29.09.2003
Davíð Örn Halldórsson hélt einkasýningu á málverkum sínum
á Skagaströnd í ágústmánuði. Sýningin opnaði um
verslunarmannahelgi og var opin meira og minna allan
ágústmánuð. Davíð útskrifaðist úr Listaháskólanum vorið
2002 og vakti lokaverkefni hans þar talsverða athygli þar sem
hann málaði myndir á fermingarkommóður. Davíð segist
mikið mála á húsgögn en þó aðallega á allskonar tréplötur.
Honum finnst hins vegar sérstaklega áhugavert að mála á
hluti sem aðrir eru hættir að nota og hann ýmist finnur eða
fær gefins. Sama gildir að hluta til um málninguna sem hann
notar. Iðnaðarmálning sem liggur í afgöngum er honum
fyrirtaks úrvinnsluefni og hann leggur sérstaklega upp úr því
að endurnýta eða fullnýta efni. Honum finnst ekki ástæða til
að bæta endalaust á ruslahauga heimsins heldur þurfi að
nýta efnin og gera þau að listmunum eða nytjahlutum. Davíð
fluttist til Skagastrandar haustið 2002 með kærustunni Tinnu
Guðmundsdóttur sem gerðist kennari á staðnum. Hann fékk
aðstöðu í gömlu “Sigga-búðinni” Borg gegn því að hann
hreinsaði til í húsinu. Þegar hann opnaði sýninguna fannst
honum tilvalið að nota hugtakið Gallerí Borg um
sýningarstaðinn. Í sýningarskrá segir Pétur Már
Gunnarsson í umsögn sinni: “Fyrstu myndir Davíðs sem tala
má um sem fullunnin verk, u.þ.b. 15 ára gömul, eru alveg eins
og nýju verkin hans og öll þar á milli. Frá fyrsta striki til þess
síðasta hefur hann teiknað upp hluti í absúrd samhengi og
unnið þar til þessir hlutir og fletir smella saman í heila mynd.
Eins og sjá má á þessari sýningu. Davíð er heill í list sinni og
lætur ekki vitsmunadaðrið í abstraktinu villa sér sýn eða hið
fígúratíva hlutbinda sig á klafa, heldur vinnur hann jafnt með
þessa tvo póla. Yfirleitt innan sömu myndar og gerir þeim slík
skil með hliðsjón af listasögunni að til dæmis Philip Guston
virðist ekki alveg haf vitað hvað hann var að gera.”
Í haust heldur Davíð til Noregs því hann hefur fengið styrk til
að vinna þar á tréverkstæði. Hann hefur þó ekki alveg sagt
skilið við Skagaströnd því kærastan er enn að vinna þar sem
kennari. Davíð segist vera ánægður með sýninguna og hann
hafi selt nokkrar myndir.
16.09.2003
Bubbi Mortens hóf tónleikaferð sína, undir nafninu 1000
kossa nótt, í Fellsborg á Skagaströnd mánudaginn 15.
september. Tónleikarnir voru ósviknir Bubba tónleikar. Hann
mætti til leiks í góðu formi afslappaður en kraftmikill. Lögin
sem hann kynnti af nýja diskinum "1000 kossa nótt" voru
áhugaverð, kannski ekki bylting en góðir fulltrúar í lagasafni
meistarans. Á tónleikunum tók hann auðvitað nokkur af
gömlu góðu lögunum og skilaði þeim af sama krafti og áður.
Stál og hnífur var enn merki hans þótt margt væri mýkra í
bland. Á milli laga ræddi hann um lífið og tilveruna, flutti
hvatningu um heilbrigt líferni, talaði um hvað við eigum frábært
land og benti á nokkra veikleika í sínu eigin fari sem
áheyrendur könnuðust greinilega við í eigin ranni. Tónleikarnir
voru sem sagt mjög vel heppnaðir og sýndu að Bubbi er
hvergi að gefa eftir sem tónlistarmaður nema síður sé.
Áhorfendur fögnuðu honum ákaft í lok tónleikanna og
tvíklöppuðu hann á svið. Sem sagt góðir tónleikar hjá Bubba.
