Fréttir

Skagaströnd fær úthlutað sparkvelli.

KSÍ ákvað 17. maí að úthluta 60 sparkvöllum víðs vegar um landið eftir að hafa fengið tilboð í gervigras á vellina, en það verður hlutverk KSÍ að leggja og útvega fyrsta flokks gervigras á vellina sveitarfélögunum að kostnaðarlausu. Miðað er við vellir þessir verði helst staðsettir á skólalóðum viðkomandi sveitarfélaga. Alls bárust umsóknir um 105 velli frá 59 sveitarfélögum. Höfðahreppur sótti um völl og fékk úthlutun. Vellir þessir eru ca. 18x33 m. af stærð, þeir eru upplýstir og með gervigrasi eins og áður segir. Verkefni þetta er samstarfsverkefni KSÍ, Knattspyrnusambands Evrópu, stjórnvalda og síðan sveitarfélaganna. Sambærilegur sparkvöllur kom á Sauðárkrókur fyrir nokkru og hefur notið mikilla vinsælda. Hreppsnefnd Höfðahrepps mun á næstunni ræða við forráðamenn KSÍ um málið í framhaldi af því verða frekari ákvarðanir teknar. Verði af þessari framkvæmd er ljóst að hún mun kosta sveitarfélagið fjármuni en ekki liggur fyrir á þessu stigi hvaða upphæðir er um að ræða.

Styrkir til leikskóla- og grunnskólakennaranáms!

Á fundi Hreppsnefndar Höfðahrepps, 17. maí sl., var samþykkt að veita 2 námsstyrki, að upphæð 250 þúsund kr. hvorn á ári, til einstaklinga sem hyggjast stunda kennara- eða leikskólakennaranám. Styrkirnir eru veittir með því skilyrði að viðkomandi einstaklingur starfi, að loknu námi, jafn mörg ár við grunnskólann eða leikskólann á Skagaströnd og styrktíma nemur. Hér með er auglýst eftir umsóknum um þessa styrki. Umsóknarfrestur er til 10. júní nk. Umsóknum skal skilað á skrifstofu Höfðahrepps. Allar nánari upplýsingar veita Birna Sveinsdóttir, Ingibergur Guðmundsson og Magnús B. Jónsson.

10. bekkur - Að loknum samræmdum prófum

Að loknum samræmdum prófum 10. bekkinga, nánar tiltekið síðastliðinn þriðjudag var haldið af stað í skólaferðlag. Birkir Sigurhjartarson umsjónarkennari og foreldrarnir; Guðjón Guðjónsson og Helga Bergsdóttir voru með í för. Farið var yfir Þverárfjall með rútu, en fyrsti áningarstaður var Fjölbrautaskóli Norðurlands- vestra á Sauðárkróki. Skoðaðar voru verk- og bóknámsdeildir og heimavist, undir leiðsögn heimamanna en heimsókninni lauk með veitingum í mötuneyti skólans. Áfram var haldið til Akureyrar, en þar skelltu allir sér á skauta. Kvöldmaturinn, flatbaka mikil, var tekinn nánast á svellinu, en skautað var stíft í tvo tíma. Þá lá fyrir að finna náttstað, en hafði sá verið pantaður með fyrirvara. Um kvöldið var farið í bíó en að því loknu var sest við spjall og spil. Flestir voru sofnaðir um þrjúleitið en einhverjir höfðu með sér vökustaura og sváfu lítið fyrir vikið. Allir voru samt vaknaðir upp úr níu og flestir stungu sér í sundlaug þeirra Akureyringa sem mun vera ögn lengri en flestir Skagstrendingar eiga að venjast. En ekki dugar að næra andann, maginn vill fá sitt og var því sest við hamborgaraát á Glerártorgi. Nú, þá var komið að Verkmenntaskólanum, þar var arkað um langa ganga og verknámsdeildir skoðaðar. Vélfræði, rafiðn, listabrautir margskonar, kokka- og sjúkraliðarbrautir svo nokkuð sé nefnt. Þar sem margir voru farnir að verða þreytulegir eftir andvökunótt var ákveðið að labba út í Menntaskóla til að safna orku fyrir næsta þátt. Þegar þangað kom hittum við þar fyrir Húnavallaskóla nemendur í sömu erindagjörðum. Þar voru aftur gengnir gangar, arkað út og suður um gömul hús og ný. Mestur áhugi virtist þó vera á Fjósinu en svo er leikfimisalur þeirra Menntskælinga kallaður enda upprunalega smíðað sem fjós. Í einni skólastofunni í Gamla skólanum var öllum boðið upp á veitingar sem féllu í góðan jarðveg. Að lokum var hlaupið upp á nýju nemendagarðana í heimsókn til Skagstrendinganna sem þar hafa búið í vetur. Eftir Brynjuís var haldið af stað heim og rennt var upp að Höfðaskóla um kvöldmatarleytið á miðvikudegi. Þetta var fínt ferðalag, þar sem allir stóðu við sitt enda fengu krakkarni hrós frá bílstjóranum fyrir prúðmennsku. Helga Bergsdóttir

