16.05.2006
Orðsending frá Hólmfríði dóttur Steinþórs.
Eins og þið hafið kannski frétt verður haldið ættarmót “Kárastaðaættarinnar”, þ.e. afkomenda Sigurbjargar Sigurbjarnardóttur, sem bjó lengi vel á Kárastöðum á Skagaströnd með tveimur sona sinna, og Kristjáns Kristjánsdóttur, mannsins hennar, í félagsheimilinu ykkar þann 1. og 2. júlí í sumar.
Ég held úti vefsíðu á meðan á undirbúningi ættarmótsins stendur, á vefslóðinni http://karastadir.blogspot.com/ , með upplýsingum, myndum, tilkynningum og fleiru tengdu ættarmótinu, og var þar bent á að koma endilega síðunni á framfæri á vefsíðu Skagastrandar, enda sjálfsagt einhverjir meðlimir ættarinnar sem ekki muna vefslóðina okkar, en hefja leitina að vefnum á síðunni ykkar.
Með bestu kveðju,
Hólmfríður
(dóttir Steinþórs, sonar Hólmfríðar, dóttur Sigurbjargar)
26.04.2006
Það voru þreyttir, rjóðir, sællegir en fyrst og fremst ánægðir Skagstrendingar sem renndu inn í bæinn að kvöldi sumardagsins fyrsta.
Ungmennafélagið Fram hefur staðið fyrir skíðaferðum í Tindastól á föstudögum nú eftir áramót. Þátttaka barna og foreldra í þeim ferðum hefur verið mjög góð og raunar framar öllum vonum. Í fyrstu ferðina fóru 50 einstaklingar en að jafnaði hafa um 30 krakkar farið á hverjum föstudegi. Í kjölfar þess var ákveðið að ljúka tímabilinu með því að efna til fjölskylduferðar í Hlíðarfjall á sumardaginn fyrsta, kíkja á Andrésar Andar leika og hafa gaman.
Í stuttu máli sagt heppnaðist ferðin frábærlega. Farið var af stað snemma morguns með 38 Skagstrendinga, fullorðna og börn, og ekið sem leið liggur til Akureyrar. Þar var deginum eytt í hreint frábæru veðri og við bestu hugsanlegu aðstæður til skíðaiðkunar sem í boði eru á Íslandi í dag. Fólk renndi sér frá kl 10:00 til 17:00 og voru okkar krakkar síðust úr fjallinu. Eftir það var farið á pizzuhlaðborð á Greifanum og síðan ekið heim í heiðardalinn. Var heimferðin með eindæmum róleg þar sem flestir sváfu á sínu sæla eyra eftir frábæran dag. Myndirnar tala sínu máli.
Að lokum vill félagið koma á framfæri þökkum til eftirfarandi aðila fyrir veittan stuðning:
Höfðahreppur
Vífilfell
Íslensk dreifing (Myllan og Kexsmiðjan)
Mjólkursamlagið á Blönduósi
Sölufélagið á Blönduósi
F.h UMF Fram
Halldór, Róbert og Elva
24.04.2006
Togarinn Arnar HU 1 kom til hafnar á Skagaströnd sunnudaginn 23. apríl með 582 tonn af frystum afurðum sem er um 1070 tonn upp úr sjó. Áætlað aflaverðmæti er 145 milljónir. Um 2/3 aflans er ufsi en annað er ýmsar bolfisktegundir. Þessi farmur Arnars er með því mesta sem skipið hefur komið með að landi bæði í tonnum talið og verðmætum en verðmæti sjávarafla hefur aukist mjög að undanförnu vegna stöðu íslensku krónunnar. Reiknað er með að Arnar haldi aftur til veiða laugardaginn 29. apríl
18.04.2006
Á Skírdag var Sr. Fjölnir Ásbjörnsson settur í embætti sóknarprests af Sr. Guðna Þór Ólafssyni prófasti í Húnavatnsprófastdæmis. Í Skagastrandarprestakalli eru auk Hólaneskirkju, Hofskirkja, Höskuldsstaðakirkja, Holtastaðakirkja, Bólstaðarhlíðarkirkja og Bergstaðakirkja. Það má því segja að prestakallið nái frá Víkum á Skaga fram að Fossum í Svartárdal eða rúma 100 km.