08.09.2003
Laugardagninn 6. september sl. var Námsstofan á
Skagaströnd opnuð formlega. Námsstofan er til húsa að
Mánabraut 3 og hefur verið sett upp aðstaða þar fyrir fólk til
að stunda fjarnám. Í Námsstofunni er boðið upp á aðgang að
öflugum tölvum með góðri nettengingu en einnig aðstöðu til
að lestrar. Við opnun Námsstofunnar komu margir til að
skoða aðstöðuna og 11 manns skráðu sig til afnota af
stofunni. Adolf H. Berndsen, oddviti afhenti Hjálfríði
Guðjónsdóttur stofuna formlega, en hún hefur verið ráðin til að
annast leiðsögn og stuðning við þá sem þar stunda nám.
03.09.2003
Haustþing leik og grunnskóla á Norðurlandi-vestra var haldið á
Blönduósi, föstudaginn 22. ágúst síðastliðinn. Þetta er í fyrsta
sinn sem haldið er sameiginlegt haustþing leikskóla og
grunnskóla á Norðurlandi vestra. Í kring um 250 manns sóttu
þingið.
Finnbogi Sigurðsson formaður Félags grunnskólakennara og
Björg Bjarnadóttir formaður Félags leikskólakennara fluttu
ávörp. Lýstu þau ánægju sinni með sameiginlegt haustþing
grunn- og leikskólanna á Norðurlandi vestra
Leikskólastarfsfólkið hlýddi síðan á fyrirlestra hjá Guðjóni
Ólafssyni sérkennslufræðingi og skólamálstóra í Austur-
Húnavatnssýslu um hegðun og aga og hjá Antoni Bjarnasyni
kennara um gildi hreyfingar
Fimm námskeið voru í boði sem starfsfólk leikskóla gat valið
um;
Hagnýtt námskeið um aðalþætti í tónlistaruppeldi ungra
barna, kennari Robert Faukhner
Listsmiðja þar sem unnið var í anda Reggio Emilia
hugmyndafræðinnar, en hún byggir á mikilvægi þess að virkja
skynfæri barnanna og okkar sjálfra í gegnum leik og skapandi
starf., Arna Guðný Valsdóttir fyrrverandi kennari í leikrænni
tjáningu við Háskólann á Akureyri.
Borghildur Blöndal kennari fjallaði um mataræði barna.
Anna Gilsdóttir hjúkrunarfræðingur, stiklaði á stóru um
grunnþætti í yoga fyrir börn á leikskólaaldri,
Myndlist hjá Ólínu Geirsdóttur, litaæfing þar sem unnið var
með blöndun lita þar sem ímyndunaraflið og hugmyndaflugið
fékk að njóta sín.
Aðrir fyrirlestrar voru í boði fyrir grunnskólakennarana;
stærðfræði, lestrarkennsla í 1.-4. bekk, heimspeki fyrir börn,
náttúrufræði, og margt fleira.
Rauði Kross Íslands, Námsgagnastofnun og fleiri voru í
anddyri Félagsheimilisins með kynningu á efni og vörum sem
tengjast skólastarfinu.
Fram kom eftir þingið að margir hefðu viljað sjá lengri
sameiginlega dagskrá en vonandi er þetta bara byrjunin á
farsælu starfi sem eflir þekkingu og styrkir samstafið á milli
þessara nátengdu skólastiga.
Þinginu lauk svo með hátíðarkvöldverði, skemmtidagskrá og
dansleik í Félagsheimilinu á Blönduósi.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
02.09.2003
“Mennt er máttur”
Námsstofa Skagastrandar er metnaðarfullt verkefni sem
sveitarstjórn Höfðahrepps hefur ákveðið að hrinda í
framkvæmd. Námsstofan verður til húsa að Mánabraut 3 á
Skagaströnd. Þessa dagana er unnið hörðum höndum að
undirbúningi og ætlunin er að opna Námsstofuna formlega
þann 6. september næstkomandi kl. 14:00.
Allir bæjarbúar og þeir sem hafa áhuga á skólamálum eru
hjartanlega velkomir.
