Fréttir

Kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu

Kjörskrá Kjörskrá fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011 liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til kjördags. Kjörskrá miðast við skráð lögheimili eins og það var samkvæmt þjóðskrá þremur vikum fyrir kjördag eða 19. mars 2011 og miðast við þá sem fæddir eru 9. apríl 1993 og fyrr. Athugasemdum við kjörskrá skal skila á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir kjördag, 9. apríl 2011. Sveitarstjóri

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna Icesave samkomulagsins

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave samkomulagið þann 9 apríl hefur hafist á Skagaströnd. Hægt er að greiða atkvæði daglega milli kl. 10-16, eða eftir samkomulagi, hjá hreppstjóra Lárusi Ægi Guðmundssyni að Einbúastíg 2, 1. hæð til vinstri. Hvernig fer kosning fram utan kjörfundar? Kjósandi þarf að gera kjörstjóra grein fyrir sér með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kennivottorð er persónuskilríki með mynd, svo sem vegabréf eða ökuskírteini. Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn. Skal kjósandi svo aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið.  Kjósandinn merkir við á kjörseðli hvort hann samþykki að lög nr. 13/2011 haldi gildi sínu eða að þau eigi að falla úr gildi. Ef kjörseðill ónýtist hjá kjósanda má hann fá annan í stað hins. Þá áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna. Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins, kjörstjórnarinnar eða hreppstjórans í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili. Kjósanda er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar oftar en einu sinni og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði tekið til greina. Utankjörfundaratkvæði telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett. Kjósandi þarf aðstoð Ef kjósandi skýrir kjörstjóra frá því að hann sé ekki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða annarrar fötlunar, skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Aðstoðin skal þó aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Kjósandi verður sjálfur að biðja um aðstoð. Hvernig fer með atkvæðið? Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá skilur kjósandi þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal svo innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sín. Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá. Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Fyrirgerir utankjörfundaratkvæðagreiðsla rétti manns til að greiða atkvæði á kjördag? Nei, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þó hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæðaseðill hans þá ekki til greina við kosninguna. 

Egill Örn sigrar í framsagnarkeppni grunnskóla A-Hún

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi sem tileinkuð er Grími heitnum Gíslasyni, fréttaritara, hestamanni og bónda frá Saurbæ í Vatnsdal, fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 24. mars síðastliðinn.  Tólf ungmenni tóku þátt í keppninni og áttu þau það öll sameiginlegt að hafa verið valin bestu lesararnir í skólum byggðarlagsins, þ.e. Höfðaskóla, Blönduskóla, Húnavallaskóla og Grunnskóla Húnaþings vestra.  Keppendur lásu brot úr skáldverki eftir Gunnar M. Magnússon og ljóð eftir Unni Benediktsdóttur, eða Huldu sem var skáldanafn hennar og ljóð að eigin vali. Keppnin var hörð og jöfn að vanda.  Úrslit urðu þessi: 1. sæti. Egill Örn Ingibergsson, Höfðaskóla. 2. sæti. Sigurjón Þór Guðmundsson, Blönduskóla. 3. sæti. Natan Geir Guðmundsson, Húnavallaskóla. Hlutu sigurvegararnir peningaverðlaun frá Sparisjóðnum á Sauðárkróki auk viðurkenningarskjals.  Egill Örn mun varðveita farandskjöld fram að næstu keppni að ári. Skjöldurinn var gefinn af sjóði sem stofnaður var til heiðurs Grími Gíslasyni. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun. Skólarnir gáfu Ljóðasafn eftir Stein Steinarr og Félag íslenskra bókaútgefenda gaf Ljóðasafn eftir Huldu, sem sérstaklega var prentað fyrir keppnina. Dómarar keppninnar að þessu sinni voru Guðrún Bjarnadóttir kennari, Sigrún Grímsdóttir organisti og kórstjóri og tveir valinkunnir menn sem árlega flakka á milli landshluta til að dæma í Stóru upplestrarkeppninni en þeir heita Baldur Sigurðsson og Þórður Helgason. Markmið keppninnar er að glæða tilfinningu og metnað húnvetnskra grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn og miðað við frammistöðu ungmennanna í keppninni gengur vel að ná því markmiði. Fréttin og myndin er fengin af vefritinu huni.is.

