pat. 14:30 - 15:30        Hláturjóga í Bjarmanesi                            Angela Basombrio býður upp á einstakt jóga 15:00 - 17:00        Bjarmanes                          Valdi frá Dagsbrún kynnir nýja diskinn, „Ó borg mín“ 15:30 - 17:00     Barna- og fjölskylduskemmtun í hátíðartjaldi                          Töfratónar Ævintýrakistunnar                          Kántrýdansar                           Frímínútnakórinn                           Kynnir er Atli Þór Albertsson 16:00 - 18:00     Opið hús í Nes listamiðstöð                         Listamenn bjóða gestum að skoða verk sín og vinnustofur 18:00 - 20:30     Útigrill við hátíðartjald                         Heitt í kolunum og frumlegasti útbúnaðurinn við grill verðlaunaður 20:00 - 22:00     Spástofan í Árnesi og Spákonutjaldið                         Spáð í spil, bolla og lesið í lófa 20:30 -  23:00    Dagskrá í hátíðartjaldi                          Skaggastelpusveitin Snúsnúbandið og þrír stæltir dansarar                          Guðlaugur Ómar                          Tríó VB                           Hljómsveitin Earendel                           Lúgubandið                           Ingó og Veðurguðirnir                           Bróðir Svartúlfs                           Kynnir er Atli Þór Albertsson 23:00                Tónleikar í Bjarmanesi                         Angel og Basombrio bandið                         Fannar, Haffi og gestir leika af fingrum fram 23:00 - 3:00       Ball í Kántrýbæ                          Ingó og Veðurguðirnir í banastuði                               Sunnudagur 16. ágúst                                     12:00                Fallbyssuskot við Bjarmanes 12:00                 Ljósmyndasýning í Bjarmanesi, kjallara                          Helena Mara sýnir myndir frá Skagaströnd 13:00 - 17:00      Myndlistarsýning í Gamla kaupfélaginu                          Solitude, Samsýning listamanna frá Lettlandi, Þýskalandi og Íslandi. 13:30 - 14:30      Gospelmessa í hátíðartjaldi 14:00 - 17:00      Kaffihlaðborð í Bjarmanesi                           Angela syngur 15:00 - 17:00      Árnes, elsta húsið á Skagaströnd                          Til sýnis með húsbúnaði frá fyrri hluta 19. aldar