Markmiðin með starfsemi Námsstofu eru að hvetja og
auðvelda bæjarbúum að afla sér aukinnar menntunar, hvort
sem um er að ræða starfsmenntun eða einstök námskeið.
Þessu markmiði hyggjumst við ná með því m.a. að veita
einstaklingum námsaðstöðu og námsaðstoð auk þess að
kynna þá námsmöguleika sem í boði eru.
Það er von okkar að Námsstofan verði miðstöð fjar- og
endurmenntunar á svæðinu.
Námstofan er ekki skóli. Heldur miðstöð allra þeirra sem
stunda fjarnám, sama við hvaða skóla. Staður til að læra, fá
aðstoð og upplýsingar og síðast en ekki síst staður til að hitta
aðra sem eru í fjarnámi. Námsstofan er því opin öllum sem
eru í fjarnámi og þeim sem vilja kynna sér nám og
námsmöguleika.
Á Námsstofu verður öll aðstaða til fjarnáms:
• Nettengdar tölvur
• Góð vinnuaðstaða
• Upplýsingar um nám og námskeið
• Kennari til aðstoðar við námið.
Þeir sem hyggjast nýta sér vinnuaðstöðu og búnað
Námsstofu fá lykil sem veitir þeim aðgang að húsnæðinu
hvenær sem þeim hentar.
Kennari verður á staðnum á eftirfarandi tímum:
Á þriðjudögum kl. 20:00 – 22:00
Á miðvikudögum kl. 17:00 – 19:00
Á fimmtudögum kl. 10:00- 12:00 og 14:00 – 17:00
Allar nánari upplýsingar fást hjá umsjónarmanni Námsstofu,
Hjálmfríði Guðjónsdóttur í símum 4522747/8916170 eða með
því að senda tölvupóst á netfangið:
--- namsstofa@skagastrond.is ----
Fyrir hönd Námsstofu Skagastrandar
Hjálmfríður Guðjónsdóttir
28.08.2003
Í næstu viku hefst nýtt þriggja mánaða námskeið á vegum
Líkama og Sálar. Kynningarfundur vegna námskeiðsins var
haldinn í Kántrýbæ miðvikudagskvöldið 27. ágúst og að venju
fjölmenntu konur á Skagaströnd á fundinn. Nú þegar eru á
milli 30 – 40 konur búnar að skrá sig.
Þetta er fjórða námskeiðið sem Líkami og Sál stendur fyrir.
Eins og áður verður lögð áhersla á efla líkamlega og andlega
líðan kvenna. Eða eins og segir í kynningarbréfi
námskeiðsins “við ætlum að hittast, hreyfa okkur, hlæja
saman og keppast við að halda okkur í góðu formi, líkamlega
og andlega”
Meðal þess sem boðið er upp á að þessu sinni er: leikfimi
þrisvar í viku, námskeið í magadansi, jólagleði og margt fleira
skemmtilegt. Sjúkraþjálfari mælir styrk og metur líkamlegt
ástand allra þátttakenda og gefur góð ráð í byrjun námskeiðs,
um miðbik þess og við lok.
Þeir sem ekki komu á fundinn en langar að vera með þá er
enn hægt að skrá sig. Bara að taka upp tólið og hafa
samband við Bryndísi í síma: 8997919, Fríðu í síma: 8916070
eða Sólrúnu í síma:8629207 fyrir mánudaginn 1. september
næstkomandi.
13.08.2003
Brúðubíllinn var á ferðinni á Skagaströnd í gær og kom sér
fyrir á Hnappstaðatúni eftir hádegið í blíðskaparveðri. Margir
sóttu sýninguna sem var í boði Höfðahrepps. Eins og sjá má
á meðfylgjandi myndum skín áhugi og einbeiting úr hverju
andliti og vissara að vera við öllu búin þegar Blárefurinn
ógnvænlegi fer á kreik.
05.08.2003
Kántrýtónleikarnir á laugardagskvöldið tókust einstaklega vel.
