Fréttir

Loksins snjór….

Það hefur ekki borið mikið á snjó frá áramótum. Síðustu daga hefur hann komið og jafnað landslagið eða myndað nýja hóla og hæðir. En snjórinn getur verið dulmagnaður og við ákveðin birtuskilyrði verður til skemmtilegt samspil sem gaman er að ljósmynda. Unnið er að því hörðum höndum að fjarlægja snjóinn af götum og greiða fyrir umferð eins og hægt er. Gera má ráð fyrir því að snjórinn stoppi ekki lengi við, þar sem það styttist óðfluga í sumarið en sumardaguinn fyrsti er eftir 3 vikur.

Kynning á vaxtarsamningi og vinnu verkefnisstjórnar

Verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðurlands vestra stendur fyrir opnum kynningarfundum í félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 30. mars frá kl 12:00 - 13:00 og Hótel Dagsbrún á Skagaströnd föstudaginn 31. mars frá kl 12:00 - 13:00. Boðið verður upp á súpu. Allir velkomnir. Dagskrá: 12:00 Fundur settur 12:05 Klasar sem undirstöður vaxtarsamning - Elvar K. Valson, Impra 12:15 Störf verkefnisstjórnar - Jóna Fanney Friðriksdóttir/Steindór Haraldsson 12:25 Umræður og fyrirspurnir Nánari upplýsingar veitir Elvar K. Valsson í síma 460 7973 og Jakob Magnússon í síma 455 2510. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, atvinnuþróun Impra nýsköpunarmiðstöð, Iðntæknistofnun

Umf. Fram á Goðamóti

Hópur stráka frá Umf. Fram tók þátt í Goðamótinu sem haldið var á Akureyri 10. - 12. mars sl. Þeir kepptu í D-riðli en mótið var haldið fyrir 5. flokk. Hópurinn sem mætti til leiks voru 10 ungir kappar þar sem 8 voru frá Skagaströnd og 2 frá Blönduósi. Skemmst er frá því að segja að liðið vann alla leiki sína nema úrslitaleikinn sem það tapaði gegn öflugu liði Breiðabliks. Lið Umf. Fram náði því öðru sæti í sínum riðli. Þarna var öflugt lið og góður liðsauki frá Blönduósi.

Bragðefni verða til á Skagaströnd

Frá 1999 hefur fyrirtækið SERO ehf starfað á Skagaströnd. SERO hefur þróað ýmsar gerðir bragðkjarna fyrir matvælaiðnaðinn. Ensím eru notuð til að brjóta niður prótein við framleiðslu sjávarbragðefnanna, sem fyrirtækið framleiðir. AVS sjóðurinn styrkti fyrirtækið með forverkefnisstyrk til að þróa þangbragðefni. SERO hefur þróað framleiðsluaðferðir til að einangra þá bragðkjarna sem eftirsóttir eru við gerð tiltekinna bragðlykla “ flavors keys”, sem eru svo notaðir til að útvega þann bragðprófil “ flavor profile”, sem markaðurinn biður um. Steindór Haraldsson RC ( Reserch Chef ) hefur þróað og hannað verksmiðjuna og þær vörur sem SERO framleiðir, en afurðirnar eru fyrst og fremst seldar til Bandaríkjanna. Meðal annars eru framleiddir bragðkjarnar úr rækju. humri, þorski og öðrum bolfiski, skelfiski, saltfiski, síld og þangi. Bragðkjarnarnir eru í fljótandi formi og seldir sem kælivara. SERO er í samvinnu við mörg skyld og sambærileg fyrirtæki bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og taka þau virkan þátt í að meta afurðirnar, sem framleiddar eru á Skagaströnd. (Frétt á www.avs.is)

„Við sjálf og stytturnar í bænum“

Listsýning barnanna á Barnabóli Skagaströnd í Landsbanka Íslands. Þema árlegrar listsýningar barnanna á Barnabóli í Landsbankanum er að þessu sinni helguð styttum bæjarins. Börnin á eldri deildinni byrjuðu á að skoða listaverkabók og styttuna póstdrenginn og björnin sem eru til á leikskólanum. Síðan var farið út í bæ að leita að og skoða styttur en það fundust engar styttur í bænum okkar. Aftur á móti fundu börnin fullt af alls konar minnismerkjum t.d. totem-indjánasúlu sem indjánar staðarins nota trúlega sem tilbeiðslutákn. Þau fundu minnismerki um drukknaða sjómenn og það varð uppspretta mikilla vangaveltna um lífið og tilveruna. Börnin fundu hestastein og einn drengurinn er viss um að þar sé grafinn hestur og að þetta sé hestalegsteinn, að lokum fóru þau í útbæinn og sáu Semingssteininn. Það er því ljóst að það er fullt af listarverkum í umhverfi okkar þó rómverskar styttur finnist þar ekki. Og til að bæta úr þessu brugðu börnin yfir sig hvítu laki, settu sig í styttustellingar og síðan voru teknar myndir af þeim. Yngri börnin stilltu sér upp sem prófílstyttur við spegill og síðan var tekinn „tvöföld mynd“ af þeim og nú er það ykkar, gestir góðir, að ráða í hvaða ungu Skagstrendingar þetta eru um leið og þið skoðið sýninguna. Verði velkomin á styttusýningu leikskólabarna í Landsbankanum á Skagaströnd Krakkarnir og starfsfólk leikskólans Barnabóls

