Fréttir

Togarinn Arnar HU 1 - metveiði í Barentshafi

Togarinn Arnar HU 1 er á leið til heimahafnar úr Barentshafi með góðan afla. Veiðarnar gengu með afbrigðum vel og afli var reyndar svo góður að það var eingöngu hraði á vinnslunni sem stýrði því hve mikill afli var tekinn á hverjum sólarhring. Upphaflega var áætlað að togarinn kæmi til heimahafnar í ágústmánuði og túrinn gæti tekið um 40 daga. Þessi góðu aflabrögð hafa hins vegar leitt til þess að Arnar HU verður einungis 22 daga í túrnum þrátt fyrir rúmlega fjögurra daga siglingu hvora leið á miðin. Það tók því ekki nema um 13 sólarhringa að veiða 720 tonna kvóta sem skipið hafði í Barentshafi. Veiðin var því um 33 tonn á úthaldsdag en var í raun rúmlega 55 tonn á þá daga sem skipið var að veiðum. Aflaverðmæti skipsins er áætlað um 117 milljónir króna.

Borgarafundur 16. júní 03

Mánudaginn 16. júní 2003 var haldinn borgarfundur í félagsheimilinu Fellsborg. Á fundinn mætti hreppsnefnd Höfðahrepps auk uþb. 60 íbúa á Skagaströnd. Á fundinum voru kynntar helstu niðurstöður í fjárhagsáætlun 2003 og ársreikning 2002. Á fundinum voru rædd ýmis hagsmuna- og áhugamál íbúa og sveitarfélags. Fundurinn var líflegur og umræðan málefnaleg þótt mörg mál væru til umræðu.

Kántrýtónleikar

Undirbúningur kántrýtónleika um verslunarmannahelgina ganga vel. Útipallur fyrir tónleikana og messuna var að taka á sig mynd í góðviðrinu á miðvikudag. Annar undirbúningur gengur einnig eftir áætlun og starfsmenn sveitarfélagsins leggja áherslu á að snyrta og lagfæra opin svæði og hafa allt í góðu lagi fyrir væntanlega gesti.

Mikil umsvif á Skagastrandarhöfn

Undanfarnar vikur hefur verið mikil umferð um Skagastrandarhöfn. Aflabrögð hjá handfæra og línubátum hafa verið ágæt og 30-40 bátar sem stunda veiðarnar. Togararnir Arnar og Örvar lönduðu góðum afla um síðustu mánaðarmót og rækjuflutningaskipin Ludvik Andersen og Green Arctic hafa flutt farma af rækju til vinnslunnar. Brotajárnsflutningaskipið Anja Funk kom til að flytja járn til endurvinnslu fyrir Hringrás hf.

Unglistasýning á Skagaströnd

Nokkur ungmenni sem hafa í vor og sumar unnið í myndlistaklúbbi á vegum félagsmiðstöðvarinnar á Skagaströnd opnuðu sýningu á verkum sínum sunnudaginn 20. júlí sl. í gamla Kaupfélagshúsinu. Alls sýna 12 ungmenni verk sín á og kalla sýninguna "KISA KISA, mjá, mjá - ÓJÁ". Verkin á sýningunni eru unnin með mismunandi tækni og myndefnið fjölbreytt. Leiðbeinandi og helsti hvatamaður að sýningunni er Davíð Örn Halldórsson sem hefur haft umsjón með unglingastarfi sl. vetur. Sýningin verður opin mánudaginn 21. júlí og þriðjudaginn 22. júlí kl. 19,00 - 22,00

Frá leikskólanum Barnabóli – Gróðursetning

Daginn fyrir sumarsólstöður, fóru börnin á Barnabóli ásamt starfsfólki og nokkrum foreldrum upp í Hrafndal og gróðursettu birkiplöntur. Leikskólabörnin hafa helgað sér stað í dalnum, í hlíðinni þar sem stiginn er yfir girðinguna og nefnt hann Barnasel. Þar eru settar niður plöntur á hverju ári því afföll eru alltaf nokkur svo lengi er hægt að bæta við. Í haust fara leikskólabörnin aftur upp í Barnasel en þá verða týnd þar ber.

Skagstrendingar eignast kirkjutorg

Framkvæmdum á kirkjutorginu við Hólaneskirkju er lokið og hefur svæðið tekið á sig annan blæ. Þykir hafa tekist vel til með skipulag og framkvæmdina sem ber handverki starfsmanna gott vitni. Svæðið var teiknað af Hornsteinum arkitektar ehf. Verkefnastjórn þess var í höndum umhverfisstjóra Höfðahrepps. Að verkefninu komu starfsmenn Höfðahrepps, starfsmenn Trésmiðju Helga Gunnarsonar ehf., Vélaleigu Guðmundar Björnssonar, starfsmenn Sorphreinsunar Vilhelms Harðarssonar ehf., Sigurbjörn Björgvinsson bifreiðarstjóri og starfsmenn Rarik.

Opnunartímar

Íþróttahúsið á Skagaströnd verður opið sem hér segir í sumar: Kl 17:00 - 20:00 alla virka daga. Sundlaugin er opin virka daga 09:00 - 12:00 og 13:00 - 22:00 um helgar 13:00 - 17:00. Þó er lokað mánudaga og fimmtudaga kl. 11:00 - 12:00 vegna sundæfinga UMF Fram

Arnar HU 1 í höfn

Togarinn Arnar kom til heimahafnar á Skagaströnd sunnudaginn 29. júní sl. Afli skipsins var er átætlaður 557 tonn sem er rúmlega 1000 tonn úr sjó. Aflinn er að mestu úthafskarfi en einnig er grálúða lítill hluti aflans. Skipið var um 24 daga að veiðum og meðalafli á dag var því tæp 42 tonn. Aflaverðmæti er áætlað um 70 milljónir.

Leikskólinn Barnaból – Opið hús

Þann 24. maí síðastliðinn var Opið hús með vorsýningu á leikskólanum Barnabóli. Um eitt hundrað manns komu í heimsókn á leikskólann þennan dag og skoðuðu listaverk barnanna frá því í vetur. Ljósmyndir af börnunum við leik og störf, rúlluðu yfir tölvuskem og sumir foreldranna rifjuðu upp löngu gleymda hæfileika með pensilinn að vopni. Veðurguðirnir léku við okkur og því var upplagt að færa trönurnar út á leikskólalóðina til að fá sem bestan innblástur úr umhverfinu við myndsköpunina. Foreldrafélag leikskólans seldi gestunum kaffi og kökur.