Að athöfn lokinni var haldið kaffisamsæti í Hótel Dagsbrún. Sr. Fjölnir útskrifaðist frá Guðfræðideild HÍ vorið 2000 og hefur starfað sem afleysingaprestur á Sauðárkróki, í Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði og á Tálknafirði. Hann er upp alinn á Sauðárkróki og foreldrar hans búa þar. Sr. Fjölnir er giftur Heiðrúnu Tryggvadóttur kennara og eiga þau tvo syni þriggja og sex ára gamla.
Myndir með fréttinni tók Árni Geir
10.04.2006
Saumastofan Íris ehf er komin með heimasíðu en hún er á slóðinni http://www.irisehf.is þar má sjá nokkra Skagstrendinga í fyrirsætustörfum.
07.04.2006
Miðvikudaginn 5. apríl s.l. kom Kór eldri borgara í Húnaþingi í heimsókn til Skagastrandar og söng nokkur lög í Landsbankanum.
Hríðargarg, hálka og það sem slíku veðri fylgir aftraði ekki för þessara “söngfugla” og víst er að söngurinn féll í góðan jarðveg hjá þeim sem á hlýddu. Lokalag kórsins var “Borgin mín” lag eftir Hallbjörn Hjartarson, texti eftir Kristján Hjartarson. Kaffi og kleinur runnu ljúflega niður, eins og vera ber á góðum samkomum og fólk kvaddi hvert annað með hlýju og þakklæti fyrir góða stund í minningakörfuna.
Stjórnandi kórsins er Kristófer Kristjánsson og undirleikari Óli. J. Björnsson.
Hafi kórinn þökk fyrir komuna, vonandi stilla Landsbankinn á Skagaströnd og kórinn saman strengi fljótlega aftur.
07.04.2006
Höfðahreppur auglýsir eftir flokkstjórum til starfa í Vinnuskólanum sumarið 2006. Æskilegt er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Höfðahrepps og er umsóknarfrestur til 18. apríl. Nánari upplýsingar veitir Ágúst Þór í síma 899 0895 eða á netfangi agust@skagastrond.is
Sveitarstjóri Höfðahrepps
07.04.2006
Björgunarsveitin hefur verið með þrjá bíla og voru tveir af þeim komnir nokkuð til ára sinna og hafa þurft töluvert viðhald. Eftir umræður á aðalfundi sveitarinnar var ákveðið að selja Unimog árg. 1981 og Chevrolet suburban árg. 1988 og kaupa Ford Econoline árg. 2000 sem björgunarsveitin í Varmahlíð hafði boðið sveitinni til kaups.
Meðal útbúnaðar bifreiðarinnar er low gear, 6 tonna spil, læst drif, sjúkrabörur og fleira, auk þess er bíllinn breyttur fyrir 44” dekk. Sæti í bílnum eru fyrir 12 manns. Björgunarsveitin á fyrir Toyota Landcruser 90 árg. 2004 breyttan fyrir 38”
Með þessum kaupum vonast menn til að minni tími fari í viðhald.
Vinnufundir eru á hverju þriðjudagskvöldi og er vel mætt,
þá er einnig tekið á móti einnota drykkjarumbúðum.
Alltaf heitt á könnunni og að sjálfsögðu eru allir velkomnir.
05.04.2006
>>>>>BM ráðgjöf
Vantar þig vinnu?
Viltu hafa góð laun?
Viltu eiga möguleika á sveigjanlegum vinnutíma?
Viltu vinna í þægilegu umhverfi?
Ef þú svarar einhverju hér að ofan játandi, átt þú sennilega samleið með okkur. Kynningarfundur um starfsemi BM ráðgjafar ehf verður haldinn fimmtudaginn 6 apríl á Hótel Dagsbrún kl 20 stundvíslega.
BM ráðgjöf ehf
05.04.2006
Aðalfundur U.M.F.Fram verður haldinn í Höfðaskóla
fimmtudaginn 6. apríl kl. 20:30.
Hefðbundin aðalfundarstörf
Mikilvægt að foreldrar mæti til að ræða málin
Vonumst til að sjá sem flesta
Stjórn U.M.F. Fram