Sjö þúsund tonn á kvótaárinu

Nokkuð minni fiskafli barst á land í febrúar á Skagaströnd en á sama tíma í fyrra. Engu að síður hefur aldrei borist meiri afli á land en á yfirstandandi kvótaári. Þetta kemur glögglega í ljós á súluritinu hér til hliðar. Það sem af er hafa rúmlega 7 þúsund tonn borist á land en voru tæplega sex þúsund í fyrra sem var metár. Heildaraflinn í febrúar var 541 tonn en var í sama mánuði í fyrra 875 tonn. Afli einstakra skipa var sem hér segir: Arnar HU-1, ein löndun, 296,7 tonn Fjölnir SU-58, línubátur tvær landanir, 103,4 tonn Páll Jónsson GK-7, línubátur, ein löndun 69,3 tonn Alda HU-112, línubátur, sex landanir, 35,9 tonn Sæfari SK-112  línubátur, fimm landanir, 8,7 tonn Dagrún ST-12, netabátur, ellefu landanir, 9,3 tonn Ólafur Magnússon HU-54, netabátur, 8 landanir 3,9 tonn

Brunahaninn hefur ekki forspárgildi

Veðurstofa Skagastrandar hefur verið í fríi síðustu klukkustundirnar og þess vegna er eiginlega logn á Skagaströnd. Engu að síður hefur brunahaninn færst úr stað eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd. Hann á að vera 45 cm lengra til hægri en hann í raun er og bendir það til að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave þann 9 apríl verði þjóðinni til mikillar hagsbóta. Ekki er af þessu hægt að draga neinar ályktanir um forspárgildi brunahanans enda hefur hann hingað til verið frekar staður. Myndin var send af veðurskipinu Hallo sem statt er fyrir utan suðurströnd Ástralíu. Samkvæmt því er -0,6 gráðu frost á Skagaströnd. Suðrið sæla andar nú vindum þýðum, sem er um það bil 3 m/s og námundað í logn. Kviðir eru þandir en hviður eru í 4 m/s og má úr þessu gera ráð fyrir auknum vindgangi. Loftþrýstingur hefur staðnæmst við 1026 hPa. Gera má ráð fyrir að frost minnki eða aukist um helgina og að öllum líkindum mun vindgangur aukast. Næst verða veðurfréttir fluttar í næsta hús.

Bústaður byggður á fjórum mánuðum

Hjá Trésmiðju Helga Gunnarssonar á Skagaströnd fæddist stór og fallegur bústaður í gær. Og ekki gerðist það án nokkurs undanfara en síðustu vikur hafa starfsmenn fyrirtækisins veriða að undirbúa smíðina innanhúss og í gær var hafist handa við að setja það saman. Þetta er fallegt hús eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það er tvílyft, svefnloft er á efri hæðinni. Alls er það 66 fermetrar og þar að auki verönd, hluti hennar er yfirbyggður. Grunnflöturinn er 6x13,5 ferm. Bústaðurinn er heilsárshús og verður flutt til Dalvíkur þar sem Trésmiðjan mun steypa grunn og síðan í byrjun júní verður það flutt á sinn stað. Svo er bara að panta. Á fjórum mánuðum getur bústaður eins og þessi verið kominn á staðinn og allir glaðir.

Suddirarirei kveðja úr geimnum

Veðurstofu Skagastrandar barst í morgun meðfylgjandi gerfitunglamynd frá veðurhnettinum HBY11LL sem sveimar stjórnlaus að morgni dags yfir norðurhveli jarðar. Með myndinni barst óundirrituð kveðja til Skagstrendinga með þakkir fyrir unaðsríka daga á síðustu Kántrýhátíð og er beðið um lagið Súddirarirei með Gylfa Ægissyni ...   Á myndinni má greina hluta af Skagaströnd og þá sérstaklega brunahanann sem ávallt er fyrstur á fætur á morgnanna. Auk þess má glöggt sjá eftirfarandi: Hitastigið er -0,8 gráður Vindgangur er enginn, núll, zero, nada, null, nothing ... og blés’ann fyrir tíu mínútum af suðaustan, af norðan fyrir tuttugu mínútum og vestan fyrir þrjátíu. Í logni blæs helst í hviðum, en hvorki hljómkviðum eða hljómhviðum Af brunahananum má greina að loftþrýstingur er stöðugur í 128 hPa Engar væntingar er af Icesave miðað við stöðu brunahanans sem hefur ekki færstu úr stað síðan í gær. Af ofangreindum má ráða að gott veður er á Skagaströnd og mettir allir kviðir. Það er gott mál nema á milli mála.

