Fréttir

Starfsfólk í sumarafleysingu

Starfsfólk í sumarafleysingu Við leitum eftir sumarafleysingafólki í liðsheild okkar hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd. Í boði eru fjölbreytt verkefni með jákvæðum og uppbyggilegum samstarfshópi. Hvetjum alla sem hafa áhuga að sækja um – öllum umsóknum verður svarað Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi stofnunarinnar á heimasíðu hennar www.vinnumalastofnun.is. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist til Jensínu Lýðsdóttur, forstöðumanns Vinnumálastofnunar Norðurlandi vestra - Greiðslustofu, Túnbraut 1-3, 545 Skagaströnd eða á netfangið jensina.lydsdottir@vmst.is fyrir 30. mars næstkomandi. Nánari upplýsingar hjá Jensínu í síma 515 4800.

Mynd vikunnar

Síldarþrærnar Myndin var tekin 1962 og sýnir síldarþrærnar við verksmiðjuna. Þrærnar voru í tveimur átta þróa röðum með vegg á milli. Í botninum, á milli þeirra, var færiband sem flutti síldina úr þrónum inn í verksmiðjuna sjálfa sem er fyrir endanum á myndinni. Til vinstri á myndinni er svo færibandið sem flutti síldina frá löndunarkrananum og í þrærnar. Til vinstri og hægri við þrærnar voru skúrar eða lítil hús sem notaðir voru sem geymslur undir t.d. salt, rotvarnarefni og annað sem verksmiðjan notaði. Syðsti skúrinn hægra megin var þó notaður fyrir síldarradíóið en þar var alltaf maður á vakt yfir síldveiðitímann og voru skipin í sambandi við hann með aflatölur, löndunartíma og annað þess háttar. Þrærnar hafa nú verið brotnar niður til að skapa gámapláss á höfninni en ef einhvern langar að púsla þeim saman aftur þá er grjótmulningurinn úr þeim í haug í grifjunni fyrir ofan Spákonufellsrétt :-). Senda upplýsingar um myndina

Laufey Lind vann til verðlauna í smásagnasamkeppni FEKÍ

Laufey Lind Ingibergsdóttir, nemandi í 10. bekk Höfðaskóla, sigraði í sínum flokki í smásagnasamkeppni Félags enskukennara á Íslandi (FEKÍ). Í vetur tók Höfðaskóli tók í fyrsta sinn þátt í samkeppninni sem hefur undanfarin sjö ár verið haldin í tengslum við Evrópska tungumáladaginn.   Fyrirkomulag keppninnar er þannig að nemendur í 3.-10. bekk í grunnskólum, sem og nemendur framhaldsskóla geta tekið þátt í keppninni. Verðlaunasæti eru alls ellefu, 1.-3. sæti í þremur flokkum; 7.-8. bekkur, 9.-10. bekkur og framhaldsskóli og svo 1.-2. sæti í flokknum 3.-6. bekkur. Nemendur eiga að skrifa sögurnar sínar út frá fyrirfram gefnu þema. Þemað að þessu sinni var Roots (rætur). Verðlaunaafhending fór fram á Bessastöðum síðastliðinn föstudag þar sem forsetafrú Íslands, Eliza Reid, setti athöfnina og veitti verðlaun ásamt stjórn FEKÍ. Laufey Lind lýsti þátttöku sinni í keppninni og verðlaunaafhendingunni þannig: „Snemma í nóvember kynnti enskukennarinn okkar, Helga Gunnarsdóttir, fyrir okkur smásagnasamkeppni Félags enskukennara á Íslandi, FEKÍ. Hún sagði okkur að við ættum, sem verkefni í skólanum, að skrifa smásögu á ensku og skila inn fyrir 4. desember og að svo myndi hún og Vera skólastjóri velja eina sögu úr hvorum flokki (7. & 8. bekkur og 9. & 10. bekkur). Yfirheiti keppninnar það árið var “Roots”, eða á íslensku, rætur. Ég fékk strax hugmyndina að sögunni minni sem ég kalla The tree og byrjaði að skrifa hana í tíma, kláraði hana svo þegar ég kom heim sama dag, sendi til systur minnar, Maríu, til að fara yfir og skilaði svo sögunni daginn eftir til Helgu; ennþá með tæpan mánuð eftir. Þá byrjaði biðin. Helga greindi ekki frá úrslitum innan skólans fyrr en í byrjun desember og þá var aftur beðið. Um miðjan janúar fékk Helga tölvupóst þar sem hún fékk að vita að ég hefði unnið og að við myndum seinna fá að vita hvar og hvenær verðlaunaathöfnin yrði. Við fengum svo formlegt boðskort í febrúar þar sem okkur var boðið á Bessastaði. Þegar ég, mamma, pabbi og Helga komum á Bessastaði föstudaginn 3. mars þá voru margir komnir enda ég ekki eina manneskjan til að vinna til verðlauna í þessari keppni, því það eru fyrsta annað og þriðja sæti í efstu þremur hópunum, 7. & 8., 9. & 10. og framhaldsskólaaldur, og svo fyrsta og annað úr 3.- 6. bekk. Einnig voru flestir verðlaunahafar með foreldrum sínum og enskukennara. Eliza Reid, forsetafrúin, tók á móti okkur og við söfnuðumst saman í salinn þar sem fálkaorðurnar eru veittar. Eliza hélt stutta ræðu. Svo kom fulltrúi stjórnar FEKÍ og óskaði verðlaunahöfum til hamingju. Við fengum öll viðurkenningu, enska bók og hefti með öllum verðlaunasögunum. Eftir það var myndataka. Við Eliza spjölluðum svolítið en svo bauð hún öllum að skoða húsið og fá kleinur, kaffi og djús. Eftir skoðunarferð voru teknar nokkrar myndir því það er ekki á hverjum degi sem  ég er boðin á Bessastaði. Seinna frétti ég að forsetinn, Guðni Th. hefði verið á eineltisráðstefnu og þess vegna ekki verið þarna en þetta var engu að síður mjög skemmtileg reynsla.“ Við óskum Laufeyju Lind til hamingju með árangurinn.  

