18.05.2011
Fatamarkaður verður haldin miðvikudaginn 18. maí í húsi Rauða krossins á Skagaströnd, Vallarbraut 4.
Opið verður frá kl: 18:00 - 20:00. Þetta er sami fatamarkaður og var 1. maí síðast liðinn.
Pokatilboð, fullur poki af fötum á 2000 kr.
Skagstrendingar eru hvattir til að líta inn og gera góð kaup.
17.05.2011
Þrusutónleikar verða í Kántrýbæ á föstudagskvöldið kl. 21. Þá koma fram feðginin Lára og Rúnar Þórisson ásamt hljómsveit.
Vart er þörf á að kynna þessa góðu tónlistarmenn. Lára Rúnarsdóttir er orðin vel þekkt hér á landi. Hún hefur gefið út nokkrar plötur sem hafa allaar hlotið góða dóma og fjöldi laga af þeim hafa skorað hátt á íslenskum vinsældarlistum.
Rúnar Þórisson er þekktur tónlistarmaður, t.d. verið gítarleikari hljómsveitarinnar Grafik. Hann hefur um árabil bæði fengist við rafgítarleik og klassískan gítarleik og leikið á tónleikum hér heima m.a. Iceland Airwaves, Listahátíð, Myrkum Músikdögum, Aldrei fór ég suður og erlendis m.a. á menningarhátíðinni Nordischer Klang.
Aðgangseyrir á tónleikanna er 1.500 kr.
17.05.2011
Laugardaginn 21. maí býðst gestum og gangandi á öllum aldri að taka þátt í dagskrá Háskólalestarinnar á Skagaströnd .
Vísindaveisla Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.
DAGSKRÁIN 21. MAÍ
Vísindaveisla í félagsheimilinu Fellsborg kl 11 – 15
Sprengjugengið sýnir kl 11:30 og 13:30
Eldorgel, sýnitilraunir og syngjandi skál
Teikniróla, undraspeglar og snúningshjól
Japönsk menning, íslenskt táknmál
Stjörnufræði, fornleifafræði
Stjörnutjald og stjörnuskoðun í íþróttahúsi Höfðaskóla kl 12 – 15
Fræðsluerindi verða í kaffihúsinu Bjarmanesi kl 12:30 - 14:30. Þar fræðir Sævar Helgi Bragason gesti um leyndardóma stjörnufræðinnar, Soffía Auður Birgisdóttir flytur erindið „Endurvinnsla bókmenntaarfsins“, Þorvarður Árnason fjallar um samfélagsgildi kórastarfs, Þór Hjaltalín flytur erindi um Ásbirningaríkið og Albína Hulda Þorsteinsdóttir greinir frá leyndardómum fornleifafræðinnar – nota fornleifafræðingar í alvöru tannbursta og teskeiðar við störf sín?
12:30 Þór Hjaltalín: Ásbirningaríkið
13:00 Soffía Auður Birgisdóttir: Endurvinnsla bókmenntaarfsins
13:30 Þorvarður Árnason: Kórsöngur – allra meina bót?
14:00 Albína Hulda Þorsteinsdóttir: Tannburstar og teskeiðar – Hvað gera fornleifafræðingar?
14:30 Sævar Helgi Bragason: Stjörnufræði – Ferð um himingeiminn!
Annað:
Opið hús í Nes Listamiðstöd
Opið hús í Árnesi
Tónleikar í Kántríbæ föstudagskvöldið kl. 21, feðginin Lára og Rúnar.
Nánari upplýsingar um Háskólalestina og Háskóla unga fólksins eru á www.ung.hi.is.
http://www.ung.hi.is/skagastrond
17.05.2011
Vegna viðgerða á vatnslögn verður vatnslaust eftir hádegi í dag, 17. maí, í efri hluta Hólabrautar og Bogabrautar („Skeifunni“).
16.05.2011
Biskupinn yfir Íslandi, herra Karl Sigurbjörnsson, kom í dag í stutta heimsókn á Skagaströnd. Sagt er að hann hafi viljað komast í tengsl við grasrótina, hitta duglegt og gott fólk sem unir sér vel á landsbyggðinni, fjarri stressi og pólitík höfuðborgarsvæðisins. Ekki er víst að það hafi verið ástæðan en engu að síður var vel tekið á móti biskupi og fylgdarliði.
Í sannleika sagt var hann á ferð ásamt samstarfsfólki sínu á biskupsstofu. Árlega fara þau í sutta ferð og nú liggur leiðin að Löngumýri í Skagafirði. Komið var við á Skagaströnd og þar tóku þau Lárus Ægir Guðmundsson, formaður sóknarnefndar, og Úrsúla Árnadóttir, sóknarprestur, á móti hópnum og buðu honum til kirkju.
Lárus sagði frá kirkju á Spákonufelli frá upphafi kristni og til kirkju á Skagaströnd á vorum dögum. Hann sagðist hafa ræðuna stutta en ekki væri víst að hún hefði verið jafn stutt ef meðhjálparinn ,Steindór R. Haraldsson, hefði haft tök á því að mæta og flutt ræðu, en hann er í Reykjavík.
Úrsúla sagði frá sóknarstarfinu og þar með æskulýðsstarfi sem er í miklum blóma.
