20.02.2017
Starfsfólk Samkaupa, Skagstrendingar og aðrir gestir
Mig langar f.h. Sveitarfélagsins Skagastrandar að óska okkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu andlitslyftingu sem hefur orðið á versluninni hér á Skagaströnd. Einnig langar mig við þetta tækifæri að þakka Samkaupum samfylgdina í þau ár sem liðin eru frá því að félagið tók við rekstri verslunar hér á staðnum... enda tel ég að flestir séu sammála um að sú breyting hafi verið til batnaðar. Ykkur hefur tekist að halda í gott starfsfólk en slíkt er auðvitað forsenda fyrir því að allt geti gengið vel.... Takk kærlega fyrir okkur Vigdís og aðrir starfsmenn hér á Skagaströnd.
Almennt talið held ég að íbúar Skagastrandar geri sér grein fyrir að verslunarrekstur í ekki stærra samfélagi en okkar er ekki einfaldur og alls ekki sjálfgefinn....en engu að síður ákaflega mikilvægur í samfélags- og byggðalegu tilliti. Ég held þess vegna að færri og færri stundi skipulegar innkaupaferðir út fyrir Skagaströnd og ég vona svo sannarlega að þess beri merki í ykkar veltutölum. Aukin þjónusta, lengri opnunartími og loforð um lægra vöruverð ættu að sjálfsögðu að vera hvatning til fólks um að halda tryggð við KÖRBÚÐINA SÍNA.
Þrátt fyrir þessar þakkir og allt þetta lof í ykkar garð er þó vonandi öllum ljóst að alltaf er hægt að gera betur og við sem neytendur eigum svo sannarlega að gera kröfur og vera dugleg að benda á það sem betur má fara...rýna til gagns. Á sama hátt eigið þið að gera kröfu um að gangrýni sé sett fram á sanngjarnan og uppbyggilegan hátt.
Sveitarstjórn Skagastrandar hefur í nokkuð mörg ár reynt að beita Ámundarkinn, sem er eigandi húseignarinnar, þrýstingi til að ráðast í löngu tímabærar aðgerðir er varðar viðhald og endurbætur á sjálfu verslunarhúsinu. Því miður hefur lítið miðað í þeirri baráttu en ykkar framtak hér innandyra mun væntanlega kalla enn frekar á að slíku viðhaldi verði sinnt.
Kæra Samkaupsfólk.... það er mín einlæga von að breytingar á versluninni muni reynast vel og þær séu merki þess að Samkaup sé sátt með rekstur sinn í okkar ágæta samfélagi og okkar hagsmunir muni því halda áfram að liggja saman.
Innilegar hamingjuóskir með KJÖRBÚÐINA.
Ræða Halldórs Ólafssonar í tilefni opnunarinnar.
20.02.2017
Bogabraut 3 og 5
Verkamannabústaðirnir á Bogabraut 3 og 5 í byggingu 1962 -1964.
20.02.2017
Örn Sveinsson augnlæknir verður með móttöku á heilsugæslunni á Blönduósi dagana 8. til og með 10. mars næstkomandi.
Tímapantanir og nánari upplýsingar hjá riturum í síma
455-4100 milli kl. 8:00 og 16:00
14.02.2017
Aðalfundur kvenfélagsins Einingar verður haldinn í Fellsborg þriðjudaginn 21. febrúar n.k. kl. 20:00
Venjuleg aðalfundastörf.
Nýjar félagskonur velkomnar :)
Sjáumst.
Kvenfélagið Eining
10.02.2017
Systkini úr Hólaneshúsinu.
Frá vinstri: Sigríður Sigurðardóttir, Jósep Sigurðsson,
Hjörtur Sigurðsson (d. 9.5.2015) og Magnús Sigurðsson.
Þau voru fædd á árunum 1961 - 1965.
03.02.2017
Snjóavetur
Óvenju snjólétt hefur verið á Skagaströnd það sem af er
vetri 2016 - 2017.
Þessi mynd er sett hér inn til að minna fólk á að svo hefur ekki alltaf verið.