Mynd vikunnar

Heimilisfólk að Höfðahólum. Fólkið á myndinni var heimilisfólk að Höfðahólum á Skagaströnd. Mynd af bænum er fyrir miðju en hann stóð þar sem í dag er tjaldsvæðið á Skagaströnd. Guðríður Rafnsdóttir og Ásgeir Klemensson voru hjónin á bænum en Sigríður, Ólafur og Axel voru þeirra börn. Árni Sigurðsson var sonur Guðríðar, hálfbróðir systkininna og elstur þeirra. Myndin er í eigu Muna- og Minjasafns Skagastrandar.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi auglýsir

Erlingur Hugi Kristvinsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi miðvikudaginn 15. mars næstkomandi. Tímapantanir í síma 455-4100 milli kl 08:00 og 16:00.

Deiliskipulag Melstaðatúns

  Tillaga að deiliskipulagi á Melstaðatúni á Skagaströnd   Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar samþykkti fimmtudaginn 26. janúar 2017 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Melstaðatúns skv. 1. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Deiliskipulagið nær yfir Melstaðatún, eins og það er skilgreint í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagastrandar 2010-2022.   Melstaðatún er sunnan við Laufás, um 350m norðan þéttbýlisins  á Skagaströnd.  Svæðið er um 1,3 ha. að stærð og afmarkast af Spákonufellshöfða að sunnan og vestan, lóð Laufáss og Réttarholtshæð að norðan en gamla Skagavegi að austan.   Deiliskipulagstillagan felur í sér svæði fyrir gistingu, tjaldsvæði og gestahúsum ásamt aðstöðuhúsi á Melstaðatúni með það fyrir augum að þar verði skjólgott og aðlaðandi útivistarsvæði/áningarstaður fyrir ferðamenn og tengist m.a. gönguleið um Spákonufellshöfða.   Tillagan liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins að Túnbraut 1-3 á Skagaströnd og á vefsíðu sveitarfélagsins www.skagastrond.is.  Athugasemdir  eða ábendingar skulu vera skriflegar og berast á skrifstofu sveitarfélagsins eða á tölvupóstfang skagastrond@skagastrond.is fyrir 31. mars 2017     Skagaströnd 7. febrúar 2017   Sveitarstjóri

Næsti fundur sveitarstjórnar

  FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar þriðjudaginn 28. febrúar 2017 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins.   Dagskrá:   1.   Hólanes ehf /Hrafnanes ehf. hlutfjáraukning. 2.   Náttúrustofa Norðurlands vestra. 3.   Samningur um afritun verndaðra verka 4.   Ársreikningur Snorrabergs ehf 5.   Vegvísir samstarfsnefndar Samb. ísl. sv.félaga og KÍ. 6.   Bréf a.    Uppbyggingarsjóðs Nl.vestra, dags. 1. febrúar 2017 b.    SSNV, dags. 22. febrúar 2017 c.    Thorp - Þorgeirs Pálssonar, dags. í feb. 2017 d.    Björgunarsveitarinnar Strandar, dags. í jan. 2017 e.    Ísorku – Sigurðar Ástgeirssonar, dags. í feb. 2017 f.     N4 – Maríu Bjarkar Ingvadóttur, dags. 7. febrúar 2017 g.    UMFÍ – Jóns A. Bergsveinssonar, dags. 7. febrúar 2017   7.   Fundargerðir: a.    Stjórnar SSNV, 6.02.2017 b.    Aðalfundar Róta bs., 25.01.2017 c.    Stjórnar Hafnasambands Íslands, 23.01.2017 d.    Stjórnar Sambands ísl sveitarfélaga, 27.01.2017   8.   Önnur mál                                          Sveitarstjóri  