Biskup þakkaði fyrir móttökurnar og sagði það ávallt ánægjulegt að koma á Skagaströnd.
Að þessu loknu leiddi Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, hópinn í skoðunarferð um Skagaströnd. Ferðinni var svo framhaldið og ók hópurinn fyrir Skaga og inn í næsta fjörð hér fyrir austan.
16.05.2011
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
þriðjudaginn 17. maí 2011 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 1000.
Dagskrá:
1. Ársreikningur 2010, fyrri umræða.
2. Verkferlar v. þvingunarúrræða byggingarreglugerðar
3. Önnur mál.
Sveitarstjóri
16.05.2011
Gamla síldarþróin heyrir nú sögunni til. Fjölmargir Skagstrendingar, eldri sem yngir, kunna að sakna hennar enda hefur hún verið við höfnina lengur en flestir muna. Allt tekur breytingum.
Nú veltir fólk því fyrir sér hvernig vinnuaðstaðan verði þegar engin er þróin þarna á höfninni.
Ýmsir hafa látið sér detta í hug að í staðinn mætti byggja tónlistarhús í anda þess sem gert hefur verið við Reykjavíkurhöfn. Hana mætti nefna eftir einhverju hljóðfæri svo alls sæmræmis sé nú gætt. Klarínett, básúna ...
Hér eru nokkra myndir sem teknar voru á meðan á niðurrifi þróarinnar stóð. Þær eru teknar frá 9. til 13. maí. Röðin er skiptir líklega litlu máli. Hver og einn getur séð hvernig staðan er á niðurrifinu með því að skoða hverja mynd nokkuð náið.
Það vakti athygli ljósmyndarans hversu sterk steypan var og mikið járn í henni. Tæki verktakans eru þó öflug og stóðst ekkert þeim snúning. Og nú er hún Snorrabúð stekkur ... eða þannig.
16.05.2011
Skólaslit og afhending prófskírteina Tónlistarskóla A-Hún fara fram í Blönduósskirkju laugardaginn 21. maí kl. 1500
Fram koma nemendur sem hafa lokið stigsprófi á vetrinum og þeir sem eru að ljúka námi úr 10. bekk.
Innritun
Innritun fyrir skólaárið 2011 – 2012 fer fram að Bogabraut 10 Skagaströnd fimmtudaginn 19. maí kl. 15 – 18.
16.05.2011
Háskóli unga fólksins, HUF, hefur verið starfræktur á vegum Háskóla Íslands frá árinu 2004 og notið mikilla vinsælda. Í tilefni aldarafmælis HÍ 2011 verður starfsemi HUF með hátíðarsniði og skólinn á faraldsfæti.
Þar ber hæst ferð Háskóla unga fólksins með svokallaðri Háskólalest sem heimsækir níu áfangastaði á landinu í samstarfi við Rannsóknarsetur HÍ á landsbyggðinni, grunnskóla, sveitarfélög o.fl.
Frá og með 29. apríl til 28. ágúst 2011 verða valin námskeið HUF, ætluð börnum frá 12 til 16 ára, haldin víðs vegar um landið undir formerkjum Háskólalestarinnar.
Til viðbótar við námskeið fyrir unga fólkið verður fjölþætt dagskrá fyrir alla aldurshópa á hverjum áfangastað, viðburðir, uppákomur, örfyrirlestrar og margt fleira.
Háskólalestin verður á Skagarströnd á tímabilinu 20. -21. maí.
Háskólalestin er skipulögð í nánu samstarfi við Vísindavef Háskóla Íslands en á vefnum verður sérstakur „brautarpallur“ lestarinnar. Á Vísindavefnum verður m.a. fróðleikur um hvern áfangastað lestarinnar, tekinn saman með virkri þátttöku grunnskólanemenda og Rannsóknasetra HÍ. Nemendur vinna jafnt spurningar og svör á vefinn ásamt öðru efni, svo sem myndböndum og hlaðvarpi.
Háskólalestin hefur nú farið víða um land og viðbrögð og undirtektir hafa verið einstaklega jákvæð. Við þökkum fyrir velviljann og hlökkum til samstarfsins.
13.05.2011
Fimmtudaginn 12. maí s.l. buðu nemendur og kennara Leikskólans Barnabóls í svokallað „opið hús“.
Annað hvert vor, árið með oddatölu, er gestum og gangandi boðið formlega að koma í heimsókn, ganga um leikskólann og fylgjast með leik og starfi nemenda og hvernig hefðbundinn leikskóladagur gengur fyrir sig. Skoða verkefni og iðju nemenda og fá innsýn og upplýsingar um metnaðarfullt skólastarf Barnabóls.
Foreldrafélag leikskólans var með kaffisölu á Cafe Barnabóli og einnig með sölu á myndverkum eftir nemendur.
Í ár bauð félagið upp á hoppukastala á leikskólalóðinni sem vakti mikla ánægju. Í bliðskaparveðri iðað leikskólalóðinn af lífi og fjöri.
Margir Höfaðskólanemendur komu og léku sér með leikskólanemendum í kastalanum.
Þetta var skemmtilegur dagur og margir litu inn og tóku þátt í honum með okkur og stjórnendur Barnabóls þakka öllum fyrir komuna og að gera daginn ánægjulegan með þeim og börnunum.