02.03.2004
Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra veitti
Háskólanum á Hólum Hvatningarverðlaunin 2003.
Guðmundur Skarphéðinsson formaður
Atvinnuþróunarfélagsins afhenti Skúla Skúlasyni rektor
verðlaunin, á Hólum föstudaginn 27. febrúar.
Verðalaunagripurinn var að þessu sinni listaverk skorið
í tré, eftir Erlend Magnússon listamann, ásamt
verðlaunaskjali.
Háskólinn á Hólum þykir sérlega vel að verðlaununum
kominn en, á heimasíðu skólans er eitt af markmiðum
skólans eftirfarandi:
“....að efla starfsemi sína á sviði byggðamála í víðum
skilningi, með þeim hætti að tengja í ríkara mæli
núverandi nám og rannsóknir þessum mikilvæga
málaflokki og stefna að því að þjálfa og mennta fólk til
að verða frumkvöðlar í nýsköpun og uppbyggingu
atvinnu og menningarstarfsemi á landsbyggðinni”.
Stjórn Atvinnuþróunarfélags Norðurlands vestra veitir
árlega einu fyrirtæki eða stofnun, sem telst hafa skarað
framúr hvatningarverðlaun. Markmiðið með þeim er eins
og nafnið bendir til að hvetja til nýsköpunar en um leið
að vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi
vestra.
Verðlaunin eru nú veitt í fimmta sinn en áður hafa
fengið verðlaunin:
Síldarminjasafnið á Siglufirði fékk verðlaunin í fyrra fyrir
að vera veglegur minnisvarði um merkilegan þátt í
atvinnulífi Siglufjarðar og raunar landsins alls.
Hestamiðstöðin á Gauksmýri í Húnaþingi vestra fékk
verðlaunin fyrir árið 2001 fyrir þann kjark og áræði að
byggja upp afþreyingu sem tekið er eftir um allt land.
Vesturfarasetrið á Hofsósi fékk hvatningarverðlaunin
fyrir árið 2000 enda eitt merkasta fyrirtæki sem
starfrækt er á landinu.
Kántrýbær á Skagaströnd fékk hvatningarverðlaunin
fyrir árið 1999 og var það í fyrsta sinn sem þau voru
veitt.
23.02.2004
Samkvæmt barnaverndarlögum er öllum skylt að
tilkynna til barnaverndarnefndar um óviðunandi
aðstæður barna. Þessi tilkynningaskylda nær bæði til
alls almennings, og svo er sérstök tilkynningaskylda
lögð á fólk sem starfar með börnum, t.d. starfsmenn
skóla og heilsugæslu, að ógleymdri lögreglunni. Nú
hefur barnaverndarnefnd í A- Húnavatnssýslu ákveðið
að taka þátt í samstarfi Neyðarlínunnar 112 og flestra
barnaverndarnefnda á landinu. Þetta fyrirkomulag sem
komið var á að frumkvæði og undir stjórn
Barnaverndarstofu auðveldar almenningi að koma
nauðsynlegum boðum til barnaverndarnefndar um mál
sem nefndinni er skylt að láta sig varða. Þetta nýja
fyrirkomulag hefur verið kynnt í blöðum og með
auglýsingum undanfarið.
Nýja fyrirkomulagið
Fólk getur nú fólk hringt í Neyðarlínuna 112 og tilkynnt
um óviðunandi aðstæður barna. Starfsmenn 112 meta
alvarleika tilkynningarinnar og ákveða á grundvelli slíks
mats hvort henni verði komið strax á framfæri til
starfsmanns barnaverndarnefndar eða hvort beðið verði
til næsta virka dags. Sá sem hringir gefur upp nafn sitt,
nafn og dvalarstað barnsins, ástæður tilkynningarinnar
og aðrar upplýsingar sem starfsmenn neyðarlínu spyrja
um.Starfsmenn Barnaverndarstofu hafa fengið sérstaka
þjálfun til að sinna þessu verkefni.
Á dagvinnutíma getur fólk eftir sem áður
snúið sér beint til starfsmanna barnaverndarnefndar í A-
Húnavatnssýslu með tilkynningar, spurningar eða
vangaveltur varðandi barnaverndarmál. Starfsmenn á
félagsþjónustu A- Húnavatnsssýlu eru Dagný
Annasdóttir félagsmálastjóri og Ólöf Birna Björnsdóttir
verkefnastjóri. Síminn er 455 4100.