Þeir hófust með því að hljómsveitin The Hefners sté á svið og
lék létta diskósmelli. Hljómsveitarmeðlimir voru uppábúnir í
stíl fyrri tíma, með hárkollur og lituð andlit. Þeir voru hressir
og skemmtilegir og tónlist þeirra lífleg.
Næstir á svið voru KK og Magnús Eiríks sem léku m.a. lög af
metsöludiski sínum 22 ferðalög. Áhorfendur sem voru á bilinu
1000-1500 kunnu vel að meta skemmtilegan flutning þeirra
félaga og tóku undir sönginn, fullum hálsi.
Hljómsveitin BSG sem skipuð er þeim Björgvin Halldórssyni,
Sigríði Beinteinsdóttur, Grétari Örvarssyni og Kristjáni
Grétarssyni tók næstu syrpu þar voru á ferð atvinnumenn sem
kunnu sitt fag og enn magnaðist frábær stemming við
kraftmikinn tónlistarflutning þeirra.
Næstur á pall var kántrýkóngurinn sjálfur Hallbjörn Hjartarson.
Hann brást ekki aðdáendum sínum fremur enn fyrri daginn og
renndi sér í gegnum sína þekktu kántrýslagara við undirleik
BSG manna.
Hljómsveitin Brimkló tók svo lokahnykk á tónleikana og óhætt
að segja að það hafi verið hnykkur sem um munaði.
Tónlist þeirra félaga var hreint út sagt frábær.
Hafi einhver komið með hálfum hug yfir því að þarna yrðu
einungis fluttar útjaskaðar dægurflugur af hálfryðguðum
poppurum, þá fékk sá hinn sami heldur betur aðra afgreiðslu.
Gömlu góðu dægurflugurnar voru keyrða út af rafmögnuðum
krafti og greinilegt að þeir sem að því stóðu voru hvergi
ryðgaðir í fræðunum. Hljómsveitin sem núna er skipuð þeim
Björgvin Halldórssyni, Arnari Sigurbjörnssyni, Haraldi
Þorsteinssyni, Guðmundi Benediktssyni, Magnúsi
Einarssyni, Þóri Baldurssyni og Ragnari Sigurjónssyni var
gífurlega þétt og skemmtileg. Áhorfendur skemmtu sér hið
besta og bæði sungu og tóku línudansaspor á túninu fyrir
framan sviðið.
Þótt margir ágætir listamenn hafi komið fram á
kántrýhátiðum á Skagaströnd undanfarin ár er ekki á neinn
hallað þótt fullyrt sé að þessir tónleikar hafi í heild verið besta
dagskráratriði sem setti hafi verið á svið á þeim hátíðunum.
Á sunnudeginum var hin hefðbundna gospelmessa. Séra
Magnús Magnússon messaði og kór Hólaneskirkju söng
gospellög undir stjórn og undirleik Óskars Einarssonar.
Einsögnvarar í messunni voru: Björgvin Halldórsson, Sigríður
Beinteinsdóttir, Fannar Viggósson og Hugrún Sif
Hallgrímsdóttir. Messan var að vanda létt og skemmtileg og
tónlistarflutnigur allur eins og best verður á kosið.
01.08.2003
Uppsetning tækja og búnaðar vegna Kántrýtónleika er á
lokastigi. Leiktæki frá Hopp og skopp verða sett upp á
svæðinu og nokkur söluborð. Helsta nýmæli í búnaði fyrir
helgina er myndaspjald sem Kjartan Keen hefur málað. Þar
er um að ræða stóra málaða mynd af kúreka á hesti. Myndin
hefur þann ágæta eiginleika að hægt er að stinga andlitinu út
í gegnum gat á myndinni og ljá kúrekanum sitt eigið andlit.
25.07.2003
Góður afli hefur verið hjá krókabátum gerðir eru út frá
Skagaströnd að undanförnu. Gæftir hafa verið góðar og
aflabrögð með ágætum. Vikuna 18.-25. júli var landað 235
tonnum úr 51 bát. Þeim bátum sem stunda veiðarnar frá
Skagaströnd hefur farið fjölgandi og föstudaginn 25. júlí
töldust þeir vera 58 en þá var bræla og allir bátar í höfn.