Hreppsnefnd vill sædýrasafn

Á fundi hreppnefndar Höfðahrepps sem haldinn var 17. maí 2004 var samþykkt að óska eftir viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um samstarf við ríkisvaldið um uppbyggingu og rekstur sædýrasafns á Skagaströnd. Sjá fundargerð hreppsnefndar dags. 17.maí 2004

Frá tónlistarskólanum

Tónlistarskóli A-Hún, Skagastrandardeild, hélt árlega vortónleika sína í Hólaneskirkju miðvikudaginn 5. maí sl, þar sem fram komu allflestir af þeim 33 nemendum sem stundað hafa nám við skólann í vetur.

Frá leikskólanum Barnabóli

Síðasta vetradag bar vel í veiði hjá börnunum á Barnabóli. Ísak Karl 6 ára og pabbi hans, hann Tryggvi komu með nokkuð af veiðinni á Arnari HU-1 í leikskólann til að sýna börnunum. Fiskarnir voru af mörgum stærðum og gerðum. Þorskur, skata, skötuselur, gulllax, háfur og pétursskip komu upp úr pokanum ásamt fleiri furðudýrum. Vinsælastur var háfurinn, hann var svo stór og skrýtinn, en skötuselurinn var samt ljóstastur. Eins og myndirnar bera með sér var þetta vinsæll viðurburður og þökkum við Ísaki Karli og pabba hans kærlega fyrir hugulsemina. Helga Bergsdóttir leikskólastjóri

Sumardagurinn fyrsti og vorverkin

Sumardagurinn fyrsti er á morgun. Víða sjást þess merki að gróður og umhverfið er að taka stakkaskiptum. Námskeið í trjáklippingum og umhirðu garða hófst í gær að frumkvæði Skagastrendings. Hópur áhugasamra garðeigenda mætti til að sækja sér fróðleik og þekkingu í ræktun og umhirðu garða og gróðurs undir leiðsögn umhverfisstjóra. Bæði var farið yfir grunnatriðin og einnig heimsóttir nokkrir garðar þar sem gróður var skoðaður og snyrtur. Tími vorverka og hækkandi sól eru merki sumarsins sem kemur óðfluga þessa daganna. Höfðahreppur óskar öllum gleðilegs sumars.

Mætt aftur til starfa!

Kæru Skagstrendingar. Ég er mætt aftur til starfa eftir veikindafrí og hvet ykkur til að nýta ykkur þjónustu Námsstofunnar, nú sem fyrr. Um leið vek ég athygli á nýjum viðverutíma mínum á Námsstofunni og vona að þessi breyting sé til hagsbóta fyrir alla þá fjölmörgu sem nýta sér þjónustuna. Kveðjur, Fríða. Nýr viðverutími kennara á Námsstofu: mánudaga kl. 19:30 - 20:30 þriðjudaga kl. 15:00 - 17:00 fimmtudaga kl. 09:00 - 12:00 og 13:00 - 16:00

Páskamót í fótbolta

Hið árlega páskamót í innanhússbolta fór fram í íþróttahúsinu laugardaginn 10. apríl. Mótið var tvískipt annars vegar yngri flokkur (4.-8. bekkur) og hins vegar fullorðinslið. Í yngri flokki kepptu þrjú lið og í eldri flokki voru alls átta lið. Heildarfjöldi keppenda var um 70 og fjöldi áhorfenda var 50-70 manns.

Myndlistarsýning á Dvalarheimilinu Sæborg

Myndlistarsýning nemenda í Leikskólanum Barnabóli sem staðið hefur yfir í Landsbanka Íslands síðan 13. apríl var sett upp á Dvalarheimiliinu Sæborg á Skagaströnd rétt fyrir páskana, en Pétur Eggertsson forstöðumaður Sæborgar hafði óskað eftir að fá sýninguna næst. Leikskólabörnin sáu sjálf um að flytja listaverkin og hengja upp á veggi í matssalnum hjá vistmönnum Sæborgar. Það stefnir greinilega í að þetta verði að farandsýningu, svo allir bíða spenntir eftir því hvert hún fer næst! Listamennirnir eru að vonum ánægðir með þessar góðu móttökur og vona að verk þeirra gleði augu Sæborgarbúa. Helga Bergsdóttir leikskólastjóri