Brunahaninn galar ...

Veðurskipið Bravo sendi þessa gerfihnattarmynd af veðurlagi á Skagaströnd í morgun en einn úr áhöfninni tók hana á frívakt. Á myndinni má vel greina hina björtu strönd, hús og bíl en fátt fólk virðist vera á ferli. Brunahaninn galar í góðviðrinu en færist ekki úr stað. Veðurlýsing Skagaströnd klukkan 11:30: Skyggni  er að minnsta kosti 60 km, bjartviðri hið mesta, sól fer hækkandi á himni, flóðahæð er 1,08 m, 9 m/s, hvíðan er 11 m/s, kviðir eru útistandandi, vindátt er norðnorðvesta, loftþrýstingur er stöðugur i 1024 hPa og loftihiti er -1,7 gráður. Veðurspá Vor í nánd, vetur næstum að baki, Icesave framundan. Næst verða fluttar veðurfréttir frá Skagaströnd.

Brunahaninn og veðurspáin

Veður er á Skagaströnd. Svo hefur verið lengi. Meðfylgjandi mynd er fengin sjálfvirku veðurathugunarkerfi alþjóða veðurmálastofnunarinnar. Af því má ljóst vera að snjóföl er á jörðu. Frekar lyngt er, aðeins 12 m/s, enda hefur brunahaninn lengst til vinstri á myndinni ekki enn færst úr stað. Það gerist aðeins í snöggum suðsuðvestanhviðum. Hann færist svo til baka í norðnorðaustan hviðum. Markvisst er unnið í íþróttahúsinu að minnkun kviða. Sumir mæta á bíl í vinnuna. Teygst á Skagaströndinni í hvassviðri undanfarinna vikna og því orðið lengra í vinnuna. Sjáanlegt frost er aðeins 3,5 gráður. Af er veðurfar í febrúar. Þá var snjólaust og hlýtt var á Ströndinni. Jafnvel golfarar iðkuðu íþrótt sína við nokkurn vegin skammlausar aðstæður. Ekki var þá vatnsaginn tiltakanlegt vandamál enda brúkuðu þeir einfaldlega klofstígvél við barninginn. Eftir jafndægur er jafnan gert ráð fyrir því að vorið sé handan við sæinn. Halda sumir því fram að það komi líklega af Ströndum eins og svo margir sem nú búa á Skagaströnd. Veðrið heldur svo áfram á Skagaströnd. Langtíma veðurspá: Vetrarríkinu mun linna fyrir haustið. Snjókoman minnkar og þá tekur við rigningartíð. Þess á milli má búast við heiðskíru veðri, skýjuðu og stundum þungbúnu. Gert er ráð fyrir að hitinn verði á milli 10 gráða og -5 gráða nema þegar er hlýrra eða kaldara. Ekki verður mjög hvasst næstu mánuði frekar lyngt, svona á milli 2 m/s og 25 m/s og er þá ekki gert ráð fyrir hviðum í þeim mælingum enda verða kviðir orðnir flatir fyrir vorið. Næst verður gefin út veðurspá.

Félagsvist í Fellsborg í kvöld

Kvenfélagið Eining á Skagaströnd verður með aðra umferð félagsvistar í Fellsborg í kvöld. Fyrsti hlutinn var á dagskrá í síðustu viku og var þá fjölmenni. Þriðji hlutinn verður að viku liðinni. Fólk er hvatt til að mæta enda tilvalið tækifæri til að læra spilið félagsvist. Ekki er nauðsynlegt að hafa mætt í síðustu viku enda er tilgangurinn sá að skemmta sér og öðrum. Félagsvistin byrjar klukkan 20:30 í kvöld.