Fréttir

Jólatré - jólatré

Kveikt verður á jólatrénu á Hnappstaðatúni fimmtudaginn 4. desember kl 17.30. Samkomulag hefur tekist við jólasveinafélagið um að jólasveinar mæti samkvæmt venju þótt opinber starfstími þeirra hefjist ekki fyrr en eftir nokkra daga. Börn eru hvött til að koma með foreldra sína og rifja upp jólalögin. Sveitarstjóri.

Nokkur ráð fyrir ritgerðasmíð!

Það vill oft vefjast fyrir fólki að setjast niður og skrifa ritgerð, nokkuð sem er stór hluti af öllu námi. Mörgum finnst þetta jafnvel óyfirstíganleg hindrun, ekki síst eftir langt hlé frá námi. Í þessu eins og öðru er ekki til nein töfralausn en það hjálpar að hafa í huga að nauðsynlegt er að vinna ritgerðir í þrepum. Þessi þrep eru að: - Ákveða efnið (oftast í samráði við kennara). - Ræða um efnið við alla sem nenna að hlusta og gefa góð ráð. - Skrifa niður lykilorð fyrir hvern kafla ritgerðarinnar. - Gera uppkast. - Lesa yfir uppkastið og bera það undir einhvern sem er tilbúinn að veita uppbyggilega gagnrýni. - Skrifa textann í ritvinnslu/word - Endurskoða inngangs-og lokaorð. - Lesa vel yfir textann og nota stafsetningarleiðréttingarforrit, ef það er í tölvunni eða fá einhvern til að lesa ritgerðina yfir. - Muna eftir forsíðu og setja efnið í snyrtilega möppu. Gangi ykkur vel.

Skráning á vormisseri.....

Fjarnámsnemar athugið.................. Innritun á vorönn 2004 í Fjölbrautaskólann við Ármúla verður í byrjun janúar 2004. Nánar auglýst síðar á heimasíðu skólans www.fa.is Innritun á vorönn 2004 í Verkmenntaskólann á Akureyri verður dagana 5.-8. janúar 2004 www.vma.is Innritun á vorönn 2004, við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, stendur yfir þessa dagana og lýkur 10. desember nk. www.fnv.is Innritun á vorönn 2004 í Iðnskólann í Reykjavík hefst 1. desember nk. Sendið tölvupóst á netfangið fjarnam@ir.is eða hafið samband við Iðnskólann í síma: 5226500 www.ir.is Einnig er hægt að fá upplýsingar og aðstoð við umsóknir á Námsstofu Skagastrandar í síma:4522747 eða með því að senda tölvupóst á netfangið namsstofa@skagastrond.is Umsjónarmaður Námsstofu Hjálmfríður Guðjónsdóttir

Næsti fundur hreppsnefndar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps þriðjudaginn 25. nóvember 2003 á skrifstofu hreppsins kl 1600. Dagskrá: 1. Byggðakvóti, Erindi sjávarútvegsráðuneytis vegna reglna um úthlutun. 2. Héraðsnefnd A-Hún, fjárhagsáætlun. 3. Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi. 4. Bréf: a) Aðstandenda heimilismanna á Sæborgu, dags. 17.11.2003 b) Nemendafélags FNV, dags. í nóv. 2003. c) Norðurstrandar ehf. dags. 10. 11.2003. d) Samgönguráðherra, dags. 6.11.2003. e) Verkefnisstjórnar átaks í sameiningarmálum sveitarfélaga, dags. 28.11.2003. f) Ferðamálaráðs Íslands, dags. í nóv. 2003. 5. Fundargerðir: a) Skólanefndar, 19.11.2003. b) Byggingarnefndar, 12.11.2003. c) Héraðsráðs, 21.10.2003. d) Héraðsráðs, 18.11.2003. e) Verkfundar um svæðisskipulag, 29.10.2003. f) Heilbrigðisnefndar Nl.vestra 31.10.2003. 6. Önnur mál. Sveitarstjóri