Styrktartónleikar í Fellsborg

Laugardagskvöldið 25. febrúar sl. voru haldnir tónleikar til styrktar Dóru Sveinbjörnsdóttur í félagsheimilinu Fellsborg en Dóra hefur greinst með alvarlegan sjúkdóm. Á tónleikunum komu fram eftirtaldir tónlistamenn: Guðmundur Jónsson Hjörtur Guðbjartsson Hafþór Gylfason Þórarinn Grétarsson Hans Birgir Högnason Angela Basombrio Birkir Rafn Gíslason Jón Ólafur Sigurjónsson Hugrún Sif Hallgrímsdóttir Eygló Amelía Valdimarsdóttir Þorvaldur Skaftason Anna Skaftadóttir Viggó Brynjólfsson Hljómsveitin Spor Kirkjukór Hólaneskirkju Þessir tónlistamenn blönduðust á ýmsa vegu á tónleikunum og fluttu mismunandi gerð tónlistar, allt frá þungu rokki til kirkjutónlistar. Tónleikarnir tókust í alla staði vel og voru vel sóttir. Allir sem að tónleikunum komu gáfu vinnu sína og því rennur allur ágóði til málefnisins. Tónleikarnir voru haldnir að frumkvæði tónlistarmanna á Skagaströnd en auk þess hefur Lionsklúbbur Skagastrandar staðið að söfnun fyrir sama málefni og hefur opnað söfnunarreikning nr. 0160-26-63000, kt. 700704-3270

Fréttatilkynning 22. febrúar 2006 um hitaveitu.

Hreppsnefnd Höfðahrepps og stjórn Rarik hafa samþykkt viljayfirlýsingu þess efnis að stefnt sé að því að leggja hitaveitu frá Reykjum til Skagastrandar. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist árið 2007 ef nægjanlegt vatn finnst á svæðinu sem nú þegar hefur að hluta til verið virkjað fyrir hitaveitu Blönduóss. Á undanförnum árum hefur verið leitað að heitu vatni í nágrenni Skagastrandar án þess að viðunandi árangur næðist. Hreppsnefndin fór því þess á leit við Rarik að lögð yrði hitaveita til Skagastrandar.

Troskvöld Lions á Skagaströnd.

Um helgina stóð Lionsklúbbur Skagastrandar fyrir Troskvöldi í Fellsborg. Fram voru bornir 10 sjávarréttir m.a. kúlaður vestfirskur steinbítur, skötustappa í fiðringi og siginn norskur þorskur. Eldamennska og framreiðsla var öll unnin af klúbbfélögum. Yfirkokkar voru Gunnar Reynisson og Sigurbjörn Björgvinsson. Klúbburinn nýtur þess oft að innan vébanda hans eru frábærir matreiðslumenn. Fjölmargir gestir voru mættir á Troskvöldið m.a frá Lionsklúbbi Blönduóss. Auk glæsilegs veisluborðs var boðið upp á tónlist og gamanmál. Sr. Gísli Gunnarsson frá Glaumbæ í Skagafirði flutti ræðu kvöldsins. Þótti Troskvöldið takast mjög vel. Er ljóst að þessi viðburður er að festast í sessi í menningarlífi okkar. Lionsklúbbur Skagastrandar var stofnaður árið 2004. Hefur klúbburinn þegar beitt sér fyrir mörgum góðum málum. Eitt af stærstu verkefnum klúbbsins í dag er að koma upp útsýnisskífu á Höfðanum. Formaður Lionsklúbbs Skagastrandar er Guðmundur Finnbogason

Námskeið í skrifstofutækni

Nú er að hefjast námskeið í skrifstofutækni á vegum sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu, Svæðisvinnumiðlunar og stéttarfélaga. Námskeiðið er sett upp í samstarfi við Farskóla Norðurlands vestra og kallað: Skrifstofubrautin Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga fyrir að bæta stöðu sína með tilliti til þess að ný skrifstofustörf eru væntanleg bæði á Skagaströnd og Blönduósi. Kennslan fer fram í grunnskólanum á Blönduósi, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl 19.00 – 22.00. Námið hefst 20. febrúar og stendur til 30. maí 2006. Ákveðið hefur verið að þeir sem að námskeiðinu standa muni greiða niður kostnað og að hver þátttakandi greiði aðeins 10.000 kr. í námskeiðsgjald. Á “skrifstofubrautinni” verður lögð áhersla á eftirtaldar námsgreinar: Sjálfstraust og samskipti Námstækni Windows Fingrasetningu og þjálfun Ritvinnslu Töflureikni Tölvupóst og internet Verslunarreikning Bókhald Þjónusta við viðskiptavini Framkvæmdaáætlun Ferilsskrá Skráning og nánari upplýsingar eru hjá Svæðisvinnumiðlun á Blönduósi í síma 455 4200 og hjá Farskólanum í síma 455 6010. Reiknað er með að takmarkaður fjöldi nemenda komist að og eru áhugasamir því hvattir til að skrá sig hið fyrsta.

Arnar HU-1 með mikinn afla úr Barentshafi.

Arnar landaði 372 tonnum af frystum afurðum í sl. viku á Skagaströnd, aflaverðmæti var um 115 m.kr. Þess má geta að upp úr sjó var aflinn um 630 tonn. Skipið var 30 daga í túrnum og þar af hafa farið um 23 dagar í veiðar. Afli á veiðidag var því um 27 tonn. Uppistaða aflans var þorskur. Þessi góði afli var sóttur í Barentshaf.