Til dæmis var gríðarlegur snjór á Skagaströnd í janúar - maí 1995 með
sífelldum illviðrum.
Snjómokstur gekk erfiðlega því erfitt var að koma snjónum fyrir nema
aka honum í sjóinn. Fljótlega var því gripið til þess ráðs að þjappa snjóinn
með jarðýtu og síðan var ekið ofan á snjósköflunum kannski tveggja metra
þykkum.
Þessi mynd var tekin í Mýrinni og sýnir fannfergið þar.
03.02.2017
Ágætu fasteignaeigendur á Skagaströnd.
Álagning fasteignagjalda hefur nú farið fram. Álagningarreglur fasteignagjalda 2017 eru meðfylgjandi bréfi þessu og jafnframt aðgengilegar á heimasíðunni www.skagastrond.is – undir „gjaldskrár“.
Greiðslur fasteignagjalda:
Eins og undanfarin ár verða ekki sendir greiðsluseðlar vegna fasteignagjalda nema til þeirra sem þess hafa óskað sérstaklega og gildir skráning þeirra sem þess óskuðu á síðasta ári nema nýjar upplýsingar komi fram.
Gjalddagar fasteignagjalda eru frá 1. febrúar til 1. júlí, en á smærri upphæðum eru gjalddagar 1 eða 2. (Gjalddagar á 0-5.000 kr. er 1.apríl og 5.001-10.000 skiptist í tvo gjalddaga 1. apríl og 1. maí).
Álagningaseðlar:
Eins og undanfarin tvö ár munum við ekki senda út álagningarseðla nema þess sé sérstaklega óskað. Hver og einn getur nálgast sína álagningarseðla á vefsíðunni www.island.is undir reitnum „mínar síður“
Innskráning er með kennitölu viðkomandi og veflykli ríkisskattstjóra.
Skrifstofa sveitarfélagsins veitir fúslega upplýsingar og aðstoð til þeirra sem þess óska.
Álagningareglur fasteignagjalda fyrir árið 2017
Samþykkt á fundi sveitarstjórnar 16.11.2016
Fasteignaskattur:
Álagning á íbúðarhúsnæði (A-flokkur) verði 0,50% af álagningarstofni.
Álagning á opinberar stofnanir (B-flokkur) verði 1,32% af álagningastofni.
Álagning á verslunar- og atvinnuhúsnæði verði (C-flokkur) 1,65% af álagningarstofni.
Lóðarleiga:
Lóðarleiga verði 1,65% af fasteignamatsverði lóða.
Vatnsskattur:
Vatnsskattur verði 0,3% af fasteignamati að lágmark 7.000 kr. og á íbúðarhúsnæði að hámarki 30.000 kr.
Holræsagjald:
Holræsagjald verði 0,24% af fasteignamati lóða og mannvirkja
Sorphirðugjald /sorpeyðingargjald:
Sorphirðugjald verði 39.350 kr./íbúð fyrir reglubundna sorphirðu og eyðingu. .
Sorpeyðingargjald verði 12.400 kr./sumarhús og íbúðir þar sem ekki er regluleg sorphirða.
Sorpeyðingargjald á hesthús og fjárhús verði 4.400 kr./hús í notkun.
Sorpeyðingargjöld á fyrirtæki verða samkvæmt gjaldskrá.
Leiga ræktunarlóða:
Fyrir hvern ha ræktunarlóða er greitt fast leigugjald. Auk þess greiða lóðarhafar fasteignagjöld af lóðunum skv. fasteignamati.
Lóðaleiga verði 6.000 kr./ha.
Eftirfarandi reglur gilda um lækkun fasteignagjalda elli- og örorkulífeyrisþega:
Fasteignagjöld verða eingöngu lækkuð af íbúðum elli- og örorkulífeyrisþega, sem þeir búa í sjálfir. Til viðmiðunar eru allar tekjur viðkomandi, þar með taldar fjármagnstekjur.