Mynd vikunnar

Útför Guðmundar Sigvaldasonar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag föstudaginn 24. febrúar og hefst athöfnin kl. 13:30. Guðmundur Sigvaldason fæddist 14. apríl 1954 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu, Birkihlíð 6, Hörgársveit þann 8. febrúar 2017. Hann ólst upp í Garði í Kelduhverfi, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1973, BA-prófi í landafræði og prófi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda við Háskóla Íslands 1978. Eftirlifandi eiginkona hans er Torfhildur Stefánsdóttir grunnskólakennari, frá Tungunesi í Fnjóskadal og eru börn þeirra þrjú; Sigvaldi, Álfheiður og Óðinn. Meginhluta starfsævinnar starfaði Guðmundur í opinberri þjónustu. Hann kenndi við Stórutjarnaskóla, vann hjá Fjórðungssambandi Norðlendinga og var framkvæmdastjóri Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Þá var hann verkefnastjóri hjá Sorpeyðingu Eyjafjarðar og Akureyrarbæ og sveitarstjóri á Stokkseyri, á Skagaströnd og í Hörgárbyggð (síðar Hörgársveit). Síðustu tvö árin sinnti hann bókhaldi fyrir ýmis félög. Guðmundur var sveitarstjóri á Skagaströnd á árunum 1986 – 1990. Hans er minnst fyrir hlýlegt og alþýðlegt viðmót og vönduð vinnubrögð við allt sem hann tók sér fyrir hendur. Síðustu ár þurfti Guðmundur að takast á við erfið veikindi vegna krabbameins í fæti sem varð til þess að taka þurfti fótinn af við mjöðm. Þá kom vel í ljós æðruleysi hans og þrautseigja þar sem hann lét þessa erfiðleika ekki stöðva sig. Krabbamein er hins vegar illvígur sjúkdómur sem lagði góðan dreng að velli eftir snarpa baráttu.

Viðlagatrygging

Viðlagatrygging Íslands (VTÍ ) átti fund í dag með fulltrúum sveitarfélaganna Skagastrandar og Skagabyggðar.  Heimsóknin er liður í átaki stofnunarinnar til að bæta þekkingu á hlutverki hennar og skráningu opinberra mannvirkja í eigu sveitarfélaganna sem vátryggð eru hjá VTÍ. Á fundinum var rætt um vátryggingavernd mannvirkja í eigu sveitarfélagsins og um mikilvægi þess að skráð verðmæti þeirra sé uppfært reglulega til að tryggja að eignirnar séu tryggðar að fullu áður en vátryggingaratburður á sér stað. Einnig var rætt um mikilvægi samvinnu sveitarfélagsins og VTÍ til að stuðla að markvissri endurbyggingu ef tjón verður á mannvirkjum. Einnig var rætt um mikilvægi þess að íbúar séu meðvitaðir um hvort vátryggingavernd þeirra sé í lagi. Fram kom að ef innbú er vátryggt almennri lausafjártryggingu hjá vátryggingafélagi rennur hluti iðgjaldsins til VTÍ og tryggir þannig vátryggingavernd innbúsins komi til tjóns af völdum jarðskjálfta, eldgosa, vatns-, aur- eða snjóflóða skv. skilgreiningum laga um VTÍ (55/1992). Ef slík vátrygging er ekki til staðar greiðast engar bætur vegna innbús ef til tjóns kemur. Allar fasteignir eru hins vegar skylduvátryggðar gegn náttúruhamförum og eru iðgjöldin innheimt samhliða brunatryggingum fasteigna hjá almennu vátryggingafélögunum.

Orlofsferð húsmæðra í Austur Húnavatnssýslu.

Orlofsferð húsmæðra í Austur Húnavatnssýslu. 1.-2.apríl 2017 Þá er komið að skemmtiferðinni okkar! Rúta leggur af stað laugardaginn 1. apríl 2017 kl. 09:40 frá Blönduósi og kl.10 frá Skagaströnd, til Siglufjarðar. Gisting á Hótel Sigló, þríréttuð kvöldmáltíð og Brunch í hádeginu á sunnudag. Nánari dagskrá þegar nær dregur. Við þurfum að fá þátttökutilkynningu fimmtudaginn 23.febrúar milli kl.17-19. Þórdís Hjálmarsdóttir sími 8991119 Sigríður Stefánsdóttir sími 7741434 Staðfestingargjald kr. 5.000 greiðist inn á reikning 0307-13-300731 kt. 510578-0909 í síðasta lagi 1.mars 2017 Ferðin er fyrir konur sem lögheimili eiga í Austur Húnavatnssýslu og veita heimili forstöðu án launagreiðslu fyrir það starf.