Samstarfsstofnanirnar eins og heilsugæslan, skólarnir
og lögreglan geta líka haft milliliðalaust samband við
starfsmennina eins og verið hefur hingað til.
Hvað á tilkynna?
Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef afar, ömmur,
frændur, frænkur eða nágrannar, eru að velta því fyrir
sér hvort tilkynna eigi um aðstæður barns :
• Líkamlega og andlega vanrækslu
• Ofbeldi gegn börnum,
• Kynferðislega misnotkun
• Ung börn skilin eftir gæslulaus
• Foreldrar í fíkniefnaneyslu
• Hegðun barnsins mjög ábótavant, t.d.
afbrot, árásargirni og ofbeldishegðun Áfengis-og
vímuefnaneysla unglinga eða barna
Við teljum að flestir viti út frá brjóstviti sínu, hvort barn
búi við óviðunandi aðstæður, vanrækslu, vanhæfni eða
framferðis foreldra, eða hvort ástæða sé til að óttast að
barn stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með eigin
hegðun. Ef við teljum svo vera ber okkur að hafa
samband við barnaverndarnefnd sem hefur það að
hlutverki, að meta hvort ástæða sé til að hafa afskipti af
málinu og tryggja í senn að barnið og foreldrarnir fái
nauðsynlega aðstoð.
Trúnaður og nafnleynd
Starfsmenn Neyðarlínu 112 og starfsmenn
barnaverndarnefndar eru bundnir trúnaðarskyldu. Í
barnaverndarlögunum er einnig fjallað um nafnleynd
þess sem tilkynnir. Almenningur, ættingjar eða aðrir
nákomnir, geta óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en
barnaverndarnefnd. Þá er slík beiðni virt nema
sérstakar ástæður mæli gegn því. Opinberir aðilar t.d.
skóli, leikskóli, spítali eða heilbrigðisstofnun, tilkynna í
embættis nafni og njóta því ekki nafnleyndar.
Dagný Annasdóttir félagsmálastjóri
18.02.2004
Myndlistarsýning nemenda í Leikskólanum Barnabóli
var formlega opnuð í Landsbanka Íslands á
Skagaströnd s.l. föstudag.
“Landsbankinn hefur staðið fyrir myndlistasýningum
aðallega í Reykjavík og á Akureyri. Nú er komið að
yngstu kynslóðinni. Landsbankinn setti af stað í byrjun
janúar samvinnuverkefni með nokkrum leikskólum á
þeim stöðum sem bankinn er með útibú á Norðurlandi,
en það er á Akureyri, Sauðárkróki, Húsavík, Kópaskeri,
Raufarhöfn og hér á Skagaströnd“ sagði Gunnlaugur
Sigmarsson útbússtjóri við opnun sýningarinnar á
föstudaginn, um leið og hann bauð gesti hjartanlega
velkoman.
Gunnlaugur sagði þema sýningarinnar vera GLEÐI og
að Landsbankinn þakkaði öllum þeim sem komu að
þessu ánægjulega verkefni kærlega fyrir skemmtilegt
samstarf um leið og bankinn hvetti alla til að koma og
skoða sýninguna og sjá þessar skemmtilegu myndir.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri sagði að starfsfólk
Barnabóls hafi tekið vel í þessa hugmynd
landsbankamanna, að opna sýningu í bankanum, því
eins og allir vita eru fjölmargir listmenn á Barnabóli sem
framleiða listaverk í löngum bunum. Það fór smá tími
hjá okkur í vangaveltur, um hvernig best væri að
framkvæma þetta með börnunum og eins hvernig
listaverk við vildum setja á sýninguna. Skoðaðir voru
ýmsir möguleikar og gerðar tilraunir með efni og form.
Það varð úr að hver hópstjóri valdi ákveðið form eða
aðferð sem börnin voru látin vinna með, misflókið allt
eftir aldri barnanna. Það voru stoltir listamenn sem
mættu með foreldrum sínum til formlegar opnunar
sýningarinnar á föstudaginn.
11.02.2004
Börnin á Barnabóli fóru með snjóþoturnar sínar upp í
brekkurnar í Hólaberginu á föstudaginn var.