Fasteignagjöld lækki um allt að kr. 36.000,- hjá:
Einstaklingum með tekjur allt að 3.160.000 kr/ári
Hjónum eða fólki í sambúð með tekjur allt að 5.164.000 kr/ári
Fasteignagjöld lækki um allt að kr. 18.000,- hjá:
Einstaklingum með tekjur allt að 3.950.000 kr/ári
Hjónum eða fólki í sambúð með tekjur allt að 6.455.000 kr/ári
Skagaströnd 1. febrúar 2017
Sveitarstjóri
27.01.2017
Opið hús í Nes listamiðstöð
laugardaginn 28.jan frá kl. 15:00-17:00
Allir velkomnir!
27.01.2017
Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar 26. janúar 2017 var svohljóðandi samþykkt gerð:
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkir að auglýsa sérstaklega byggingarlóðir við þegar tilbúnar götur þannig að veittur verði afsláttur allra gatnagerðagjalda vegna bygginga á lóðunum.
Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að eftirfarandi ákvæði gildi um úthlutun allt að fjögurra íbúðarhúsalóða sem afslátturinn muni ná til:
· Lóðirnar sem um ræðir eru skilgreindar á meðfylgjandi lista.
· Umsóknir um lóðirnar skulu berast eigi síðar en 1. maí 2018 en umsóknir sem berast á umsóknarfresti verða afgreiddar af hafnar – og skipulagsnefnd eftir því sem efni standa til og gildir röð umsókna um nýtingu fyrrgreinds afsláttar.
· Við úthlutun lóðanna skulu gilda ákvæði um að byggingarframkvæmdir skuli vera hafnar innan árs frá úthlutun og að byggingar skuli hafa hlotið fokheldisvottorð innan tveggja ára, að öðrum kosti fellur niður ákvæði um afslátt gatnagerðagjalda.
Lóðir sem falla undir framangreint ákvæði um afslátt eru:
· Bogabraut – ein lóð norðan götu nr: 25.
· Suðurvegur – þrjár lóðir austan götu nr: 5,7 og 11
· Sunnuvegur – tvær lóðir vestan götu nr: 10 og 12
· Ránarbraut – ein lóð norðan götu nr: 3 og fimm lóðir sunnan götu nr: 2, 4, 6, 8 og 10.
· Oddagata – ein lóð austan götu nr: 3.
· Hólanesvegur – ein lóð vestan götu nr: 6.
· Skagavegur – tvær lóðir austan götu, nr: 4 og parhúsalóð nr: 6-8.
· Bankastræti – ein lóð sunnan götu nr. 5.
Samtals eru í boði 17 lausar lóðir við þegar tilbúnar götur.
Sveitarstjóri
27.01.2017
Foreldrar eða forsjáraðilar námsmanna yngri en 18 ára, sem leigja húsnæði vegna náms fjarri lögheimili, eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi vegna barna sinna samkvæmt reglum um sérstakar húsnæðisbætur sem sveitarstjórn hefur samþykkt.
Þar segir m.a. um húsnæðisstuðning til 15-17 ára barna:
Foreldrar/forsjáraðilar geta sótt um stuðninginn á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastandar. Veita skal sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15–17 ára barna sem leigja húsnæði hér á landi vegna náms fjarri lögheimili.
Með húsnæði er átt við herbergi á heimavist eða námsgörðum eða sambærilega aðstöðu á almennum markaði. Þegar fleiri en einn nemandi leigja saman íbúð getur húsnæðisstuðningur náð til þeirrar leigu enda sé gerður leigusamningur við hvern og einn. Um leigu á almennum markaði er gerð krafa um að hvorki umræddur nemandi né aðrir sem leigja húsnæðið séu náskyldir eða mikið tengdir leigusala.
Sérstakur húsnæðisstuðningur vegna nemenda skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur 50% af leigufjárhæð. Húsnæðisstuðningur vegna nemenda getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en 45.000 kr./mánuði. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns.
Reglurnar í heild má finna á heimasíðunni undir "Samþykktir"
Sveitarstjóri