Líkami og sál, jólagleði

Nú líður að lokum fjórða námskeiðsins í kvennaátakinu Líkama og sál. Auk hefðbundinna tíma í þolfimi og tækjasal var boðið upp á magadansnámskeið og skemmtikvöld í Kántrýbæ. Í lok námskeiðsins var efnt til jólagleði í Félagsheimilinu Fellsborg laugardaginn 22. desember s.l. Konurnar sáu sjálfar um skemmtiatriði, skreytingar og hluta af eldamennskunni. Þetta kvöld var ákveðið að leggja íþróttaskóna og lóðin á hilluna sem voru þó ekki langt undan því íþróttadótið var uppistaðan í borðskreytingum kvöldsins. Skemmtinefndin stóð fyrir sínu og konurnar brugðu sér m.a. í hlutverk jólasveinsins og hinnar óviðjafnanlegu Leoncie (Icyspicy), við frábærar undirtektir. Einkaþjálfari hópsins Angela Berthold greindi frá stærðabreytingum á hópnum á námskeiðstímanum og kom m.a. fram að konurnar höfðu samtals grennst um 56 cm um mjaðmir. Jólakveðja frá konunum í Líkama og sál

Prófin nálgast.................

Nú nálgast prófin og í mörgum skólum er fjarnemum boðið upp á þann möguleika að taka prófin í heimabyggð. Þeir sem vilja geta sótt um það til síns skóla, að taka prófin á Námsstofu, sem annast þá framkvæmd prófanna. Á það skal þó bent að það er alltaf ákvörðun viðkomandi skóla, hvar próf eru haldin.

Lögregluheimsókn á Barnabóli

Það var löggumaður og löggukona sem komu, sagði einn. Já, þau komu á löggubílnum, sagði annar. Og löggukonan sagði börnunum söguna af honum bangsa sem tók af sér beltið meðan bíllinn var á ferð og flaug á sætið og meiddi sig þegar kisan hljóp yfir veginn. Já, af því hann þurfti að bremsa svo fast svo hann keyrði ekki á hana. Ég nota alltaf hjálm þegar ég hjóla, en hann pabbi minn gerir það ekki,heyrðist út í horni. Já og ég hjóla alltaf á gangstéttinni. Ég get hjólað með engin hjálpardekk. Löggan gaf okkur svona endurskinsmerki, já en það var frá bankanum. Ég á svona merki heima á úlpunni minni. Maður getur notað tvö. Það má fara út á peysunni til að skoða löggubílinn. Ein stelpan var á inniskónum, en það er svo hlýtt, bergmálar einn. Ég fékk að ýta á takkann, það kom hávaði. Einhver var hræddur við hávaðann, ein hélt fyrir eyrun. Maður hringir bara í 112 þegar slysið kemur. Og umræðurnar héldu áfram ...

Nýr hraðfiskibátur sjósettur

Fimmtudaginn 30. nóvember sl. var Alda HU 12 sjósett í Hafnarfirði. Alda er 15 tonna plastbátur smíðaður hjá Bátagerðinni Samtak í Hafnarfiriði. Alda HU 12 kom til heimahafnar á Skagaströnd sunnudaginn 9. nóvember. Í bátnum er vél af gerðinni Catepillar 3196 sem er 660 hestöfl. Hann er einnig útbúinn með bógskrúfu sem er 8 hö. Mjög fullkominn búnaður er í bátnum og má segja að nýjustu siglinga- og fiskileitartæki séu til staðar. Auk þessa eru stafrænar myndavélar sitt hvoru megin við vélinu og þannig er hægt að vakta hana á tölvuskjá. Um borð í bátnum er 120 lítra vatnstankur og bæði heitt og kalt vatn. Í lest Öldunnar komast 11 stk. 660 lítra fiskikör og eitt 380 lítra. Aldan er útbúin til línuveiða og er með línuspil frá Beiti. Í stefni er góð aðstaða fyrir áhöfn og salerni er í vélarreisn. Aldan HU 12 er í eigu þeirra Víkurbræðra Sigurjóns og Árna Guðbjartssona en þeir gera einnig út hraðfiskibátinn Bjart í Vík.

Ólafur Magnússon HU 54 dregin til hafnar.

Það óhapp vildi til þegar skipverjar á Ólafi Magnússyni HU 54 voru á veiðum í morgun að þeir misstu netatrossu, sem þeir voru nýbúnir að draga, fyrir borð. Á sama tíma bakkaði skipið og netin flæktust í skrúfunni. Skipverjar á Grímsey ST 2 frá Drangsnesi komu til hjálpar og drógu Ólaf að bryggju á Skagaströnd og komu þeir til hafnar um hádegisbilið. Blíðskaparveður er á miðunum og lítil hætta á ferðum.

Togarinn Örvar HU 2

Togarinn Örvar HU 2 kom til hafnar miðvikudaginn 6. nóvember sl. Afli togarans var rúm 200 tonn af unnum afurðum aðallega grálúðu sem veiddist einkum fyrir vestan land.