Eftir margra ára snjóleysi í brekkunum (að minnsta
kosti í barnsminninu) var loksins kominn nógur snjór til
að renna sér í. Eins og meðfylgjandi myndir bera með
sér var ákefðin mikil og börnin skemmtu sér
konunglega.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
09.02.2004
Hið hefðbundna þorrablót Barnabóls var haldið
fimmtudaginn 5. febrúar s.l.
Undirbúningur blótsins hófst daginn áður með hattagerð
en allir útbúa sinn eigin þorrabótshatt (kórónu).
Þegar öðrum undirbúningi var lokið söfnuðust allir
saman og sungu „Nú er frost á Fróni“ og fleiri lög.
Loks var sest að snæðingi en á borðum var; harðfiskur,
hangikjöt, lifrapylsa og blóðmör, ný og súr sviðasulta,
súrir pungar, hákarl og rúgbrauð. Flestir voru hrifnastir
af harðfiskinum og hangikjötinu en margir smökkuðu
allar tegundir. Ein stúlkan hámaði í sig lifrapysluna á
meðan önnur borðaði mest af hangikjötinu. Sá yngsti
borðaði bara allt sem var sett á diskinn hans. Sumir
vildu hafa mikið smjör á rúgbrauðinu sínu en aðrir
borðuðu bara „mikið“ og drukku djús með.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
06.02.2004
Hafin er undirbúningur að opnun skíðasvæðisins í
Spákonufelli og standa vonir til þess að hægt verði að
opna lyftuna á næstu dögum komi ekki neitt óvænt upp
á. Nægur snjór er á svæðinu eins og þessar myndir
bera með sér. Verið var að losa vírinn þegar myndirnar
voru teknar en eftir er að færa til snjó, yfirfara lyftuna og
hreinsa snjó í kringum Skíðaskálann.
05.02.2004
Þorrablót Kvenfélagsins Einingar á Skagaströnd verður
haldið laugardaginn 14. febrúar nk. og fer forsala miða
fram 8. febrúar milli kl. 12.00 og 13.00 í
Félagsheimilinu Fellsborg. Miðaverð er 4.100 kr. en
eldriborgarar og unglingar fæddir 1988 greiða 2.500 kr.
Skemmtiatriði verða í höndum valinkunnra úrvalsaðila
og hljómsveitin Von frá Sauðárkróki spilar fram eftir
nóttu.
03.02.2004
Grænlenski togarinn Arctic Wolf frá Ilulssat hefur verið
við tilraunaveiðar á krabba undan farnar vikur á nokkrum
stöðum við landið. Hafa þeir m.a. reynt fyrir sér við
Breiðafjörðinn. Skipið er í höfn á Skagaströnd þessa
dagana en búið er að leggja krabbagildur í Húnaflóa og
beðið er eftir heppilegu veðri til að vitja um aflann.
Skipið var leigt til veiða fyrir E. Ólafsson, íslenska
útgerð en áhöfnin mun vera að hluta til erlend. Arctic
Wolf hefur verið við krabbaveiðar við Grænland á liðnum
árum og náð góðum árangri með þær veiðar.
28.01.2004
Loksins kom ærlegur snjór, já en... alltof mikið í einu,
sagði einhver. Hvernig er þetta með þennan meðalveg
sem allir eru að tala um. Hafa veðurguðirnar aldrei
heyrt um hann. Hann er með mátulega miklum snjó,
góðum brekkum, 3-4 stiga frosti og sólskini.
Við auglýsum hér með eftir honum en meðfylgjandi eru
nokkrar myndir af börnunun á Barnabóli að leik
í „ofursnjósköflum“ á Skagaströnd.
Leikskólastjóri.
23.01.2004
Hreppsnefnd Höfðahrepps þakkar Björgunarsveitinni
Strönd fyrir ómetanlega aðstoð við íbúa og atvinnulíf
þegar óveður gekk yfir Skagaströnd dagana 12. – 16.
janúar 2004.
Hreppsnefndin metur mikils hið fórnfúsa starf
björgunarsveitarmanna og annarra sjálfboðaliða sem
unnið hafa við björgun verðmæta og aðstoð við íbúa. Sá
samhugur sem birtist í störfum þessa fólks er til
fyrirmyndar og styrkir samfélagið á erfiðum tímum.
Skagaströnd, 22. janúar 2004.
Hreppsnefnd Höfðahrepps